Andleg þjáning veitir innblástur

Tumi Hrannar Pálmason hefur átt annasama viku. Hann er í prófum í menntaskóla og við stífar æfingar fyrir beinar útsendingar á sjónvarpsþáttunum The Voice Ísland, en fyrsti þáttur þeirra fer í loftið annað kvöld í sjónvarpi Símans.

„Ég er líka mjög spenntur yfrir atriðinu í heild, ég held að það komi vel út þótt það sé ennþá svolítið nýtt fyrir mig að vera ekki á bak við hljóðfæri þegar ég er að syngja,“ segir Tumi, sem hlakkar til að stíga á sviðið. „Það er skrýtið, en á æfingunum hef ég fílað mig mjög vel í því hlutverki. Ég held að þetta heppnist hjá mér.“

Aldrei jafn mikið álag

Í annríkinu er þó ekki laust við að það komi upp löngun í próflokafríi og að sofa út. „Ég kom í bæinn á sunnudagsmorgni, fór í fyrsta prófið á mánudegi, ég fæ að taka þau í Versló. Ég hef verið að flakka, fara á æfingu beint eftir próf, eða verið á æfingu fyrir próf. Í þessari viku hef ég upplifað meira álag en nokkurn tíma áður, en þetta reddast. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir þetta, mér finnst gaman að syngja og sérstaklega á þessum skala og ég bjóst aldrei við því að komast svona langt.“

Það kom undrunarsvipur á Tuma þegar Salka valdi hann áfram …
Það kom undrunarsvipur á Tuma þegar Salka valdi hann áfram eftir ofureinvígið í The Voice Mynd: The Voice

Tumi stundar nám á stærðfræði/eðlisfræði-kjörsviði í Menntaskólanum á Akureyri og hefur mikinn áhuga á efninu. „Þegar kemur að vísindalegum staðreyndum og svona er ég frekar ferkantaður. Svo er tónlistin það sem ég nota til að hafa eitthvað að gera í lífinu. Það er aðaláhugamálið, það sem ég nota til að gefa lífinu mínu tilgang.“

Stærsti draumurinn er að starfa sem tónlistarmaður. Tuma langar í háskólanám en stefnir á að reyna fyrir sér í tónlistinni fyrst. Um þessar mundir er hann að spila með Guðjóni Jónssyni, en stefnan er að taka saman eitthvað af efninu sem hann hefur samið yfir árin og jafnvel gefa út plötu. Hann segir þó að mikið af efninu þurfi einhverja vinnu til. „Meira af efninu er óklárað en klárað. Ég veit ekki hvort þetta er skortur á innblæstri eða agaleysi. Ég fæ hugmynd og byrja að vinna með hana, svo fæ ég aðra hugmynd og sný mér að henni og áhuginn færist á hana. Það er margt sem ég get haft til hliðsjónar, sem er rosalega gott, en ég þarf að hugsa hvernig ég útfæri það.“

Tumi er mikill Lennon-aðdáandi og tók upp þessa ábreiðu af lagi hans, Working Class Hero, fyrir þremur árum.

Andleg þjáning og ýktar tilfinningar

 „Það er svo gott fyrir mína týpu af listamanni að finna fyrir einhvers konar andlegri þjáningu, það veitir manni innblástur. Ég hef ýkt þær tilfinningar hjá mér þegar þær hafa komið upp til þess að finna innblástur til að semja. Ég er nýlega búinn að átta mig á því að það var þetta sem ég var að gera. Ég var í áfanga í skólanum á þessari önn sem hét Víman, listin og lífið, þar talaði kennarinn um að þetta hefðu listrænir einstaklingar gert í gegnum tíðina, notað þjáninguna sem innblástur. Ég fattaði á þeirri stundu að það átti við um mig. Það var skemmtilegt andartak.“

Þjálfarinn Salka Sól stal Tuma eftir að hann beið lægri hlut í einvígi fyrir Freyju Gunnarsdóttur.

Gengur undir nafninu Flammeus

Tumi á erfitt með að koma orðum að því hvernig hann semur. „Allt í einu fæ ég melódíu í hausinn og geri eitthvað í hana, eða rekst á einhverja hljómasamsetningu þegar ég er á gítarnum.“ Hann hefur verið að semja tónlist frá 13 ára aldri og segir hana aðallega í anda poppsins, en fara í allar áttir innan þess ramma. „Stundum eru þetta lög með föstum grípandi takti, stundum er þetta leðja sem flýtur bara.“

Tónlistina hans Tuma má finna undir listamannanafninu Flammeus bæði á Facebook og á Soundcloud, en megnið af efninu á síðari síðunni er ekki fullunnið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant