Umboðsmaðurinn, kírópraktorinn og áhrifavaldurinn Guðmundur Birkir Pálsson, eða Gummi kíró, heldur áfram að hafa áhrif á samfélagið. Nú geta húsmæður og heimilisfeður landsins sett sig í stellingar því í nýjasta myndskeiði sínu á samfélagsmiðlinum TikTok sýnir Gummi hvernig á að gera vikuinnkaupin.
Eins og alþýðan verslar hann í Bónus og er matarkarfan ekki af verri endanum. Ofan í hana fara t.d. egg, og nóg af þeim, því eins og hann segir fer um einn bakki af eggjum á dag á heimilinu – þau skulu vera lífræn. Sætar kartöflur því þau Lína Birgitta Sigurðardóttir borða þær á hverjum degi. Ekki má vanta íþróttaálfanammið, sem eru niðurskornir ávextir í bakka, í nesti fyrir börnin. Að auki er það möndlumjólkin fyrir próteinísinn og grísk jógúrt frá Bíóbú, svo fátt eitt sé nefnt.
Hann staflar nautahakki í körfuna því menn sem eru vöðvastæltir, eða buffaðir eins og það kallast, þurfa auðvitað mikið af hakki, eins og Gummi segir, það er próteinríkt.
Hann tekur þó smá hliðarspor frá hollustunni í sælgætisdeildinni þegar hann bætir Brakkúlum, fílakaramellum og Haribo-hlaupi ofan í körfuna, en það er fyrir bíókvöldið.
Hann lætur fæðubótarefnin ekki vanta og þar eru prótein og kreatín efst á baugi. Það er vel hægt að taka hann sér til fyrirmyndar í matarinnkaupunum, fyrir utan að það er hrein unun að hlusta á mjúka og seiðandi rödd hans undir myndskeiðinu.
Smartland mælir með að horfa á myndskeiðið til enda því þegar kemur að því að raða vörunum í poka á afgreiðslukassanum má sjá heildarmynd af Gumma sem flíkar vöðvastæltum leggjunum og „gluteus maximus“ í þröngum spandex-buxum.