„Rómantísk kyrrð yfir dauðanum“

Kynferðisbrot | 29. apríl 2018

„Rómantísk kyrrð yfir dauðanum“

Karlmenn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi glíma við sjálfsvígshugsanir en þær snúast oft um að finna frið og sleppa við ágengar hugsanir um ofbeldið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í MS-ritgerð Elísu Tryggvadóttur við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. 

„Rómantísk kyrrð yfir dauðanum“

Kynferðisbrot | 29. apríl 2018

„Þegar manni líður svona þá er bara svona ákveðin kyrrð, …
„Þegar manni líður svona þá er bara svona ákveðin kyrrð, það er svona rómantísk kyrrð yfir dauðanum.“ mbl.is/Rax

Karlmenn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi glíma við sjálfsvígshugsanir en þær snúast oft um að finna frið og sleppa við ágengar hugsanir um ofbeldið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í MS-ritgerð Elísu Tryggvadóttur við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. 

Karlmenn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi glíma við sjálfsvígshugsanir en þær snúast oft um að finna frið og sleppa við ágengar hugsanir um ofbeldið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í MS-ritgerð Elísu Tryggvadóttur við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. 

Elísa tók djúpviðtöl við sjö karla sem allir áttu það sammerkt að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, að hafa sagt frá ofbeldinu og leitað sér aðstoðar. Allir höfðu þeir upplifað sjálfsvígshugsanir og sumir reynt að taka eigið líf. 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að sjálfseyðingarhvöt var sterk hjá þeim öllum sem meðal annars kom fram í áhættuhegðun og sjálfsvígshugsunum. Mýtur um karlkyns þolendur kynferðisofbeldis höfðu mikil áhrif á þátttakendurna en karlmennskuímyndin hafði neikvæð áhrif á þá sem fólst í ákveðinni tilfinningalegri þöggun sem varð til þess að þeir bældu niður tilfinningar sínar. Einnig voru þeir hræddir um að verða sjálfir stimplaðir sem gerendur sem hindraði þá í að segja frá, segir meðal annars í meistararannsókn Elísu.

Mikilvægt er að útrýma þeim hugmyndum að karlar eigi ekki …
Mikilvægt er að útrýma þeim hugmyndum að karlar eigi ekki að sýna tilfinningar né opna sig um þau áföll sem þeir verða fyrir, segir Elísa Tryggvadóttir sem er að ljúka meistaranámi í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Brotin sjálfsmynd, niðurrif og neikvæðar hugsanir voru algengar en þeir greindu frá miklum létti við að segja frá. Stuðningur og viðbrögð annarra skiptu þá máli ásamt þekkingu heilbrigðisstarfsfólks sem þeim fannst þó ábótavant. Þátttakendurnir glímdu við ýmsa andlega erfiðleika á fullorðinsárum. Sjálfsvígshugsanir komu í bylgjum eftir því hvað gekk á í lífi þeirra. Karlmennskuímynd og brotin sjálfsmynd voru stórir áhrifaþættir, ásamt lífsseigum mýtum um karlkyns þolendur kynferðisofbeldis.

Mikilvægt er að útrýma þeim hugmyndum um að karlar eigi ekki að sýna tilfinningar né opna sig um þau áföll sem þeir verða fyrir. Einnig er þekking heilbrigðisstarfsfólks mikilvæg og mætti leggja meiri áherslu á að spyrja um áfallasögu,“ segir í rannsókn Elísu.

Fjórir af sjö þátttakendum höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu kvenna en alls voru gerendurnir 13 talsins, sjö karlar og sex konur. Elísa segir að það hafi komið henni verulega á óvart hversu margar konur voru gerendur og að meirihluti þátttakenda hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu kvenna. 

Mýtan um karlmennskuna

Í upphafi verkefnisins hafi hún ekki ætlað að horfa sérstaklega til kyns geranda né heldur á þær mýtur sem komu í ljós þegar lengra leið á verkefnið.

„Til að mynda mýtuna um karlmennskuna en þetta er eitthvað sem kom fram í viðtölum við þá alla og samt voru þetta allt einstaklingsviðtöl. Að það er ætlast til þess að karlmenn sýni ekki tilfinningar sínar og eigi að vera sterkir. Þrátt fyrir að þeir vilji gráta þá er það ekki í boði af hálfu umhverfisins sem þeir búa í og uppeldisins sem þeir fengu í æsku,“ segir Elísa.

Þeir áttu það allir sameiginlegt að þessi staðlaða karlmennskuímynd, þessi ímynd um sterka og þögla karlmanninn, hafði mikil áhrif á tilfinningalíf þeirra og var ákveðin tilfinningaleg þöggun, segir í meistararannsókn Elísu.

„Sem karlmaður, þú mátt ekkert tala um þetta. Karlmennskan sko. Pabbi talaði aldrei um tilfinningar og talaði aldrei um tilfinningar við mig. Svo brjótast tilfinningarnar út og við vitum ekkert hvað á að gera og þá er bara best að drepa okkur,“ segir einn viðmælenda í rannsókninni. 

Líkt og einn þeirra bendir á þá eru margir drengir aldir upp við að það eigi ekki að ræða tilfinningar: Hvernig eiga þeir sem karlmenn að læra að tala um tilfinningar þegar þeir hafa ekki fyrirmyndina? 

„Ef þú kemur úr svona umhverfi sem karlmaður leitar sér ekki hjálpar og má ekki gráta og allt það að þá er bara erfitt að rífa þessar mýtur úr hausnum á okkur karlmönnunum. Ég var bara alinn svona upp að karlmenn sýni ekki tilfinningar og það voru konurnar sem sögðu það við þá! Þannig að þetta er svona.“

Hræðslan við dóm annarra

Þátttakendurnir greindu frá hræðslunni um að aðrir dæmdu þá sem gerendur þar sem þeir væru sjálfir þolendur. Svo virðist sem þessi mýta sé ansi lífseig og sé ríkjandi í samfélaginu og umræðum í fjölmiðlum, segir Elísa. 

Þekktur geðlæknir hélt því fram í viðtali að 99% líkur …
Þekktur geðlæknir hélt því fram í viðtali að 99% líkur væru á því að karlkyns þolendur kynferðisofbeldis yrðu sjálfir gerendur. mbl.is/Eggert

Einn þeirra sem Elísa ræddi við sagði að þessar mýtur væri t.d. ein af ástæðunum fyrir að hann opnaði sig ekki um sín mál í mörg ár: „Ég geri ekkert í mínum málum fyrr en núna bara fyrir 8 árum síðan. Var búinn að reyna að opna á þetta en það tókst ekki og mestmegnis var það út af umtalinu. Það voru svona mýtur í gangi að karlmenn sem verða fyrir kynferðisofbeldi verði sjálfir gerendur.“

Elísa segir í samtali við mbl.is að mennirnir búi við hræðslu innra með sér um að fá slíkar kenndir og ef þeir segi frá þá verði þeir stimplaðir sem mögulegir kynferðisglæpamenn í framtíðinni.

Einn talaði um hversu ríkjandi þessi hugsun um að karlkyns þolendur kynferðisofbeldis yrðu sjálfir gerendur. Einn daginn var hann að hlusta á útvarpið þegar þekktur geðlæknir var að tala um afleiðingar kynferðisofbeldis, og þá sérstaklega um karlkyns þolendur, þar sem hann hélt því fram að 99% líkur væru á að karlkyns þolendur yrðu sjálfir gerendur.

„Ég hugsa bara: „ef ég fæ þetta þá ætla ég að skjóta mig í hausinn, ef ég fæ einhverjar hugmyndir.“ En ég hef aldrei getað litið réttum augum á þennan [geðlækni]. Þetta segi ég vera ein af ástæðunum fyrir því að ég ýtti niður og opnaði ekki á þetta,“ segir einn af þeim karlmönnum sem Elísa ræddi við og eru fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis.

Annar lýsir því hvernig hann hafi heyrt álíka alhæfingu á fyrirlestri sem hann fór á um karlkyns þolendur kynferðisofbeldis. Á þeim fyrirlestri var því haldið fram að þeir [karlar] sem misnota börn séu sjálfir þolendur og sagðist hann hafa upplifað miklar áhyggjur út af þessum alhæfingum og sagði: „Þá fór ég bara að hafa áhyggjur af því og hérna [...] ég vil ekki að fólk fari að gruna það, best að setja þennan varnagla ef hann skyldi nú breytast í skrímsli.“

Þessi mýta gerði þátttakendurna hrædda og smeyka við að segja frá því þeir urðu hræddir um að aðrir færu að dæma þá sem barnaníðinga. Svona lífseigar mýtur drógu úr þeim kjarkinn og þeir urðu smeykir. 

„Maður sat með þetta og oft var þetta eins og maður væri með byssu, eins og þegar maður var í kringum börn þá var maður alltaf eins og maður væri að passa sig og þú veist... hvenær breytist maður? Mér líður pínu óþægilega í kringum krakka því manni finnst eins og allir séu að fara að kalla mann barnaníðing eða eitthvað,“ segir í einu af viðtölunum sem Elísa tók í tengslum við MS-ritgerðina. 

Eitt það mikilvægasta að gera greint frá

Einn þeirra sagðist hafa kenningu um ástæðu þess að þessi mýta væri svona öflug og ástæðan fyrir því væri að þeir menn sem eru gómaðir fyrir kynferðisofbeldi gagnvart börnum beri þetta oftast fyrir sig, að þeir hafi verið þolendur sem börn og bætti við: „Þeir hafa gert það til þess að fá meðaumkun og þetta hefur verið sett svona opinbert, farið með þetta í fjölmiðla. Þar vil ég meina að þessi mýta komi [...] þetta er bara eins og smitsjúkdómur.“

Viðmælendur töldu að #metoo-herferðin hefði jákvæð áhrif á viðhorf fólks …
Viðmælendur töldu að #metoo-herferðin hefði jákvæð áhrif á viðhorf fólks í garð fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis. mbl.is

Á meðan Elísa vann rannsóknina var #metoo-herferðin mjög áberandi í umræðunni og kemur fram að viðmælendur hennar töldu herferðina jákvæða en það vantaði slíka herferð fyrir karla.

Í mars 2018 fór af stað átak með myllumerkinu: #karlmennskan á Twitter, sem færst hefur á Facebook og fleiri staði. Þar er hægt að sjá fullt af körlum opna sig um tilfinningar og atburði sem þeir hafa kannski ekki gert áður út af: #karlmennskan.

„Þessu ber að fagna og er vonin að komandi kynslóðir eigi eftir að líta til baka og hugsa: af hverju máttu karlar ekki sýna tilfinningar?“ segir Elísa og vonar að þessi herferð og aðrar sambærilegar lifi áfram því eitt af því mikilvægasta fyrir fórnarlömb ofbeldis er að geta greint frá því. 

Sjálfsvígshugsanirnar hjá þátttakendunum snerust fyrst og fremst um að losna við neikvæðar hugsanir og finna frið og ró, líkt og fram kemur hér að framan.

Sjálfsmyndin var svo brotin að tilhugsunin um sjálfsvíg varð mjög sterk. Því fylgdi líka einmanaleiki að kljást við sjálfsvígshugsanir en sumir töluðu um að hugsunin um dauðann væri hluti af hversdagsleikanum. Áhættuhegðun var einkennandi hjá öllum þátttakendunum þar sem þeir lýstu hve sama þeim var um líf sitt, segir Elísa í MS-ritgerðinni.

„Áhættuhegðun virtist vera algeng meðal þátttakenda sem tók á sig ýmsar birtingamyndir, hvort sem það var meðvitað eða ekki. Áhættuhegðun snýst ekki endilega um að hugsa um sjálfsvíg, né að skipuleggja slíkt, heldur skeytinga[r]leysi gagnvart eigin heilsu og afleiðingar gjörða. Nokkrir þátttakendurnir töluðu um að keyra hratt og án bílbeltis eða jafnvel fá sjúkdóm sem mögulega gat dregið þá til dauða. Óhófleg drykkja, neysla annarra vímugjafa og að ofgera sér í vinnu voru líka mynstur áhættuhegðunar sem þátttakendurnir greindu frá,“ segir í ritgerð Elísu.

Einn þeirra lýsir því hvernig hann upplifði sig sem aumingja fyrir að detta í sjálfsvígshugsanir og fór í að berja sig niður fyrir að hugsa svona sem jók enn meira á vanlíðan. Þegar hugsanirnar voru komnar svo langt fór hugsunin oft í að plana og finna auðveldustu leiðina og hann sagði: „Þegar manni líður svona þá er bara svona ákveðin kyrrð, það er svona rómantísk kyrrð yfir dauðanum.“

Þegar sjálfsvígshugsanirnar voru komnar yfir í að skipuleggja sjálfsvíg var tilhugsunin um að skilja aðstandendur eftir það sem stoppaði þá. Meðal annars þeirra eigin börn sem þeir vildu ekki yfirgefa. 

Nokkrir af þátttakendunum höfðu greinst með kvíða og/eða þunglyndi á fullorðinsárum og sumir með ADHD. Kvíðinn virtist þó vera algengastur.

Einn þeirra greindist með alvarlegt þunglyndi og ADHD á fullorðinsárum en hann sagðist einnig upplifa mikinn félagskvíða og þá fari hann í að berja sjálfan sig niður. Annar var búinn að glíma við mikla andlega erfiðleika og eftir ákveðinn tíma endaði hann inni á geðdeild.

Sá þriðji sagðist enn þá glíma við kvíðann en eftir að hafa sótt sér hjálp við úrvinnslu áfalla eigi hann auðveldara með að kljást við kvíðann og hann sagði:

„Með þessar neikvæðu hugsanir að þá hefur maður verkfæri í dag til þess að taka á móti þeim og hleypa þeim út aftur [...] ég er alltaf að finna lausnir á því sem ég þarf að takast á við. En kvíðinn kemur alveg líka. Hann er alltaf til staðar en ég býð honum bara velkominn því hann stoppar alltaf stutt við að hann er farinn miklu fyrr en áður.“

Allir þátttakendurnir sögðu Elísu frá líkamlegum einkennum sem þeir töldu að einhverju leyti mætti tengja við þau áföll sem þeir hafa orðið fyrir.

Óútskýrðir verkir og líkamleg einkenni hrjáðu nokkra af þátttakendunum og tengja þeir mismikið við andlega heilsu. Allir þátttakendurnir hafa sótt aðstoð við úrvinnslu áfalla og misjafnt var hvort leitað var til sálfræðings, geðlæknis eða samtaka gegn ofbeldi. Sumir töluðu um þekkingarleysi hjá heilbrigðisstarfsfólki þegar kemur að kynferðisofbeldi og nauðsyn þess að spyrja sjúklinga um áfallasögu.

Áföll hafa áhrif á líkamlega heilsu

Nokkrir af þátttakendunum nefndu ýmist skort á fleiri karlkyns ráðgjöfum hjá Samtökum gegn ofbeldi ásamt því að heilbrigðisstarfsfólk þurfi betri þekkingu á þessu sviði og ætti að spyrja meira um áfallasögu. Til að mynda nefnir einn að í öll þau skipti sem hann fór til læknis út af bakverkjum þá hafi hann aldrei verið spurður út í áfallasögu.

Annar sem var á tímabili inn og út af geðdeild var aldrei spurður um áfallasögu. Þá nefndi hann Gæfusporin sem er þverfaglegt úrræði fyrir konur sem eiga áfallasögu: „Ég vil bara það sama og konur fá. Ég hef heyrt mikið um Gæfusporin sem er mjög gott. Ég hélt fyrst að það væri í boði fyrir karla líka en svo er ekki,“ segir í viðtali við einn viðmælanda. 

Elísa segir að ekki megi gleyma því að það eru ekki bara konur sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis og þrátt fyrir að boðið sé upp á ráðgjöf fyrir karla til að mynda hjá Stígamótum mætti gera þá ráðgjöf sýnilegri að sögn viðmælenda hennar því karlar viti oft ekki hvert þeir eigi að leita. Eins að ráðgjöf fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis sé tengd þolendum, sama af hvaða kyni þeir eru.

Karlar eru hræddir við að stíga fram og greina frá …
Karlar eru hræddir við að stíga fram og greina frá kynferðislegu ofbeldi.

Spurð um tengsl við líkamlega kvilla segir Elísa það hafi verið sama sagan hjá viðmælendum. Að hafa glímt við líkamlega kvilla sem oft má rekja til andlegra kvilla, álags eða áfalla. Hún segir að sífellt fleiri rannsóknir sýni fram á þessi tengsl. 

„Þeir töluðu allir um að það skorti á að þegar þeir leituðu til læknis þá sé spurt um áfallasögu. Því það eru meiri líkur á að þú segir frá ef þú ert spurður á réttan hátt og eðlilega heldur en að þú segir frá áfalli af fyrra bragði. Sennilega ekki margir sem fara til heimilislæknis og segja: Ég varð fyrir kynferðislegu ofbeldi. En ef læknirinn fer réttar leiðir og spjallar áfram þá eru meiri líkur á að fólk opni sig og hægt sé að finna rót vandans – áfall í æsku,“ segir Elísa.

Meistararannsókn Elísu Tryggvadóttur fjallar um karlkyns þolendur kynferðislegs ofbeldis.
Meistararannsókn Elísu Tryggvadóttur fjallar um karlkyns þolendur kynferðislegs ofbeldis. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hún segir að það væri áhugavert að skoða mun á karlkyns þolendum og kvenkyns þolendum í sambandi við sjálfsvígshugsanir og reynslunni í að segja frá. Hvaða áhrifavaldur væri þá hjá konum miðað við karla í sambandi við að segja frá. Einnig væri áhugavert að skoða hvað gerist innra með hjá körlum þegar þeir segja frá sé miðað við niðurstöður þessarar rannsóknar þar sem þeir upplifðu mikinn létti og orku sem leystist við það að segja frá, að því er segir í lokaorðum Elísu í MS-ritgerðinni sem nefnist: „Það er svona rómantísk kyrrð yfir dauðanum“: Reynsla karlkyns þolenda af kynferðisofbeldi og sjálfsvígshugsunum.

Elísa útskrifast í sumar frá Háskólanum á Akureyri með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum en hún er með BA-próf í sálfræði frá sama skóla. Aðspurð hvort hún stefni á frekara nám á þessu sviði segir hún að undanfarin fimm ár hafi hún setið á skólabekk og það sé komið nóg í bili. En hún viðurkennir að sennilega verði hún alltaf með puttana í þessu þar sem hún komi að starfi Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri. Elísa starfar sem meðferðarfulltrúi á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafirði. 

Dagana 16. og 17. maí verður ráðstefna heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, Sjónaukinn, haldin á Akureyri og meðal fyrirlesara er Elísa þar sem hún mun kynna niðurstöður rannsóknar sinnar.

Hér er hægt að lesa nánar um dagskrá Sjónaukans

mbl.is