Bannað að sýna Life of Brian

Bæjarstjórinn í smábænum Aberystwyth í Wales vill fá banni við sýningum á kvikmyndinni Life of Brian hnekkt í bænum. Bæjarstjórinn á nokkurra hagsmuna að gæta því hann lék eitt af helstu hlutverkunum í myndinni.

Myndin Life of Brian, sem breski leikhópurinn Monty Python gerði fyrir nærri þremur áratugum, gerir grín að biblíumyndum Hollywood. Myndin gerist í landinu helga árið 33 eftir Krist og fjallar um gyðing sem talinn er vera spámaður og lýkur ævi sinni á krossi syngjandi lagið: Always Look on the Bright Side of Life.

Strax eftir að myndin var frumsýnd komu fram ásakanir um að finna mætti í henni guðlast og var bannað að sýna hana á nokkrum stöðum í Bretlandi. 

Sue Jones-Davies, sem lék Judith, kærustu Brians, er nú  bæjarstjóri í Aberystwyth. Hún sagði, að það hefði komið sér algerlega í opna skjöldu þegar hún komst að því í síðustu viku, að enn væri bannað að sýna kvikmyndina í bænum. 

„Í ljósi þess, sem sýnt er í sjónvarpinu nú á dögum er ótrúlegt að þetta bann skuli enn vera í gildi í Aberystwyth," sagði Jones-Davies við breska ríkisútvarpið BBC. „Mér finnst að það eigi að aflétta banninu. Mér finnst að trúarbrögð eigi að vera það víðsýn að þau viðurkenni að þessi mynd er gamanleikur."

Mörgum þykir myndin, sem skartaði m.a. gamanleikurunum John Cleese, Graham Chapman, Eric Idle, Terry Gilliam og Michael Palin, ein sú fyndnasta sem gerð hefur verið í Bretlandi. Bítillinn George Harrison framleiddi myndina.

BBC segir, að bæjarráðið í Aberystwyth muni fjalla um málið. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fegurðarskyn þitt er sérstaklega næmt og því er þetta góður dagur til að njóta fegurðarinnar. Eitthvað óvænt gerist sem mun veita þér mikla ánægju.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fegurðarskyn þitt er sérstaklega næmt og því er þetta góður dagur til að njóta fegurðarinnar. Eitthvað óvænt gerist sem mun veita þér mikla ánægju.