Úr fangelsi í framboð

Á leið til lífs | 25. maí 2018

Úr fangelsi í framboð

Nazanin Askari kom til Íslands sem pólitískur flóttamaður árið 2012 eftir að hafa sætt pyntingum og fangelsisvist fyrir skoðanir sínar í heimalandinu, Íran. Hún flúði land þegar hún átti yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi fyrir að berjast fyrir réttindum kvenna. Þeirri baráttu er hvergi nærri lokið því hún er í framboði fyrir Kvennahreyfinguna í Reykjavík.

Úr fangelsi í framboð

Á leið til lífs | 25. maí 2018

Nazanin Askari er femínisti og hefur setið í fangelsi fyrir …
Nazanin Askari er femínisti og hefur setið í fangelsi fyrir stjórnmálaskoðanir sínar í Íran. Hún er í framboði fyrir Kvennahreyfinguna í borgarstjórnarkosningunum. mbl.is/Árni Sæberg

Nazanin Askari kom til Íslands sem pólitískur flóttamaður árið 2012 eftir að hafa sætt pyntingum og fangelsisvist fyrir skoðanir sínar í heimalandinu, Íran. Hún flúði land þegar hún átti yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi fyrir að berjast fyrir réttindum kvenna. Þeirri baráttu er hvergi nærri lokið því hún er í framboði fyrir Kvennahreyfinguna í Reykjavík.

Nazanin Askari kom til Íslands sem pólitískur flóttamaður árið 2012 eftir að hafa sætt pyntingum og fangelsisvist fyrir skoðanir sínar í heimalandinu, Íran. Hún flúði land þegar hún átti yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi fyrir að berjast fyrir réttindum kvenna. Þeirri baráttu er hvergi nærri lokið því hún er í framboði fyrir Kvennahreyfinguna í Reykjavík.

„Ég er femínisti og tók þátt í framboði kvenna í forsetakosningunum árið 2009 í Íran. Þegar Mahoud Ahmadinejad var lýstur sigurvegari kosninganna fórum við út á götu og mótmæltum enda var niðurstaða kosninganna fölsuð. Ég var einn af leiðtogum Grænu hreyfingarinnar sem stóð fyrir mótmælum eftir kosningarnar. Við sem vorum í framvarðarsveit mótmælenda vorum handtekin og pyntuð á ýmsa vegu í varðhaldi. Lögfræðingarnir sem við fengum höfðu enga þekkingu né vilja til þess að verja okkur. Þeir fengu ekki einu sinni að tjá sig við réttarhöldin,“ segir Nazanin.

Grænu mótmælin í Íran í júní 2009.
Grænu mótmælin í Íran í júní 2009. Wikipedia/Milad Avazbeigi

Hún flúði að áeggjan föður síns skömmu áður en dómurinn var kveðinn upp því eftir að þau sáu ákæruna var ljóst að hennar biði löng fangelsisvist. Hún var ákærð fyrir ýmis atriði, svo sem að hafa reykt á almannafæri, að vera í samneyti við unga menn og að hafa brotið sjaría-lög varðandi samskipti við karla, það er sofið hjá karlmanni án þess að vera gift.

„Pabbi er blaðamaður og stjórnarandstæðingur. Hann vissi hvað biði mín því hann þekkir kerfið vel og hefur sjálfur verið í svipuðum sporum og ég var í. Að vera bannað að vinna og allt sem þú skrifar er endurskoðað því í einræðisríki er ekkert fjölmiðlafrelsi. Ekkert frekar en tjáningarfrelsi. Ég var rúmlega tvítug og hafði ekki gert neitt rangt. Það sem ég gerði var að krefjast réttar míns,“ segir Nazanin.

Vinkona hennar sem einnig tók þátt í mótmælunum flúði hins vegar ekki og situr í fangelsi í Íran. Fyrir sömu sakir og Nazanin: að krefjast réttinda sem flestum Íslendingum finnast sjálfsögð og eðlileg mannréttindi. Mamma og systir vinkonu hennar hafa einnig setið í fangelsi fyrir skoðanir sínar. Þetta hefði beðið Nazanin ef hún hefði ekki forðað sér.

Spurð um hvers vegna hún hafi komið til Íslands segir Nazanin að það hafi í raun ekki verið hennar ákvörðun, heldur var það smyglarinn, sem ætlaði að senda hana til Kanada, sem kom henni hingað og ákvað að hún skyldi sækja um hæli hér. Hún var gjörsamlega úrvinda þegar hér var komið sögu eftir langan og erfiðan flótta þar sem hún dvaldi í felum og flúði um nokkur ríki áður en til Íslands var komið.

„Líf mitt fór á hvolf vegna stjórnmálaskoðana minna. Í stað þess að lifa eðlilegu lífi þá varð ég að flýja land og yfirgefa fjölskyldu mína. Ég hef ekki séð foreldra mína né bróður í sex ár, því ég get ekki farið til Írans og þau fá ekki vegabréfsáritun til að fara úr landi vegna mín. Því ég er á svörtum lista stjórnvalda sem eru sannfærð um að ef fjölskyldan mín fær að fara úr landi þá muni hún ekki snúa aftur,“ segir Nazanin.

#MeT­oo - #Ég líka
#MeT­oo - #Ég líka mbl.is

Hún segir að skoðanir hennar hafi ekki breyst þrátt fyrir allt sem á undan er gengið og hún telji að þrátt fyrir að jafnrétti eigi að ríkja á Íslandi þá megi ýmislegt betur fara. Til að mynda varðandi réttindi innflytjenda, ekki síst kvenna úr þeim hópi og barna.

Rasismi þrífst enn á Íslandi

Nazanin segir að það hafi verið góð tilfinning að kynnast Femínistafélagi Íslands og þeim sem þar starfa. Allt í einu hafi hún upplifað frelsi – lýðræði.

En hún hefur ekki verið laus við rasisma og hatursorðræðu hér á landi. Ekki síst eftir að hún hóf afskipti af stjórnmálum. Rasisminn sé ekki bundinn við Íslendinga heldur einnig innflytjendur frá ólíkum löndum. Til þess að koma í veg fyrir að hér verði til samfélög inni í samfélögum þurfi fólk að tala saman og taka tillit hvað til annars, segir Nazanin.

„Fólk er að senda mér skilaboð á Facebook þar sem ég er spurð hvað ég sé að gera hérna. Af hverju ég komi mér ekki bara heim. Ég sé ekki einu sinni hvít og hvað ég sé að skipta mér af. En ég tel að Ísland þurfi að nýta sér kosti fjölmenningar. Við getum lært hvert af öðru og gert svo margt  saman í stað þess að setja fólk í fyrirfram gefin hólf vegna litarháttar, skoðana, trúar eða kyns eða kynferðis. Því það er það versta sem hægt er að gera og getur skapað togstreitu. Við verðum að leggja áherslu á að fræða krakka um fjölbreytileikann og tryggja að þau alist upp við að bera virðingu fyrir öðrum.“

Nazanin segir að hún hafi ýmislegt til málanna að leggja til þess að bæta íslenskt samfélag. „Ég er hluti af þessu samfélagi og hér má svo sannarlega auka samskipti ólíkra menningarheima. Rauði krossinn og Borgarbókasafnið eru að vinna gott starf en það er ekki nóg að hengja upp veggspjöld heldur þurfum við að koma þessu á framfæri sem víðast og fá fólk til þess að vinna saman að þessu markmiði. Að búa til gott samfélag þar sem ólíkar raddir fá að heyrast,“ segir Nazanin.

Hefur verið femínisti alla tíð

Foreldrar hennar hafi alið hana upp við að hennar skoðanir skipti máli og hún hefur verið femínisti alla tíð. Enda þótti henni sem barni erfitt að skilja hvers vegna hún mætti ekki gera það sama og bróðir hennar og frændur af þeirri einu ástæðu að hún var stelpa en þeir strákar. Í raun eru það þeir sem gerðu hana að femínisma. Því þannig hafi hún séð að hún fengi ekki sitt fram nema með því að berjast fyrir því.

Ali Khamenei erkiklerkur, æðsti leiðtogi Írans.
Ali Khamenei erkiklerkur, æðsti leiðtogi Írans. AFP

Foreldrar hennar eru menntaðir, mamma hennar er kennari og pabbi hennar blaðamaður. Nazanin segir að hún hafi notið þeirra forréttinda að þau hafi, þrátt fyrir að vera ekki alltaf sammála henni, virt skoðanir hennar. Hlustað á það sem hún hafði fram að færa og að hún ætti rétt á ýmsu sem ekki er sjálfgefið ef þú ert kona í landi þar sem sjaría-lög ríki.

Nazanin lauk námi í enskum bókmenntum í Íran en fékk aldrei prófskírteinið vegna afskipta sinna af stjórnmálum og var rekin frá háskólanum vegna stjórnmálaskoðana sinna. Hér hefur hún lokið námi í félagsfræði við Háskóla Íslands og var um tíma í námi í félagsráðgjöf.

Að sögn Nazanin hafði hún ekki efni á því að ljúka náminu í félagsráðgjöf þar sem Ísland er dýrt land og hún á leigumarkaði. Hún á ekki rétt á námslánum þar sem hún er með dvalarleyfi á Íslandi en ekki ríkisborgararétt en hún fær hann áður en langt um líður. Nazanin starfar sem túlkur auk þess að hafa starfað sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og Femínistafélagi Íslands.

Lýðræðið endurspeglast í orðum forseta landsins

Nazanin er annar höfunda leiksýningar sem var sýnd í Tjarnarbíói haustið 2015 en Marta Nordal skrifaði með henni verkið og leikstýrði því. Að sögn Nazanin var hún oft spurð á þeim tíma hvort hún væri leikkona og hún svarað neitandi enda eigi stjórnmálin allan hennar huga. „Ég er stjórnmálamaður og femínisti.“

Ísland er lýðræðisríki og það endurspeglast best í orðum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, segir Nazanin sem ræddi við hann um stöðu innflytjenda og Ísland í tengslum við sýningu sem hún tók þátt í við Háskóla Íslands veturinn 2016.

„Hann sagði að þrátt fyrir að Ísland hefði náð langt í að jafna hlut kynjanna væri samt ýmislegt sem mætti gera betur. Forseti sem segir þetta er forseti lýðræðisríkis, því einræðisherra myndi aldrei álíta að eitthvað mætti bæta. Hann myndi aldrei viðurkenna að eitthvað væri að. Ég tel því að það sé þörf fyrir mig og aðrar konur sem vilja koma á jafnrétti. Ekki síst í garð erlendra kvenna.

Ég varð sjálf fyrir áreitni á vinnustað og þegar ég kvartaði þá var mér sagt að tala við verkalýðsfélagið. Bíddu, það var brotið á mér. Í Bandaríkjunum getur þú höfðað skaðabótamál í slíkum málum en ekki hér. Er það vegna þess að ég er útlendingur eða er það vegna þess að ég er kona?

Við þurfum á kvennaframboði að halda hér á landi því við erum ekki búin að ná jafnrétti. Til að mynda er vinkona mín einstæð móðir. Hún fær ekki dagmömmu þannig að hún getur hvorki unnið né stundað nám. Hvaða réttlæti er í því að á sama tíma og yfirvöld hvetja fólk til þess að eignast börn þá er ekki stutt við bakið á einstæðum foreldrum? Við eigum öll rétt á jafnrétti. Kyn er bara orð og á ekki að hafa áhrif á stöðu þína í þjóðfélaginu, hvort sem maður er fæddur á Íslandi eða hefur komið hingað sem innflytjandi,“ segir Nazanin.

mbl.is