Fékk stóra vinninginn í fjórða sinn

Reuters

Bandarísk kona, Joan Ginther að nafni, hefur verið útnefnd heppnasta manneskja heims en hún hefur fjórum sinnum unnið milljónir dala í skafmiðahappdrættum.  

Ginther vann 6,2 milljónir dala, 774 milljónir króna, á skafmiða sem hún keypti í verslun í Texas. Þar með hefur Ginther samtals unnið 14 milljónir dala í happdrættum af ýmsu tagi.

Hún fékk fyrsta stóra vinninginn árið 1993 en þá vann hún 8 milljónir dala á skafmiða sem hún keypti fyrir 20 dali. Hún valdi að fá vinninginn borgaðan út á 19 árum og þurfti einnig að greiða af honum skatt. Alls fékk hún í hendurnar 3,6 milljónir dala.

Árið 2006 vann hún 1,4 milljónir dala en eftir skatta hélt hún eftir milljón. Tveimur árum síðar vann Ginther, sem er 63 ára, 2 milljónir dala í viðbót.

Breska blaðið Sunday Telegraph segir, að þrír af vinningsmiðunum hafi verið keyptir í sömu versluninni í Bishop í Texas þar sem Ginther fæddist og ólst  upp en hún býr nú í Las Vegas. Vinir hennar segja að hún heimsæki föður sinn öðru hvoru og fari þá í kjörbúðina og kaupi skafmiða.

Sérfræðingar segja, að líkurnar á að vinna fjórum sinnum stóra vinninginn í happdrætti séu 200 milljónir á móti einum.

mbl.is

Bloggað um fréttina