Milljón flýr frá Suður-Súdan til Úganda

Suður-Súdan | 17. ágúst 2017

Milljón flýr frá Suður-Súdan til Úganda

Borgarastríðið í Suður-Súdan hefur neytt rúma milljón manns til að flýja til nágrannaríkisins Úganda og milljón manna til viðbótar hefur leitað hælis annars staðar.

Milljón flýr frá Suður-Súdan til Úganda

Suður-Súdan | 17. ágúst 2017

Kaupmaður selur baunir í Al-Nimir flóttamannabúðunum í Austur-Darfur þar sem …
Kaupmaður selur baunir í Al-Nimir flóttamannabúðunum í Austur-Darfur þar sem fjöldi suður-súdanskra flóttamanna dvelja. AFP

Borgarastríðið í Suður-Súdan hefur neytt rúma milljón manns til að flýja til nágrannaríkisins Úganda og milljón manna til viðbótar hefur leitað hælis annars staðar.

Borgarastríðið í Suður-Súdan hefur neytt rúma milljón manns til að flýja til nágrannaríkisins Úganda og milljón manna til viðbótar hefur leitað hælis annars staðar.

Þetta segir í skýrslu Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Aðkallandi þörf sé fyrir aukin fjárframlög til aðstoðar vegna straums flóttamanna sem leita til Úganda til að forðast átökin, en mikill meirihluti þeirra er konur og börn.

Síðastliðið ár hafa 1.800 Suður-Súdanir komið til Úganda á degi hverjum samkvæmt upplýsingum UNHCR.

Borgarastríð hófst í þessu unga ríki í desember 2013, aðeins tveimur árum eftir að Suður-Súdan fékk sjálfstæði. Frá þeim tíma hafa þúsundir manna verið drepnar og milljónir hrakist frá heimilum sínum.

UNHCR segir að auk þeirra milljón Suður-Súdana sem nú séu flóttamenn í Úganda hafi milljón til viðbótar flúið til Súdans, Eþíópíu, Kenía, Kongó og Mið-Afríkulýðveldisins.

Þá hafi tvær milljónir til viðbótar flúið heimili sín og leitað hælis annars staðar í landinu.

85% þeirra sem leitað hafa hælis í Úganda eru konur og börn undir 18 ára aldri.

„Þeir sem komið hafa undanfarið tala enn um hrottalegt ofbeldi vopnaðra hópa sem brenni hús til grunna með íbúa innandyra, fólk sé myrt fyrir framan fjölskyldumeðlimi, konum og stúlkum sé misþyrmt kynferðislega og drengjum rænt og þeir neyddir til herþjónustu,“ segir í yfirlýsingunni.

Varar Flóttamannahjálpin við því að flóttamenn komi enn í þúsundatali og þau hjálpargögn sem hægt sé að færa þeim fari sífellt minnkandi.

Telur stofnunin þörf á um 674 milljóna dollara framlagi í ár til að aðstoða þá flóttamenn sem leitað hafa hælis í Úganda. Til þessa hefur UNHCR hins vegar bara hlotið fimmtung þess fjármagns.

Í júní á þessu ári hafi Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna þurft að skera niður mataraðstoð til flóttamanna í landinu og lítið framboð sé á læknum, hjúkrunarfólki og lyfjum.

mbl.is