Hundurinn reyndist refur

Zhang með hinn alhvíta
Zhang með hinn alhvíta "pomeranian-hund".

Kínverskum manni var mjög brugðið þegar hann uppgötvaði að hundur sem hann hafði keypt sem gæludýr reyndist vera sjaldgæfur heimskautarefur. Manninum gekk illa að temja „gæludýrið“.

Hinn meinti hundur var seldur sem alhvítur pomeranian. Maðurinn, Zhang frá Tunkou, keypti hann fyrir heil sextíu pund fyrir um ári þegar hann var í viðskiptaferð.

Hins vegar reyndist honum erfitt að temja hundinn! Hann beit Zhang í tíma og ótíma og hafði ýmsa óvenjulega siði.

„Hann gat ekki gelt heldur gaf frá sér ókennileg hljóð í ætt við mjálm,“ lýsir hinn undrandi gæludýraeigandi og bætir því við að skottið hafi lengst undarlega mikið og lengi. Þó keyrði um þverbak síðastliðið sumar þegar dýrið tók að lykta undarlega og fýlan versnaði stöðugt þrátt fyrir dagleg böð.

Úr varð að Zhang fór með „hundinn“ í dýragarð til að spyrjast fyrir um hvers kyns væri og þá kom í ljós að dýrið var í raun heimskautarefur, en hann er verndaður. Zhang hefur nú gefið dýragarðinum refinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina