Langir biðlistar eftir þjónustu

Börnin okkar og úrræðin | 22. september 2018

Langir biðlistar eftir þjónustu

Stefnt er að því að fjölga starfsmönnum í geðheilsuteymi austur en langir biðlistar hafa myndast eftir þjónustu þess. Staðan nú er óviðunandi segja stjórnendur þess. Bergþór Grétar Böðvarsson, Reykvíkingur ársins, er gott dæmi um mann sem hefur ekki látið geðraskanir stöðva sig í lífinu. 

Langir biðlistar eftir þjónustu

Börnin okkar og úrræðin | 22. september 2018

Sigríður Hrönn Bjarnadóttir teymisstjóri og Erik Brynjar Schwitz Eriksson, geðlæknir …
Sigríður Hrönn Bjarnadóttir teymisstjóri og Erik Brynjar Schwitz Eriksson, geðlæknir hjá geðheilsuteymi austur. mbl/Arnþór Birkisson

Stefnt er að því að fjölga starfsmönnum í geðheilsuteymi austur en langir biðlistar hafa myndast eftir þjónustu þess. Staðan nú er óviðunandi segja stjórnendur þess. Bergþór Grétar Böðvarsson, Reykvíkingur ársins, er gott dæmi um mann sem hefur ekki látið geðraskanir stöðva sig í lífinu. 

Stefnt er að því að fjölga starfsmönnum í geðheilsuteymi austur en langir biðlistar hafa myndast eftir þjónustu þess. Staðan nú er óviðunandi segja stjórnendur þess. Bergþór Grétar Böðvarsson, Reykvíkingur ársins, er gott dæmi um mann sem hefur ekki látið geðraskanir stöðva sig í lífinu. 

Bergþór greindist með geðhvörf árið 1989. Í dag starfar hann sem fulltrúi notenda á geðsviði Landspítalans og sem verkstjóri NSN í Hlutverkasetri. Hann er Reykvíkingur ársins.

Bergþór átti frumkvæði að því að Reykjavíkurborg, geðsvið LSH og Hlutverkasetur settu af stað verkefnið Geðveikur fótbolti.

Undir stjórn Bergþórs hefur fótboltalið FC Sækó dafnað með reglulegum æfingum, mótum og vináttuleikjum erlendis. Bergþór hefur varið drjúgum tíma til þess að hlúa að þessu hugsjónarverkefni, innan sem utan vallar.

Þegar tilkynnt var um valið á Reykvíkingi ársins kom fram að Bergþór er öðrum hvatning og fyrirmynd í fótboltaverkefninu FC Sækó. Hann hafi á jákvæðan hátt náð að tengja saman ólíka hópa fólks, sem hafa annars sjaldan tækifæri til að hittast. FC Sækó sé frábært dæmi um hvernig auka má félagsauð og ryðja burt fordómum í borginni.

Bergþór Grétar Böðvarsson.
Bergþór Grétar Böðvarsson. mbl.is/Hari

Bergþór sagði sjálfur við tilnefninguna að þegar menn séu komnir út á fótboltavöllinn séu allir jafnir og allir jafngeðveikir. Verkefnið FC Sækó hófst í nóvember 2011 og starfar samnefnt íþróttafélag sjálfstætt. Bergþór var meðal stofnenda og hefur hann í kjölfarið sótt þjálfaranámskeið hjá KSÍ.

Markmið liðsins er fyrst og fremst að efla og auka virkni fólks með geðraskanir, veita þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu og draga úr fordómum.

Á æfingum og í keppni eru allir jafnir og félagsmenn styðja hver annan. Batabolti snýst ekki bara um fótbolta, heldur er það heildarumgjörðin sem stuðlar að bata, þ.m.t  að stíga út fyrir rammann, vera liðsheild og eiga samskipti og þar hefur Bergþór gegnt lykilhlutverki með brennandi áhuga sínum og hvatningu.

FC Sækó er skipað bæði konum og körlum í geð- og velferðarkerfinu, bæði starfsmönnum og notendum þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið.

Bergþór var skjólstæðingur geðsviðs Landspítalans í tíu ár en hann greindist rúmlega tvítugur. Að sögn Bergþórs var hann byrjaður að finna fyrir sjúkdómnum strax á unglingsárunum án þess að til greiningar kæmi.

Á þessum tíma, það er á síðasta áratug síðustu aldar, voru fá úrræði í boði fyrir fólk með geðraskanir og ekki mikið hugsað um eftirfylgni, svo sem að koma fólki í hlutverk.

„Ég lá alltaf inni á geðdeildinni A-2 á Borgarspítalanum sem þá var og hét í Fossvogi og þar gátum við farið í tækja- og slökunarsalinn í kjallaranum. Einnig gengum við reglulega í sund á Grensásdeildinni. Ég man líka að við fórum oft út í garð þannig að hreyfingin var svo sem til staðar ef við bárum okkur eftir henni. Eins var stórt iðjuherbergi inni á deildinni og við sátum mikið þar og spjölluðum saman eða unnum að verkefnum sem við fundum okkur. Á þessum tíma voru herbergin stærri á geðdeildinni en í dag og að mörgu leyti allt miklu heimilislegra.

Aftur á móti var það þannig að eftir innlögn þá fékk maður lítinn sem engan stuðning. Var bara sendur heim án nokkurrar eftirfylgni,“ segir Bergþór.

Bergþór Grétar veiddi fyrsta lax ársins í Elliðaánum í sumar …
Bergþór Grétar veiddi fyrsta lax ársins í Elliðaánum í sumar en þar var tilkynnt um að hann væri Reykvíkingur ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upplifði Arnarholt sem hálfgerða endastöð

Fyrstu árin eftir að Bergþór var greindur með geðhvörf á sínum tíma glímdi hann við mikla ofsóknarkennd og sjálfsskaðahugsanir. Hann gerði ítrekaðar tilraunir til sjálfsvígs og að hans sögn var ýmislegt reynt í meðferðinni. Til að mynda dvaldi hann um tíma  á Arnarholti sem hann upplifði sem hálfgerða endastöð.

„Þetta var hins vegar spark í rassinn á mér um að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum. Á þessum tíma var búið að reyna ýmislegt, svo sem raflostmeðferðir. En blessunarlega rofaði til hjá mér og ég hef verið að vinna hér í 12 ár og þjálfað FC Sækó í sjö ár,“ segir Bergþór.

Hann fór að taka þátt í starfi klúbbsins Geysis árið 1999 og þar segist Bergþór hafa kynnst einhverju öðru en hann hafði áður upplifað. Ári síðar var hann farinn að leita annarra leiða og kominn á fullt í starf fólks með geðraskanir. Svo sem Hugarafli árið 2003.

Að sögn Bergþórs dvaldi hann meðal annars á geðdeildinni á Reykjalundi á sínum tíma og segir hann að það hafi gert honum mjög gott. „Þar kynntist ég öðrum sjúklingahópum og fordómarnir voru minni í manns garð en þegar maður var inni á geðdeildinni. Ég var mjög ánægður með dvölina á Reykjalundi enda gott að hitta fjölbreyttari hóp heldur en þann sem var á geðdeildinni,“ segir Bergþór.

Vann alltaf þrátt fyrir veikindin

Að sögn Bergþórs hætti hann að taka geðlyf árið 2001 og ástæðan var meðal annars sú að hann átti að taka lyfin fjórum sinnum á dag og hann vildi ekki að vinnufélagarnir sæju að hann væri á lyfjum.

„Ég lærði húsasmíði á sínum tíma og vann alltaf þrátt fyrir veikindin. Ég skammaðist mín svo fyrir að vera á geðlyfjum þannig að ég tók lyfin bara tvisvar á dag í stað fjögurra. Síðan var ég alltaf að velta fyrir mér af hverju ég væri eiginlega að taka lyfin. Ég vó þetta og mat, hvað væri jákvætt og hvað neikvætt. Upp komu í hugann hlutir eins og peningaáhyggjur – átti ég fyrir lyfjunum, átti ég lyf? Var ég búinn að taka lyfin? Alls konar slík atriði komu upp í hugann og svo fór að ég taldi neikvæðu hliðarnar fleiri en þær jákvæðu. Til að mynda var ég að vakna upp á nóttunni við þá hugsun hvort ég hefði munað eftir því að taka lyfin áður en ég fór að sofa,“ segir Bergþór.

Spurður hvort þetta hafi ekki verið erfitt segir Bergþór að svo hafi verið og hann var erfiður í samskiptum á þessum tíma. „Ég fann minnst fyrir því en sennilega fundu allir sem voru nálægt mér á þessum tíma meira fyrir þessu. Svona eins og þegar fólk hættir að reykja.“

Árið 2003 hóf Bergþór að taka þátt í starfi Hringsjár, sem er náms- og starfsendurhæfing fyrir fólk sem vill komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir hlé vegna sjúkdóma, slysa eða annarra áfalla. Hann lauk þaðan námi og fór að vinna hjá geðsviði Landspítalans árið 2006.

„Ástæðan fyrir því að ég fór að vinna þar var sú að árið 2004 vorum við að vinna verkefni í Hugarafli, verkefnið heitir Notandi spyr notanda og var unnið inni á þremur geðdeildum með sjúklingum. Í framhaldi af því hafði ég samband við Eydísi Sveinbjarnardóttur, þáverandi sviðsstjóra hjúkrunar geðsviðs, um að koma svona notendastarfi á. En hún hafði einmitt verið að vinna á geðdeildinni á Borgarspítalanum þegar ég var þar og hafði fylgst með mér í gegnum tíðina. Eins leitaði ég til margra aðila tengdum geðheilbrigðiskerfinu til að undirbúa þetta. Fyrsta mars árið 2006 var minn fyrsti starfsdagur á Landspítalanum og hér er ég enn,“ segir Bergþór.

„Ég byrjaði í 20% starfi og fór smátt og smátt upp í 50% sem ég er enn í dag í ásamt því að starfa 50% í Hlutverkasetri. Til að byrja með var ég staðsettur í geðdeildarbyggingunni á Hringbraut og fór þá reglulega á deildir til að kynna starfið, réttindi sjúklinga og önnur úrræði og þá fékk ég oft notendur og eða starfsmenn sumra úrræða til að koma og kynna sína starfsemi.

Seinna fór ég að vera einu sinni í viku inni á Kleppi og tók þátt í að innleiða batamiðaða þjónustu á geðsviðinu og í september 2015 fór ég yfir í Batamiðstöðina þar sem ég er með fótboltaverkefnið, léttar styrktaræfingar og fleira.“

Eitt af því sem Bergþór segir að hafi hjálpað sér mikið í veikindunum var að skrifa. „Frá 1998 hef ég skrifað mjög mikið. Greinar, ljóð og hugrenningar. Í mínum veikindum skrifaði ég mikið um tilfinningar mínar og var í raun alltaf skrifandi. Ef ég var í strætó fann ég stundum slíka þörf fyrir að skrifa að ég fór út og skrifaði það sem mér lá á hjarta. Þetta hjálpaði mér mjög mikið og ég ráðlegg öllum að skrifa um það sem þeim liggur á hjarta.“

„Fyrsti mars árið 2006 var minn fyrsti starfsdagur á Landspítalanum …
„Fyrsti mars árið 2006 var minn fyrsti starfsdagur á Landspítalanum og hér er ég enn,” segir Bergþór Grétar Böðvarsson. mbl.is/Hari

Betur hlúð að fólki en áður

Bergþór segir úrræði betur nýtt en áður og meira hlúð að fólki með geðraskanir en var áður. Horft til fleiri atriða, svo sem hreyfingar sem skipti miklu máli. Eins hefur regla mikil áhrif. „Reykjalundur kom þar sterkt inn þar sem útivera er notuð sem hluti af meðferðinni og mikil útivera hjálpaði mér. Ég átti í erfiðleikum með drykkjuna og fór á Vog á sínum tíma og hef ekki drukkið í einhver 20-30 ár. Það er líka eitt sem þarf að hafa í huga; áfengi og önnur neysla vímuefna fer afar illa saman með geðsjúkdómum.

Ég get aldrei sagt að ég hafi náð fullum bata því geðsjúkdómurinn býr alltaf á bak við og ég gæti mín. Ég þekki sjálfan mig orðið mjög vel og vel það að neyta ekki áfengis því ég er nokkuð viss um að það geti spillt heilsu minni.

Sama á við um svefn því regla er svo mikilvæg þegar kemur að allri heilsu. Stundum er ég efins á greiningar. Þær eru sjálfsagt góðar til þess að hægt sé að ákveða hvaða lyf og meðferð eigi við en sumir eru kannski lausir alveg eftir einhvern tíma á meðan aðrir eru að takast á við þetta alla ævi.

Það er með þessa blessuðu geðsjúkdóma að við getum aldrei fullyrt að það séu sömu einkennin hjá fólki sem kannski er með sömu greiningu.

Sem betur fer er í dag farið að horfa meira til þess sem fólk hefur gengið í gegnum, uppvaxtarára og hvort áföll séu til staðar. Eins er unnið meira með styrkleika fólks í stað þess að horfa til veikleika. Reynt að virkja fólk en hér áður var það meira þannig að þú fékkst greiningu og þar við sat,“ segir Reykvíkingur ársins.

Skjólshús væri draumur

Eitt af draumum Bergþórs er að hér verði komið úrræði á laggirnar sem nefnist skjólshús (safehouse). Þetta yrði sæmilega stórt hús þar sem hægt væri að bjóða upp á hvíldarinnlögn. „Engin nauðsyn að þar fari fram mikil meðferð heldur frekar að fólk eigi möguleika á að hitta annað fólk og halla höfði sínu annars staðar en heima hjá sér. Ástæðan hjá sumum þeirra sem leita til geðdeildar er ekki sú að það vilji einhverja meðferð heldur að komast út úr aðstæðum sem það er í og erfitt að komast út.

Til að mynda ef maður er búinn að vera veikur lengi í sínu herbergi þá getur herbergið verið orðið veikt. Það er sjúkt og maður þarf að komast út úr því. Eins að aðstandendur fái frið og sjúklingurinn eða notandinn líka. Það er svo eðlilegt að þurfa á því að halda. Einhver drífi þig út í göngutúr og jafnvel sýni þér hlýju. Sumir geta leitað til vina en það geta það ekki allir,“ segir Bergþór Grétar Böðvarsson, knattspyrnuþjálfari og Reykvíkingur ársins.

Sigríður Hrönn Bjarnadóttir teymisstjóri og Erik Brynjar Schwitz Eriksson, geðlæknir …
Sigríður Hrönn Bjarnadóttir teymisstjóri og Erik Brynjar Schwitz Eriksson, geðlæknir hjá geðheilsuteymi austur. mbl/Arnþór Birkisson

Geðheilsuteymi á landsvísu 2020

Alþingi samþykkti í apríl 2016 þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Eitt af aðalmarkmiðum þeirrar áætlunar var að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld. Í því samhengi er tiltekið að fólk sem glímir við geðröskun hafi aðgang að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem komi að greiningu og meðferð. Því verði náð fram með fjölgun geðheilsuteyma á höfuðborgarsvæðinu og nýjum teymum komið á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki til staðar. 

Undanfarin ár hefur slíkt geðheilsuteymi starfað í Breiðholti en það teymi heitir nú geðheilsuteymi austur og er til húsa í Spönginni Grafarvogi. Teymið sinnir íbúum Breiðholts, Árbæjar, Grafarvogs, Norðlingaholts, Grafarholts og Kjalarness. Í skýrslu sem kom út fyrir ári kemur fram að stofna eigi tvö ný geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu.

Annars vegar fyrir íbúa í Vestur-Reykjavík (Seltjarnarnes, Laugardalur, Háaleiti, miðborg, Hlíðar og Vesturbær) og hins vegar fyrir kragasvæðið (Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður). Jafnframt eigi geðheilsuteymi austur að þjónusta Mosfellsbæ. 

Í skýrslunni er miðað við að geðheilsuteymi vestur taki til starfa í janúar 2018 en geðheilsuteymi kragans ári síðar. Þá er lagt til að í framhaldinu verði komið á geðheilsuteymi á landsvísu í byrjun árs 2020. Gert er ráð fyrir að þverfagleg teymi 12 til 16 heilbrigðisstarfsmanna starfi í hverju geðheilsuteymi sem verði skipað geðhjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, læknum, félagsráðgjöfum, sjúkraliðum, iðjuþjálfum, fjölskyldumeðferðarfræðingum og heilsuráðgjöfum, fyrrverandi notendum þjónustunnar auk skrifstofufólks.

Anna engan veginn eftirspurn

Geðheilsuteymi vestur tók til starfa nú í september, ekki í janúar eins og til stóð, og eru starfsmennirnir fimm í fjórum stöðugildum. Hjá geðheilsuteymi austur eru starfsmennirnir átta í tæpum sjö stöðugildum. Sigríður Hrönn Bjarnadóttir teymisstjóri og Erik Brynjar Schwitz Eriksson, geðlæknir hjá geðheilsuteymi austur, segja að stefnt sé að því að starfsmenn teymisins verði tólf en það sem hamlar starfi teymisins einna mest er að það annar ekki eftirspurn. Þær góðu fréttir bárust í gær að fjölga ætti í teyminu og bæta húsakost þess. Ákveðið hefur verið að fjölga starfsmönnum í 12. 

Staðan þar er ekki ólík því sem víða er í geðheilbrigðiskerfinu, mikið álag á allt of fáa starfsmenn sem vinna við ófullnægjandi aðstæður. Líkt og fram hefur komið í greinaflokknum hefur ungu fólki á örorku fjölgað mjög og tæplega 57% þeirra sem eru á örorku glíma við geðraskanir. Mikill skortur er á búsetuúrræðum fyrir fólk með geðraskanir, ekki bara í Reykjavík, heldur víðast hvar. 

Sigríður segir að það sé aðkallandi að teymið fái til starfa félagsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa, iðjuþjálfa og heilsuráðgjafa en teymið er með stóran hóp skjólstæðinga sem margir eru með flókinn vanda. 

„Við gætum gert enn betur ef við fengjum þessa starfsmenn strax til starfa. Teymið yrði stækkað og starfsmönnum fjölgað í 12. Þá gætum við sinnt því sem okkur er ætlað að sinna. Við reynum að gera okkar besta en það mæðir mjög mikið á starfsfólki. Eins háir húsnæðiskosturinn okkur þar sem það hentar ekki vel undir starfsemi sem þessa þar sem miklu skiptir að geta tekið á móti fólki í aðlaðandi húsnæði sem hentar fyrir hópastarf, námskeið sem og einstaklingsviðtöl,“ segir Sigríður sem fékk þær fréttir í gær að húsakostur teymisins yrði bættur.

Alls eru 75 þúsund íbúar á svæðinu sem geðheilsuteymi austur er ætlað að sinna. Mosfellsbær á að vera inni en teymið getur ekki sinnt sveitarfélaginu eins og staðan er nú vegna manneklu.

Mikilvægt að þjónustan sé á forsendum einstaklingsins

Erik segir að teymið teljist til annars stig þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu. „Við tökum við fólki með ýmiss konar geðsjúkdóma og getum mætt þörfum flestra sem hingað leita og heilsugæslan nær ekki að sinna. Einhverjir eru það veikir að þeir þurfa á aðstoð teyma á vegum Landspítalans að halda, það er þriðja stigs þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu,“ segir Erik og vísar þar til teyma eins og átröskunarteymisins á geðsviði LSH, Laugarássins, sem er fyrir unga geðrofssjúklinga og samfélagsgeðteymisins á Reynimel.

Líkt og heilbrigðiskerfið er byggt upp leitar fólk fyrst til heilsugæslunnar. Þar eru sálfræðingar starfandi á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en þeir sinna fyrst og fremst börnum. Jafnframt er verið að fjölga sálfræðingum sem sinna fullorðnum, líkt og fram kemur í viðtali við Agnesi Agnarsdóttur, yfirsálfræðing Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem birt var fyrr í dag.

Sigríður segir að ef vandinn er orðinn meiri en heilsugæslan ráði við þurfi teymi eins og þeirra, samfélagsgeðteymi, sem er í nánu samstarfi við marga aðila, til þess að styðja við viðkomandi. 

„Við höldum utan um alla þræði fyrir skjólstæðinga okkar og gætum þess að þeir fái okkar þjónustu og þá þjónustu sem þeir þurfa annars staðar frá, svo sem frá félagsþjónustunni og Landspítalanum ef því er að skipta. Eða tengist félagslegum úrræðum sem í boði eru í þjóðfélaginu. Mikilvægt er að þetta sé gert á forsendum einstaklingins,“ segir Sigríður.

Erum til staðar eins lengi og fólk þarf

Batamódelið er fyrirmyndin að starfi teymisins – hvað er bati og góð andleg líðan er einstaklingsbundið og eins hvaða leiðir eru að því markmiði, segir Erik. „Það er erfitt að vera veikur og skiptir engu hvort veikindin eru líkamleg eða andleg. Mjög oft er það þannig að okkar skjólstæðingar glíma einnig við líkamleg veikindi og eiga jafnvel erfitt með að sækja sér þjónustu út af heimilinu,“ segir hann en eitt af meginmarkmiðum þjónustunnar er að vera eins lengi til staðar og fólk þarf á að halda á leið þess út í lífið að nýju. Þegar þeirri vegferð lýkur fer fólk úr annars stigs þjónustu yfir í fyrsta stigs, það er til heilsugæslunnar þar sem meginþorri þjóðarinnar er. 

Hjá teyminu eru 105 innskrifaðir sjúklingar og langir biðlistar eftir þjónustu þess. Mjög misjafnt er hversu lengi fólk þarf á stuðningi að halda og eins hversu mikla aðstoð sem getur verið frá 3-4 sinnum í viku til einu sinni í mánuði. Áætlanir kveða á um að 200 manns geti notið þjónustu geðheilsuteymis austur en það er ekki mögulegt nema með því að fjölga stöðugildum.

„Við erum allt of fá því miður og biðlistarnir allt of langir en þeir sem verið er að taka inn núna hafa beðið frá því í febrúar. Þetta er eiginlega óviðunandi,“ segja þau og bæta við að á meðan beðið er veikist fólk yfirleitt enn meira með þeim afleiðingum að það er lengur að ná bata þegar það kemst loksins í þá aðstoð sem það á rétt á. 

Í ákveðnum tilvikum þarf að forgangsraða á biðlistunum þar sem teymið tekur strax við þeim sem eru að útskrifast úr þjónustu geðdeildar Landspítalans því það er fólk sem er í bata og þarf ekki á innlögn að halda lengur heldur aðeins eftirfylgni. 

Þau Sigríður og Erik segja þetta mikilvægt, það er að kerfin vinni saman, það er frá fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar til þess þriðja en sá endi þjónustunnar er mesta inngripið og um leið dýrast fyrir þjóðarbúið.

Sigríður segir þetta nauðsynlegt til að tryggja að fólk geti komist heim til sín af sjúkrahúsinu. „Auðvitað myndum við helst vilja eyða biðlistunum en til þess verður að fjölga stöðugildum og þar stendur hnífurinn í kúnni.“

Ekki er nóg að fara af stað með geðheilsuteymi án þess að þau séu fullmönnuð og geti því ekki sinnt hlutverki því sem þeim er ætlað. Geðheilsuteymið hafi aldrei verið fullmannað allt frá stofnun þess en von sé til þess að það breytist núna. 

Eitt af því sem þarf er að öll úrræði og …
Eitt af því sem þarf er að öll úrræði og kerfi nái að vinna saman sem ein heild einstaklingnum til hagsbóta. mbl.is/Hari

Mikilvægt að styðja fólk í að vinna úr áföllum

Algengustu veikindin meðal skjólstæðinga teymisins eru þunglyndi og kvíði og mjög algengt er að fólk sé með áfallasögu. Fólk sem er búið að reyna ýmis önnur úrræði árangurs þar sem áföllin hafa hindrað batann. Í langflestum tilvikum er þetta fólk með langa og flókna áfallasögu sem er hindrun í að það fái bata. 

Þau segja mjög mikilvægt að veita fólki aðstoð við að vinna úr áföllum. Eins er unnið í grunnþáttum þegar fólk fær aðstoð teymisins. Þáttum eins og að hjálpa fólki með svefn og svefnvenjur, hreyfingu, mataræði og aðra jafnvægisstillingu. Allt teymið kemur að þessu og svo er skoðað hvort viðkomandi er reiðubúinn til þess að fara í einhvers konar áfallavinnu sem hefur notið meðal annars stuðnings frá áfallateymi Landspítalans í gegnum einstaka starfsmenn.

Spurður um hvaða áföll er að ræða segir Erik áföllin oft tengjast ofbeldi og það getur verið af margvíslegum toga. Svo sem heimilisofbeldi, vanrækslu, kynferðislegu ofbeldi o.fl. Einhverjir hafa jafnvel lent í margvíslegum áföllum.

Meðal skilyrða sem sett eru fyrir því að fá stuðning frá geðheilsuteyminu er að viðkomandi hafi náð átján ára aldri og sé ekki í virkri neyslu. Það eru önnur kerfi betri en við að vinna með neyslu sem fyrsta vanda. Sumir skjólstæðinga teymisins hafa átt við fíknivanda að stríða og teymið styður fólk líka við að leita eftir aðstoð hjá þeim sem eru sérhæfðir í slíkum úrræðum, segja þau Erik og Sigríður.

Miðjan í mengi margra þátta

„Við erum í raun miðjan í mengi margra þátta. Eitt af því sem við viljum ekki er að skilgreina okkur of þröngt þó svo eftirspurnin eftir þjónustu okkar sé mikil. Því veitum við fólki aðstoð við alls konar vandamálum sem kannski falla ekki undir þrengstu skilgreiningu á hlutverki okkar. En við getum ekki gert allt og því mikilvægt að vísa fólki í önnur og hentugri úrræði þegar það á við,“ segir Sigríður. 

Þau eru sammála öðrum sem starfa á geðheilbrigðissviðinu um mikilvægi þess að grípa snemma inn í svo hægt sé að koma í veg fyrir að vandinn vaxi og veikindin versni. Ekki er hátt hlutfall þjóðarinnar sem þróar með sér langvinna áfallastreituröskun sem ætti að þýða að það á að vera hægt að takast á við vandann. 

„Fólk deyr úr geðsjúkdómum eins og úr krabbameini, í geðheilbrigðisþjónustunni vinnum við að því að koma í veg fyrir það eins og mögulegt er. En þetta snýst líka um að bæta lífsgæði, auka von fólks og stundum að lifa með það sem það hefur,“ segir Erik

Eitt af verkefnum sem hafa verið hýst hjá geðheilsuteyminu eru Gæfusporin sem ætluð eru konum sem hafa orðið fyrir áföllum af völdum ofbeldis. Fimm slík námskeið hafa verið haldin á vegum teymisins en ekkert slíkt er á döfinni vegna fjárskorts.

Þau taka undir með öðrum viðmælendum blaðamanns mbl.is um að það verði að grípa til róttækra aðgerða í þjóðfélaginu áður ástandið versnar enn frekar. Auka forvarnir og leggja aukið fé inn í geðheilbrigðiskerfið.

Mögulega er hægt að bæta lífskjör hér á landi umtalsvert …
Mögulega er hægt að bæta lífskjör hér á landi umtalsvert án þess að laun þyrftu að hækka mikið með því að stytta vinnutíma, segir Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Aukið álag á fjölskyldur

Þau segja að á sama tíma og sífellt fleiri fari á örorku aukist álagið á barnafjölskyldur og aðra í samfélaginu. Fólk vinnur mikið á sama tíma og sinna þarf heimilinu. Álagið skilar sér í verri líðan fólks. Margir nefna vinnumarkaðinn í þessu samhengi og að hann verði að taka tillit til þessa líkt og einhverjir atvinnurekendur hafa gert. 

Reykjavíkurborg hefur með góðum árangri gert tilraun með að stytta vinnuvikuna og í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg síðasta vor kemur fram að tilraunaverkefnið um styttingu vinnuvikunnar hafi haft jákvæð áhrif. Jafnvel jákvæðari áhrif en væntingar voru um. Dregið hafi úr fjarvistum og hugarfar fólks til styttingar eða aukins sveigjanleika í starfi hafi almennt verið jákvætt.

Yfirvinna gefur vald yfir launum

Eitt af því sem Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor nefnir í skýrslu sem hann vann nýverið fyrir forsætisráðuneytið, Staða efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga, er að mögulega væri unnt að bæta lífskjör hér á landi umtalsvert án þess að laun þyrftu að hækka mikið með því að stytta vinnutíma. Langur vinnudagur skerðir tómstundir og fækkar samverustundum með fjölskyldu. Kulnun í starfi er einnig að verða algengara vandamál.

„Eitt einkenni íslensks vinnumarkaðar er mikil yfirvinna. Yfirvinna getur gefið vinnuveitanda vald yfir launum og vinnutíma starfsfólks. Hún setur starfsfólki einnig skorður þegar kemur að því að sinna börnum og heimili og eiga frístundir.

Ein leiðin sem fólk hefur farið hérlendis er að börn á leikskólaaldri séu í leikskólum og börn á skólaskyldualdri gangi sjálfala eftir að skóla lýkur en slíkt verður ekki til þess að efla fjölskyldutengsl.

Stytting vinnutíma getur aukið framleiðni og auðveldað fólki að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Einnig er unnt að setja þak á yfirvinnugreiðslur og tryggja að tímabundnum vinnutoppum sé mætt með því að yfirvinna gefi aukinn frítíma, eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.

Önnur leið er að veita fólki meira frelsi til að ráða hvenær dags það vinnur og færa vinnutíma á milli daga. Það getur hentað einhverjum að vinna fjóra langa vinnudaga og taka þriggja daga frí í viku hverri á meðan aðrir vilja dreifa vinnunni yfir fimm vinnudaga, svo dæmi sé tekið. Ein möguleg útfærsla þessarar hugmyndar er að semja um að starfsfólk geti ákveðið hvenær t.d. fjórar eða átta vinnustundir á viku eru unnar. Reynsla erlendis sýnir að slíkur sveigjanleiki getur hjálpað launafólki að ná betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs,“ segir meðal annars í skýrslu Gylfa.

Færri innlagnir 

Eitt af því sem geðheilsuteymi austur vinnur að er að auka virkni skjólstæðinga teymisins í daglegu lífi. Þeim er meðal annars veitt aðstoð við að fara út á vinnumarkaðinn meðal annars með aðstoð frá Virk en fjallað er nánar um módelið (IPS) í annarri grein um helgina. 

Starfsemi geðteymisins hefur gefið góða raun og eftir stofnun þess hefur innlögnum íbúa á upptökusvæði þess á geðsvið Landspítalans fækkað. Sigríður og Erik benda hins vegar á að enn sé hægt að gera betur en það verði ekki gert nema starfsfólki teymisins verði fjölgað og húsakostur þess bættur sem væntanlega er að gerast núna.

„Mikilvægt er að hafa í huga að samvinna félagsþjónustu og geðheilsuteymis hefur sýnt góðan árangur þar sem áhersla var lögð á að einstaklingurinn fái þjónustu í sínu nærsamfélagi. Til að auka gæði þjónustunnar enn fekar þarf að stuðla að því að notendur og aðstandendur komi í ríkari mæli að þjónustunni. Ásamt því að öll úrræði og kerfi nái að vinna saman sem ein heild einstaklingnum til hagsbóta,“ segja þau Sigríður Hrönn Bjarnadóttir teymisstjóri og Erik Brynjar Schwitz Eriksson, geðlæknir hjá geðheilsuteymi austur.

Inga Wessman sálfræðingur.
Inga Wessman sálfræðingur. mbl.is/Hari

Oft auðvelt að laga sjálfsskaða en tekur tíma

Tengsl geðraskana og sjálfsvíga eru vel þekkt en margar geðraskanir eru áhættuþættir fyrir sjálfsvígshegðun. Hið sama á við um sjálfsskaða og geðraskanir.

Sjálfsskaði (non-suicidal self injury) felst í að valda skaða á yfirborði líkamans viljandi, stundum svo blæði eða myndist marblettur, þannig að viðkomandi upplifi sársauka, án þess að ætla sér að enda eigið líf.

Dæmi um sjálfsskaða eru til dæmis að skera, stinga, klóra, brenna eða slá sig eða slá höfðinu í vegg. Sjálfsskaði hefst oftast snemma á unglingsaldri og getur viðhaldist í mörg ár ef aðstoð er ekki veitt.

Sjálfsskaði er eitthvað sem oft er auðvelt að laga en getur tekið smá tíma, segir Inga Wessman, sálfræðingur á Litlu kvíðameðferðarstöðinni. Lykilatriðið er að gefa sér ekki að maður viti af hverju einhver skaðar sig. Það er til dæmis algengt að fólk með jaðarpersónuleikaröskun (borderline personality disorder) sé sakað um að skaða sig til þess að fá athygli.

„En viljum við ekki öll athygli? Vandinn er ekki athyglissýki heldur skortur á heppiliegri aðferðum til að ná athygli eða fá hlýju og stuðning.

Fólk með jaðarpersónuleikaröskun er með mikið tilfinninganæmi. Það þýðir að væg áreiti kalla fram stekar tilfinningar sem vara lengi. Það geta aðrir átt erfitt með að skilja og átta sig því ekki á, eða bregðast við því hversu illa viðkomandi líður, fyrr en þeir hafa skaðað sig eða sýnt sjálfsvígshegðun.

Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að samskiptafærni er kennd í gagnreyndri meðferð við jaðarpersónuleikaröskun. Hún felur m.a. í sér að kenna skjólstæðingum að fá sínu framgengt í samskiptum án þess að grípa til sjálfsskaða eða annarra leiða sem skemma fyrir samböndum og sjálfsvirðingu,“ segir Inga.

Að sögn Ingu eru fjórar algengar ástæður fyrir því að fólk skaði sig:

„Í fyrsta lagi til að draga úr erfiðum tilfinningum. Enda virkar það,“ segir hún. „Þegar fólk skaðar sig getur athygli þess færst á líkamlegan sársauka í stað andlegs, sem sumum finnst bærilegra. Því til viðbótar geta erfiðar tilfinningar eins og kvíði minnkað við það eitt að skaða sig vegna þess að líkaminn bregst við með því að hægja á líkamsstarfseminni til að tryggja að við lifum af. En við getum kennt aðrar aðferðir sem hafa sömu áhrif en eru ekki skaðlegar.“

„Í öðru lagi til að losa sig út úr hugrofsástandi (dissociation). Hugrofsástand aftengir okkur frá tilfinningum okkar og kannast um 20% mannfólks við að hafa upplifað slíkt ástand. Hugrof getur hjálpað okkur í krísu með því að aftengja okkur frá yfirþyrmandi erfiðum tilfinningum. En um leið lokar hugrofsástand fyrir þægilegar tilfinningar eins og gleði eða tilhlökkun svo þetta er ekki hjálplegt ástand til lengri tíma litið.

Þeir sem fara oft í hugrof geta upplifað mikla og þráláta tómleikakennd, sem er mjög óþægilegt og oft óbærilegt ástand. Þegar allar tilfinningar eru farnar situr ekkert eftir, bara tómleikinn og viðkomandi finnst hann varla vera lifandi. Í slíku ástandi er algengt að fólk skaði sig, fái sjálfsvígshugsanir eða sýni sjálfsvígshegðun.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að þegar fólk gerir tilraun til sjálfsvígs vegna svona ástands að þá sér það á eftir því um leið og það finnur aftur fyrir tilfinningum, jafnvel kvíða, því þá er tómleikakenndin horfin og því finnst það vera á lifandi.

Þriðja ástæðan er refsing; ég á þetta skilið. Sumir telja sig vera einskis virði, vera ógeðslegir og jafnvel hata sig. Slíkt sjálfshatur eða ógeð getur einnig leitt til sjálfsskaða,“ segir Inga.

„Fjórða ástæðan er þessi sem flestir gera ráð fyrir, til að fá stuðning, umhyggju eða athygli frá öðrum. Sumir eru meðvitaðir um að vera að skaða sig í þessum tilgangi en aðrir eru alls ekki meðvitaðir um þessa tengingu og átta sig því ekki á því hvers vegna þeir skaða sig. En mikilvægt er að hafa í huga að viðkomandi kann hugsanlega ekki heppilegri aðferðir til þess að biðja um stuðning, umhyggju og athygli.

Að lokum nefnir Inga að fólk skaði sig ekki einungis til þess að losna frá óþægilegu innra ástandi eða til að fá athygli. Stundum skaðar fólk sig til að upplifa þægilegt innra ástand sem er stundum lýst sem eins konar sæluvímu.“

Munurinn á skammtíma- og langtímaafleiðingum

Þó að sjálfsskaði geti haft jákvæðar skammtímaafleiðingar er hann ekki hjálplegur til lengri tíma litið. Sjálfsskaði kemur í veg fyrir að fólk læri gagnlegar aðferðir til að takast á við tilfinningar sínar. Hann eykur oft vanlíðan til lengri tíma litið, þar sem margir fá sektarkennd og skammast sín fyrir sár, ör og annað sem af hlýst. Sjálfsskaði getur leitt til varanlegra öra og jafnvel líkamlegs skaða sem er óafturkræfur. Sjálfsskaðahegðun hefur líka yfirleitt neikvæð áhrif á sambönd við vini og vandamenn.

„Meðferð við sjálfsskaða getur tekið tíma og þolinmæði en það er svo sannarlega þess virði að hjálpa fólki að byggja upp líf sem það vill lifa,“ segir Inga.

Hún segir mikilvægt að fá fólk til þess að losa sig við það sem notað er til að skaða sig, s.s. henda rakvélablöðum, kveikjurum og klippa neglurnar. „Aðgengi að því sem notað er spáir hvað best fyrir um sjálfsskaða,“ segir hún. Það sama á við um aðra hvatvísi eins og áfengisdrykkju. Ef einstaklingur er að reyna að hætta að drekka getur verið mikilvægt að vera ekki í kringum áfengi á meðan færni til að meðhöndla löngunina til að drekka lærist.

„Eins getur verið mikilvægt að forðast aðstæður sem eru kveikjan að löngun til sjálfsskaða, þar til viðkomandi hefur öðlast færni til að takast á við vandann og telur sig getað þolað við í návist kveikjunnar, án þess að skaða sig. Slíkar kveikjur eru t.d. ákveðin tónlist eða kvikmyndir. Mikilvægt er að hafa í huga að þó að hægt sé að forðast eða flýja sumar ytri kveikjur þá er ekki hægt að gera það sama við innri kveikjur. Innri kveikjur eru hugsanir, tilfinningar, langanir og líkamleg viðbrögð. Því er mkilvægt að kenna fólki færni til að þola erfitt innra ástand án sjálfsskaða. Við köllum það krísufærni,“ segir Inga Wessman.

Færni til að takast á við innri kveikjur án sjálfsskaða

„Krísufærni felst meðal annars í aðferðum sem breyta innra ástandi og hjálpa fólki að dreifa athygli og bæta augnablikið. Ein öflug aðferð er til dæmis að dýfa hausnum ofan í ískalt vatn. Þá virkjar þú flökkutaugina (vagus nerve) sem hægir á allri líkamsstarfsemi. Þetta er gott að endurtaka þangað til þér líður betur. Þar á eftir má síðan dreifa athyglinni, til dæmis með því að horfa á sjónvarpsþætti eða teikna. Það getur hjálpað að hlusta á tónlist sem kallar fram andstæðar tilfinningar en þær sem þú ert að reyna að losna við.

Markmiðið er að læra að þola við erfiðar tilfinningar án þess að skaða sig. Það getur tekið tíma að finna hvaða færni reynist hjálpleg og hve mörg skref þurfi í krísuplanið, en þetta virkar hjá þeim sem nota það. Einnig er mikilvægt að hjálpa fólki að minnka tilfinninganæmi sitt þannig að viðbrögðin verði ekki eins sterk þegar það lendir í erfiðleikum. Aðalatriðið er að hjálpa skjólstæðingnum að byggja upp líf sem er þess virði að lifa því,“ segir Inga.

Sjálfsskaði, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígshegðun

Það er mikilvægt að greina á milli sjálfsskaða annars vegar og sjálfsvígshugsana og hegðunar hins vegar. Þegar fólk skaðar sig er ekki hugsun eða löngun eða ætlun um að enda eigið líf. Að sjálfsögðu getur fólk sem skaðar sig einnig verið með sjálfsvígshugsanir og sýnt sjálfsvígshegðun, því þarf alltaf að spyrja út í sjálfsvígshugsanir og hegðun hjá þeim sem skaða sig, segir hún.

En það er eitt að hugsa um að gera eitthvað og annað að langa að gera það og annað að ætla sér að gera það og mikilvægt að greina þar á milli þegar það kemur að sjálfsvígshugsunum og -hegðun.

Stundum þjóna sjálfvígshugsanir og -hegðun sama tilgangi og sjálfsskaði, það er að draga úr vanlíðan eða fá stuðning eða umhyggju frá öðrum. Líkt og með sjálfsskaða getur það virkað til skemmri tíma litið en aukið á langtímavanda og komið í veg fyrir að fólk læri aðrar aðferðir til þess að byggja upp líf sem er þess virði að lifa.

„Mikilvægt er að hafa í huga að rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk á oft erfitt með að muna atburðarásir og á þá í erfiðleikum með að átta sig á hvers vegna það sýnir sjálfsvígshegðun. Það er því ekki að endilega meðvitað að sýna sjálfsvígshegðun til að fá stuðning og umhyggju.

Þeir sem nota sjálfsvígshegðun vegna þess að það leiðir til stuðnings og umhyggju frá öðrum kunna oft ekki heppilegri aðferðir til þess að fá þessum eðlilegu þörfum mætt, líkt og með sjálfsskaða,“ segir hún.

Mikilvægi þess að fagfólk vandi til verka

„En svo eru aðrir sem hugsa um sjálfsvíg og sýna sjálfsvígshegðun vegna þess að þá langar og ætla sér að deyja. Þar sem sjálfsvígshugsanir og hegðun geta gegnt svona ólíkum hlutverkum er mikilvægt að spyrja ítarlega út í hugsanir og ímyndir sem fólk hefur tengt sjálfsvígi og þeirri sjálfsvígshegðun sem það sýnir. Síðan þarf að ræða við fólk um hvort það hafi hugsað um aðferðir til að enda eigið líf og tryggja að fólk hafi ekki aðgang að því sem það hefur hugsað sér að nota til að fremja sjálfsvíg.

Ímyndir geta veitt mikilvægar upplýsingar um hlutverk sjálfsvígshugsana. Þegar búið er að bera kennsl á hlutverkið sem sjálfsvígshugsanirnar og -hegðunin gegna er mikilvægt að kenna fólki færni til að þola við erfiðar tilfinningar til að koma í veg fyrir að það endi eigið líf, ásamt því að byggja upp líf sem það vill lifa,“ segir Inga.

Hún segir að margir nefni að þeir telji sig betur komna dána. Að þeir vilji sofna og ekki vakna aftur eða deyja í slysi eða af völdum sjúkdóms. „Þá spyrðu; fyrir hvern er það betra? Ef svarið er; fyrir mig, þá spyrðu; „hvers vegna?“ og reynir að vinna út frá því.“

Sjálfsvíg eru oft rómantíseruð en það er ekkert fallegt við að taka eigið líf. Einhverjir sjá fyrir sér friðsælan dauðdaga en það er bara ekki þannig. Ef þú til dæmis tekur of stóran skammt af lyfjum eða hengir þig, þá missir þú stjórn á losun úrgangsefna, segir Inga.

„Við vitum heldur ekki hvað gerist þegar við deyjum. Það hefur enginn komið til baka og sagt okkur það. Dauðinn er endanlegur. Það er ekki aftur snúið. Ef það er líf eftir dauðann er engin trygging fyrir því að þjáningu okkar ljúki þar. „Kannski þarftu að læra að takast á við sömu tilfinningar og þú varst að forða þér undan, við höfum ekki hugmynd. Sjálfsvíg er varanleg „lausn“ við tímabundnum vanda. Nauðsynlegt er að gera fólki sem er í þessum hugleiðingum grein fyrir því,“ segir Inga.

„Ef svarið er að það sé betra fyrir hina vegna þess að viðkomandi telur sig vera byrði, þá þarf að fara yfir það með viðkomandi hvort því sé í raun þannig farið? Rannsóknir sýna að sjálfsvíg skilur að jafnaði eftir sjö nákomna manni sem syrgja ástvinamissi. Eru þeir allir í raun betur settir?“ spyr hún.

Ég er ekki tabú

Að sögn Ingu er ástæða þess að fólk segir oft ekki frá sjálfsvígshugsunum og -hegðun fordómar um geðræn vandamál. Fordómar búa til skömm og skömm leiðir til þöggunnar. Með fræðslu er hægt að hjálpa fólki að skilja sjálfsvígshugsanir og hegðun svo það sé sennilegra til að segja frá og leita sér fagaðstoðar.

Orsakir og áhrifaþættir sjálfsvígshugsana og -hegðunar eru margir og samspil þeirra flókið. Þrátt fyrir að við skiljum ekki algjörlega hvað leiðir til og hefur áhrif á sjálfsvígshugsanir og -hegðun þá virðast fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki.

Í fyrsta lagi getur ítarlegur fréttaflutningur sem fegrar sjálfsvíg og fjallar sérstaklega um aðferðir til að enda eigið líf leitt til smitáhrifa, segir Inga.

„Til að mynda var aukinn viðbúnaður á deildinni sem ég vann á í Boston í vor þegar nokkrir frægir einstaklingar frömdu sjálfsvíg. Það var gert vegna ótta við að fleiri myndu fylgja á eftir líkt og gerðist þegar Robin Williams framdi sjálfsvíg fyrir nokkrum árum. Það köllum við smitáhrif. Þess vegna er nauðsynlegt að umræðan um sjálfsvíg sé leidd af fagaðilum sem þekkja vel til málaflokksins. Við eigum ekki að þegja um sjálfsvíg en við eigum að stunda ábyrga umfjöllun. Ef við tölum ekki um sjálfsvíg þá getum við ekki ætlast til þess að fólk þori að segja frá því að það hugsi um sjálfsvíg.

Í öðru lagi geta fjölmiðlar frætt almenning um sjálfsvígshugsanir og -hegðun og hvatt þá sem eru í sjálfsvígshættu til að leita sér aðstoðar. Það er því mikilvægt að fjölmiðlar fylgi leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um hvernig fjalla eigi um sjálfsvíg.“

EKKI SPYRJA, EKKI SEGJA! (Don‘t ask don‘t tell!)

Á hverju ári fremur tæp milljón jarðarbúa sjálfsvíg. Það þýðir að á 40 sekúndna fresti fellur einhver fyrir eigin hendi. „Fólk segir að sjálfsvígstíðni sé að hækka en ég held að það sé ekki alveg rétt,“ segir Inga.

Þrátt fyrir miklar framfarir í greiningu og meðferð við geðröskunum hefur sjálfsvígstíðni haldist fremur stöðug síðastliðin 100 ár en þó verða einhverjar sveiflur í tíðni innan ákveðinna hópa yfir tíma.

Það er algengt að þeir sem fremja sjálfsvíg hafi leitað sér aðstoðar á undangengnu ári. Við vitum að fleiri leita aðstoðar hjá heimilislæknum en hjá geðheilbrigðisstarfsfólki. Niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að heimilislæknar spyrji sjaldan um sjálfsvígshugsanir og hegðun, meðhöndli vandann, eða vísi fólki í sjálfsvígshættu til viðeigandi sérfræðinga. Hið sama á því miður oft við um geðheilbrigðisstarfsfólk.

Við vitum að sjálfsvíg eru það sem geðheilbrigðisstarfsmenn óttast hvað mest í meðferð og rannsóknum. Niðurstöður erlendra rannsókna sýna að algengt sé að meðferðaraðilar fólks í sjálfsvígshættu sendi það frá sér til annarra sérfræðinga. Því til viðbótar er oft notast við ógagnreyndar aðferðir til að meðhöndla sjálfsvígshættu.

Þrátt fyrir að sjálfsvíg séu ellefta algengasta dánarorsök heims höfðu aðeins 48 (RCT) rannsóknir á meðferðarárangri við sjálfsvígshugsunum og hegðun farið fram árið 2013. Í mörgum af þessum rannsóknum voru sjálfsvígshugsanir og -hegðun ekki skilgreind eða metin með mælitækjum þar sem áreiðanleiki og réttmæti höfðu ekki verið metin. Þar að auki er fólk í mikilli sjálfsvígshættu oft ekki haft með í rannsóknum sem kanna árangur af meðferð við ýmsum geðröskunum, jafnvel þeim rannsóknum sem einblína sérstaklega á árangur meðferðar við sjálfsvígshugsunum og -hegðun,“ segir Inga.

Ekki hefur verið sýnt fram á að spítalainnlögn beri árangur til að draga úr sjálfsvígum, þvert á móti eykst sjálfsvígshætta töluvert eftir innlögn, segir Inga. „Samt erum við enn þá að leggja fólk í sjálfsvígshættu inn á spítala til að koma í veg fyrir að það endi eigið líf. Við sjáum einnig að almenningur á Íslandi virðist telja að það sé sú meðferð sem einstaklingar í sjálfsvígshættu þurfi.

Sennileg ástæða þess að spítalainnlögn gagnast ekki til að draga úr sjálfsvígum er sú að líf einstaklingsins utan spítalans hefur ekki breyst við það að leggjast inn á geðdeild. Við verðum að tryggja að meðferðaraðilar og rannsakendur hérlendis fái kennslu og þjálfun í að nota gagnreynt mat og meðferð við sjálfsvígshugsunum og -hegðun. Það myndi ekki bara bæta meðferð fyrir þá sem þjást heldur gefa meðferðaraðilum aukið sjálfstraust og vilja til að meðhöndla og rannsaka sjálfsvíg,“ segir hún.

Það er alltaf von, alltaf

Lítið dæmi um gagnreynt inngrip við sjálfsvígum segir Inga vera að senda fólki bréf eftir að það fer af bráðamóttöku vegna sjálfsvígshugsana eða -hegðunar. Bréfið þarf ekki að vera langt heldur aðallega að sýna fólki að það skipti máli. Að það sé einhver sem hugsar til þess. Einföld eftirfylgni sem virkar ef hún er endurtekin.

Díalektísk atferlismeðferð eða DAM-meðferð var þróuð fyrir sjálfsvígshugsanir og -hegðun en varð fljótlega meðferð fyrir jaðarpersónuleikaröskun. Meðferðin hefur reynst gagnleg til að draga úr sjálfsskaða, sjálfsvígshugsunum og -hegðun. Upphafskona hennar var Marsha Linehan en Inga var nemi á rannsóknarstofu hennar í eitt ár, ásamt því að hafa unnið í tvö ár á McLean-spítala í Boston sem er með sérhæfða DAM-meðferð.

Inga segir að það hafi „gefið góða raun að kenna fólki aðferðir til að þola við erfiðar tilfinningar svo það bregðist ekki við sjálfsvígshugsunum þegar það er í krísu og svo að hjálpa fólki að byggja upp líf sem er þess virði að lifa því.“

Það er nauðsynlegt að starsfólk á bráðamóttökum kunni að aðstoða fólk í sjálfsvígshættu og að gagnreynd viðbragðsáætlun og þjálfun sé fyrir hendi. „Þetta fólk þarf aðstoð og aðstoðin á að vera til staðar því það er alltaf von, alltaf,“ segir Inga Wessman.

mbl.is