Daginn áður en breska leikkonan Prunella Scales lést á heimili sínu í London 93 ára gömul var hún að horfa á Fawlty Towers (Tindastól), gamanþáttaröðina sem færði henni heimsfrægð. Ekki er víst að hún hafi meðtekið það sem fram fór á skjánum því hún var með alzheimer og hafði lifað með sjúkdómnum í tólf ár.
Hún fæddist í Surrey árið 1932. Móðir hennar var leikkona og faðir hennar var sölumaður sem hafði yndi af leikhúsi. Scales lærði leiklist og hóf feril sinn í leikhúsi sem aðstoðarsviðsmaður. Fyrrverandi kennari hennar skrifaði leikhústjóranum og kvartaði undan því að Scales hefði ákveðið að snúa sér að leiklist því vonir hefði staðið til að hún yrði fyrirmyndarnemandi í Cambridge.
Scales lék í sjónvarpi, kvikmyndum og á sviði. Hún er langfrægust fyrir túlkun sína á Sybil Fawlty, eiginkonu Basil Fawlty, í sjónvarpsþáttunum Fawlty Towers þar sem hún lék á móti John Cleeves. Þættirnir urðu einungis tólf, sýndir 1975 og 1979. Þeir eru orðnir klassískir enda er leitun að betri gamanþáttum. Margir telja reyndar að þeir séu bestu gamanþættir í sögu sjónvarps. Því skal engan veginn mómælt hér.
Cleeves segir Scales hafa verið fullkomna í hlutverki ráðríkrar eiginkonu sem hefur alls enga trú á eiginmanni sínum sem er vita vonlaus hótelstjóri og kann lítið sem ekkert á mannleg samskipti. Scales leit á Fawlty Towers sem hápunktinn á ferli sínum.
Eftir lát hennar sagði Cleese: „Hún var afar indæl kona sem eyddi miklum tíma í að biðjast afsökunar á sjálfri sér. Ég var vanur að stríða henni á því. Mér þótti afskaplega vænt um hana.“
Scales lék Elísabetu II Englandsdrottningu í sjónvarpsmyndinni A Question of Attribution árið 1992 og var tilnefnd til Bafta-verðlauna fyrir leik sinn. Hún var tvívegis tilnefnd til Olivier-verðlauna fyrir sviðsleik. Einleikur þar sem hún lék Viktoríu drottningu var sýndur á sviði í rúm tuttugu ár. Leikkonan fékk bréf frá einum af öryggisvörðum Elísabetar drottningar sem sá hana í leikritinu og sagðist ósjálfrátt hafa staðið upp þegar hún birtist á sviðinu.
Scales var gift leikaranum Timothy West í rúm sextíu ár. Hann var þekktur sviðsleikari og kom einnig fram í kvikmyndum og má þar nefna Dag Sjakalans árið 1973. Hann lék í ótal sjónvarpsþáttum og tók einnig að sér leikstjórn.
Þau hittust við sjónvarpsupptökur árið 1961. Hann var kvæntur og átti dóttur en hjónabandið var slæmt og endaði með skilnaði. Scales og West höfðu þá þegar hafið ástríðufullt ástarsamband. Þau eignuðust tvo syni, Samuel og Joseph. Samuel er þekktur leikari og lék á móti móður sinni í kvikmyndinni Howards End.
Hjónabandið var afar hamingjuríkt. Þegar West var fjarverandi vegna vinnu spilaði Scales upptökur af leik hans og brast í grát við að heyra rödd hans.
Árið 2001 tók West eftir því að kona hans var ekki eins og hún átti að sér. Hún var að leika á sviði og hann sá að hún var ekki að gefa sig í hlutverkið. „Hvað ef þetta er alzheimer?“ hugsaði hann. Hún var greind með alzheimer árið 2013 en lét veikindin ekki stöðva sig. Ásamt eiginmanni sínum sá hún um ferðaþætti á breskri sjónvarpsstöð á árunum 2014-2019, en þar ferðuðust hjónin víða um heim. Í síðustu þáttunum kom fram að heilsu leikkonunnar hefði hrakað mjög. Sjónvarpsáhorfendur heilluðust af því af hve mikilli yfirvegun hjónin tóku veikindum hennar.
West sá um hana allt þar til hann missti heilsu og flutti á dvalarheimili. Hann sagði eitt sinn: „Það okkar sem lifir hitt mun verða algjörlega miður sín.“ Hann lést á síðasta ári.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
Það reynir á þig í samstarfi við vinnufélagana. Ekki gera veður út af hlutunum það gerir bara illt verra. Það líta ekki allir sömu augum á málið.
Það reynir á þig í samstarfi við vinnufélagana. Ekki gera veður út af hlutunum það gerir bara illt verra. Það líta ekki allir sömu augum á málið.
