Snýst um að lifa af

Samfélagsmál | 24. maí 2018

Snýst um að lifa af

„Ég hef selt mig, ég hef þurft að gera ýmislegt, brjótast inn, ég hef verið í yfirgefnum húsum. Þetta snerist bara um að lifa af. Og það er bara survival [lífsbjörg] fyrir mig að selja mig. Hvað átti ég að gera?“ 

Snýst um að lifa af

Samfélagsmál | 24. maí 2018

Sigrún Sigurðardóttir og Arndís Vilhjálmsdóttir eru báðar með erindi á …
Sigrún Sigurðardóttir og Arndís Vilhjálmsdóttir eru báðar með erindi á ráðstefnunni Kynferðisbrot í brennidepli. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég hef selt mig, ég hef þurft að gera ýmislegt, brjótast inn, ég hef verið í yfirgefnum húsum. Þetta snerist bara um að lifa af. Og það er bara survival [lífsbjörg] fyrir mig að selja mig. Hvað átti ég að gera?“ 

„Ég hef selt mig, ég hef þurft að gera ýmislegt, brjótast inn, ég hef verið í yfirgefnum húsum. Þetta snerist bara um að lifa af. Og það er bara survival [lífsbjörg] fyrir mig að selja mig. Hvað átti ég að gera?“ 

Þetta segir kvenfangi sem Arndís Vilhjálmsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og meistaranemi, ræddi við. Arndís er að leggja lokahönd á meistararitgerð við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Í ritgerðinni fjallar hún um reynslu kvenfanga af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsis á Íslandi.

Hún er ein þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni Kynferðisbrot í brennidepli á vegum lagadeildar og sálfræðisviðs Háskólans í Reykjavík á morgun.

Þær fundu fyrir auknum kvíðaeinkennum eftir því sem leið á …
Þær fundu fyrir auknum kvíðaeinkennum eftir því sem leið á refsivistina en í skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að fangelsisvist einstaklinga með erfiðan fíknivanda sé í raun skaðleg. mbl.is/Hari

Að sögn Arndísar er um eigindlega rannsókn að ræða og ræddi hún við níu konur á þrítugs-, fertugs- og fimmtugsaldri sem eiga það sameiginlegt að hafa afplánað eða eru að afplána refsivist í íslensku fangelsi.

Á ráðstefnunni á morgun mun hún fjalla um kynferðislegt ofbeldi í garð kvenna sem hafa verið í fangelsi, en það var ein af niðurstöðum viðtalanna. Eins sýni erlendar rannsóknir fram á það sama.

Sigrún Sigurðardóttir, leiðbeinandi Arndísar við meistaraverkefnið, segir að þetta sé því miður reynsluheimur mjög margra fanga á Íslandi og eitthvað sem fæstir viti af og geri sér grein fyrir.

„Þær eru kannski beittar ofbeldi í æsku, fara í vímuefnaneyslu og þar verður ofbeldið enn meira. Síðan verða þær líka fyrir fordómum heilbrigðisstarfsfólks þegar þær leita sér aðstoðar,“ segir Arndís og bætir við: „Það eru miklir fordómar gagnvart þessum konum, fordómar sem mæta þeim hvar sem er.“

Þær Arndís og Sigrún segja að oft sé það þannig að þegar rannsóknir eru gerðar með spurningalistum séu ákveðnir hópar sem ekki taki þátt. Þetta sé einn þeirra hópa. Framkvæmdar hafa verið rannsóknir hér á landi þar sem þessi hópur er í raun útilokaður frá þátttöku. Rannsóknin laut að ofbeldi í nánum samböndum. 

Glíma oft við flókinn heilsufarsvanda

Þær efast um að margar þessara kvenna sem búa við þessar aðstæður taki þátt í rannsókninni á áfallasögum kvenna. „Þessi hópur er ekkert að fara að svara svo ítarlegri rannsókn sem þú þarft að fara inn á með rafrænum skilríkjum. Þeirra áfallasögur munu ekki koma fram í niðurstöðum þeirrar rannsóknar,“ segir Arndís.

Í raun er lítið til um þau áföll sem kvenfangar hafa orðið fyrir á lífsleiðinni, segir Arndís en konurnar tóku mjög vel í að taka þátt í rannsókn hennar.

Kvenfangar glíma oft við flókinn heilsufarsvanda auk fíknivanda og eru þær oft verr á sig komnar þegar þær koma til afplánunar miðað við karla í sömu sporum. Margar þeirra kvenna sem eru dæmdar í fangelsi á Íslandi hafa framið afbrot tengd neyslu og um uppsöfnuð minni háttar brot að ræða, svo sem búðarhnupl o.fl.

Að sögn Arndísar hafa fáir ljáð þessum hópi rödd sína og hún velti því fyrir sér hvers vegna svo sé. „Þetta eru mjög jaðarsettar konur,“ segir Arndís.

„Ég held að konur verði mikið fyrir misnotkun og svo í samböndum. Eins og ég var að koma úr miklu ofbeldissambandi með barnsföður mínum og það er búið að skemma mig og rústa lífi mínu,“ segir ein þeirra sem Arndís ræddi við.

Spurð um hvers konar ofbeldi konurnar lýsa segir Arndís að það sé af ýmsum toga. Kynferðislegt ofbeldi í æsku, vanræksla og annars konar líkamlegt og andlegt ofbeldi, svo sem einelti.

Kynferðislegt ofbeldi, vanræksla, líkamlegt ofbeldi og andlegt, einelti. Allt eru …
Kynferðislegt ofbeldi, vanræksla, líkamlegt ofbeldi og andlegt, einelti. Allt eru þetta æskuminningar í huga margra fanga. mbl.is/G.Rúnar

Misnotkunin oft af hálfu nákominna

„Ég hef ekki samskipti við pabba minn því hann […] beitti mig kynferðislegu ofbeldi […]. Þetta var allt saman mjög sjúkt samband okkar á milli,“ segir ein þeirra sem Arndís tók viðtal við í rannsókninni og fleiri hafa svipaða sögu að segja.

Misnotkun af hálfu nákominna eða einhverra sem eru í nánum samskiptum við heimili þeirra. Oft höfðu þær verið á unglingaheimilum sem unglingar og reynt fjölmargar meðferðir. Margar óskuðu þær eftir að meðferðin hefði verið áfalla- og einstaklingsmiðaðri.

Konurnar lýstu oft erfiðum aðstæðum og þeirri staðreynd að hafa verið heimilislausar og til að fjármagna vímuefnaneyslu. 

„Vegna þess að maður var heimilislaus þá varð maður að þykjast vera kærasta einhvers til að fá skjól yfir nóttina.“

„Ég seldi mig, það var vinnan mín. Ég var búin að hitta suma strákana það oft að þetta var ekkert mál. Ég fékk bara peninga. Þetta var eins og þeir væru að gefa mér peninga.“

Mjög skortir upp á að boðið sé upp á viðunandi úrræði og meðferð fyrir fanga á Íslandi og skortur er á aðgengi að fagfólki. Arndís segir að allar konurnar sem hún ræddi við hafi borið fangavörðum vel söguna, lýstu góðum samskiptum við þá og segja þá reyna að sinna starfi sínu af fagmennsku.

Refsivistin getur reynst skaðleg

Líkt og fram kemur hér að framan hafa þær flestar ef ekki allar glímt við fíknivanda en boðið er upp á tvo AA-fundi í viku í fangelsum þar sem konur eru. Á Litla-Hrauni er meðferðargangur en engar konur afplána þar.

„Það eru tveir fundir á viku. Punktur. Það er ekki neitt annað. Þetta er engin betrunarvist. Maður er bara látinn dúsa hérna inni á gangi. Engin vinna eiginlega. Það er ekki búin að vera nein vinna núna í viku. Svo var í tvo daga og svo ekkert í þrjár vikur,“ segir ein þeirra sem Arndís ræddi við.

Eins kom fram í viðtölum við konurnar fundu þær fyrir auknum kvíðaeinkennum eftir því sem leið á refsivistina, en í skýrslu Sameinuðu þjóðanna kom fram að fangelsisvist einstaklinga með erfiðan fíknivanda væri þessum hópi í raun skaðlegur. Þrátt fyrir þyngri dóma þegar kom að fíkniefnabrotum hafði það ekki fælingarmátt fyrir þennan hóp.

Vegna áfalla sem þær hafa orðið fyrir á lífsleiðinni er að sögn Arndísar nauðsynlegt að nálgast kvenfanga á annan hátt en karlfanga. Það er von Arndísar að hægt verði að bjóða upp á meiri og fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir kvenfanga sem muni nýtast þeim þegar afplánun lýkur. Því þær þurfi aðstoð, þetta eru til að mynda konur sem hafa upplifað að missa börn sín frá sér, sem er gríðarlegt áfall fyrir alla foreldra.

Arndís og Sigrún segja mikilvægt að farið verði að vinna …
Arndís og Sigrún segja mikilvægt að farið verði að vinna með áföll fólks og fíknina á sama tíma. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hringurinn endurtekur sig 

„Það eru erfiðleikar í æsku eða þær verða fyrir áfalli. Þær fara að nota vímuefni sem bjargráð í erfiðum aðstæðum. Þær verða svo fyrir alls konar ofbeldi þegar komið er í vímuefnaneyslu og enginn sem grípur þær þar.

Áföll, vímuefnaneysla, misgóð meðferðarúrræði, iðjuleysi í fangelsi þar sem mjög lítið er unnið með fíknivandann. Þær fara út úr fangelsi á skilorði og fara aftur í vímuefnaneyslu og brjóta þar með skilorð og eru sendar aftur í afplánun. Hringurinn endurtekur sig án þess að hann sé rofinn enda lítið gert til þess að rjúfa hann með því að bjóða upp á viðeigandi meðferðarúrræði. Ekki nóg að bjóða upp á tvo AA-fundi á viku því vandinn getur verið ólíkur og um leið margþættur sem þær glíma við,“ segir Arndís.

Mikilvægt að nýta tímann til að aðstoða þær

Hún segir að tíminn sem þær eru í fangelsi sé svo mikilvægur til þess að reyna að koma þeim til aðstoðar. „Þetta er dýrmætur tími,“ segir Arndís. Þarna eru þær lausar við utanaðkomandi áreiti og hægt að vinna í þeirra málum. Ef það er ekki gert er alltaf svo mikil hætta á að þær endi í sama farinu og það hafi rannsóknir sýnt fram á.

„Hver er að fara að leigja mér íbúð eða ráða mig í vinnu?“ hefur Arndís eftir viðmælanda í rannsókninni. Margir biðji um að fólk framvísi sakavottorði þegar gerður er leigu- eða ráðningarsamningur. Þær eru á sakaskrá og fáir sem hafa áhuga á að ráða þær í vinnu eða leigja þeim húsnæði.

Mikilvægt að kynskipta í meðferð

„Það eru margar stelpur sem liggja inni á klefanum sínum eftir lokun og gráta vegna saknaðar til barnanna sinna. Það er bara að deyfa samviskubitið og láta tímann líða. Deyfa sársaukann og finna ekki til. Það er erfitt þarna úti en svo er erfiðara að vera lokaður hérna inni og þurfa að díla við þetta. Þér er bara hent inn á einhvern gang og færð enga hjálp. Það er miklu erfiðara,“ segir kvenfangi.

Arndís Vilhjálmsdóttir ræddi við kvenfanga á Íslandi um reynslu þeirra …
Arndís Vilhjálmsdóttir ræddi við kvenfanga á Íslandi um reynslu þeirra af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsisins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Arndís og Sigrún segja mikilvægt að farið verði að vinna með áföll fólks og fíknina á sama tíma. Í stað þess að alltaf sé gerð krafa um að viðkomandi sé án vímuefna áður en unnið sé úr öðrum áföllum. Fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á tengsl erfiðra áfalla og þróunar fíknivanda síðar meir. Því þurfi að vinna þetta saman, segja þær.

Að mati Arndísar og Sigrúnar er mikilvægt að kynjaskipta í meðferð. Meðferðarþarfir karla og kvenna eru gjörólíkar.

„Maður eignast liggur við kærasta í hverri einustu meðferð. Maður er ekkert að hugsa um sjálfan sig. Ég held ég geti talið það á hendi annarrar handar hvað ég hef farið í gegnum margar meðferðir án þess að eignast kærasta sko,“ segir ein kvennanna sem rætt er við í rannsókninni þegar hún er spurð út í fyrri meðferðir.

Ekki talað svona um aðra þolendur ofbeldis

Arndís segir að orðræðan í samfélaginu vinni ekki heldur með því að reyna að bæta líf þessara kvenna: „Sprautufíklar, fíklar og svona mætti lengi telja. Við erum að tala um konur sem eru alls konar, margar þeirra eru mæður og börn þeirra lesa kannski slíkar fyrirsagnir um mæður sínar. Þær segja til dæmis ekki börnum sínum frá að þær séu í fangelsi. Það er ekki talað svona um aðra þolendur ofbeldis  Ekki sé talað um aðra hópa sem verða fyrir jafnmiklu ofbeldi og þessar konur á þennan hátt segir Arndís.

Sigrún Sigurðardóttir segir að meðferðir verði að vera áfallamiðaðar. Ekki …
Sigrún Sigurðardóttir segir að meðferðir verði að vera áfallamiðaðar. Ekki sé hægt að réttlæta brotthvarf úr meðferð með því að viðkomandi sé ekki reiðubúinn. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mikilvægt er að leggja meiri áherslu á áfallamiðaða þjónustu og áfallamiðaða meðferð á öllum stigum í kerfinu. Það þarf að grípa fyrr inn í, það þarf að grípa þessar konur áður en þær fara í neyslu og lenda í fangelsi. Með því að efla fyrirbyggjandi aðgerðir og úrræði þannig að þær geti leitað eftir aðstoð eftir áföllin og áður þær enda á þeim stað sem þær eru í dag.

Áfallamiðuð nálgun ætti að vera í öllum kerfum, hvort sem er heilbrigðis-, félagsmála- eða dómskerfinu og það verður að fara að leggja áherslu á áfallamiðaða meðferð í fíknimeðferðum hér á landi. Við getum ekki réttlætt brotthvarf úr meðferð með því að segja að fólk sé ekki tilbúið,“ segir Sigrún.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er því lýst yfir að eitt af höfuðverkefnum hennar sé að vinna að umbótum í meðferð kynferðisbrota. Þetta ætli ríkisstjórnin að gera með nýrri aðgerðaáætlun, endurskoðun og umbótum á löggjöfinni og fullgildingu Istanbúl-samningsins, sem hefur það að markmiði að vernda konur og börn fyrir ofbeldi. 

Vinna við þessa aðgerðaáætlun er hafin. Þannig var Istanbúl-samningurinn fullgiltur af Íslands hálfu 26. apríl 2018. Þá hefur dómsmálaráðherra lagt fram markvissa og framsækna aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Tilgangur hennar er að styrkja innviði réttarvörslukerfisins með það að markmiði að bæta stöðu brotaþola innan þess og efla og samhæfa þjónustu við þá á landsvísu. Þá hefur forsætisráðherra skipað þverfaglegan stýrihóp, sem hefur það hlutverk m.a. að fylgja eftir og vinna að heildstæðum úrbótum til að draga úr og sporna gegn kynferðislegu ofbeldi, m.a. með því að rýna lagaumhverfi kynferðisbrota í þeim tilgangi að styrkja stöðu kærenda brotanna. Í hópnum sitja fulltrúar fimm ráðuneyta og fer fulltrúi forsætisráðherra, Halla Gunnarsdóttir, fyrir hópnum.

Í þeim tilgangi að styðja við og stuðla að markvissri innleiðingu umbóta í réttarvörslukerfinu í samræmi við aðgerðaætlun ríkisstjórnarinnar um bætta meðferð kynferðisbrota hafa dómsmálaráðuneytið, lagadeild og sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri boðað til ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota undir heitinu „Kynferðisbrot í brennidepli“. Ráðstefnan verður haldin á morgun í Háskólanum í Reykjavík.

Þar munu sérfræðingar og fræðimenn leggja sitt á vogarskálarnar til að stuðla að vandaðri meðferð mála vegna kynferðisbrota og uppbyggilegri umræðu um málaflokkinn. Í samræmi við áherslur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er sjónum fyrst og fremst beint að þolendum brotanna. Frummælendur koma úr háskólasamfélaginu og réttarvörslukerfinu, auk þess sem móðir eins þolanda mun deila reynslu sinni. 

mbl.is