Spurði um „ódýrasta dýra úrið“ í versluninni

Róbert Michelsen.
Róbert Michelsen.

Bíræfinn þjófur sem reyndi árangurslaust að svíkja hágæðaúr út úr verslun Franch Michelsen á Laugavegi í Reykjavík með stolnu debetkorti á mánudag hitti fyrir ofjarl sinn þeg ar hann freistaði þess að hlaupa af vettvangi.

Hinum megin afgreiðsluborðsins var Róbert Michelsen, 19 ára nýbakaður Íslandsmeistari unglinga, 19–22 ára, í 100 og 200 metra spretthlaupi, sonur eiganda verslunarinnar.

Róbert elti manninn frá Klapparstíg þar sem hann hafði falið sig í porti, niður Hverfisgötu í átt að Þjóðleikhúsinu og loks inn í port á bak við danska sendiráðið. Á meðan á þessu stóð var hann í símasambandi við lögreglu sem var á leiðinni á staðinn. Lögregla yfirbugaði manninn að lokum.

Atvikið varð með þeim hætti að maður á fertugsaldri vatt sér inn í verslun Franch Michelsen skömmu upp úr kl. 14 á mánudag og spurði um „ódýrasta dýra úrið“ í versluninni.

„Ég skildi hann ekki alveg,“ segir Róbert í fyrstu. „Þá spurði hann: „Hvað kostar ódýrasta Rolex ið hjá ykkur?“

Róbert tjáði manninum að ódýrasta karlsmannúrsið frá Rolex sem verslunin seldi kostaði 340 þúsund krónur. „Nei, nei, það er allt of dýrt, allt of dýrt,“ sagði maðurinn og spurði: „En hvað með önnur merki eins og Cartier eða Omega?“

Róbert sýndi manninum tvö Movado-lúxusúr á 115 og 125 þúsund krónur. „Hann skoðaði úrin en virtist samt ekki vera áhugasamur heldur saug upp í nefið og spurði hvort hann gæti fengið bréf til þess að snýta sér.“

Eftir nokkurt þóf um greiðsluskilmála tók maðurinn upp veski og dró upp úr því gulldebetkort. „Það sérkennilega við þetta var að undantekningarlaust biðja menn sem staðgreiða um staðgreiðsluafslátt sem hann gerði ekki. Ég labbaði að peningakassanum og leit aftan á kortið og sá þá að þetta var allt annar maður. Ég kallaði á pabba og spurði hann hvað ég ætti að gera.“

Faðir hans spurði manninn hvort hann væri með önnur skilríki og tók maðurinn þá upp ökuskírteini með sama nafni. „Pabbi sagði við mann inn: „Þetta er ekkert sérstaklega líkt þér,“ en maðurinn sagðist þá hafa grennst mikið.“

Ákveðið var samt að renna kortinu í gegn og maðurinn því næst beðinn að skrifa undir kvittunina. „Hann skrifaði „Jón“ mjög svipað og stóð á bakhlið kortsins en pabbi sagði að það dygði ekki, hann yrði að skrifa fullt nafn. Þá kom fát á hann, hann leit upp og leit á mig eins og hann væri að hugsa: „Hvað heitir maðurinn?“ Síðan lagði hann bara frá sér pennann og labbaði út.“

Þeir feðgar hringdu í lögregluna og Róbert náði í farsímann sinn og bað pabba sinn að segja lögreglumönnunum að hringja í sig, hann ætlaði á eftir manninum.

Eftir nokkra leit sá hann manninn koma á fleygiferð úr porti neðarlega á Klapparstígnum og inn á Hverfisgötu í átt að Þjóðleikhúsinu. Róbert tók á rás á eftir honum en á því augnabliki hringdi síminn. Lögreglan var í símanum. „Ég sagðist bara vera að hlaupa á eftir manninum, ég væri á harðahlaupum á eftir honum og að hann væri að hlaupa að Þjóðleikhúsinu og yfir Hverfisgötu. Hann bókstaflega stökk yfir Hverfisgötu og inn í skot á bak við danska sendiráðið, ég sagði við lögguna að hann væri þar, beið þar og meira vissi ég ekki,“ segir Róbert. Hann segist ekki hafa viljað fara á eftir manninum þangað af ótta við að hann biði hans vopnaður.

Lögreglan kom hálfri mínútu seinna og yfirbugaði manninn fljótt. „Eftir á göntuðumst við með það að hann hefði verið mjög óheppinn því ég er nýbakaður Íslandsmeistari í 100 og 200 metra hlaupi, þannig að hann hefði nú þurft dágott forskot,“ segir Róbert og kímir. Í ljós kom einnig að lögreglumaðurinn sem náði honum í portinu er einn sá sprettharðasti í lögreglunni.

Á manninum fannst gullhringur í öskju og nýr farsími en veskinu hafði hann hent á hlaupunum. Róbert æfir með Breiðabliki og varð tvöfaldur Íslandsmeistari í spretthlaupi unglinga á Íslandsmóti um síðustu helgi. Hann er á samningi í úrsmíði jafnframt því sem hann stundar nám í framhaldsskóla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur látið hlutina danka heima fyrir, en verður nú að bretta upp ermarnar og gera eitthvað. Hafðu hugfast að áhyggjur breyta engu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur látið hlutina danka heima fyrir, en verður nú að bretta upp ermarnar og gera eitthvað. Hafðu hugfast að áhyggjur breyta engu.