„Það var hermaður sem skaut mig“

Rohingjar á flótta | 22. ágúst 2018

„Það var hermaður sem skaut mig“

Mohammad Sikander fann fyrir miklum sársauka er kúla úr byssu búrmíska hermannsins lenti í öxl hans. Sikander er í hópi þeirra hundraða þúsunda rohingja sem flúðu Búrma (Mjanmar) eftir að búrmíski herinn hóf aðgerðir sínar í Rakhine-héraði í fyrra.

„Það var hermaður sem skaut mig“

Rohingjar á flótta | 22. ágúst 2018

Mohammad Sikander fann fyrir miklum sársauka er kúla úr byssu búrmíska hermannsins lenti í öxl hans. Sikander er í hópi þeirra hundraða þúsunda rohingja sem flúðu Búrma (Mjanmar) eftir að búrmíski herinn hóf aðgerðir sínar í Rakhine-héraði í fyrra.

Mohammad Sikander fann fyrir miklum sársauka er kúla úr byssu búrmíska hermannsins lenti í öxl hans. Sikander er í hópi þeirra hundraða þúsunda rohingja sem flúðu Búrma (Mjanmar) eftir að búrmíski herinn hóf aðgerðir sínar í Rakhine-héraði í fyrra.

Yfirvöld í Búrma segja hernaðaraðgerðirnar í Rakhine hafa verið tilraun til að svæla út hryðjuverkamenn sem hafi staðið fyrir árásum á lögreglumenn. Ör og líkamslýti almennra borgara, karla, kvenna og barna úr minnihlutahópi rohingja-múslima segja hins vegar aðra sögu.

„Það var hermaður sem skaut mig,“ segir Sikander og rifjar upp er öryggissveitir búrmíska hersins réðust inn í Yae Twin Kyun 1. september á síðasta ári. 

Aftan á hægri öxl hans er stórt hringlaga og innfallið ör eftir kúluna. „Ég er enn kvalinn og tek lyf frá heilsugæslunni við þessu,“ sagði Sikander við AFP. „Ég get ekki lyft þungum munum.“

Minara fékk byssukúlu í fótinn heima í Rakhine-héraði og getur …
Minara fékk byssukúlu í fótinn heima í Rakhine-héraði og getur ekki gengið almennilega. Hún dvelur nú í flóttamannabúðum í Bangladess. AFP

Neita ásökunum um voðaverk

Sikander er í hópi rúmlega 700.000 rohingja-múslima, sem eru minnihlutahópur í Búrma sem yfirvöld í landinu hafa lengi synjað um ríkisborgararétt, sem flúði Búrma eftir að öryggissveitir hófu „hreinsunaraðgerðir“ í kjölfar árása uppreisnarmanna. Í dag býr Sikander í flóttamannabúðum í Cox Bazar í nágrannaríkinu Bangladess, en þar býr nú rúm milljón rohingja.

Þeir rohingjar sem flúið hafa til Bangladess hafa sagt frá nauðgunum, aftökum án dóms og laga og heilu þorpunum sem jöfnuð hafa verið við jörðu.

Búrmísk yfirvöld hafa alfarið neitað ásökunum um slík voðaverk, utan blóðbaðs í þorpinu Inn Din. Þar segja þau aðgerðirnar ekki hafa verið of harkalegar og að þær hafi beinst gegn uppreisnarmönnum rohingja.

Noor Bassor var skotinn í olnbogann er hann var að …
Noor Bassor var skotinn í olnbogann er hann var að vinna á bóndabæ sínum í Búrma. Hann getur ekki lengur beitt hendinni almennilega. AFP

Meiðsl margra varanleg

AFP segir örin og önnur meiðsl á líkömum flóttamannanna hins vegar benda til annars.

Þannig fór byssukúla í gegnum vinstri öxlina á Kabir Ahmed er hann flúði og skildi eftir sig bleikt örvarlaga ör. Húðin undir hné átta ára stúlkunnar Minara er öll hnýtt eftir byssuskotið sem hún varð fyrir heima í Rakhine.

Mohammad Haroon er þá með svöðusár á mænu eftir að hafa orðið fyrir byssukúlu er hann reyndi að komast yfir landamærin til Bangladess.

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra segjast hafa sinnt rúmlega 2.600 sjúklingum með sár eftir skotvopn, hnífa og bruna. Inni í þeirri tölu er ekki sá fjöldi kvenna sem hefur sætt kynferðisofbeldi.

Meiðsli margra eru varanleg. Þannig getur Minara ekki gengið eðlilega og Haroon á erfitt með andardrátt.

Mohammed Sultan er blindur eftir að byssukúla lenti á hægra gagnauga hans og skar sjóntaugina í sundur. Enn verr fór þó fyrir bróður hans. „Einn bræðra minna kom til að bjarga mér, en hann var skotinn í bakið og dó,“ sagði Sultan.

Þessi rohingjastúlka fékk skot í fótinn á leiðinni yfir landamærin …
Þessi rohingjastúlka fékk skot í fótinn á leiðinni yfir landamærin til Bangladess. AFP
mbl.is