Stefnir í skort á geðlæknum

Börnin okkar og úrræðin | 23. september 2018

Stefnir í skort á geðlæknum

Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir óttast að það stefni í alvarlegan skort á geðlæknum innan tíu ára. Ágúst Kristján Steinarrsson greindist með geðhvörf 19 ára en hefur verið án einkenna í fimm ár. „Frá því ég veiktist síðast hefur minn lífsstíll verið mín meðferð,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Stefnir í skort á geðlæknum

Börnin okkar og úrræðin | 23. september 2018

Helgi Garðar Garðarsson, forstöðulæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Helgi Garðar Garðarsson, forstöðulæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri. mbl.is/Hari

Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir óttast að það stefni í alvarlegan skort á geðlæknum innan tíu ára. Ágúst Kristján Steinarrsson greindist með geðhvörf 19 ára en hefur verið án einkenna í fimm ár. „Frá því ég veiktist síðast hefur minn lífsstíll verið mín meðferð,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir óttast að það stefni í alvarlegan skort á geðlæknum innan tíu ára. Ágúst Kristján Steinarrsson greindist með geðhvörf 19 ára en hefur verið án einkenna í fimm ár. „Frá því ég veiktist síðast hefur minn lífsstíll verið mín meðferð,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Verkefni geðdeilda og geðlækna eru margþætt og meðal þeirra umfangsmestu er meðferð og endurhæfing fólks með langvinna geðrofssjúkdóma. Þar er oftast um að ræða fólk sem veikist ungt og er veikt áratugum saman, segir Helgi Garðar Garðarsson, forstöðulæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Helgi Garðar er með sérfræðiréttindi í geðlækningum og barna- og unglingageðlækningum. Eftir sérnám í Danmörku starfaði hann um 15 ára skeið á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Á starfstíma sínum þar sinnti hann um 10 ára skeið ráðgjöf við meðferð ungmenna á sjúkrahúsinu Vogi. Helgi hefur einnig unnið við barna- og unglingageðlækningar í Noregi. Frá ársbyrjun 2016 hefur hann verið forstöðulæknir geðlækninga á Akureyri. Hann er jafnframt menntaður í jungískri sálkönnun.

Hann segir verkefni barna- og unglingageðlækninga vera margþætt, allt frá vægum tilfinningavanda yfir í alvarlegar geðraskanir og fötlunarvanda. Má nefna börn með námserfiðleika og aðlögunarvanda gagnvart skólaumhverfi eða öðru félagslegu umhverfi. Einnig má nefna fjölskylduvanda, hegðunarerfiðleika á unglingsaldri, fíknivanda og alvarlegar geðraskanir sem fylgja börnunum yfir á fullorðinsár. Verkefni geðlækninga fullorðinna eru sömuleiðis margþætt, allt frá vægum vanda, sem má sinna í heilsugæslu, yfir í mjög flókinn og samsettan vanda sem einungis verður sinnt inni á sjúkrahúsi. Flokka þarf alvarleikastig og þjónustuþörf í fyrstu línu, annarrar línu og þriðju línu þjónustu, en þá fyrst ber manni að tryggja aðkomu teymis mismunandi fagstétta.

Að sögn Helga er það á ábyrgð samfélagsins alls að skapa ramma og viðeigandi meðferðir fyrir hina mismunandi hópa sem sækja sér þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að geðdeildir og sveitarfélög taki höndum saman við þjónustu og endurhæfingu þeirra einstaklinga sem veikjast ungir af langvinnum geðrofssjúkdómum.

Mikilvægt er, að sögn Helga, að sinna þeim veikustu mjög vel og breiddin í úrræðum fyrir þennan hóp þarf að vera mikil, allt frá innlögn á bráðadeildir geðdeilda til lengri eða skemmri tíma, yfir til ýmissa endurhæfingarúrræða.

Sveitarfélög og önnur þjónustukerfi þurfa að koma þar að og vinna saman að þeim úrræðum sem tengjast búsetu, vinnu, e.t.v. með stuðningi og námstengdum úrræðum.

Ekki nóg að þjónustan sé bara á höfuðborgarsvæðinu

„Þjónusta við fólk með geðrofssjúkdóma og aðrar alvarlegar geðraskanir á að vera í boði víðar á landinu en á höfuðborgarsvæðinu. Oft er um að ræða ungt fólk með umtalsverða fötlun vegna sjúkdómsins og því ekki rétt að ætlast til þess að það flytji á milli landshluta til þess að sækja sér viðeigandi þjónustu. Sú þjónusta er reyndar í boði á Akureyri en ekki annars staðar á landsbyggðinni, eins og staðan er í dag,“ segir Helgi.

„Þegar um er að ræða flókinn og samsettan vanda þarf aðkomu teymis fagfólks, lækni, sálfræðing, félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðing, iðjuþjálfa og jafnvel sjúkraþjálfa, því aðkoma eins fagaðila dugir ekki. Teymi eru dýr úrræði en betri þjónusta til lengri tíma litið fyrir þá sem eru með svo umfangsmikinn vanda sem geðrofssjúkdómar eru,“ segir Helgi.

Spurður um hvaða sjúkdómar séu í þessum flokki segir Helgi að það séu geðrofssjúkdómar eins og geðklofi, geðhvörf, langvinnar og erfiðar þunglyndislotur og alvarleg sálvefræn vandamál.

Slík teymi eigi að vera á vegum geðheilbrigðisþjónustunnar en ekki heilsugæslunnar enda sé heilsugæslan á fyrsta þjónustustigi. „Í rauninni er verið að blanda saman þriðja stiginu og fyrsta stiginu með því að setja upp geðteymi innan ramma heilsugæslunnar,“ segir Helgi.

„Teymin eiga að tryggja möguleika geðfatlaðra á búsetu í heimabyggð með viðeigandi þjónustu. Það á ekki við í nútímasamfélagi að langveikir geðfatlaðir búi langtímum saman inni á deildum sjúkrahúsanna,“ segir Helgi og bendir á að það sé ekki nema rúmur áratugur síðan fólk var flutt eftir margra ára dvöl á langlegudeildum geðdeilda yfir í viðeigandi búsetu í sinni heimabyggð.

Gætum horft til Dana og Norðmanna

„Danir gerðu róttæka breytingu á rekstri geðheilbrigðiskerfisins á 8. áratug síðustu aldar þegar þeir innleiddu hverfisgeðlækningar (distriktpsykiatri). Áður voru starfandi átta risastór geðsjúkrahús, hvert með allt upp í tvö þúsund sjúklinga. Það þýddi að fáir þekktu sjúklingana til hlítar og sögu þeirra.

Á 20 árum voru sett upp 120 geðheilbrigðisteymi þar sem hvert teymi þjónar um það bil 40 þúsund manna íbúasvæði. Hvert teymi er miðlægt í þjónustu við skilgreindan markhóp með vanda á nægilega háu alvarleikastigi til að réttlæta teymisaðkomu skjólstæðinga sem þurfa á langtímaeftirliti að halda.

Teymið ber ábyrgð á að tryggja alla þá þjónustu sem skjólstæðingurinn þarf á að halda hvort sem um er að ræða meðferðarúrræði sem veitt eru af teyminu sjálfu eða vinna að samþættingu við önnur þjónustuúrræði, þar á meðal þá þjónustu sem veitt er af sveitarfélaginu, svo sem búsetuúrræði og aðra félagsþjónustu. Mikilvægt hlutverk teymanna er að stuðla að samvinnu þjónustukerfa. Teymið er hjartað í allri starfseminni og aðrir eru kallaðir til ábyrgðar því þetta þýðir ekki það að öllu sé hent í teymið og aðrir geti firrt sig ábyrgð heldur bera þeir hluta ábyrgðarinnar áfram.

Norðmenn hafa útfært langtímaábyrgð gagnvart fötluðum börnum á góðan hátt. Börn með fötlun eiga rétt á samfelldri þjónustu. Skilgreindur er ábyrgðarhópur samsettur af tengiliðum úr öllum þjónustukerfum sem koma að málum fatlaða barnsins og halda utan alla þætti sem varða velferð og þroska þess. Þetta teymi hittist með reglulegu millibili þar til barnið nær 18 ára aldri,“ segir Helgi.

Að sögn Helga ber málastjóri skjólstæðingsins í hverju teymi ábyrgð á því að tryggja samfellu í þjónustu við hann, jafnvel um margra ára skeið. Í Noregi er að sögn Helga vel staðið að geðheilbrigðismálum, ekki síst varðandi börn og ungmenni og margt sem við Íslendingar gætum lært af þeim og tekur hann þar í sama streng og svo margir viðmælendur mbl.is við vinnu á þessum greinaflokki og greinaflokkum um úrræði fyrir börn og ungmenni.

Helgi segir að það sé áhyggjuefni hérlendis hvað mikið vanti af öðrum úrræðum fyrir ungmenni frá 18 ára aldri til 25 ára. Til dæmis starfstengd úrræði fyrir ungmenni sem eigi erfitt með aðlögun að félagslegu umhverfi, skóla eða starfi.

Helgi nefnir þöglu ungmennin sem ekki fer mikið fyrir og …
Helgi nefnir þöglu ungmennin sem ekki fer mikið fyrir og eru stundum sá hópur sem glímir við hvað mestan vanda sem endar jafnvel í félagslegri einangrun og geðrofi. mbl.is/Hari

Tryggja þurfi samfellu í þjónustu

„Við þurfum að tryggja samfellu í þjónustunni og að börn detti ekki á milli kerfa þegar þau komast á fullorðinsaldur. Það þarf að setja ábyrgðarhóp á laggirnar strax í barnæsku, fyrir þjónustubörn, börn með fötlunarvanda, sem tryggir samfellu í þjónustu við þau.

Sem betur fer ná flest ungmenni góðri aðlögun að námi eða starfi. Huga þarf að úrræðum fyrir þau ungmenni sem ekki ná því að aðlaga sig aldurssvarandi verkefnum nema með hjálp. Þá þarf að huga að náms- eða starfstengdum úrræðum með viðeigandi hjálp. Það þarf að huga að raunhæfum verkefnum fyrir ungmennin sem móta þau. Samfélagið kemur ekki fólki til manns bara með geðheilbrigðisþjónustu heldur mótast ungmennin af þeim verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur.

Hingað til hefur samfélagið leyst þetta með annaðhvort skólaúrræðum eða hefðbundinni vinnu, en það eru ekki öll ungmenni sem ná að aðlagast eða mæta kröfum samfélagsins eins og við þekkjum, t.d. með miklu brottfalli úr framhaldsskóla.

Það er brýn nauðsyn að ráða bót á þessu með einhverjum úrræðum sem geta stutt við þroska þessara ungmenna. Því miður eru allt of margir þeirra sem detta út úr framhaldsskóla í verkefnaleysi heima hjá sér í langan tíma eftir það. Jafnvel í einhver ár á meðan þau eru að fóta sig og verða burðugri til að halda áfram hvort sem það er í skóla að nýju eða út á vinnumarkaðnum,“ segir Helgi og nefnir Fjölsmiðjuna sem sniðugt starfstengt úrræði.

Hún er ekki meðferðarúrræði heldur vinnustaður. Ungmenni fái laun fyrir vinnu sína þar og mótist af verkefnum sem þeim eru falin og af þeirri félagslegu umgjörð sem þau koma inn í.

Ekki bara þeir sem eru í vímuefnum sem detta út úr skóla

„Því það eru ekki bara þeir sem eru í vímuefnum sem detta út úr framhaldsskólum og oft er bara horft á þá sem eru erfiðastir. Það eru miklu fleiri þarna, svo sem þöglu ungmennin sem ekki fer mikið fyrir og eru stundum sá hópur sem glímir við hvað mestan vanda sem endar jafnvel í félagslegri einangrun og geðrofi. Oft fá þau ekki stuðninginn fyrr en þau eru orðin alvarlega veik og þá er miklu dýrara og erfiðara að aðstoða þau,“ segir Helgi.

Sjúkrahúsið á Akureyri sinnir svæði þar sem um 50 þúsund manns búa. Geðsviðið þar er því eðlilega mun minna en á Landspítalanum, en á sama tíma verður að hafa í huga að á Akureyri er nú enginn sjálfstætt starfandi geðlæknir á stofu og því þarf geðdeildin þar að sinna fjölþættari þjónustu en ella. Á höfuðborgarsvæðinu eru um 30 sjálfstætt starfandi geðlæknar á stofu, en þeir eru í raun allt of fáir miðað við þörfina.

Helgi segir að um 700 einstaklingar nýti sér göngudeildarþjónustuna á Akureyri á hverju ári sem er mikið miðað við fjölda starfsmanna. „Við erum með jafnstóra göngudeild og barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Umfang þjónustunnar hefur margfaldast frá því að ný geðdeild var stofnuð á Akureyri árið 1986 en stækkun húsnæðis og fjölgun starfsfólks hefur ekki haldist í hendur við aukningu þjónustunnar.

Helgi Garðar Garðarsson, forstöðulæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, telur …
Helgi Garðar Garðarsson, forstöðulæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, telur ekki rétt að flytja alla þjónustu sjálfstætt starfandi lækna inn á sjúkrahúsin. mbl.is/Hari

Lítil nýliðun meðal geðlækna

Helgi hefur áhyggjur af lítilli nýliðun barna- og unglingageðlækna. Stór hluti þeirra sem starfa á Íslandi er um sextugt og svo til engin nýliðun hefur orðið í þessari sérfræðigrein um árabil. Heilbrigðisráðuneytið fór á sínum tíma í átak til að fjölga þeim sem leggja fyrir sig heimilislækningar og segir Helgi að það væri ráðlegt að stíga sams konar skref varðandi barna- og unglingageðlækna.

„Innan tíu ára stefnir í alvarlegan skort á barna- og unglingageðlæknum, reyndar einnig geðlæknum fullorðinna, og það er grafalvarlegt mál. Það tekur um það bil fimm til tíu ár að mennta og þjálfa upp hvort sem er geðlækni eða barna- og unglingageðlækni  en þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar sem eru núna í þjálfun í síðarnefndu sérgreininni,“ segir hann.

Eitt af því sem rætt hefur verið um í fjölmiðlum er hvort ekki þurfi að auka dreifingu á þjónustu við ungt fólk með alvarlegar geðraskanir. Koma mætti upp lítilli geðdeild á Norður- eða Austurlandi sem sinnir fólki með tvígreiningar og ungmennum með blöndu af vægari geðvanda og fíknivanda.

Helgi segir slíka þjónustu ekki vera til staðar úti á landi og því þurfi ungmenni að leita til Reykjavíkur. Á Akureyri er starfrækt lokuð deild fyrir fullorðna en ekki þykir vænlegt til árangurs að blöndun verkefna sé of mikil á einni deild, bæði hvað varðar aldur og þá erfiðleika sem fólk glímir við.

Sumt á heima á sjúkrahúsum annað í sjálfstæðum rekstri

Mjög hefur verið fjallað um þjónustu sérfræðilækna undanfarið og þar hafa komið upp ólík sjónarmið. Helgi telur að yfirvöld séu á rangri leið ef flytja á alla þjónustu sem hefur verið sinnt af sjálfstætt starfandi læknum inn á sjúkrahúsin. Hér á landi hafi sjálfstætt starfandi geðlæknar sinnt langtímaeftirliti með fólki með geðraskanir, verkefni sem hefur verið sinnt á öðrum Norðurlöndum af litlum þjónustuteymum (distriktspsykiatri).

„Við erum enn stutt á veg komin í uppsetningu á slíkri þjónustu sem hefur þó orðið til á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri,“ segir hann. 

Helgi segir að sumum verkefnum heilbrigðisþjónustunnar verði betur sinnt inni á sjúkrahúsi, en öðrum verkefnum sé betra að sinna í sjálfstæðum rekstri. Göngudeildarþjónusta innan sjúkrahúsa sé bæði dýrari og þyngri í vöfum en sambærileg þjónusta á einkarekinni stofu úti í bæ, enda ekki ástæða til að vísa fólki, sem dugir þjónusta í fyrstu og annarri línu, í þriðju línu þjónustu. Starfsemi sjúkrahúsa og einkastofa geti vel farið saman og  væri óskandi að umræðan fari úr skotgrafahernaði þegar kemur að þessari þjónustu.

Heimilislæknar gegna mikilvægu hlutverki

Eitt af því sem Helgi nefnir er hlutverk heimilislækna og hve oft það er talað niður. „Þetta er vel menntuð stétt og  gegnir mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu. Oft er líka talað neikvætt um lyfjameðferð en lyf gegna mikilvægu hlutverki í geðlækningum.

Lyfin eru öflugasta vopnið sem við höfum til þess að koma fólki úr geðrofsástandi og til að meðhöndla alvarlegt þunglyndi og kvíða. Margir skjólstæðingar geðdeilda eru með vanda á það háu alvarleikastigi að þeir þurfa reglulega þjónustu um lengri tíma. Við verðum að gæta þess að umræðan verði ekki of einhliða og að þjónustan verði sniðin að þörfum hvers og eins,“ segir Helgi Garðar Garðarsson.

Heimurinn var fullur af nautn

„Ég var í síðasta bekk í menntaskóla þegar ég fékk fyrsta geðhvarfasýkiskastið; eftir að það umsátur hófst missti ég fljótt tökin. Í fyrstu virtist allt svo auðvelt. Ég æddi um eins og snaróð, uppfull af alls kyns áformum og áhugamálum, var á kafi í íþróttum, var á fótum alla nóttina sólarhring eftir sólarhring [...]. Heimurinn var fullur af nautn og fyrirheitum og mér leið æðislega. Ekki bara æðislega heldur alveg æðislega. Mér fannst ég geta gert hvað sem var, ekkert verkefni var mér ofviða.“ Svona lýsir sálfræðingurinn Kay Redfield Jamison sínum fyrstu geðhvörfum í bókinni Í róti hugans sem kom út í íslenskri þýðingu Guðrúnar Finnbogadóttur árið 1999.

Ágúst Kristján Steinarrsson er sjálfstætt starfandi stjórnunarráðgjafi og jöklaleiðsögumaður.
Ágúst Kristján Steinarrsson er sjálfstætt starfandi stjórnunarráðgjafi og jöklaleiðsögumaður. mbl.is/Hari

Hefur aldrei þurft að glíma við þunglyndi

Geðhvörf virðast vera jafntíð meðal kvenna og karla. Sjúkdómurinn greinist oftast þegar fólk er á aldrinum 17-30 ára. Ágúst Kristján Steinarrsson, sjálfstætt starfandi stjórnunarráðgjafi og jöklaleiðsögumaður, var greindur með geðhvörf árið 1999 þegar hann var nítján ára gamall.

Ágúst segir að hegðun hans hafi breyst mjög á þessum tíma. Hann var ekki lengur yfirvegaður líkt og áður og kátínan og gleðin breyttist í að verða ör og spenntur. Ágúst var nauðungarvistaður á geðdeild og var þar í tvo mánuði.

Að sögn Ágústs gekk lífið sinn vanagang eftir að hann útskrifaðist og ólíkt mjög mörgum sem eru með geðhvörf hefur hann aldrei þurft að glíma við þunglyndi en geðhvörf einkennast ýmist af geðhæðar- eða geðlægðartímabilum.

Eftir sjúkrahúsvistina hélt Ágúst áfram námi og lauk bæði menntaskóla og háskólanámi án þess að sjúkdómurinn bankaði upp á að nýju. Það var ekki fyrr en hann var kominn út á vinnumarkaðinn sem manía lét á sér kræla. Í það skiptið tók það hann nokkrar vikur að jafna sig og mæta aftur til vinnu.

Var loks heilbrigður og naut lífsins

Um svipað leyti greindist hann með sáraristilbólgu og fylgdu henni miklar takmarkanir og vanlíðan mikil. Ristilbólgurnar leiddu til krabbameins og þurfti að fjarlægja ristilinn og koma fyrir stóma í hans stað. Ágúst segir að næstu tvö árin hafi allt gengið vel þar sem hann var loks heilbrigður og hann notið lífsins þar sem útivist og ævintýri skipuðu stóran sess. Kletta- og ísklifur voru meðal þess sem Ágúst stundaði af miklum móð á þessum tíma.

„Gleðin virtist engan endi ætla að taka en svo endaði hún með maníu,“ segir Ágúst en þá voru sjö ár liðin frá síðustu veikindum. Hann sagði það hafi verið mikið áfall þar sem hann hafi hreinlega talið að veikindin væru að baki. Við tók tímabil þar sem Ágúst fór þrisvar í maníu á fjórum árum og allt útlit fyrir að framtíðin yrði krefjandi.

Ágúst segir mikinn mun vera á viðmóti starfsfólks á geðdeild …
Ágúst segir mikinn mun vera á viðmóti starfsfólks á geðdeild í Danmörku og á Íslandi. mbl.is/Hari

Ágúst segir að í síðasta skiptið hafi hann lent í sinni verstu maníu með þeim afleiðingum að hann var lagður inn á sjúkrahús í Danmörku eftir að hafa staðið nakinn á torgi í Kaupmannahöfn. Á sjúkrahúsinu úti upplifði hann hins vegar annað viðmót frá starfsfólki geðdeildar en hann átti að venjast frá Íslandi. „Þarna fékk ég stuðning, ást og hlýju. Eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað á geðdeild hér á landi,“ segir Ágúst.

Ágúst telur að hlýjan í stað ofbeldis hafi haft mest að segja um að meðferðin virkaði sem skyldi. „Þegar ég var lagður inn í Danmörku var ég versta útgáfan af sjálfum mér en þeim tókst að vinna með mér með þolinmæði og kærleik. Það merkilega við það er að ég hef verið góður af mínum veikindum síðan þá en fimm ár eru síðan þetta var,“ segir Ágúst.

Í viðtali við Bergljótu Baldursdóttur í þætti á RÚV í febrúar lýsti Ágúst ofbeldinu sem hann varð fyrir á Landspítalanum á sínum tíma.

„Valdbeiting getur verið svo rosalega margbreytileg, allt frá því að segja manni að gera eitthvað yfir í það að virkilega beita valdi. Nærtækasta sagan sem ég vísa helst í gerðist fyrir fimm árum. Stutta sagan er að ég gleymdi tösku. Ég var útskrifaður og kem daginn eftir til að sækja töskuna og er svona ginntur inn í samtal við lækni sem ég hafði ekki hitt áður. Áður en ég veit af eru sjö manns búnir að veitast að mér og halda mér niðri með valdi, afklæða mig og sprauta mig. Þeir urðu ekki rólegir fyrr en þeir voru búnir að sprauta mig.“  

Ágúst segir að eftir á að hyggja hafi ekki átt að útskrifa hann því hann hafi enn þá verið í maníu.  

„Ég stóð aftur á móti í þeirri trú að ég ætti ekki að vera þarna inni en þeir túlkuðu mig sem ógn. Þeir töldu að ég væri ógn við sjálfan mig og aðra og þeir voru að búa sig undir það að ég myndi valda usla eða hættu og þeir þyrftu þá að grípa til mjög róttækra aðgerða og það var, að því er virtist, þeim mjög eðlislægt að beita ofbeldi,“ sagði Ágúst í viðtalinu við RÚV.

Ágúst segir í samtali við mbl.is að þegar ofbeldinu ljúki virðist sem allir eigi að standa upp og vera glaðir. „Þannig virkar mannsheilinn einfaldlega ekki og þetta vakti með mér stríðsmanninn og hann fór ekkert,“ segir Ágúst.

Hann segir að ofbeldi og fordómar sem hafi mætt honum af hálfu starfsfólks geðdeildar hafi verið mjög óþægilegt. Mikið álag fylgi starfi á geðdeild og telur hann að það geti verið hluti af skýringunni en eflaust sé álagið líka mikið á geðdeildum í Danmörku og samt sé allt annað viðhorf þar ríkjandi í garð sjúklinga og líðanar þeirra.

Eins og fram kom hefur Ágúst ekki farið í maníu í fimm ár sem hann segir vitnisburð um mikinn árangur. Spurður út í hvað hann geri til þess að viðhalda góðri heilsu segist hann hafa endurskoðað allt í sínu lífi. „Frá því ég veiktist síðast hefur minn lífsstíll verið mín meðferð. Ég einblíni á að líða vel í eigin skinni á hverjum degi og forðast þannig áreiti sem getur dregið mig inn vanlíðan og streitu.“

Hann segist gæta vel að mataræðinu og er duglegur að hreyfa sig. Hann stundar mikla útivist, svo sem klifur, fjallgöngur og skíði. Eins stundar hann jóga og hittir sálfræðing og fleiri sem hjálpa honum að læra inn á sjálfan sig og fyrirbyggja hugsanlegar gildrur í daglegu lífi. Í starfi sínu sem jökla- og fjallaleiðsögumaður er Ágúst mikið á flakki um hálendið og líður honum hvergi eins vel og úti í náttúrunni. Hann er að minnsta kosti eina viku í hverjum mánuði á fjöllum en auk leiðsagnar rekur hann ráðgjafafyrirtækið Viti ráðgjöf þar sem hann aðstoðar fyrirtæki og stofnanir meðal annars með stjórnendaráðgjöf, greiningum og verkefnastjórn.

Líkir lífinu við slönguspil

Þegar Ágúst er spurður út í stöðu hans í dag segir hann að lífið sé mjög gott, í raun stórgott. „Ég er farinn að líkja lífinu við slönguspilið góða, þar sem fólk er bundið við lukku teningsins hvort þau lendi á slöngu eða tröppu. Nýlega er mér farið að finnast eins og ég spili ekki lengur eftir þessum reglum og lifi þess í stað óhefðbundnara lífi sem leyfir mér hreinlega að labba yfir leikborðið á eigin forsendum.“

Ágúst Kristján Steinarrsson skrifar mikið, þar á meðal lagatexta. Hann …
Ágúst Kristján Steinarrsson skrifar mikið, þar á meðal lagatexta. Hann er að gefa út bókina Riddarar hringavitleysunnar þar sem sögð er sjálfssaga af lífsreynslu hans í skáldlegum búningi. mbl.is/Hari

Ágúst tekur þó fram að hann er fullur auðmýktar gagnvart geðhvörfunum, að þótt hann sé búinn að vera í góðu jafnvægi muni hann aldrei líta svo á að hann hafi fulla stjórn mögulegri maníu. Þannig veltir hann upp hvort það viðhorf sé lykillinn að stöðugleika.

Annað sem Ágúst hefur tekið upp á er að skrifa, hvort sem það eru dagbókarskrif, ljóðagerð, söguskrif eða söngtextar, sem alla jafna er um hans lífsreynslu. Hann talar um hversu mikið meðferðargildi hefur verið í þeirri vinnslu.

„Einhvern veginn tókst mér að breyta erfiðum minningum í eitthvað annað, eitthvað fallegt og þannig breytist minningin í huga mínum, og tilfinningin með. Síðar á árinu kemur út bók eftir hann sem nefnist Riddarar hringavitleysunnar þar sem sögð er sjálfssaga af lífsreynslu hans í skáldlegum búningi. „Þetta er mjög hreinskilin frásögn og líklegast fá lesendur mun dýpri innsýn í heim þess veika en þeir hafa áður fengið. Ég vona að hún hreyfi við fólki,“ segir Ágúst að lokum en hann mun jafnframt fylgja bókinni eftir með fyrirlestrum um sama efni.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, vísaði til Stefáns Karls Stefánssonar leikara og baráttumanns fyrir bættum heimi, við þingsetningu fyrr í mánuðinum en Stefán Karl lést í sumar eftir langt stríð við illvígt mein.

Slík glíma opnar oft augu fólks, bæði hinna veiku og þeirra sem nærri þeim standa. „Við sjáum lífið í öðru ljósi,“ sagði Stefán: „Maður dustar vitleysuna í burtu og horfir svolítið á kjarna lífsins sem við ættum öll að gera.“

Að sögn Guðna skal varast að nota stóráföll til að segja öðrum að sætta sig bara við minni vanda. „En margt má samt læra af æðruleysi af þessu tagi, gildismati og lífsviðhorfi. Og þegar við horfum saman fram á veg berum við vonandi gæfu til að takast á við hin þungvægu verkefni en staldra ekki um of við álitamál sem falla svo með réttu í gleymskunnar dá eins og ríkisráðsákvæðið á sínum tíma – og verja ekki heldur dýrmætri orku í dægurþras, dusta frekar vitleysuna í burtu. Í stjórnmálum getur vissulega verið erfitt að greina á milli þess stóra og smáa í hita leiksins, vissulega verður aldrei einhugur um hvað eigi heima hvar í þeim dilkadrætti, og vissulega er örðugt að spá fyrir um óráðna framtíð; en við myndum án efa búa vel í haginn fyrir okkur sjálf, æskuna og næstu kynslóðir með því að beina sjónum okkar í ríkari mæli en áður að lýðheilsu og geðvernd, forvörnum og forvirkum aðgerðum. Er þá ekki lastað það sem þegar er unnið í þeim efnum en með þessum hætti mætti auka heill og hamingju, og sennilega spara fé til lengri tíma í leiðinni.“

mbl.is