Svo sturlaður að hún þekkti ekki röddina

Heimilisofbeldi | 8. júní 2018

„Svo sturlaður að ég þekkti ekki rödd hans“

„Eftir nokkurra daga stjórnlausa bræði þar sem dóttir okkar vaknaði við öskrin, hurðaskelli og höggin þegar hann barði í veggi vissi ég að það yrði aldrei snúið til baka. Ástandið var orðið stjórnlaust,“ sagði Jenný Kristín Valberg, MA nemi í kynjafræði, í erindi sínu á málþingi Bjarkarhlíðar og Kvennaathvarfsins í vikunni. Jenný Kristín flúði heimili sitt vegna ofbeldis sem hún sætti af hendi fyrrverandi sambýlismanns síns og barnsföður.

„Svo sturlaður að ég þekkti ekki rödd hans“

Heimilisofbeldi | 8. júní 2018

Jenný Kristín Valberg flutti erindi á málþinginu „Ofbeldi sem kerfið …
Jenný Kristín Valberg flutti erindi á málþinginu „Ofbeldi sem kerfið lítur framhjá og ósýnileiki gerenda“ á dögunum og sagði frá reynslu sinni af heimilisofbeldi. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir nokkurra daga stjórnlausa bræði þar sem dóttir okkar vaknaði við öskrin, hurðaskelli og höggin þegar hann barði í veggi vissi ég að það yrði aldrei snúið til baka. Ástandið var orðið stjórnlaust,“ sagði Jenný Kristín Valberg, MA nemi í kynjafræði, í erindi sínu á málþingi Bjarkarhlíðar og Kvennaathvarfsins í vikunni. Jenný Kristín flúði heimili sitt vegna ofbeldis sem hún sætti af hendi fyrrverandi sambýlismanns síns og barnsföður.

„Eftir nokkurra daga stjórnlausa bræði þar sem dóttir okkar vaknaði við öskrin, hurðaskelli og höggin þegar hann barði í veggi vissi ég að það yrði aldrei snúið til baka. Ástandið var orðið stjórnlaust,“ sagði Jenný Kristín Valberg, MA nemi í kynjafræði, í erindi sínu á málþingi Bjarkarhlíðar og Kvennaathvarfsins í vikunni. Jenný Kristín flúði heimili sitt vegna ofbeldis sem hún sætti af hendi fyrrverandi sambýlismanns síns og barnsföður.

„Ég var í ofbeldissambandi í 13 ár,“ sagði Jenný. Fyrrverandi maður hennar hafi beitt fýlustjórnun, þögnum, ógnunum, augnarráði, líkamlegum tilburðum, skellt hurðum, látið hringla í hnífapörum, barið í veggi og barið í hurðakarma til þess að sýna fram á vald sitt.

„Þegar maðurinn er einu sinni búinn að sýna hvers megnugur hann er, þótt hann berji þig ekki eða börnin, en hann lemur í veggi og húsgögn og brýtur þau - þá þarf hann ekki að lemja þig, hann er með stjórnina.“ segir Jenný í myndbandi sem gefið var út fyrir herferðina „Þekkjum rauðu ljósin“.

Myndi ekki geta stoppað hann

Hún segir að fyrrverandi maður hennar hafi dag einn rokið út í bræðiskasti eftir að hafa sýnt sér og börnunum ógnandi tilburði og hún hafi þá nýtt tækifærið til þess að koma sér og börnum sínum út úr húsinu. „Á þeim tímapunkti vissi ég ekki hvert ég væri að fara, ég vissi bara að hann var að sleppa sér og ef hann myndi sleppa sér á mig myndi ég ekki geta stoppað hann,“ sagði Jenný.

Hún hringdi því í föður sinn og leitaði húsaskjóls hjá honum. Ekki leið á löngu þar til maðurinn hafði samband, öskureiður yfir því að hún hefði lagt á flótta með börnin. Hann hafi verið ævareiður fyrir en það hafi verið smávægilegt miðað við það sem á eftir kom. „Hann var svo sturlaður að ég þekkti hann ekki á röddinni.“

Maðurinn reyndi að telja Jenný á að snúa aftur á heimili þeirra milli þess sem hann öskraði á hana, því hann sagðist að sjálfsögðu elska hana og hún hlyti að skilja það. Þegar honum tókst ekki að telja hana á að koma heim hafi ofsinn rokið upp aftur og þá hafi hann hótað henni. „Bíddu bara, þú munt sjá, ég mun, ég ætla og ég skal...,“ sagði maðurinn við Jenný.

Einnig hafi hann í kjölfarið haft samband við dóttur þeirra Jennýar, sem þá var 12 ára gömul, með tölvupóstum þar sem hann útskýrði fyrir henni hversu mikið hann hataði Jenný, hversu mikið hann vildi meiða hana og að hann ætlaði sér að gera henni erfitt fyrir. „Hann var svo sturlaður að hann gerði sér enga grein fyrir því að hann var að tala við barn.“

Sat fyrir dóttur þeirra

Hótanir af hans hálfu dundu yfir Jenný á öllum samfélagsmiðlum þar sem maðurinn sagði hana vera að tálma umgengni hans við dóttur þeirra og að hún skildi passa sig. Dóttir þeirra hafi, á þessum tíma, verið orðin mjög hrædd við föður sinn. „Barnið hafði oft verið hrætt við hann áður þegar hann hafði tekið reiðisköstin heima, en það var ekkert í líkingu við þetta,“ sagði Jenný. Maðurinn hafi ekki sætt sig við að dóttir þeirra vildi ekki hitta hann og reyndi ítrekað að sitja fyrir henni við skólann og við íþróttahúsið þar sem hún æfði fimleika. Það hafi orðið til þess að hún hætti að þora að mæta á æfingar.

Maðurinn neitaði jafnframt að afhenda Jenný persónulega muni í eigu hennar og barnanna. Úr fór að Jenný réð lásasmið til þess að sækja eigur sínar. Maðurinn hafi þá ráðist á lásasmiðinn og lögreglan var í kjölfarið kölluð til. Þá hafi hann brugðist við með því að segja  „það er ekkert hér sem tilheyrir ykkur, þú átt ekkert hér inni.“

Nýtti síðasta tækifærið til að stjórna og drottna

Við tók langt skilnaðarferli og Jenný þurfti að byrja frá grunni. Hún hafði fengið úthlutað íbúð á Stúdentagörðum en var ekki með nein húsgögn til þess að taka með sér. „Ég gerði lista í hverri viku og sendi til hans með eigum sem ég vildi fá úr innbúinu og hann sendi það sem honum fannst ég eiga skilið að fá. Þarna hafði hann síðasta tækifærið til að stjórna og drottna.”

Hálft ár leið og maðurinn lét ekki ná í sig. Á þeim tíma fékk hún ekkert meðlag eða barnabætur og hann tók engan þátt í kostnaði vegna dóttur þeirra. „Ég var komin með nóg af hótunum, ásökunum og þvingunum. Ég prentaði út pappíra, sendi honum lista yfir örfáa hluti sem mig vantaði af heimilinu og sagði að hann mætti í raun fá allt annað,“ segir Jenný. „Á þessum tímapunkti gat ég hreinlega ekki meira, ég vildi vera laus og vildi fá að hvíla mig. Þetta voru auðvitað gríðarleg mistök, að skilja allt eftir, en kerfið býður bara ekki upp á annað.“

Jenný gagnrýndi í erindi sínu að kerfið miðaði að þolendum og sagði litið fram hjá gerendum. Hún hafi þurft að bera ábyrgð á því að halda góðum samskiptum við manninn til þess að dóttir þeirra gæti haldið tengslum við hann. „Það er svo magnað að það vita þetta allir, skólinn veit þetta, skólasálfræðingurinn veit þetta, félagsþjónustan veit þetta. Það vita allir að við erum fólk að koma úr þessum aðstæðum, og að hann skapaði þessar aðstæður, en hann fær ekkert rautt spjald. Hann þarf ekkert að stoppa og hugsa sinn gang.”

mbl.is