34 börn og eitt á leiðinni

34 börn og eitt á leiðinni

Ólétt kona er í hópi þeirra 55 sýrlensku flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins fyrir áramót. Til stóð að hópurinn kæmi hingað fyrir jól en hugsast getur að ferðinni seinki um einhverja daga.

34 börn og eitt á leiðinni

Flóttinn frá Sýrlandi til Íslands | 12. desember 2015

Sýrlensk stúlka sem er nýflutt inn í múrsteinskofa í fjöllunum …
Sýrlensk stúlka sem er nýflutt inn í múrsteinskofa í fjöllunum í suðurhluta Líbanons. mbl.is/Sunna

Ólétt kona er í hópi þeirra 55 sýrlensku flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins fyrir áramót. Til stóð að hópurinn kæmi hingað fyrir jól en hugsast getur að ferðinni seinki um einhverja daga.

Ólétt kona er í hópi þeirra 55 sýrlensku flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins fyrir áramót. Til stóð að hópurinn kæmi hingað fyrir jól en hugsast getur að ferðinni seinki um einhverja daga.

Undirbúningur komu þeirra gengur vel í þeim þremur sveitarfélögum þar sem þau munu setjast að. Börnin, sem eru 34 talsins og á aldrinum 1-17 ára, munu fljótlega eftir komuna fá aðlögun í skólum á Akureyri, í Hafnarfirði og Kópavogi og fullorðna fólkinu mun bjóðast atvinna. Fólkinu verður þó öllu gefið svigrúm til að ná áttum áður en að þessu kemur og því veitt sálfræðiaðstoð og annar stuðningur eftir þörfum. „Fólk sem er að koma úr erfiðum aðstæðum fer ekkert beint í skóla,“ segir Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, verkefnastjóri á Akureyri. 

Fólkið mun búa í leiguíbúðum og hefur Rauði krossinn að mestu náð að safna nauðsynlegum húsbúnaði. Enn vantar þó t.d. reiðhjól fyrir börnin en slík farartæki verða oftast eftir þegar lagt er á flótta. 

Frétt mbl.is: „Ég sakna reiðhjólsins míns

Svigrúm til að ná áttum

Sýrlenska flóttafólkinu sem væntanlegt er til Akureyrar verður gefið svigrúm til að ná áttum áður en það fer út á vinnumarkaðinn og börnin byrja í skóla, að sögn Kristínar Sóleyjar  Sigursveinsdóttur, verkefnastjóra við móttöku flóttamanna hjá bænum.

Enn sem komið er hafa bæjaryfirvöld á Akureyri afar takmarkaðar upplýsingar um fólkið og líðan þess. Kristín Sóley segir að engar tímasetningar verði ákveðnar um atvinnuþátttöku og skólagöngu fyrr en starfsmenn bæjarins hafi kynnst fólkinu betur.

Í hópnum eru fjórtán börn, það yngsta á fyrsta ári en það elsta sautján ára. Þau fara í hverfisskóla bæjarins en til að byrja með verður þeim haldið saman og fá þau viðeigandi fræðslu á meðan metið verður hvernig hvert og eitt þeirra er statt .

Hvað varðar fullorðna fólkið þurfa bæjaryfirvöld einnig að vita meira um bakgrunn þess á vinnumarkaði, reynslu þess og menntun til að hægt sé að nýta kunnáttu þess. Vinnuveitendur á svæðinu hafa þegar lagt fram tilboð að fyrra bragði og eins hafa nokkur svör borist við auglýsingu Vinnumálastofnunar eftir störfum fyrir flóttafólkið, að sögn Kristínar Sóleyjar.

Þrjár fjölskyldur til Hafnarfjarðar

Til Hafnarfjarðar koma þrjár fjölskyldur, sex foreldrar og 11 börn. Ekki er búið að ganga frá störfum fyrir flóttafólkið því taka þarf slíkar ákvarðanir í samvinnu við einstaklingana, segir Árdís Ármannsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar. 

 Hún segir að verið sé að undirbúa skólann fyrir komu barnanna. „Skólakerfið verður tilbúið til að taka við börnunum í skóla frá fyrsta degi en aðlaga þarf það ferli að hverjum og einum,“ segir Árdís.

Þrjú börn á leikskóla í Kópavogi

Í Kópavogsbæ munu þrjár sýrlenskar fjölskyldur setjast að. Í hópnum eru fimm fullorðnir, þrjár konur, tveir karlar, og tíu börn á aldrinum 1-17 ára. 

Samkvæmt núverandi áætlunum munu fjögur börn fara í Kópavogsskóla, tvö í Smáraskóla, tvö í leikskólann Arnarsmára og eitt barn í leikskólann Urðarhól. Nú er unnið að undirbúningi bæði nemenda og kennara í þeim skólum, í samráði við sveitarfélög sem reynslu hafa af móttöku flóttabarna. Gert er ráð fyrir því að börnin hefji aðlögun að skólum og leikskólum uppúr áramótum, en aðlögunin verður á forsendum hvers barns og hverrar fjölskyldu og í miklu samstarfi við foreldrana.

Búið er að ráða félagsráðgjafa í hálft stöðugildi til að halda utan um fjölskyldurnar og leiðbeina þeim, auk þess sem sálfræðingur mun sinna stuðningi við börn í leik- og grunnskólum. Einnig er í fjárhagsáætlun gert ráð fyrir sálfræðiviðtölum sem munu að öllum líkindum fara fram hjá til þess bærum sérfræðingum eftir þörfum hvers og eins, s.s. í gegnum heilsugæsluna.

„Í upphafi er gert ráð fyrir tíma fyrir foreldrana til að lenda á nýjum stað og taka þátt í aðlögun barna sinna að skólum,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar. „Í framhaldinu verður svo hugað að vinnu og virkni, en slíkt getur ekki hafist áður en fólkið er komið og við höfum kynnst þeim, getu þeirra og löngunum.“

Í Morgunblaðinu í dag, sem dreift er inn á hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu, er fjallað um aðstæður sýrlensks flóttafólks og þau örþrifaráð sem það hefur gripið til í lífsbaráttu sinni.

mbl.is