Breski tónlistarmaðurinn Sting segir að hin fjölbreytta flóra tónlistarstefna og streymisveitna sem einkennir tónlistarsenuna í dag sé „nokkuð undarleg“ fyrir sig, en hann trúir þó enn á mátt tónlistarinnar til að sameina fólk.
Sting varð upphaflega frægur sem bassaleikari hljómsveitarinnar The Police, áður en hann hóf sólóferil. Hann er nú 74 ára gamall, hefur unnið til 17 Grammy-verðlauna og plötur hans hafa selst í rúmlega 100 milljón eintökum.
Í viðtali við AFP-fréttastofuna sem tekið var í París sagði hann frá áhyggjum sínum af gervigreind sem kúgunartæki, og af stjórnmálamönnum „sem vilja sundra okkur öllum“.
Sting var staddur í París þar sem til stendur að frumsýna hinn nýja söngleik hans í Frakklandi, The Last Ship, en söngleikurinn byggir að hluta til á ævi hans sjálfs. Söngleikurinn gerist í heimabæ hans í norðausturhluta Englands, Wallsend.
Verkið fjallar um hnignun skipasmíðaiðnaðarins við ána Tyne og er hugsað sem virðingarvottur til þessa verkamannasamfélags, sem Sting yfirgaf þegar hann hóf tónlistarferil sinn.
– Af hverju snerirðu aftur til rótanna í þessu verki?
„Allt mitt líf hefur snúist um að flýja það sem mér var boðið upp á. En á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að það sem ég fékk í æsku var mjög dýrmætt: samfélag, fjölskylda, bær með tilgang – og það hafði horfið.“
„Leið mín til að endurgjalda þessu samfélagi var að segja sögu iðnaðar sem stjórnvöld bundu enda á, um svik – en einnig um ást.“
„Ég held líka að þetta snerti á mörgum sameiginlegum vandamálum sem samfélög standa frammi fyrir. Mörg samfélög eru að glata lífsviðurværi sínu vegna tækni og gervigreindar, og því tel ég þetta mjög viðeigandi í ljósi pólitískra aðstæðna nútímans. Þetta er eins konar mótspyrna fyrir fólkið, og ég held að við þurfum að veita mótspyrnu. Þannig er leikritið nokkurs konar pólitísk yfirlýsing.“
– Getur tónlist og list verið mótspyrnuafl?
„Ég held að list sé farartæki fyrir samkennd, þar sem við getum séð heiminn með augum annarra, stigið í spor annars manns og skilið hans sjónarhorn. Það er afar dýrmætt, því nú eru til stjórnmálamenn sem vilja aðgreina okkur öll, segja: „Þú tilheyrir þessum hópi og mátt ekki koma hingað inn.““
„Sú aðgreining gagnast ekki samfélaginu. Hún er alls ekki góð fyrir frið. Þess vegna tel ég að list leiki mikilvægt hlutverk í baráttunni gegn þessari þróun. Þess vegna vilja þessir stjórnmálamenn losna við list, menntun, vísindi og diplómatíu. Allt þetta sem ég met mikils og ég held að listin sé mitt framlag til þessarar baráttu.“
– Af hverju leggurðu svona mikla áherslu á vinnu?
„Manneskjan þarf að gera eitthvað með höndunum. Ég er mjög heppinn. ég nota hendurnar á hverjum degi til að spila á bassa. Fólk þarf að byggja, skapa, finna virðingu og sjálfsmynd í því sem það gerir.
Ég er heppinn að ég er bara að skemmta mér. En þetta er vinna, erfiðisvinna. En ég myndi gera hana frítt. Ég myndi gera hana án launa. Líkt og fiskur þarf að synda, þarf ég að syngja.“
– Hvernig líður þér með það sem tónlistariðnaðurinn hefur orðið?
„Ég held að nú séu til mismunandi vistkerfi í tónlist. Áður fyrr þekktu allir vinsælasta lagið í Frakklandi eða Englandi. Nú eru svo margar stefnur og margar ólíkar streymisveitur. Það er nokkuð undarlegt.“
„Ég er heppinn að hafa komið fram á tímum einsleits menningarheims. Allir þekkja The Police. Ég lifi enn á því, frægð mín kemur þaðan. En nú geturðu verið frægur innan afmarkaðs hóps og hvergi annars staðar. Það er hvorki betra né verra, bara öðruvísi.“
– Hefurðu áhyggjur af gervigreind í tónlistariðnaðinum?
„Ég er ekki hræddur, enn sem komið er. Ég held að gervigreindin geti búið til áhugaverðar eftirlíkingar, en hún finnur ekki til. Svo hvað getur hún í raun gefið okkur? Hún getur gefið blekkingu, spegil. Ég sé þó notagildi hennar í læknisfræðilegum rannsóknum. En að skapa raunverulega list sem við viljum sjá eða hlusta á, þar er ég ekki svo viss.“
„Ég hef meiri áhyggjur af pólitískri notkun gervigreindar, skaðann þegar hún lendir í röngum höndum. Leiðtogar sem munu nota hana til að auka eftirlit með samfélaginu. Hún er gagnlegt tæki til að fylgjast með og stjórna fólki. Ég óttast það mun meira en að hún ryðjist inn í listrænt líf mitt.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
Þú átt auðvelt með að gera málamiðlanir í vinnunni í dag. Ef munurinn er umtalsverður veistu hvað þú átt að velja, og ef hann er lítill skiptir ekki máli hvað þú ákveður.
Þú átt auðvelt með að gera málamiðlanir í vinnunni í dag. Ef munurinn er umtalsverður veistu hvað þú átt að velja, og ef hann er lítill skiptir ekki máli hvað þú ákveður.
