Þjóðin greinda

Samfélagsmál | 2. desember 2017

Þjóðin greinda

Hvergi í Evrópu er jafnhátt hlutfall barna skilgreint með sérþarfir eins og á Íslandi. Framkvæmdastjóri Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir segir að taka verði á þessu vandamáli. Þetta er meðal þess sem kom fram í alþjóðlegri úttekt sem kynnt var fyrr á árinu.

Þjóðin greinda

Samfélagsmál | 2. desember 2017

Ef barn er greint með ADHD eða aðrar raskanir fá …
Ef barn er greint með ADHD eða aðrar raskanir fá skólarnir aukið fjármagn til þess a veita viðkomandi stuðning. Þetta skapar þrýsting á greiningar. mbl.is/Hari

Hvergi í Evrópu er jafnhátt hlutfall barna skilgreint með sérþarfir eins og á Íslandi. Framkvæmdastjóri Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir segir að taka verði á þessu vandamáli. Þetta er meðal þess sem kom fram í alþjóðlegri úttekt sem kynnt var fyrr á árinu.

Hvergi í Evrópu er jafnhátt hlutfall barna skilgreint með sérþarfir eins og á Íslandi. Framkvæmdastjóri Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir segir að taka verði á þessu vandamáli. Þetta er meðal þess sem kom fram í alþjóðlegri úttekt sem kynnt var fyrr á árinu.

Á Íslandi ríkir sú stefna að skóli skuli vera án aðgreiningar, en það þýðir að allir skuli hljóta sömu menntun við sömu aðstæður. Evrópumiðstöð um skóla án aðgreiningar og sérþarfir vann í fyrra úttekt á stefnunni hér á landi. Úttektin náði til leik-, grunn- og framhaldsskólastiga, en kannað var hvernig til hefur tekist við innleiðingu hugmyndafræðinnar.

„Mennta­kerfið á Íslandi er vel fjár­magnað miðað við önn­ur lönd í Evr­ópu. Hins veg­ar þarf að end­ur­hugsa hvernig því er varið og láta það styðja bet­ur við stefnu um mennt­un án aðgrein­ing­ar,“ seg­ir doktor Cor J. W. Meijer, for­stöðumaður Evr­ópumiðstöðvar um mennt­un án aðgrein­ing­ar, um niður­stöðu út­tekt­ar miðstöðvar­inn­ar á fram­kvæmd á stefnu um mennt­un án aðgrein­ing­ar á Íslandi. Skýrslan var kynnt í byrjun mars.

Að meðaltali eru 2,3% barna í Evrópu í aðgreindum skólum eða skólastofum. Hér á landi er hlutfallið 1,3%. Aftur á móti eru mörg börn á Íslandi greind með sérþarfir, um 16% barna. Meijer telur að það geti ekki staðist að 16% íslenskra barna séu með sérþarfir. Annars staðar í Evrópu er þetta hlutfall 5-7%.

Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, og Ingibjörg Georgsdóttir …
Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, og Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir. mbl.is/ Hari

Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir og Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, segja að gera megi ráð fyrir að 2-5% barna glími við alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar. 

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins var sett á laggirnar árið 1986 og starfar í dag skv. lögum frá 2003. Stöðinni er ætlað að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar, sem geta leitt til fötlunar síðar á ævinni, fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra.

„Þegar börn koma til okkar eru þau búin að fara í gegnum fleiri en eitt ferli og komin á það stig að þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda. Foreldrar geta ekki pantað tíma hjá okkur en börnum er vísað hingað af sérfræðingum. Við fáum börn til okkar allt frá fæðingu ef ljóst er að þau eru með alvarleg meðfædd frávik í miðtaugakerfi eða heilkenni, börn sem þroskast seint eða veikjast alvarlega, svo sem vegna flogaveiki o.fl. Börnin sem hingað koma eru því allt frá nýburum til átján ára aldurs,“ segir Ingibjörg.

Langur biðlisti eftir greiningum

Soffía segir að stærsti hópurinn sé á leikskólaaldri, tveggja til sex ára. „Við fáum yfirleitt 350-400 tilvísanir á ári og náum að veita um 300 börnum á  ári þverfaglegar greiningar. Vandinn er sá að við erum ekki fjármögnuð til þess að sinna svo stórum hópi barna.

Það verður til þess að biðlistar myndast og það kemur óneitanlega niður á öðrum þáttum þjónustunnar svo sem ráðgjöf. Því eðlilega hefur þessi mikli fjöldi barna sem kemur í greiningu verið á kostnað annarra verkefna,“ segir Soffía.

Börn læra hvert af öðru.
Börn læra hvert af öðru. mbl.is/Hari

Þær segja að þegar leikskóla- og skólabörnum er vísað til þeirra sé búið að gera grunnathugun af hálfu sálfræðings viðkomandi leik- eða grunnskóla sem sendir Greiningarstöðinni ítarlega greinargerð um athuganir sínar.

Ef grunur er um þroskahömlun, einhverfu eða hreyfihömlun er tilvísunin samþykkt og barninu er vísað inn á fagsvið stofnunarinnar.

Biðin eftir ítarlegri greiningu hefur gjarnan verið um eitt ár, segir Soffía en núna er biðtíminn um 18 mánuðir hjá börnum sem eru 2ja til sex ára en eitt ár hjá þeim sem eru eldri. „Þetta þýðir að barn sem er kannski tveggja ára þegar það fer á biðlista er nánast jafnlengd ævi sinnar á biðlista og er að nálgast fjögurra ára aldur þegar það kemst loks að,“ segir Soffía.

Ingibjörg segir að þetta sé allt of langur biðtími eftir greiningu en yngstu börnin, sem eru um 20 talsins á ári, komist beint inn. Það eru nýburar eða börn á fyrsta ári og ekki í boði að láta fólk sem er kannski eitt heima með barn sem ekki þroskast eðlilega vera án stuðnings.

„Það barn fær stuðning frá hópi sérfræðinga sem starfa hér og við höldum utan um það allt frá upphafi sem og foreldra þeirra,“ segir Ingibjörg en foreldrar með fatlað barn fá oft lítinn stuðning frá sveitarfélagi fyrr en barnið er komið í leikskóla. Þar aftur á móti er stuðningurinn góður og þjónustan markviss.

Í fyrra voru rúmlega 400 börn í þörf fyrir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni og náðist að veita rúmlega 300 þeirra þjónustu. Önnur höfnuðu á biðlistanum. Ástandið er ekkert betra í ár en flest þeirra barna sem vísað er á Greiningarstöð eru með samþættan vanda, þroskafrávik og einhverfu.

Nokkuð er um að grunur vakni um þroskahamlanir hjá börnum þegar þau koma í grunnskóla og verkefnin fara að þyngjast og það kemur í ljós að barnið er ekki á sama þroskastigi og flest önnur börn í bekknum.

Á Íslandi ríkir sú stefna að skóli skuli vera án …
Á Íslandi ríkir sú stefna að skóli skuli vera án aðgreiningar, en það þýðir að allir skuli hljóta sömu menntun við sömu aðstæður. mbl.is/Hari

Einhverfueinkenni geta farið vaxandi

„Svo erum við með stálpaða krakka sem vaxa inn í meiri erfiðleika – hafa kannski verið á mörkum greiningar þegar þau voru yngri en með hækkandi aldri geta einhverfueinkenni farið vaxandi,“ segir Ingibjörg og bætir við að stundum geti greiningar breyst með hækkandi aldri. Ekki að það hafi verið ranggreint heldur er hvert barn einstakt og getur birtingarmynd erfiðleika verið mjög mismunandi frá einum tíma til annars.

Oft er líka ekki bara um eina röskun að ræða. Geðrænir erfiðleikar barna eru oft kallaðir mildari hugtökum þegar þau eru yngri, svo sem aðskilnaðarkvíði, en þegar þau eldast og vinna ekki úr þessu þá setjum við upp önnur gleraugu og horfum á hvers vegna barnið þroskast ekki frá þessari hegðun og atferli,“ segir Ingibjörg en geðrænir erfiðleikar koma oft í ljós á unglingsárum.

Hækka þarf aldursmörkin

„Ef grunur vaknar um einhverfu eða þroskahömlun á unglingsárum þá miðast starf okkar við 18 ára en einmitt þessi börn eru oft seinni í þroska og eru eins og þau séu yngri og þurfa  stuðning lengur en til 18 ára aldurs. Við erum öll sammála um að það þyrfti að hækka þessi aldursmörk í 20-24 ára því við þurfum að gera meira fyrir þessi ungmenni en núna er í boði,“ segir Ingibjörg.

Í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017 – 2021 sem samþykkt var á Alþingi í vor er ein aðgerð um að hækka aldursmarkið hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð en það er tengt lagabreytingu og við getum ekki gert neitt fyrr en lögum er breytt. Hvað ef barnið er orðið 18 ára og það ræðst ekki neitt við neitt? Þá er hætta á að ekkert annað sé í boði en að sækja um örorku,“ segir Soffía.

Þær benda á að íslenskt samfélag sé sérstakt að því leyti hvað illa gengur að færa ákveðna heilbrigðisþjónustu undir sjúkratryggingar. „Við eigum engin svör við því annað en að það væri gott að stofnanir eins og við og BUGL fengjum að sinna þeim fram yfir 18 ára ef þörf er á. En þetta snýst enn og aftur um fjármagn,“ segir Soffía.

Eitt af markmiðum sem er að finna í fjármálaáætlun 2018 til 2022 er að börn með fjölþættan vanda og fjölskyldur þeirra fái stuðning. „Þannig að þetta er komið á áætlun og mikilvægt að ráðuneytin komi þessu af stað svo undirstofnanir þeirra geti sinnt hlutverki sínu. Við teljum mikilvægt að hér verði sett heilsteypt framkvæmdaáætlun í félags-, mennta- og heilbrigðiskerfinu í stað þess að þjónustan dreifst um víðan völl,“ segir Soffía.

Biðlistar gera allt starf greiningarstöðva erfitt alveg eins og þeir …
Biðlistar gera allt starf greiningarstöðva erfitt alveg eins og þeir gera líf einstaklinga sem bíða eftir greiningu erfitt. mbl.is/Hari

Biðin getur reynst erfið eftir greiningu og segja Soffía og Ingibjörg mikilvægt að sveitarfélögin, sem annast frumgreiningu þar sem leik- og grunnskólar eru á þeirra forræði, sinni skjólstæðingum sínum strax eftir að frumgreining liggur fyrir. 

Flest sveitarfélög geri það í dag en þeir sem eiga stálpaða krakka hafi sumir ekki búið svo vel og fengu ekki stuðning fyrir börn sín fyrr en þau höfðu fengið greiningu.

Gyða Sigurlaug Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarmiðstöðvar heilsugæslunnar.
Gyða Sigurlaug Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarmiðstöðvar heilsugæslunnar. mbl.is/Hari

Gyða Sigurlaug Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar heilsugæslunnar, tekur undir með þeim varðandi nauðsyn þess að gripið sé til aðgerða strax og barn ekki látið bíða eftir greiningu. Eins nauðsyn þess að setja heildstæð lög og stefnu varðandi þjónustu við börn sem glíma við frávik eða aðra erfiðleika á sviði geðheilbrigðis, þroska og hegðunar.

Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) veitir þjónustu vegna barna sem glíma við frávik eða aðra erfiðleika í þroska, hegðun eða líðan. Sinnt er greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna raskana hjá börnum að 18 ára aldri. Hjá ÞHS er börnum með ADHD sinnt en þangað koma einnig börn með aðrar raskanir.

Hvað með þau 15-20% sem glíma við fjölþættan vanda?

„Það vantar heildstæða stefnumótum og lög frá yfirvöldum en þjónustan er inni í tveimur ráðuneytum: velferðar- og menntamálaráðuneyti. En ráðherrarnir eru þrír. Ákvæði varðandi þennan málaflokk er víða að finna í lögum en engin heildstæð lög, aðeins bútasaumur.

Í geðheilbrigðisáætlun, sem tók gildi árið 2016, kemur fram að styrkja þurfi grunnþjónustuna sem 80-85% barna falla undir og eins þjónustu við þau börn sem þurfa mesta aðstoð, sem eru 3-5% barna yngri en 18 ára. Aftur á móti er ekki talað um að auka stuðning við þau 15-20% sem eru okkar skjólstæðingar.

Þessi  hópur barna glímir við vanda svo sem ADHD, hegðunarvanda, kvíða og einhverfueinkenni og þarf á sérhæfðri aðstoð að halda. Þessi þjónusta var áður að miklu leyti í höndum barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL). Með aukinni þekkingu og skilningi á vandanum var fleiri og fleiri börnum vísað í greiningu og því lengdist alltaf biðlistinn á BUGL, sérstaklega eftir greiningu á ADHD. Að lokum varð það samdóma álit fagfólks og ráðuneyta að flytja greiningu á ADHD og skyldum röskunum hjá börnum frá BUGL til okkar á ÞHS,“ segir Gyða.  

Stundum vaknar grunur um þroskahamlanir hjá börnum þegar þau koma …
Stundum vaknar grunur um þroskahamlanir hjá börnum þegar þau koma í grunnskóla og verkefnin fara að þyngjast. mbl.is/Hari

Í dag er boðið upp á sérkennslu í leikskólum og grunnskólum, segir Ingibjörg en starfið er sterkara í leikskólum þar sem tengslin og nálgunin er meiri. „Við erum á réttri leið en sporin eru mörg og okkur miðar hægt. Síðan er erfitt að fá starfsfólk ekki síst fagfólk. Þar sem þetta er vel gert og vel mannað þá er þjónustan mjög góð og oft betri en það sem gengur og gerist erlendis. Hér á Íslandi ríkir mikil fagmennska bæði í starfi grunn- og leikskóla sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Hins vegar háir það okkur og þeirri þjónustu sem börnin fá sú skipting á kerfinu í þrennt, þ.e. mennta-, heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem hér er. Þetta getur haft neikvæð áhrif á þjónustuna sem barnið fær og myndi skipta miklu máli ef ein heildarstefna væri við lýði í stað þessarar þrískiptingar.“

Soffía og Ingibjörg segja að börn komi til þeirra allt …
Soffía og Ingibjörg segja að börn komi til þeirra allt frá fæðingu til átján ára aldurs. mbl.is/ Hari

Skóli skilgreindur án aðgreiningar samt án fagfólks

Gyða, Ingibjörg og Soffía eru sammála um að horfa þurfi á menntun kennara. Þeir fái menntun sem eigi vel við um almenna kennslu en á sama tíma er skólinn skilgreindur án aðgreiningar sem þýðir að nánast öll börn fara inn í almenna skóla. Óraunhæft er að ætlast til þess að kennari geti tekið á öllum þeim vanda sem getur fylgt barni með fjölþættan vanda og greiningar. Nauðsynlegt sé að fá fólk með breiða fagþekkingu til starfa innan skólakerfisins til þess að hugtakið skóli án aðgreiningar standist.

Ingibjörg er á því að það verði að vera sérdeildarúrræði til innan skólakerfisins. „Á sama tíma er ég raunsæ og veit að það geta ekki allir skólar boðið upp á slík úrræði. Við ættum að leyfa foreldrum að velja – að barnið geti farið annaðhvort í hefðbundið nám eða ef námið er of erfitt og hentar viðkomandi barni ekki að það geti farið í sérdeild ef það hentar best en við erum ekki að bjóða fólki upp á þetta val. Engum er greiði gerður með að setja börn í aðstæður sem þau ráða ekki við og börn sem eru með þroskaskerðingu þurfa á þekkingu að halda,“ segir Ingibjörg.

„Við þurfum að fjölga fagfólki með fjölbreytta menntun að baki í skólakerfið,“ segir Soffía og bætir við að íslenskt skólakerfi sé hins vegar ekki komið á þann stað.

Börn læra hvert af öðru og þau læra af fyrirmyndunum og umhverfi sínu og það getur haft jákvæð áhrif á alla en um leið getur þetta einangrað ákveðinn hluta nemenda, segja þær Soffía og Ingibjörg.

Hvergi í Evrópu er jafnhátt hlutfall barna skilgreint með sérþarfir …
Hvergi í Evrópu er jafnhátt hlutfall barna skilgreint með sérþarfir eins og á Íslandi. mbl.is/Hari

Frumgreining vegna ADHD og svipaðra raskana sem koma til kasta ÞHS er gerð af  skólasálfræðingum og fagaðilum í heilbrigðis-, fjölskyldu- og félagsþjónustu og að sögn Gyðu er yfirleitt ekki lengur komið með börn á leikskólaaldri í greiningar á ÞHS.

Nánari greining er fyrir grunn- og framhaldsskólabörn að 18 ára aldri ef frumgreining bendir sterklega til athyglisbrests, ofvirkni (ADHD) eða skyldra raskana, svo sem tilfinningavanda, hegðunarerfiðleika eða samskiptavanda.

Styttri biðlistar hjá ÞHS eftir átak 

Á hverju ári er óskað eftir nánari greiningu á 550-600 börnum og í dag eru um 250 á biðlista eftir slíkri greiningu hjá ÞHS. Í fyrra og í ár var farið í sérstakt átak til að vinna á biðlistum enda var biðin stundum allt að 14 mánuðir. Vel hefur gengið stytta biðlista og fóru um 500 börn í gegnum greiningu hjá ÞHS í fyrra. Á sama tíma hefur þurft að draga úr annarri þjónustu.

Í ár er fyrsta árið, frá því ADHD-greiningar voru færðar til ÞHS árið 2006, sem beiðnum um greiningar fjölgar ekki en þær eru álíka margar í ár og í fyrra eftir mikla fjölgun síðustu ár.

Börn sem eru í forgangi þurfa yfirleitt að bíða á biðlista í þrjá mánuði en almennt er biðin um tíu mánuðir í dag í stað 12-14 mánaða áður. Stærsti hópurinn sem kemur í greiningu er á aldrinum 8-12 ára en eitthvað um framhaldsskólanemendur sem og elstu árganga grunnskólans.

Hver sér um hvað snýst oft um fjármagn.
Hver sér um hvað snýst oft um fjármagn. mbl.is/Hari

Gyða segir að kvíði sé orðinn algengari hjá börnum og hann sé vandi sem ekki hafi bara aukist heldur færst neðar í aldri.

Margar skýringar séu á þessu, meðal annars mikil notkun á snjallsímum og öðrum tækjum sem meðal annars hafi í för með sér aukið aðgengi barna að upplýsingum, svo sem fréttum sem vekja með þeim kvíða. Samfélagsmiðlar skipta miklu máli þar sem þau reyna að ná sér í sem flest „like“. „Börn eru fyrst og fremst of lengi fyrir framan skjái sem er mjög óhollt fyrir þau.“

Að sögn Gyðu hefur ÞHS hert kröfur til frumgreininga og að vinna þurfi með barninu innan skóla í að minnsta kosti hálft ár eftir að frumgreining liggur fyrir og þangað til vísað er til ÞHS.

„Ef áhyggjur eru fyrst og fremst af öðrum frávikum, svo sem greindarskerðingu, málþroskaröskun eða sértækum námserfiðleikum, heyrir málið undir sérfræðiþjónustu skóla og á ekki að vísa til ÞHS. Hafi frumgreining sýnt að vandi barnsins er að hafa hamlandi áhrif á það er mikilvægt að markviss íhlutun hefjist án tafar,“ segir Gyða. 

Biðlisti er eftir því að komast inn í Brúarskóla og …
Biðlisti er eftir því að komast inn í Brúarskóla og hefur skólastjóri skólans áhyggjur af því hvaða áhrif biðin hefur á væntanlega nemendur. mbl.is/Hari

Hún segir biðlista mjög erfiða og þyngi allt starf stofnunarinnar. Eins getur verið langt liðið frá frumgreiningu þangað til ítargreining fer fram sem er mjög bagalegt.

„Greining er ekkert einfalt mál því það getur verið flókin ákvörðun að taka. Er barnið með ADHD eða eitthvað annað eða fleiri en eina röskun? Um 70% þeirra sem koma í greiningu reynast vera með ADHD. Ef ekki þá getur eitthvað annað verið að,“ segir Gyða.

Erum að tala um börn, ekki tilraunadýr

Tilgangur greiningar er að barnið fái viðeigandi meðferð og þess vegna er mikil áhersla á greiningu. Rétt greining er nauðsynleg til þess að barnið fái rétta aðstoð og ekki nóg að prófa sig áfram, segir Gyða. „Við erum að tala um börn, ekki tilraunadýr.“

Þrátt fyrir að greining ÞHS liggi ekki fyrir segir Gyða að þau ráðleggi foreldrum og skólum að bíða ekki eftir lokagreiningu. „Við bjóðum foreldrum að koma á sérstakt færnisnámskeið þó svo greiningin sé ekki hafin hjá okkur. Líka gott fyrir okkur að vita hvað hafi verið reynt og hvað hafi skilað árangri. Eins ráðleggjum við yfirleitt frá lyfjagjöf sem fyrsta úrræði þegar greiningin liggur fyrir enda á hún alls ekki alltaf við.“

Lyfjagjöf eigi helst ekki að vera fyrsta úrræði, segir Gyða.

Þegar barn er greint með ahyglisbrest og ofvirkni en þeim er oft beitt. Þótt ekkert þeirra lækni röskunina geta þau dregið úr einkennunum. Áhrifaríkustu lyfin jafnt fyrir börn og fullorðna eru örvandi lyf, segir á vef heilsugæslunnar. 

Allir skólar eru með sérmerkt fjármagn til að mæta sérþörfum en það á líka að koma aukafjármagn til viðbótar ef ákveðnar greiningar liggja fyrir.

Gyða segir að margt af því sem nýtist vel fyrir börn með ADHD þurfi ekki að kosta mikið. Atriði eins og hvar barnið situr í skólastofunni. Hvernig barnið fær leiðbeiningar o.fl. Getur snúist um skipulag í skólanum og eins viðhorf innan skólans. Er skólinn tilbúinn til að gera það sem hann getur eða ekki? Alls ekki þannig að börn með ADHD þurfi á aðstoð sérkennara að halda því það er miklu frekar þegar börn glíma við námsörðugleika sem þau þurfa sérkennslu. Eins ef börn glíma við alvarlegan hegðunarvanda,“ segir Gyða.

Eitt af því sem Gyða setur spurningarmerki við eru stór og opin rými í skólum en þau henta börnum með ADHD mjög illa enda mjög erfitt að einbeita sér þar inni. Ekki bara fyrir börn með ADHD heldur alla.  

Björk Jónsdóttir, skólastjóri í Brúarskóla.
Björk Jónsdóttir, skólastjóri í Brúarskóla. mbl.is/Hari

Hún segir að skólarnir kalli mjög eftir greiningum en stundum ganga úrræðin ekki upp og þá er farið að kalla eftir fleiri greiningum. „Fyrsta greining er ekkert endilega sú eina sem á við. Til að mynda börn sem eru með erfiðleika í vitsmunaþroska og líkleg til að þurfa á sértækri aðstoð að halda. Þau eiga kannski erfitt með að einbeita sér og er þá vísað í ADHD-greiningu. Við getum ekki fullyrt að þar sem vitsmunaþroski sé slakur þá geti barn ekki verið með ADHD. Barn sem á í basli með námið þarf miklu frekar á einstaklingsmiðaðri aðstoð að halda líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá grunnskóla heldur en úrræði fyrir ADHD,“ segir Gyða.

Ef barn er greint með einhverfurófsraskanir eða ADHD og fylgiraskanir geta  skólarnir átt rétt á auknu fjármagni til þess a veita viðeigandi stuðning. Þetta skapar hugsanlega þrýsting á greiningar.

Gyða segir að velta megi fyrir sér hvort þetta geti haft áhrif á þá sem vinna við greiningar þó svo fólk reyni að láta slíkt ekki hafa áhrif á sig. „Ef  við erum með  barn sem getur fallið hvoru megin sem er – það að vera með ADHD eða ekki þá gæti orðið tilhneiging til að setja greininguna á frekar  en ekki til að gera líklegra að  barnið fái hjálp. Við vitum að barnið á í vanda og þarf virkilega á aðstoð að halda. En ef barnið fær ekki greiningu þá fær það kannski ekki stuðninginn sem það þarfnast,” segir hún. Samt er mjög mikilvægt að við sem vinnum á þessu sviði vöndum okkur eins vel og mögulegt er í öllum málum og fylgjum klínískum leiðbeiningum um bæði greiningu og meðferð,“ segir hún.

Auk greiningarvinnu er rekin hópmeðferð a ÞHS sem snýr bæði að foreldrum og börnunum sjálfum, vegna ADHD, kvíða og einhverfurófs. Það eru haldin um 25 hópmeðferðarnámskeið á ári og um 400-450 einstaklingar sem taka þátt.

Brúarskóli er með fimm starfsstöðvar í Reykjavík.
Brúarskóli er með fimm starfsstöðvar í Reykjavík. mbl.is/Hari

Brúarskóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum. Kennslan fer fram í litlum bekkjum þar sem venjulega eru tveir kennarar saman með lítinn bekk. Brúarskóli starfar á fimm stöðum í Reykjavík. Skólinn er tímabundið úrræði. Björk Jónsdóttir er skólastjóri Brúarskóla.

Í Vesturhlíð, höfuðstöðvum skólans, er pláss fyrir 24-27 nemendur en þegar viðtalið var tekið voru 24 nemendur í skólanum. Björk segir það fara eftir samsetningu nemendahópsins hverju sinni hversu margir nemendur eru í Vesturhlíð en mjög algengt að þeir séu 24-25. Síðan er Brúarskóli með starfsstöðvar á barna- og unglingageðdeild, Stuðlum, Brúarhúsi, sem er þátttökubekkur innan Húsaskóla, og Brúarseli, þátttökubekk við Seljaskóla.

Brúarskóli.
Brúarskóli. mbl.is/Hari

Alls eru nemendurnir um fimmtíu talsins þegar allt er talið. Um 25 nemendur eru á bið eftir því að komast að í skólanum en flestir eru á unglingastigi. Eftir áramót verða hins vegar teknir inn nemendur bæði á miðstigi og unglingastigi þannig að þá grynnkar aðeins á biðlistunum, segir Björk.

„Um leið og nemandi fer héðan þá er annar tekinn inn, ekki beðið eftir hausti eða áramótum. Mjög mismunandi er hvenær nemendur koma inn og hversu lengi þeir þurfa að bíða á biðlista. Við metum hverja umsókn fyrir sig og til grundvallar er skoðuð þörfin og erfiðleikastig varðandi hegðun, ekki endilega sá sem hefur verið lengst á biðlista.

Þetta getur verið erfitt fyrir þá skóla sem eru að bíða eftir því að nemendur frá þeim komist að hjá okkur en því miður er það þannig að við verðum að forgangsraða og meta hverja umsókn,“ segir Björk.

Í Brúarskóla eru nemendur aldrei einir því starfsfólk fylgir þeim …
Í Brúarskóla eru nemendur aldrei einir því starfsfólk fylgir þeim allan tímann sem þeir eru í skólanum. Börnin eiga að upplifa sig örugg í skólanum sínum. mbl.is/Hari

Flestir nemendur Brúarskóla eru á miðstigi, það er í 5. - 7. bekk. Á þeim aldri kemur oft í ljós að viðkomandi nemandi á erfitt með að standast þær kröfur sem gerðar eru til hans í skólastarfi og námsefnið fer að þyngist. Þá fer vandinn að vaxa og oft sjá þau ekki aðra leið út úr vandanum en að missa stjórn á hegðun sinni, segir Björk.

Boðið upp á einstaklingsmiðaða kennslu

„Auðvitað eru erfiðleikar hjá börnum á yngsta stiginu og erfið tilvik sem þar koma upp. Á því skólastigi veitum við ráðgjöf inni í skóla viðkomandi barns. Það er erfitt að taka svo ung börn úr sínu félagslega umhverfi og setja þau í Brúarskóla. Þetta er alltaf erfitt, þ.e. að börn fari úr sínu félagslega umhverfi, en að sama skapi getur ástandið verið mjög erfitt í viðkomandi skóla, bæði fyrir barnið sjálft, kennarana og aðra nemendur. Mjög vanstilltur nemandi hefur áhrif á alla í bekknum og honum sjálfum líður illa með hegðun sína,“ segir Björk.

Að skipta um skóla og hefja nám við Brúarskóla hefur mikil áhrif á viðkomandi nemanda og fjölskyldu hans. Björk segir að þau fái einstaklingsmiðaða þjónustu, það er tekið á hegðunarvanda nemandans í skólanum, það er ekki hringt í foreldra til að sækja nemanda þegar nemandi missir stjórn á hegðun sinni heldur er það okkar í skólanum.   

„Þegar nemandi byrjar í Brúarskóla reynir hann oft á mörkin og hversu langt er hægt að komast en finna fljótt að það er alltaf gróði af góðri jákvæðri hegðun. Við reynum að byggja upp jákvæða einstaklinga og kenna þeim að nýta sér styrkleika sína. Við hrósum þeim mikið en að sjálfsögðu gilda reglur hér eins og alls staðar. Við reynum að hafa reglurnar einfaldar og þær gilda um alla í skólanum, bæði nemendur og starfsfólk. Það eru afleiðingar við broti á reglum og við sættum okkur ekki við ofbeldi eða ógnandi hegðun. Við útskýrum þetta fyrir öllum nemendum og yngri nemendur æfa reglurnar þegar þau hefja nám hér. Við útskýrum fyrir þeim hvað er ofbeldi og hvað er ógnandi hegðun. Þetta er eitthvað sem enginn sættir sig við og við viljum hjálpa þeim að hætta þessari hegðun sem hefur kannski truflað alla þeirra skólagöngu hingað til,“ segir Björk.

Að sögn Bjarkar eru til börn, þau eru mjög fá, sem eiga við mjög erfiðan geðrænan vanda og eiga mjög erfitt með að stjórna hegðun sinni.

„Það eru til börn sem eiga mjög erfitt með að stjórna hegðun sinni og eru mjög ófyrirsjáanleg í allri sinni hegðun. Það eru nemendur í Brúarskóla sem hafa verið hér nokkuð lengi þrátt fyrir að markmiðið sé að allir séu hér u.þ.b. 12-18 mánuði. Hegðunarerfiðleikar þeirra eru þannig að þeir eiga erfitt með að taka þátt í almennu skólastarfi í stórum bekkjum með miklu áreiti.

Í Brúarskóla eru starfsmenn alltaf með nemendum, hér eru engar hefðbundnar frímínútur og starfsfólkið fer með nemendum í morgunmat og hádegismat, útivist er skipulögð af kennurum,“ segir Björk.

Mikið eftirlit líkt og er í Brúarskóla pirrar marga unglinga en þeir læra að sögn Bjarkar fljótt að þeirra öryggi er það sem skiptir öllu máli og þeir eigi að upplifa sig örugga. Þetta er lykilatriði í starfsemi Brúarskóla.

Framhaldsskólar koma oft betur á móts við áhugasvið þeirra

Upplifun starfsfólks Brúarskóla er sú að þeir krakkar sem hafa útskrifast úr Brúarskóla í tíunda bekk og farið í framhaldsskóla vegnar oft betur í framhaldsskóla en í almenna grunnskólakerfinu.

„Svo virðist sem framhaldsskólinn geti komið meira til móts við áhugasvið þeirra og verið sveigjanlegri en grunnskólinn. Við eigum nemendur í framhaldsskólum sem eru að standa sig mjög vel þrátt fyrir að hafa átt mjög erfiða skólagöngu í grunnskóla. Við erum mjög stolt af þeim og þau ekki síður því þau koma til okkar í heimsókn og segja frá. Þau hafa komið hingað til þess að lýsa upplifun sinni sem er mjög gott veganesti fyrir unglinga sem eru vonlitlir með framhaldsskólanám og hvað bíði þeirra í framtíðinni,“ segir Björk.

Í flestum tilvikum fara nemendur Brúarskóla aftur í sama skóla og þeir voru áður í og eru bæði skóli og nemandi undirbúin undir það af starfsfólki Brúarskóla. „Sumir eru fullir tilhlökkunar en samt kvíðnir breytingunni. Við fáum kennara sem koma til með að taka við þeim til að koma hingað í heimsókn og sjá vinnuumhverfi þeirra hér og við fylgjum þeim yfir í skólann. Yfirleitt tekur þetta ferli nokkrar vikur og aðeins örfá þeirra hafa komið aftur til baka,“ segir Björk.

Björk Jónsdóttir, skólastjóri Brúarskóla, segist velta fyrir sér hvernig standi …
Björk Jónsdóttir, skólastjóri Brúarskóla, segist velta fyrir sér hvernig standi á því að svo mörg börn á Íslandi þurfi á sérúrræðum að halda. mbl.is/Hari

Brúarskóli er rekinn af Reykjavíkurborg en með stuðningi úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Önnur sveitarfélög eiga því rétt á að senda börn í skólann og nýta sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sér það. Eins er Brúarskóli með ráðgjöf á landsbyggðinni og Hlíðarskóli á Akureyri er með svipaða þjónustu en nemendurnir þar eru álíka margir og í Brúarskóla.

Flestallir nemendur hafa farið í gegnum greiningarferli þegar þeir hefja nám við Brúarskóla.

„En mér finnst að maður eigi að líta á stöðu barnsins eins og hún er í dag sama hver greiningin er. Engin tvö börn eru eins og það þarf að vinna út frá þeirri stöðu sem barnið er í daginn sem það kemur til okkar og það má ekki hengja sig í greiningarnar.

Þær eru hins vegar léttir fyrir foreldra því það þýðir að börnin hafa betri aðgang að þeirri þjónustu sem í boði er. Jafnfram hefur greiningin mikil áhrif á kostnað fyrir foreldra, svo sem lyfjakostnað ofl. En mér finnst að skólarnir mættu einblína meira á barnið sjálft og stöðu þess og minna á greiningarnar þó svo að fjármagnið sem þeir fá miðist við hversu mörg börn njóta stuðnings,“ segir Björk.

Þegar hún er spurð út í hvernig geti staðið á því að mun fleiri börn þurfi á sérúrræðum að halda á Íslandi en víðast annars staðar þá segist Björk velta fyrir sér þeirri kynslóð sem er að ala upp börnin sín í dag. Til að mynda eru mörg ung börn mjög orðljót og hvaðan kemur það?

Eru þau eftirlitslaus í tölvum og snjalltækjum – eru tækin tekin við sem barnfóstrur á heimilunum? Eins skiptir svefn gríðarlegu máli þegar kemur að því að halda geðheilsunni og vera starfhæfur, segir Björk, og bendir á að það eigi jafnt við um börn eða fullorðna.

Í Brúarskóla í dag eru ekki nemendur í fíkn og hafa ekki verið í töluverðan tíma, að sögn Bjarkar gerðist það stundum hér áður að þar voru nemendur sem hreinlega treystu sér ekki út í daginn nema reykja kannabis áður en þeir mættu í skólann.

„Það hefur ekki verið sótt um fyrir slíka nemendur lengi sem er mjög skrýtið því við vitum alveg að þau eru þarna úti og við vitum um mörg þeirra en það er ekki óskað eftir aðstoð fyrir þau. Það er ekki gott að blanda saman krökkum í fíknivanda og börnum með alvarlegar hegðunarraskanir. Auðvitað tökum við á móti þeim og styðjum þau eftir fremsta megni. En þessi fíknikrumla heldur þeim því miður ansi fast og oft er félagsskapurinn sem tengist fíkninni sá félagsskapur þar sem þú færð viðurkenningu,“ segir hún.

Eiga að vera öruggir og áhyggjulausir á meðan börnin eru í skólanum

Þegar alvarlegur hegðunarvandi kemur upp í skóla þá er unnið samkvæmt ákveðnum verklagsferlum skóla- og frístundasviðs. Skólayfirvöld ræða m.a. við foreldra um vandann og þá kemur upp umræða um Brúarskóla sem einn af möguleikunum sem í boði eru.

Foreldrar hafa þá samband við Brúarskóla og fá að koma í heimsókn og skoða aðstæður. Ef foreldrar ákveða að sækja um skólavist er næsta skref að haldinn er fundur með foreldrum, skóla, barnavernd, barna- og unglingageðdeildinni ef það á við og fulltrúum þeirra þjónustustofnana sem fjölskyldan og barnið er að fá stuðning frá.

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans á Dalbraut.
Barna- og unglingageðdeild Landspítalans á Dalbraut. mbl.is/Hari

„Yfirleitt finnum við létti bæði hjá foreldum og börnum við upphaf skólagöngu. Skólinn er frá klukkan 8 til 13:30 og foreldrar eiga að vera öruggir um barnið sitt á þeim tíma. Við hringjum aldrei í foreldra á þeim tíma, nema til komi veikindi viðkomandi barns eða að það slasist alvarlega – sem hefur aldrei gerst.

Foreldrar eiga að geta sinnt sínu á þessum tíma án þess að hafa áhyggjur af barninu á sama tíma. Við erum að vinna með barnið á þessum tíma, ekki foreldrarnir. Enda er það þeirra að annast barnið á öðrum tíma sólarhringsins og í leyfum. Þetta skiptir máli varðandi líðan foreldra, það að vera örugg um barnið sitt,“ segir Björk.

Að sögn Bjarkar er mjög slæmt að biðlistar séu eftir þjónustu Brúarskóla og hjá Reykjavíkurborg er verið að skoða möguleika á hvað er hægt að gera. „Ef þau komast ekki hingað inn þá vitum við ekki hvernig þeim reiðir af og hvert þau verða komin þegar loksins er komið að þeim. Kannski orðið of seint þegar að því kemur,“ segir Björk.

„Allt þjóðfélagið er undir og við þurfum að muna að við getum aldrei sett okkur í spor foreldranna sem eiga börn sem glíma við alvarlegan vanda. Við höfum ekki leyfi til þess að vera að kvarta og kveina og vera með fordóma í þeirra garð. Þetta eru börn sem eru hluti af samfélaginu og okkar er að tryggja að foreldrar þeirra bugist ekki því þau eru hetjur og eru að gera sitt besta. Það eru mjög sterk tengsl milli foreldra og barna og það er sama hvað gengur á hjá barninu, við eigum að bera virðingu fyrir tengslum þeirra og styðja fjölskyldur sem eiga börn með fjölþættan vanda,“ segir Björk.

Um sex hundruð börn og ungmenni eru í meðferð á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Þettaer ekki hátt hlutfall barna hér á landi en meirihluti skjólstæðinga BUGL kemur af suðvesturhorni landsins Þar sem stærstur hluti barna á Íslandi býr. 

Sjálfsskaða- og sjálfsvígshugsanir hafa aukist meðal ungmenna á Íslandi og í öðrum löndum. Þetta hefur haft áhrif á álag á deildina og töluvert af þjónustunni sem þar er veitt fer fram í bráðateymi BUGL sem hefur fyrstu aðkomu þegar talið er að börn yngri en 18 ára þurfi á geðheilbrigðisþjónustu að halda. Í þriðju greininni um börnin sem kerfið týndi er fjallað um starfsemi BUGL og sögð saga pilts sem hefur ásamt fjölskyldunni þurft að há harða baráttu allt sitt líf. Tími hjá sálfræðingi fyrir barn kostar til að mynda 14 þúsund krónur. Þjónusta sem getur skipt sköpum í lífi ungs fólks. 

mbl.is