Sameinuðu krafta sína og hanna einstakar mublur

Sameinuðu krafta sína og hanna einstakar mublur

Málefni - HönnunarMars

Sameinuðu krafta sína og hanna einstakar mublur

Málefni - HönnunarMars

Þóra Björk Schram, textílhönnuður og listamaður, og Ólafur Þór Erlendsson, húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt, ákváðu að sameina krafta sína eftir að hafa kynnst á HönnunarMars árið 2011 þegar þau sýndu sjálfstæða hönnun sína. Þau munu sýna afrakstur samstarfsins á HönnunarMars í ár.

Þóra Björk og Ólafur kynna hönnun sína á HönnunarMars.
Þóra Björk og Ólafur kynna hönnun sína á HönnunarMars. Eggert Jóhannesson

Eftir að hafa kynnt sér verk hvort annars ákváðu þau að hefja samstarf. „Við höfðum það að leiðarljósi að hanna eitthvað nýtt og skemmtilegt með sérhæfingu okkar beggja í huga. Þar sem náttúran hefur verið okkur báðum hugleikin fannst okkur eðlilegt að hún ætti stóran þátt í verkefninu,“ útskýra þau Þóra og Ólafur. Um kollinn Spot, bekkinn Spot 2 og kubbinn Spor er að ræða. Kollarnir og bekkirnir eru unnir úr asparviði og stáli, en setan er handtuftuð og flosuð úr íslenskri ull. Spor kubburinn, sem nýtist bæði sem kollur og borð, er beykiviður með handtuftaðri íslenskri ull.

Áklæðin eru unnin út frá GPS-punktum

Hvert einasta húsgagn úr línunni Spot, Spot 2 og Spor er einstakt. Kollarnir Spot og Spot 2 eru til að mynda prýddir tuftaðri setu sem unnin er eftir ákveðnum GPSpunkti í íslensku náttúrunni. „Eigandinn að kollinum getur síðan leitað uppi GPS-punktinum þegar hann kemur heim og séð út frá hvaða staðsetningu kollurinn er unninn.“ Kollarnir, sem eru sterkbyggðir, hafa því notagildi ásamt því að vera einstakt listaverk. „Svo er gaman fyrir eigandann að kíkja reglulega á GPS-punktinn og sjá hvernig náttúran breytist.“ „Spor er massífur beykikubbur og er einnig innblásin af íslensku náttúrunni. Þar vinnum við með gróðurmyndanir í klettasprungum eða í grófum jarðvegi. Ullin gægist fram líkt og gróður sem vex í sprungum sem myndast víðs vegar í landslaginu sem leitar ljóss og raka. Gróðurinn er í mörgum litum og formum og vinnum við með ullina til að ná þessari tengingu við náttúruna. Við erum einnig tilbúin til að vinna eftir óskum viðskiptavinarins.“

Spor kubbarnir nýtast sem borð eða kollar.
Spor kubbarnir nýtast sem borð eða kollar.

„Við hugsum alltaf stórt“

Þóra og Ólafur eru sammála um að HönnunarMars sé mikilvægur vettvangur fyrir hönnuði og listamenn til að koma verkum sínum á framfæri og líkja hátíðinni við Iceland Airwaves fyrir tónlistarmenn. „Á HönnunarMars koma bæði íslenskir og erlendir framleið- endur, fagaðilar ásamt almenningi til að kynna sér nýjungar í hönnun á Íslandi. Í þessum hóp eru einnig blaðamenn og fulltrúar hönnunarhúsa sem eru í leit að einhverju nýju til að fjalla um eða framleiða,“ útskýrir Ólafur. „Við hugsum alltaf stórt, það er að segja út fyrir landsteinana,“ segir Þóra. Þau eru þó sammála að þau vilji halda áfram að vinna með Ísland og íslenska umhverfið. „Við vitum það að þetta er það sem útlendingarnir vilja,“ segir Þóra. Spot, Spot 2 og Spor verður til sýnis á tveimur stöðum á HönnunarMars. Annars vegar í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi og hins vegar á sýningarsvæði GÁ Húsgagna á húsgagnasýningunni í Hafnarhúsinu.

Áklæðið á Spot er unnið út frá GPS-punktum á Íslandi.
Áklæðið á Spot er unnið út frá GPS-punktum á Íslandi. Ljósmynd/ Sigrún Eggertsdóttir
Spor (t.h.) er massífur beikikubbur.
Spor (t.h.) er massífur beikikubbur. Ljósmynd/ Sigrún Eggertsdóttir
Spot 2 bekkurinn er sterkbyggður og myndi t.d. taka sig …
Spot 2 bekkurinn er sterkbyggður og myndi t.d. taka sig vel út í hvaða forstofu sem er. Ljósmynd/ Sigrún Eggertsdóttir
mbl.is