Ofurfyrirsætan Bella Hadid sýndi frábæra frammistöðu á tískupallinum á undirfatasýningu Victoria's Secret sem fram fór í New York í gær. Bella, sem er 28 ára, greindist með Lime-sjúkdóminn fyrir meira en tíu árum og hefur háð sveiflukennda baráttu við hann síðan. Hún hefur átt sérstaklega erfitt síðustu mánuði.
Tískusýningin var haldin annað árið í röð eftir sex ára sýningapásu undirfatakeðjunnar sem gerði nánast út um vörumerkið. Hún var sýnd í beinu streymi á sjónvarpsstöðinni Amazon Prime Video.
Klassískt og kynþokkafullt yfirbragð sýningarinnar hefur verið endurvakið eftir misheppnaða tilraun fyrirtækisins til að vera í takt við hina svokölluðu „woke“-hreyfingu.
Sýningin skartaði mörgum stórum nöfnum í tískuheiminum, þar á meðal voru fyrirsæturnar Emily Ratajkowski, Adriana Lima, Irina Shayk, Alessandra Ambrosio og eldri systir Bellu, Gigi Hadid.
Undirfatafyrirtækið var stofnað 1977 af Roy Raymond og eiginkonu hans Gaye. Fyrsta sýning fyrirtækisins var árið 1995. Vaninn á sýningum Victoria's Secret, sem eru afar skrautlegar, er að hafa tónlistarmenn sem leika undir á meðan fyrirsæturnar ganga pallinn. Listamenn sem komu fram á sýningunni í gær voru Missy Elliott, Karol G, K-Pop group TWICE og Madison Beer.