Ákvað að hlúa að andlegri líðan sinni

Líkamsvirðing | 12. júlí 2018

Ákvað að hlúa að andlegri líðan sinni

Elísabet Brynjarsdóttir er 25 ára hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Hún er einnig núverandi forseti Stúdentaráðs ásamt því að hafa stofnað geðfræðslufélagið Hugrúnu.

Ákvað að hlúa að andlegri líðan sinni

Líkamsvirðing | 12. júlí 2018

Líkamsvirðing Elísabetar snýst á þessum tímapunkti að láta sér líða …
Líkamsvirðing Elísabetar snýst á þessum tímapunkti að láta sér líða vel andlega og að vera í góðu jafnvægi. Mynd/Rizza Fay Elíasdóttir

Elísabet Brynjarsdóttir er 25 ára hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Hún er einnig núverandi forseti Stúdentaráðs ásamt því að hafa stofnað geðfræðslufélagið Hugrúnu.

Elísabet Brynjarsdóttir er 25 ára hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Hún er einnig núverandi forseti Stúdentaráðs ásamt því að hafa stofnað geðfræðslufélagið Hugrúnu.

Elísabet byrjaði að þróa með sér líkamsvirðingu eftir að hún fór að verða meðvitaðri um andlega líðan sína. „Vanlíðan mín síðan ég var ung einkenndist af stanslausu niðurrifi á sjálfri mér, hvort sem það var vegna verkefna sem mér fannst ég ekki standa mig nógu vel í, útlits eða hegðunar.“

Hún fór að skrifa hjá sér hvernig henni leið og hvað hún var að hugsa í dagbókina sína. „. Þá áttaði ég mig á því hversu mikil orka og tími fór í það að rífa sjálfa mig niður, og þá sérstaklega útlitslega. Þegar ég var ung æfði ég ballett og var mjög hávaxin og grönn. Þá einkenndist niðurrifið af hugmyndum um að ég væri ekki alvöru kona, enginn myndi vilja líta við mér og svo framvegis, og ég mat virði mitt mikið út frá því. Síðan hætti ég að æfa ballett og fitnaði og þá var ég aldrei nógu flott. Appelsínuhúð ekki í boði, fita á magasvæði, stór læri, sverir upphandleggir, ekkert nógu gott.“

Skjáskot/Elísabet Brynjarsdóttir

Hún fékk nóg af þessum ranghugmyndum um sinn eigin líkama og vinnur að því á hverjum degi að hugsa betur um líkamann sinn. „Það kemur þó fyrir að ég hugsi illa til mín en þá reyni ég að vera meðvituð um það og láta það hafa minni áhrif en það þarf. Í sannleika sagt held ég að þetta verði stanslaus vinna áfram með sjálfri mér en ég er bara spennt fyrir því.“

Líkamsvirðing Elísabetar snýst á þessum tímapunkti að láta sér líða vel andlega og að vera í góðu jafnvægi. Eftir að hún hætti í ballett fannst henni erfitt að finna þetta jafnvægi og þegar hún fór að stunda líkamsrækt var það á þeirri forsendu að hún ætlaði að grennast eða breyta líkamanum sínum. „Það hefur yfirleitt endað á því að ég gangi of langt, eða gefst upp og líður þá ennþá verr með sjálfa mig. Þess vegna hef ég ákveðið núna að hlúa að andlegri líðan. Virða líkama minn með því að reyna að vera meðvituð um það hvernig ég hugsa um sjálfa mig. Reyna að hætta að gera of miklar kröfur til mín útlitslega. Borða þannig að mér líði vel og eiga í eins heilbrigðu sambandi við mat og ég get.“

Skjáskot/Elísabet Brynjarsdóttir

Frelsi að viðurkenna sig

Elísabet reynir að vera meðvituð um þann þrýsting sem samfélagið setur á fólk og skaðsemi staðalímynda. „Það fylgir því ákveðið frelsi að læra að viðurkenna sig, og verða pínu sama um álit annarra. Eftir að hafa fengið að kynnast sjálfri mér betur og lært betur inn á andlega líðan mína fann ég til dæmis hvað ég var mikið betur í stakk búin að sjá umræðu hjá fjölmiðli um hvernig konur eigi að fela „keppina“ sína og geta hlegið að því og gagnrýnt, en ekki tekið persónulega og farið af stað með óheilbrigðu hegðun hjá mér svo ég geti látið sjá mig í bikiníi.“

Hún segist eiga margt eftir ólært og finnst gott að fylgjast með líkamsvirðingarumræðu hjá öðrum sem koma úr annarri átt og hafa annan bakgrunn en hún. Fyrir henni snýst líkamsvirðing um að fagna fjölbreytileika allra líkama. Hún gerir sér grein fyrir þeirri forréttindastöðu sem hún er þar sem hún hefur ekki upplifað fordóma vegna litarhafts, kynvitundar né kyngervis og er ófötluð.

Elísabet byrjaði að þróa með sér líkamsvirðingu eftir að hún …
Elísabet byrjaði að þróa með sér líkamsvirðingu eftir að hún fór að verða meðvitaðri um andlega líðan sína. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrir mér snýr mín líkamsvirðing meira að mér og minni líðan, en ætti að mínu mati ekki að snúast upp í að ég sé að setja eitthvað fordæmi fyrir aðra. Í líkamsvirðingu ætti í raun enginn að vera að setja neitt fordæmi fyrir aðra, því fyrir mér snýst líkamsvirðing um að hver og einn nái eftir fremsta megni að virða sjálfan sig, óháð öðrum,“ segir Elísabet

Hennar helsti innblástur til að virða líkama sinn var þegar hún lenti á vegg og vildi sjálfri sér illt. Hún fór til sálfræðings og hefur verið að vinna í sjálfri sér. Elísabet segir að það sé ótrúlega gott að vera meðvitaður um andlega líðan sína og hvernig við hugsum um okkur sjálf. „Á sama tíma er mikilvægt að átta sig á að maður er mennskur og getur stigið feilspor og mögulega dottið aftur í einhvern vítahring sjálfsskaðandi hugsana. En það er í lagi, því maður getur alltaf haldið áfram með bataferlið og haldið áfram að elska sjálfan sig,“ segir Elísabet.

mbl.is