"Sálarfrumurnar" fundnar

Francis Crick, annar mannanna sem uppgötvuðu DNA-hringstigann, hefur nú birt rannsóknarniðurstöður sem útskýra sálina og tengja mannssálina við tilteknar taugafrumur í heilanum. Frá þessu greinir breska blaðið The Sunday Times sl. sunnudag.

Crick segir, að sér og samstarfsmönnum sínum hafi tekist að finna frumuhóp sem sé uppspretta meðvitundar og "vitundar einstaklingsins um sjálfan sig". Nánari grein er gerð fyrir niðurstöðunum í vísindaritinu Nature Neuroscience. Í næsta mánuði verður hálf öld liðin síðan Crick og James Watson uppgötvuðu DNA-hringstigann, en þeir fengu Nóbelsverðlaunin fyrir það.

Ógn við trúna

The Sunday Times segir að uppgötvun Cricks og Watsons, að uppskriftin að lífinu og þróun þess væri fólgin í litlu mólikúli, hafi löngum verið talin mikil ógn við forsendur trúar á æðri máttarvöld, og ef hin nýja uppgötvun Cricks reynist áreiðanleg, verði hún annar mikill sigur vísindanna á trúnni.

Hingað til hafi vísindin ekki getað útskýrt hvaðan manni komi meðvitund um sjálfan sig og hafi trúarleiðtogar jafnan sagt það vera vísbendingu um eilíft líf sálarinnar. En Crick hafi varið mörgum árum í rannsóknir á meðvitundinni, og hafi helsta markmið hans verið að afsanna tilvist sálarinnar.

"Hið vísindalega viðhorf er það, að útskýra megi huga manns - atferli heilans - algerlega með tilliti til samspils taugafrumna," hefur vísindaskýrandi The Times eftir Crick, og bætir við, að hinar nýju rannsóknir hans bendi til að Crick hafi tekist ætlunarverk sitt.

Ritgerðin sem Crick og samstarfsmenn hans birti nú í Nature Neuroscience sé byggð á margra ára tilraunum, þ. á m. rannsóknum á fólki með heilaskemmdir, rannsóknum á dýrum og sálfræðilegum prófum. Margar mikilvægustu vísbendingarnar hafi fengist með því að tengja litla þreifa inn í heila fólks sem þjáist af flogaveiki. Í ritgerðinni sé útskýrt hvernig margir hlutar heilans myndi saman meðvitundina. "Við höfum nú fyrirliggjandi í fyrsta sinn samhangandi skýringarmynd af þeim taugum sem samsvara meðvitundinni í heimspekilegum, sálfræðilegum og taugafræðilegum skilningi. Meðvitundin birtist í rauninni í litlum hópi af taugum, einkum þeim sem senda boð frá afturhluta heilabarkarins til framhlutans," segir í ritgerð Cricks.

"Mikil einföldun"

The Sunday Times hefur eftir séra Michael Reiss, prófessor í vísindakennslufræðum við Háskólann í London, sem er bæði prestur og vísindamaður, að Crick hafi einungis fundið taugaþættina í meðvitundinni. "Þetta er eins og að halda því fram að kirkja sé ekkert annað en hrúga af grjóti og gleri," segir Reiss. "Það er á vissan hátt alveg hárrétt, en það er of mikil einföldun og lítur framhjá kjarna málsins."

Colin Blakemore, prófessor í taugavísindum við Oxfordháskóla, er aftur á móti sammála Crick um að meðvitundin eigi sér lífefnafræðilegar forsendur. "Vísindum og trú lendir saman vegna þess að bæði reyna að útskýra efnisheiminn, en í flestum trúarbrögðum er gert ráð fyrir einhverskonar allsherjarmarkmiði - en það eru engar vísbendingar til um það. Trú er kenning sem ekki er hægt að sannreyna," hefur blaðið eftir Blakemore.

Rifjað er upp, að Crick hafi látið þau orð falla að sá dagur muni renna að allir samþykki að hugmyndin um sálir og fyrirheit um eilíft líf séu blekkingar, rétt eins og allir samþykki nú að jörðin sé ekki flöt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ferðalög eru þínar ær og kýr og þú skalt bara láta það eftir þér að skipuleggja draumaferðina hvað sem hver segir. Skrifaðu lista yfir verkefni sem þarf að klára.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ferðalög eru þínar ær og kýr og þú skalt bara láta það eftir þér að skipuleggja draumaferðina hvað sem hver segir. Skrifaðu lista yfir verkefni sem þarf að klára.