„Farið heim til ykkar“

Frá Sýrlandi til Evrópu | 4. september 2016

„Farið heim til ykkar“

„Landamærin verða ekki varin með blómum og krúttlegum leikföngum. Landamæri þarf að verja með lögreglu, hermönnum og vopnum,“ segir Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Stjórnmálaflokkur Orbans, Fidesz, nýtur stuðnings 48% kjósenda en flokkurinn er hægri flokkur sem gengur miklu lengra í átt að þjóðernisflokkum en flestir hefðbundnir hægriflokkar í Evrópu.

„Farið heim til ykkar“

Frá Sýrlandi til Evrópu | 4. september 2016

Jasítar sem hafa flúið og eru á grísku eyjunni Samos. …
Jasítar sem hafa flúið og eru á grísku eyjunni Samos. Þau fá ekki að fara lengra og verða væntanlega send aftur til baka. AFP

„Landamærin verða ekki varin með blómum og krúttlegum leikföngum. Landamæri þarf að verja með lögreglu, hermönnum og vopnum,“ segir Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Stjórnmálaflokkur Orbans, Fidesz, nýtur stuðnings 48% kjósenda en flokkurinn er hægri flokkur sem gengur miklu lengra í átt að þjóðernisflokkum en flestir hefðbundnir hægriflokkar í Evrópu.

„Landamærin verða ekki varin með blómum og krúttlegum leikföngum. Landamæri þarf að verja með lögreglu, hermönnum og vopnum,“ segir Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Stjórnmálaflokkur Orbans, Fidesz, nýtur stuðnings 48% kjósenda en flokkurinn er hægri flokkur sem gengur miklu lengra í átt að þjóðernisflokkum en flestir hefðbundnir hægriflokkar í Evrópu.

Þetta er ekki formaður þjóðernisflokks sem talar, en einn öfgafyllsti stjórnmálaflokkurinn sem náð hefur góðum árangri í kosningum í Evrópu er ungverski stjórnmálaflokkurinn Jobbik. Flokkurinn fékk um 20% atkvæða í síðustu þingkosningum og er þriðji stærsti flokkur landsins. Jobbik er róttækur þjóðernisflokkur sem berst gegn gyðingum og múslimum, segir Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði, sem segir flokkinn boða ákveðið afturhvarf til fortíðar. Því flestir þjóðernisflokkar hafa ekki viljað tengjast fasismanum sem er smánarblettur í huga flestra. „Stimpill sem nútíma þjóðernisflokkar vilja almennt ekki láta tengja sig við með beinum hætti. Aftur á móti vill Jobbik láta tengja sig með beinum hætti við ríkisstjórn Miklós Horthys, sem var ekki hreinræktuð fasistastjórn en nálægt því, að sögn Vals en Horthy var í beinum tengslum við Adolf Hitler og stjórn nasista í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni.

mbl

Er nóg  komið?

Bengt Lindroth, rithöfundur og fyrrverandi fréttamaður sænska ríkissjónvarpsins og fréttstjóri Expressen, segir að mjög ólíklegt sé að norrænir forsætisráðherrar verði svo öfgasinnaðir en það sé verulegt áhyggjuefni hversu margir stjórnmálaflokkar, sem eiga fulltrúa á lýðræðiskjörnum þingum, í Evrópu eru farnir að hneigjast í þessa átt. Hann bendir þar einkum á Ungverjaland, Pólland og Austurríki.

Að sögn Lindroth virðist sem samkennd með öðrum fari minnkandi samfara auknum flóttamannastraumi til Evrópu. Hann segir að meira að segja í landi eins og Svíþjóð, sem alltaf hefur verið þekkt fyrir að sýna öðrum samkennd, séu þær raddir að verða háværari að nú sé nóg komið. Raddir sem vart heyrðust fyrir nokkrum árum nema hjá stuðningsmönnum Svíþjóðardemókrata, sem eru þjóðernisflokkur.

Því miður þið eruð ekki velkomin.
Því miður þið eruð ekki velkomin. AFP

Fyrir rúmu ári fundust lík rúmlega 70 flóttamanna í flutningabíl við hraðbraut í Austurríki. Fólk hafði kafnað á flóttanum og sennilega fljótlega eftir að það fór um borð í bíl smyglaranna í Ungverjalandi. Heimurinn fylgdist með og áhrifin voru gríðarleg og samstaða um að ekki væri ásættanlegt að þetta væri það sem biði fólks sem flúði stríðshörmungar til Evrópu. Þegar líkin fundust var Angela Merkel, kanslari Þýskalands, stödd í Austurríki á fundi með leiðtogum ríkja á Balkanskaganum um flóttamannastrauminn eftir skaganum. Þegar hún heyrði fréttirnar sagði hún að nauðsynlegt væri að grípa strax til aðgerða og hvatti aðra þjóðarleiðtoga til samstöðu. Nokkrum dögum síðar tilkynntu þýsk yfirvöld um að landamæri landsins yrðu opnuð fyrir fólki á flótta. Um síðustu áramót varð ljóst að um ein milljón flóttamanna hafði komið til Þýskalands árið 2015.

En sá böggull fylgdi skammrifi að landið var engan veginn undir það búið að taka á móti slíkum fjölda, ekkert frekar en önnur ríki í Evrópu. Það tók að fjara undan samstöðunni og útlendingar voru ekki lengur velkomnir og hægri öfgahreyfingar fóru á flug í skoðanakönnunum. Mörg ríki hafa takmarkað mjög fjölda flóttafólks, svo sem Svíþjóð, og hefur hælisleitendum fækkað mjög þar, sem og í Danmörku og Austurríki. Í öllum þessum löndum hefur þjóðernisflokkum vaxið fiskur um hrygg undanfarin misseri.

Bengt Lindroth er rithöfundur en hann starfaði árum saman sem …
Bengt Lindroth er rithöfundur en hann starfaði árum saman sem fréttamaður sænska ríkissjónvarpsins og var fréttastjóri Expressen. mbl.is/Rax

Þjóðremba hættulegt leiðarljós

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gerði þjóðrækni og þjóðrembu að umtalsefni í ræðu sem hann flutti nýverið á þjóðrækniþingi:

„Þjóðrækni er sérstakt orð, annars vegar er hugtakið þjóð, hins vegar rækni sem samstofna er sögninni að rækja, sinna, hirða um. Þjóðrækni dregur dám af orðinu frændrækni, að hirða um skyldmenni, rækta fjölskyldu í víðasta skilningi, ræktarsemi. Þjóðrækni er þá í sama skilningi að rækta þjóð sína, að sinna þeirri útvíkkuðu fjölskyldu sem við köllum þjóð. Og sú fjölskylda er eins og hinar minni samsett af alls konar fólki sem á það kannski bara sameiginlegt að tilheyra þessari fjölskyldu. Þjóðrækni, ræktarsemi við þjóðina, á að vera mótuð af víðsýni og umburðarlyndi og þá er hún alltaf af hinu góða.

Andstæða þjóðrækni er þjóðremban, sem felur í sér sjálfsupphafningu, hroka í garð annarra, það að telja suma í fjölskyldu þjóðanna betri en aðra.

Sumum kann að þykja þjóðrækni gamaldags orð og úrelt hugsun á okkar alþjóðlegu fjölmenningartímum. En það er ekkert úrelt við það að þykja vænt um þjóð sína á sama hátt og manni þykir vænt um fjölskyldu sína. Sönnu nær væri að kalla þjóðrembu úrelta – hún er að minnsta kosti varasamt og raunar hættulegt leiðarljós í samskiptum þjóða,“ segir forseti Íslands.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Freyja Gylfa

Val­ur Ingi­mund­ar­son seg­ir að ekki sé hægt að setja alla þjóðern­is­flokka í Evr­ópu und­ir einn og sama hatt því að þeir séu afar ólíkir inn­byrðis og stefna þeirra misrót­tæk. Auk þess gangi hug­mynda­fræðin út á þjóðern­is­stefnu og þjóðleg gildi sem stang­ist á við hug­mynd­ir eða alþjóðsam­vinnu. Engu að síður eigi flest­ir þess­ir flokk­ar í ein­hvers kon­ar þverþjóðleg­u sam­starfi. Hér áður hafi flest­ir þeirra ekki þótt stjórn­tæk­ir vegna þess hve þeir voru of­stæk­is­full­ir en það sé að breyt­ast, enda hafa þeir orðið að gera mála­miðlan­ir í mál­flutn­ingi og stefnu þegar þeir setj­ast í rík­is­stjórn.

„Það eru samt þræðir sem tengja marga þessa flokka sam­an eins og hat­ur á íslam og bar­átta fyr­ir þeirra fyr­ir þjóðleg­um gild­um,“ seg­ir Val­ur. Marg­ir þeirra séu and­snún­ir hnatt­væðingu, gegn yfirþjóðlegu valdi, eins og Evr­ópu­sam­band­inu, og svo bein­ist andúð þeirra mis­mikið að íslam og gyðing­um,“ seg­ir Val­ur.

Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði.
Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Lindroth segir að það hefði ekki verið hægt að ímynda sér það fyrir nokkrum árum að forsætisráðherra úr flokki jafnaðarmanna myndi taka undir skoðanir sem formaður Svíþjóðardemókrata hefði fram að færa en það hefði gerst í fyrra. Leiðtogar allra helstu stjórnmálaflokka ræddu það sín á milli í sumar hvernig standa ætti að móttöku hælisleitenda og innflytjenda. Það er búið að herða reglur sem gilda um komu flóttafólks til landsins, bæði fær fólk ekki lengur hæli nema í þrjú ár og eins hefur rétturinn til að koma með fjölskylduna til landsins verið takmarkaður verulega. Ekki er hægt að ferðast lengur um landamæri Svíþjóðar öðruvísi en að sýna skilríki.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, greindi frá því í janúar að reynt yrði að stemma stigu við fjölda flóttamanna sem kæmu til Svíþjóðar, „Svíar þyrftu hvíld“. Í fyrra komu 163 þúsund flóttamenn til Svíþjóðar en að sögn Lindroth má ætla að um helmingur þeirra hafi fengið hæli. Svíar, líkt og Íslendingar og flestar aðrar þjóðir, líta ekki á Albana sem flóttamenn né heldur fólk frá fyrrum Júgóslavíu. Þeir fá því synjun um hæli í nánast öllum löndum Evrópu.

Nýtt afbrigði af rasisma

Sema Erla Sedar, stjórnmála- og Evrópufræðingur, fjallar um hinar ýmsu birtingarmyndir rasisma í bloggfærslu um miðjan ágúst. Hún segir að flestar skilgreiningar eigi það sameiginlegt að rasismi sé sú hugmynd að ákveðinn hópur af fólki sé í eðli sínu ólíkur öðrum. „Þessi eðlislæga misskipting er síðan notuð til grundvallar við mismunun á þessum tiltekna hópi á ákveðnum sviðum, og til þess að draga upp staðalímyndir og alhæfa um eiginleika einstaklinga og samfélagshópa.

„Nýtt afbrigði af rasisma hefur sprottið upp á síðustu áratugum sem hefur verið kallað ný-rasismi eða menningarlegur rasismi á íslensku. Í staðinn fyrir að aðhyllast yfirburði eins kynþáttar yfir öðrum, þá er lögð rík áhersla á menningu og aðgreiningu hennar meðal þjóða og fólks af öðrum litarhætti. Hugmyndin um kynþætti skiptir ekki höfuðmáli lengur, það sem skiptir máli eru menningarleg einkenni og hvað aðgreinir þau hvert frá öðru. Nú á dögum þykir slíkur rasismi, sem einnig hefur verið nefndur ný-rasismi, vera sjálfsagðari en áður, og kristallast það m.a. í yfirlýstri andúð á innflytjendum, múslimum og útlendingum almennt.

Sema Erla Sedar, stjórnmála- og Evrópufræðingur.
Sema Erla Sedar, stjórnmála- og Evrópufræðingur. Sigurjón Ragnar

Útlendingaandúð er skilgreind sem ótti eða andúð ákveðins hóps á fólki af öðrum hópi á grunni þess að sá hópur þyki öðruvísi eða framandi. Útlendingaandúð er nátengd þjóðernishyggju og menningarlegum rasisma sem skilar sér í pólitískri andstöðu við innflytjendur, m.a. með áherslu á að draga úr innflytjendastraumi, sem og að herða löggæslu við landamæri,” skrifar Sema.

Nýr flokkur, sem leggur áherslu á andúð á flóttamönnum og innflytjendum sópaði til sín fylgi í kosningum í þremur sambandslöndum Þýskalands í mars. Fylgi flokksins byggist á óánægju og beina talsmenn hans með Frauke Petry í broddi fylkingar reiði sinni að Angelu Merkel. Á torgum er hún kallaður einræðisherra sem eigi að víkja.

Í grein Karls Blöndal í Morgunblaðinu í lok mars kemur fram að í málflutningi flokksins Annar kostur fyrir Þýskaland eða Alternativ für Deutschland (AfD), er hamrað á því að valdastéttin hafi brugðist og skilið almenning eftir úti í kuldanum. Merkel er kölluð einræðisherra og höfuð valdastéttarinnar í landinu. Þegar rætt er við stuðningsmenn flokksins segja þeir iðulega að hún hafi snúið baki við þeirra gildum – nefna ákvarðanir á borð við að leyfa hjónabönd samkynhneigðra og steininn hafi tekið úr þegar hún ákvað að opna landamærin fyrir flóttamönnum.

Í upphafi árs bárust fréttir af kynferðislegri áreitni sem fjölmargar konur urðu fyrir á nýársnótt í Köln og fleiri borgum Þýskalands. Fljótlega var ungum körlum frá Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum kennt um áreitnina en minna hefur farið fyrir því að finna árásarmennina. Hryðjuverkaárásir í evrópskum borgum undanfarin misseri hafa einnig aukið hatur í garð flóttamanna, einkum og sér í lagi ef þeir eru íslamstrúar.

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Glæpamenn ekki flóttamenn

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, bendir á að flestir árásarmannanna eru með bakgrunn úr glæpastarfsemi og sárafáir ef nokkur þeirra hefur verið flóttamaður. Einhverjir hafa þóst vera flóttamenn – en þeir eru ekki flóttamenn þrátt fyrir að eiga ættir að rekja til ríkja utan Evrópu. Hann segir vandann einkum þann að það eru ákveðnir hópar, sérstaklega ungir karlmenn sem koma úr innflytjendafjölskyldum frá Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum, sem eru fullir af hatri og vonleysi. Þetta brýst út með misjöfnum hætti og í einhverjum tilvikum glæpum. Þeir sem frömdu hryðjuverkin í París og Brussel eiga það sameiginlegt að koma úr jaðarhópum, hafa alist upp í innflytjendahverfum, gettóum sem eiga fátt sameiginlegt með breiðstrætum stórborganna sem þau tilheyra. Fólk sem tekur þátt í árásum sem þessum tilheyrir jaðarhópum sem finna sér einhvern tilgang í lífinu með þessum árásum.

Guðmundur segir mikilvægt og nauðsynlegt að uppræta slíka hópa og hann telur að það sé hægt. En það verði að gerast með mjög víðtæku og nánu samstarfi við þá hópa sem lenda verst í þessu, múslima. „Það eru þeir sem eru raunverulegu fórnarlömbin,“ segir Guðmundur.

Frakkar hafa viðurkennt að hafa staðið illa að samþættingu innflytjenda og í svipaðan streng hafa fleiri ríki Evrópu tekið, segir Guðmundur.

Undir þetta tekur Bengt Lindroth og segir þessu þannig farið í Svíþjóð en í borgum eins og Gautaborg eru úthverfi sem lögreglan hættir sér helst ekki inni í. Þar ráði skipulagðir glæpahópar lögum og lofum en oft eru þetta glæpamenn sem eru annaðhvort af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda. Hann bendir hins vegar á að því megi heldur ekki gleyma að 17% íbúa Svíþjóðar eru fæddir í öðrum löndum og ef annarri kynslóð innflytjenda er bætt við þá fer hlutfallið mun hærra.

Sameinuð gegn hryðjuverkum.
Sameinuð gegn hryðjuverkum. AFP

Ímyndin um eina fjölskyldu

Guðmundur segir að flest evrópsk samfélög byggi á þeirri ímynd að við séum öll ein fjölskylda þó svo að þetta séu allt saman rammstéttskipt og menningarlega klofin þjóðfélög þá er þetta samt sem áður ímynd sem er við lýði, segir Guðmundur og bætir við að það geti verið erfitt að laga sig að breyttum aðstæðum í álfunni. „Öll lönd Evrópu eru að stríða við þetta vandamál en Bandaríkin hafa átt miklu auðveldara með að taka á þessum vanda því þau byggja á innflytjendum og væru ekki til án þeirra,“ segir Guðmundur.

Hann segir að í Bandaríkjunum hafi þeir innflytjendur sem koma af fúsum og frjálsum vilja átt miklu auðveldara með að samlagast þjóðfélaginu heldur en þeir sem eru fluttir þangað nauðugir. Þeir sem koma af fúsum og frjálsum vilja, til að mynda eiga ættingja í Bandaríkjunum og koma þannig til landsins, fá tækifæri til þess að aðlagast. Fara svo af stað sjálfir. Ef þú flyst beint inn í gettó án millibils þá tekst þér ekki að aðlagast á sama hátt og hætta er á að viðkomandi einangrist. Fyllist hatri og telur alla vera á móti þér sem er sennilega sú upplifun sem margir þeirra útlendinga finna sem hafa tekið undir skoðanir Ríkis íslams. Enda vita vígasamtökin hvernig eigi að ná til ungs fólks. Skilaboðin eru ekki langar stefnulýsingar heldur frekar eitthvað sem minnir meira á tölvuleik.

Tveimur konum með höfuðklúta var gert að yfirgefa veitingastað í …
Tveimur konum með höfuðklúta var gert að yfirgefa veitingastað í úthverfi Parísar nýverið af eiganda staðarins sem tjáði þeim að allir múslimar væru hryðjuverkamenn. AFP

Hvað er að vera Íslendingur?

Spurður um kröfuna um aðlögun segir Guðmundur að um leið og alögunar er krafist þá er fólki gert ókleift að aðlagast vegna þess að aðlögunin er að einhverju  einhverri ímynd  sem innflytjendum er ekki hleypt að og inn í.

„Ef við lítum á Ísland þá leggjum við mikla áherslu á tengsl við fortíðina. Íslendingasögurnar o.fl. Eða eiginlega rasíska hugmynd um hvað er að vera Íslendingur. Ef þú gerir það að aðgöngumiða að þessu – að eiga rætur sem teygja sig aftur til fortíðar  veitum við fólki ekki aðgang að þessum heimi. Þetta er vandamál sem Evrópubúar hafa ekki náð að leysa,“ segir Guðmundur.

Hann segist hafa það á tilfinningunni að þetta sé að breytast hratt meðal annars vegna þess að yngra fólk á erfitt með að samsama sig við eldri hugmyndir um að vera Íslendingur. Það sé í reynd frábært og um leið nauðsynlegt því hugmyndir um lýðræði og ríkisvald eru byggðar upp á nítjándu aldar hugmyndum sem eru ekki mjög hentugar á okkar tímum, segir Guðmundur.

„Við erum líka að kljást við timburmenn nýlendustefnunnar þar sem Evrópa lítur á sig út frá hugmyndum um eigin siðmenningu og siðvæðingu sem þær einu réttu. Í þessu felst mikil oftrú á eigin menningu og um leið fyrirlitning á menningu annarra,“ segir Guðmundur. Það er orðræða um okkur og hina – þá siðmenntuðu og barbarana. Þá sem við hleypum ekki inn á okkar siðmenningarsvæði og teljum ógna okkur,“ bætir hann við.

mbl

Megum ekki láta þjóðrembu ná tökum á okkur

Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur veitt flóttamönnum aðstoð í Grikklandi undanfarið ár, segir að þjóðremban megi ekki ná tökum á okkur. Við getum ekki ætlast til þess að fólk sem hér fær hæli breytist í Íslendinga sem borða lambahrygg á sunnudögum.

„Aðlögun á að felast í því að fólk fái þær upplýsingar sem það þarf til að hafa það gott í samfélaginu. Það er undir þeim komið sjálfum hvernig þeir nýta sér það. Það er mjög misjafnt sem fólk þarf til þess að vera sátt og það á við um bæði Íslendinga og Sýrlendinga. Fólk er misjafnt og það á ekki að gera fólk sem hingað flyst að almenningseign. Þetta er fólk frá stríðshrjáðum svæðum og það á ekki að þurfa að sætta sig við að litið sé niður á menningu þeirra. Að hún sé eitthvað verri en sú sem hér er, segir Þórunn en tekur fram að eðlilega eigi allir að fara að lögum og reglum í samfélaginu sem þeir búa í. 

Konurnar eru sammála um að viðhorf til múslima hafi breyst …
Konurnar eru sammála um að viðhorf til múslima hafi breyst í Evrópu. AFP

Komið ykkur út

Tveimur konum með höfuðklúta var gert að yfirgefa veitingastað í úthverfi Parísar nýverið af eiganda staðarins sem tjáði þeim að allir múslimar væru hryðjuverkamenn. Önnur konan tók ummælin upp á síma sinn en þar sést önnur konan segja: Við viljum ekki láta rasista þjóna okkur. Maðurinn svarar að bragði: Rasistar eins og ég koma ekki fyrir sprengjum og drepa ekki fólk. Hann bætir síðan við að hryðjuverkamennirnir séu múslimar og allir múslímar séu hryðjuverkamenn. „Ég vil ekki fólk eins og ykkur á staðnum mínum. Komið ykkur út.“

Konurnar settu myndskeiðið á samfélagsmiðla og endaði veitingahúsaeigandinn með því að biðja alla múslima afsökunar enda fór myndskeiðið víða með áskorunum um að sniðganga veitingastaðinn. Hvort afsökunarbeiðnin hefði borist ef myndskeiðið hefði ekki verið sett á samfélagsmiðla er önnur saga en málið er komið í rannsókn lögreglu þar sem það er lögbrot að mismuna fólki eftir trúarskoðunum í Frakklandi. 

Á sama tíma íhugar þjóðernisflokkur Geert Wilders, Frelsisflokkurinn (PVV) sem nýtur mestra vinsælda í skoðanakönnum fyrir fyrirhugaðar þingkosningar í Hollandi á næsta ári, að setja í stefnuskrá sína að moskum verði lokað í landinu og að Kóraninn verði bannaður í Hollandi.

mbl

Meðal stefnumála PVV er að snúa við þeirri íslamsvæðingu sem flokkurinn telur einkenna Holland. Meðal annars með því að loka landamærum, loka miðstöðvum fyrir hælisleitendur, banna flóttamenn frá múslimalöndum og banna múslimakonum að ganga með höfuðklúta. Allt stefnir í að flokkurinn stórauki fylgi sitt í komandi þingkosningum.

Wilders berst einnig fyrir því að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um útgöngu Hollands úr ESB og að allri erlendri þróunaraðstoð verði hætt en aukið fjármagn sett í öryggis- og varnarmál.

mbl

Hótað lífláti 

Sema Erla Sedar er ein af þeim sem hefur fengið að kenna á hatursorðræðunni hér á landi. Sema, sem er fædd á Íslandi, segir að hún hafi ekki orðið vör við fordóma af einhverri alvöru fyrr en í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga. Hún tengir það við áherslur borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins og flugvallarvina sem lögðust gegn byggingu mosku á lóð sem félag múslima hefur fengið úthlutað við Suðurlandsbraut. Fólk sem hafði kannski farið leynt með hatur sitt á múslimum fékk með útspili Framsóknar og flugvallavina ekki bara viðurkenningu á skoðunum sínum heldur tækifræi til þess að hella úr skálum reiði sinnar vegna fyrirhugaðrar moskubyggingar og kenndi múslimum um allt sem miður fór.

Sema, sem er ekki einu sinni múslimi, fer ekki varhluta af þessu hatri fólks og hún hefur þurft að þola óhugnanleg skrif á netinu þar sem henni hefur meðal annars verið hótað lífláti og pyntingum.

Eins fær hún ekki svefnfrið sumar nætur fyrir fólki sem telur nauðsynlegt að segja henni skoðun sína á henni og múslimum. „Ætli þetta hafi ekki mest með nafn mitt og uppruna að gera en pabbi minn er frá Tyrklandi og þar á ég auðvitað mína föðurfjölskyldu. En hún er ekkert öðruvísi en flestar íslenskar fjölskyldur – trúmál eru ekki mikið rædd við matarborðið,“ segir Sema og bætir við að pabbi hennar og fjölskyldan hafi mun meiri áhuga á fótbolta en trúmálum. Pabbi Semu hefur búið á Íslandi í meira en þrjátíu ár og Sema, sem er fædd á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, er skírð og fermd á Íslandi og ólst hér upp.

Þórunn Ólafsdóttir hefur unnið sem sjálfboðaliði í flóttamannabúðum í Grikklandi.
Þórunn Ólafsdóttir hefur unnið sem sjálfboðaliði í flóttamannabúðum í Grikklandi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Er stoltur Íslendingur og Tyrki

„Ég er Íslendingur og ég er Tyrki,“ segir Sema sem segist ekki vera hálfur Íslendingur eða hálfur Tyrki heldur bæði Íslendingur og Tyrki. Ég hef alltaf ræktað það mjög vel og er í góðu sambandi við fjölskyldur mínar á Íslandi og í Tyrklandi. Það er mín trú að það séu algjör forréttindi að tilheyra tveimur stórum mismunandi menningarheimum. „Ég tel að það hafi mótað mann og gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Í mínu uppeldi hef ég lært að fólk er alls konar og það er af hinu góða.“ 

Hún segist hafa átt von á einhverju þegar hún hóf afskipti af samfélagsumræðu á sínum tíma en það hafi ekki hvarflað að henni að umræðan yrði jafnrætin og hún hefur verið undanfarin misseri. Sema segir mikilvægt að kæfa svona umræðu í fæðingu og gæta þess að þessi umræða smitist ekki til næstu kynslóða. Því allir viti að það fæðist enginn með fordóma. Það sé mikilvægt að krakkar fái fræðslu um fjölmenningu og að allir einstaklingar séu jafnir. Þar eigi ekki að skipta máli þjóðerni, trú, kynferði eða kynþáttur. Þeir krakkar og unglingar sem hún hafi rætt við eru sammála þessu enda börn og unglingar oft opnari en þeir sem eldri eru. Á sama tíma þurfi börn að þola það, til að mynda ef þau eru í strætó, að hlusta á þáttastjórnendur á ákveðinni útvarpsstöð ausa út úr sér svívirðingum í garð þeirra sem eru annarrar trúar en þeir. Svívirðingum sem eru fullar af fordómum í garð þeirra sem geta kannski ekki varið sig.

Fjölmörg ríki í Evrópu hafa skellt í lás og hleypa …
Fjölmörg ríki í Evrópu hafa skellt í lás og hleypa engum yfir landamærin án skilríkja. AFP

„Við erum farin að sjá hreyfingar spretta hér upp sem vilja skerða trúfrelsi og önnur stjórnarskrárvarin réttindi og leggja bann við því sem ekki samrýmist kristnum gildum, hver svo sem þau eru. Þetta er mjög alvarlegt og ég held að kosningabaráttan fyrir komandi þingkosningar muni litast af málefnum flóttafólks og innflytjenda. Mér finnst hræðilegt ef kosningabaráttan fer að snúast um eitthvað sem á að vera sjálfsögð mannúð. Íslandi ber siðferðisleg skylda, eins og öðrum ríkjum, að leggja hönd á plóginn við að hjálpa öðrum,“ segir Sema.

Hún segir að það sé líka óþolandi þegar talað er um flóttamannavandann en ekki málefni flóttamanna sem gefur til kynna að flóttamenn séu eitthvert vandamál. „Það eru ekki flóttamennirnir sjálfir sem eru vandamálið. Vandamálið er fyrst og fremst að fólk þurfi að flýja og það sem þau eru að flýja. Við erum fyrst og fremst öll fólk og öll mannslíf skipta máli,“ segir Sema Erla Sedar.

Það bíða engin blóm eftir flóttafólki á landamærum Ungverjalands heldur …
Það bíða engin blóm eftir flóttafólki á landamærum Ungverjalands heldur vopn. AFP

2015 verður ekki endurtekið

„Í fyrstu var heimurinn áfjáður í að hjálpa flóttafólki. En það entist ekki einu sinni í mánuð. Í reynd versnaði ástandið. Stríðið hefur stigmagnast og fleira fólk er að fara. Ég vona að leiðtogar heimsins reyni að gera allt sem þeir geta til þess að stöðva stríðið svo fólk geti snúið aftur til eðlilegs lífs,“ segir Abdullah Kurdi, í viðtali við BBC á föstudaginn. Ári eftir að líki þriggja ára sonar hans, Aylan Kurdi, skolaði á land á tyrkneskri baðströnd. Abdullah var sá eini í fjölskyldunni sem lifði af flóttann, kona hans og synir drukknuðu.

Flokkur Angelu Merkel, Kristilegir demókratar (CDU), háir harða baráttu um hylli kjósenda sem virðast í æ ríkara mæli sjá Frauke Petry með sitt útlendingahatur sem framtíðarleiðtoga Þýskalands í stað Merkel sem þykir táknmynd þess að bjóða flóttafólk velkomið. Á föstudag greindi Merkel framkvæmdastjórn CDU frá því að 2015 myndi ekki endurtaka sig. Önnur bylgja flóttafólks muni ekki ná til Þýskalands aftur.

Angela Merkel kanslari Þýskalands sagði við flokksstjórn CDU fyrir helgi …
Angela Merkel kanslari Þýskalands sagði við flokksstjórn CDU fyrir helgi að árið 2015 myndi ekki endurtaka sig. AFP

Forseti Evrópusambandsins, Donald Tusk, tók í svipaðan streng á fundi leiðtoga G-20 ríkjanna í Kína í dag. Hann segir Evrópu vera að nálgast þolmörk hvað varðar móttöku flóttafólks og hann segir að alþjóðasamfélagið verði að bregðast við í sameiningu. Á sama tíma berast fleiri og fleiri fréttir um andúð sem fólk af öðrum uppruna en evrópskum verður fyrir. Árásir íslamskra öfgamanna í álfunni hafa ekki dregið þar úr og andstæðingum alþjóðavæðingar vex ásmegin í flestum ríkjum Evrópu. Stundum hefur ekki þurft mikið til – kannski ekki annað en klæðaburð á baðströnd.

Hart hefur verið deilt um sundfatnað í Evrópu undanfarið. Sundfatnaðurinn sem um ræðir nefnist búrkíní og var upphaflega hannaður fyrir konur íslamstrúar. Bæjaryfirvöld í meira 30 frönskum bæjum töldu klæðnaðinn hylja of mikið og lögðu bann við notkun hans á baðströndum. Þessu hafnaði æðsti dómstóll Frakklands og sýnist hverjum sitt um búrkíní-bannið.

AFP

Hrækt á hana nánst daglega

En hvað segja evrópskar konur sem eru íslamstrúar? Blaðamönnum New York Times lék forvitni á að fá svar við því og svörin komu eiginlega á óvart. Því það kom svo margt annað fram í svörum þeirra. Því margar þeirra heyja baráttu á hverjum degi fyrir tilvist sinni í landi sem þær eru fæddar í.

„Í mörg ár höfum við þurft að þola illskulegt augnaráð og hótanir,“ skrifar Taslima Amar, þrítugur kennari í Pantin, úthverfi Parísar. „Mér hefur verið sagt að fara aftur heim (jafnvel þó svo ég sé heima hjá mér).“ Amar er fædd í Frakklandi en hún og eiginmaður hennar íhuga að flytja frá Frakklandi út af hatrinu sem mætir þeim og öðrum múslimum.

AFP

Konurnar eru sammála um að viðhorf til múslima hafi breyst í Evrópu. Svo virðist sem þeir sem áður héldu rasískum hugmyndum sínum leyndum hiki ekki við að deila þeim með öðrum. Hvort sem fólk hafi áhuga á að hlusta á. Ein lýsir því að hún hafi orðið fyrir því að það sé hrækt á hana nánast daglega í almenningssamgöngum og aðrar greina frá því hvernig hreytt er í þær fyrir það eitt að vera múslimar. 

Har­ald­ur Nor­egs­kon­ung­ur gladdi þá sem á hlýddu þegar hann sagði Nor­eg vera stað fyr­ir alla. Þar skipti engu hvaðan þeir kæmu, hverr­ar trú­ar þeir væru, kyn­hneigð eða jafn­vel smekk­ur þeirra á tónlist.

Nor­egs­kon­ung­ur ávarpaði ný­verið 1500 gesti í garðveislu við kon­ungs­höll­ina. Þar kom hann inn á umræðu sem hef­ur verið há­vær í Nor­egi, þeir og við - inn­flytj­end­ur í Nor­egi.

Har­ald­ur kon­ung­ur lagði á það áherslu í ræðu sinni að Nor­eg­ur sam­tím­ans væri fyr­ir alla. Norðmenn komi úr norðri, suðri og öll­um héruðum land­ins. Norðmenn eru einnig inn­flytj­end­ur frá Af­gan­ist­an, Pak­ist­an, Póllandi, Svíþjóð, Sómal­íu og Sýr­landi, sagði hann.  

„Norðmenn eru stúlk­ur sem eru ást­fangn­ar af stúlk­um. Pilt­ar sem eru ást­fangn­ir af pilt­um og pilt­ar og stúlk­ur sem eru ást­fang­in hvort af öðru,“ bætti hann við. „Norðmenn trúa á Guð, Allah, allt og ekk­ert.“  

„Með öðrum orðum Nor­eg­ur ert þú. Nor­eg­ur erum við.“

Næstu daga verður fjallað frekar um hatursorðræðu og stöðu flóttafólks í Evrópu á mbl.is.

Grein 1: Í upphafi var orðið og svo kom blóðið

Grein 2: „Þú ert dauður“

Margar konur sem eru íslamstrúar í Evrópu þurfa á hverjum …
Margar konur sem eru íslamstrúar í Evrópu þurfa á hverjum degi að þola hatursfullt augnaráð eða það er jafnvel hrækt á þær. AFP
mbl.is