Fæddi fjóra hvíta ljónsunga

Geispandi, eða öskrandi, lítill ljónsungi.
Geispandi, eða öskrandi, lítill ljónsungi. AFP

Fjórir hvítir ljónsungar fæddust í Krone-sirkusnum í Þýskalandi. Ungarnir eru við hesta, já eða ljónaheilsu, og nærast vel samkvæmt því sem kemur fram í frétt á vef BBC.

Ungarnir eru ekki albínóar, heldur hvítir ljónsungar. Móðir þeirra, Princess,, og faðirinn King Tonga, bera bæði gen sem valda því að feldur ljóna verður hvítur.

Nátturuverndarsinnar í Suður-Afríku hafa undanfarið lagt áherslu á að færa hvít ljón aftur út í náttúruna. Einu náttúrulegu heimkynni hvítra ljóna eru á Timbavati-svæðinu í Suður-Afríku. Mörg hundruð hvít ljón eru í dýragörðum víðs vegar um heim, en einu frjálsu hvítu ljónin ráfa um áðurnefnd svæði í Suður-Afríku.

Talsmaður sirkussins sagði við fréttastofu BBC að ljónin yrðu ekki sýnd í sirkusnum í að minnsta kosti fjögur ár. Fyrst þyrftu þau að kynnast öðrum ljónum og fá rétta þjálfun.

Ungarnir munu fá nöfn eftir fjórar til fimm vikur, því ljónatemjarinn sem á að annast þjálfun þeirra vill fá að sjá hvers konar ljón býr innra með þeim áður en þeir verða nefndir.

Ljónsungarnir ásamt móður sinni.
Ljónsungarnir ásamt móður sinni. AFP
Kúrað með pabba.
Kúrað með pabba. AFP
Ljónsungarnir leika sér við foreldra sína.
Ljónsungarnir leika sér við foreldra sína. AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is