Matadorpeningum skipt út fyrir kreditkort

Spilið Monopoly, eða Matador eins og það er kallað á íslensku, hefur tekið nokkrum breytingum í þau sjötíu ár sem það hefur verið spilað. Nú er að koma á markaðinn í Bretlandi ný útgáfa þar sem matadorpeningunum kunnu er skipt út fyrir kreditkort og í stað bílanna sem aka um spjaldið nota spilararnir farsíma og hamborgara.

Þá hefur fasteignaverð verið hækkað verulega og einnig skipt út götunöfnum í Lundúnum. Nýja útgáfan verður seld samhliða hinni hefðbundnu.

„Hefði Monopoly verið fundið upp núna væri það allt öðruvísi en upphaflega spilið og því höfum við uppfært fasteignaverð og staði," sagði Helen Martin, markaðsstjóri fyrirtækisins Hasbro, sem framleiðir Monopoly.

Þá er fólk hætt að nota peningaseðla; það notar bara plast, svo við höfum fjarlægt seðlana, skipt þeim út fyrir plastkort," sagði hún.

Með spilinu fylgir lítið raftæki, sem flytur upphæðir á milli spilara og bankans. Þá fá spilarar ekki lengur 2000 krónur úr bankanum þegar þeir fara yfir byrjunarreit. Þess í stað hækkar innstæðan á reikningi þeirra um 2 milljónir punda.

Rafrænar útgáfur af Monopoly komu á markað í Þýskalandi og Frakklandi í fyrra og seldust vel. Áætlað er að útgáfan komi á markað í Bandaríkjunum á næsta ári.

Þrátt fyrir breytingarnar breytist einn hluti spilsins ekki: spilararnir eru enn sendir í fangelsi.

„Maður fer áfram í fangelsi, það breytist aldrei," sagði Martin.

mbl.is

Bloggað um fréttina