Hvað er hungursneyð?

Suður-Súdan | 28. febrúar 2017

Hvað er hungursneyð?

Allt frá Rómarveldi til forna og til dagsins í dag hefur mannkynið þurft að þola tímabil hungurs vegna þurrka, stríða og misráðinna stjórnmála. 

Hvað er hungursneyð?

Suður-Súdan | 28. febrúar 2017

Vannæring barna er alvarlegt vandamál í Suður-Súdan. Margir hafa lagt …
Vannæring barna er alvarlegt vandamál í Suður-Súdan. Margir hafa lagt á flótta með börn sín, m.a. til Súdan og Úganda. AFP

Allt frá Rómarveldi til forna og til dagsins í dag hefur mannkynið þurft að þola tímabil hungurs vegna þurrka, stríða og misráðinna stjórnmála. 

Allt frá Rómarveldi til forna og til dagsins í dag hefur mannkynið þurft að þola tímabil hungurs vegna þurrka, stríða og misráðinna stjórnmála. 

Í síðustu viku var lýst yfir hungursneyð í Suður-Súdan. Það hefur ekki verið gert í sex ár. Um 100 þúsund manns eiga á hættu að deyja úr sulti. Um 7,5 milljónir þurfa á mataraðstoð að halda. 

En hvað þýðir hungursneyð og hvenær er slíku hættuástandi lýst yfir?

„Hungursneyð er orð sem við notum ekki að gamni okkar,“ segir Erminio Sacco, sérfræðingur hjá Landbúnaðar- og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO.

Frá árinu 2007 hefur hugtakið verið notað af alþjóðastofnunum út frá ákveðnu vísindalegu kerfi og flokkun sem kallast IPC (Integrated Food Security Phase Classification).

Samkvæmt kerfinu ríkir hungursneyð þegar að minnsta kosti 20% mannfjölda á ákveðnu svæði hefur mjög takmarkaðan aðgang að undirstöðu matvælum, þegar alvarleg vannæring nær til um 30% fólksins og fleiri en tveir af hverjum 10.000 deyja á hverjum degi.

„Þessi skilgreining kemur í veg fyrir að hugtakið hungursneyð sé misnotað í pólitískum tilgangi,“ segir Sacco.

Hvar hefur orðið hungursneyð?

Á síðustu öld varð hungursneyð í Kína, Sovétríkjunum, Íran og Kambódíu. Oftast voru það mannanna verk sem ollu henni.

 Á miðöldum varð nokkrum sinnum hungursneyð í Evrópu en nýjasta dæmið er frá heimsstyrjöldunum, bæði þeirri fyrri og þeirri síðari. Þá svalt fólk í Þýskalandi, Póllandi og Hollandi vegna stríðsins og aðgerða sem gripið var til í því.

Á síðustu áratugum hefur alloft orðið hungursneyð í Afríku. Á áttunda áratugnum svalt fólk í Biafra og Nígeríu og snemma á þeim níunda í Eþíópíu. Það var í fyrsta sinn sem frægt fólk lét til sín taka opinberlega við neyðarsöfnun og hungursneyðin fékk alheimsathygli.

Síðasta hungursneyðin í álfunni var í Sómalíu árið 2011. Talið er að 260 þúsund manns hafi látist vegna hennar. 

Hvers vegna er enn hungursneyð í dag?

 Búið er að lýsa yfir hungursneyð á svæðum í Suður-Súdan en Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að slík neyð geti einnig skollið á í Nígeríu, Sómalíu og Jemen innan skamms og ná til um 20 milljóna manna.

„Samnefnarinn á öllum þessum svæðum eru vopnuð átök og takmarkaður aðgangur að matvælum, tækifærum til akuryrkju og annars landbúnaðar, viðskiptum og síðast en ekki síst, takmarkaður aðgangur að neyðaraðstoð,“ segir Sacco.

Á öllum þeim fjórum svæðum sem óttast er að hungursneyð bresti á eru þurrkar aðeins skýringin á einum stað, þ.e. í Sómalíu. Annars staðar eru það átök sem valda neyðinni.

Hvernig er að búa við hungursneyð?

Á síðustu þremur árum hafa íbúar Suður-Súdans þurft ítrekað að leggja á flótta. Þeir hafa þurft að fela sig í fenjunum, hafa misst heimili sín og lífsviðurværi, s.s. búpening og akra. Þar sem enginn matur er fáanlegur þvælist fólk um og leitar að einhverju til að borða í náttúrunni, s.s. rótum, ávöxtum og fiski. 

Flóttamenn í Suður-Súdan fá vatn í flóttamannabúðum við landamærin að …
Flóttamenn í Suður-Súdan fá vatn í flóttamannabúðum við landamærin að Súdan. AFP

 Fólkið þarf að leita á svæðum þar sem vopnaðir hópar halda til. Áhættan er því gríðarleg. „Fólkið er mjög veikburða, svangt og hefur drukkið óheilnæmt vatn úr tjörnum og ám,“ segir Sacco. Kólerufaraldur vofir einnig yfir.

 Hvað þýðir það að deyja úr hungri?

 Þegar skortur á mat hefur leitt til þess að fólk hefur misst 18% af líkamsþyngd sinni fer lífeðlislegrar truflunar á líkamsstarfsemi að verða vart. Öll efnaskipti líkamans fara úr skorðum sem hefur áhrif á heilann og önnur mikilvæg líffæri. Á vissum tímapunkti er nauðsynlegt að veita sérhæfðri meðferð til að bjarga lífi fólks þar sem líkami þeirra getur ekki lengur unnið úr hefðbundnum mat. 

 Þegar fólk hefur ekki nægan mat í nokkrar vikur fara líffærin að bila. Að lokum leiðir hungrið til dauða. 

Í Suður-Súdan er hungursneyðin af mannavöldum. Stríð geisar og fólk …
Í Suður-Súdan er hungursneyðin af mannavöldum. Stríð geisar og fólk hefur misst lífsviðurværi sitt. AFP

Hver eru áhrifin til langs tíma?

Þó að hungursneyð sé ekki alltaf lýst yfir búa íbúar á Sahel-svæðinu, Sómalíu og Eþíópíu, reglulega við hungur um tíma sem hefur langtíma afleiðingar á samfélögin.

Sacco segir að næringarskorturinn hafi bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar, börn þroskist ekki eðlilega, þau vaxi því ekki heilbrigð úr grasi, geti lítið unnið sem fullorðið fólk og nái litlum árangri í námi. Hann segir að mörg dæmi séu um að þessir einstaklingar glími við heilsufarsvandamál allt sitt líf, bæði andleg og líkamleg. 

mbl.is