Þjónustan ókeypis fyrir börn

Börnin okkar og úrræðin | 25. september 2018

Þjónustan ókeypis fyrir börn

Barnasálfræðingar eru starfandi á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og nú í september eru komnir sál­fræðing­ar á sex af 15 heilsu­gæslu­stöðvum á svæðinu og sjö­unda stöðin bæt­ist við í des­em­ber, segir Agnes Agn­ars­dótt­ir, yf­ir­sál­fræðing­ur Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þjónustan er ókeypis fyrir börn.

Þjónustan ókeypis fyrir börn

Börnin okkar og úrræðin | 25. september 2018

Agnes Agnarsdóttir,yf­ir­sál­fræðing­ur Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins.
Agnes Agnarsdóttir,yf­ir­sál­fræðing­ur Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. mbl.is/Hari

Barnasálfræðingar eru starfandi á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og nú í september eru komnir sál­fræðing­ar á sex af 15 heilsu­gæslu­stöðvum á svæðinu og sjö­unda stöðin bæt­ist við í des­em­ber, segir Agnes Agn­ars­dótt­ir, yf­ir­sál­fræðing­ur Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þjónustan er ókeypis fyrir börn.

Barnasálfræðingar eru starfandi á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og nú í september eru komnir sál­fræðing­ar á sex af 15 heilsu­gæslu­stöðvum á svæðinu og sjö­unda stöðin bæt­ist við í des­em­ber, segir Agnes Agn­ars­dótt­ir, yf­ir­sál­fræðing­ur Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þjónustan er ókeypis fyrir börn.

Líðan ung­menna, ekki síst stúlkna, hef­ur versnað á und­an­förn­um árum og er helst talað um kvíða í því sam­hengi. Þró­un­in er svipuð víða líkt og fram hef­ur komið í fjöl­miðlum ann­ars staðar á Norður­lönd­um sem og í Bretlandi og víða á meg­in­landi Evr­ópu. 

Sam­kvæmt frétt Guar­di­an í vik­unni lýs­ir aðeins fjórðung­ur breskra stúlkna á aldr­in­um sjö til 21 árs sér sem ham­ingju­söm­um. Árið 2009 var hlut­fallið 41%. Minnst er ham­ingj­an meðal þeirra elstu í hópn­um. Ragn­ar Guðgeirs­son­ ráðgjafi, sem leiddi stefnu­mót­un­ar­verk­efni á veg­um vel­ferðarráðuneyt­is­ins í mál­efn­um barna, kynnti í vor niður­stöður rann­sókn­ar á líðan ung­menna á Íslandi. Þar kom meðal ann­ars fram að sjálfsskaði hef­ur auk­ist meðal ung­menna sem og sjálfs­vígs­hugs­an­ir og -til­raun­ir.

Eitt af því sem unnið er að hér á landi er að efla geðheil­brigðisþjón­ustu. Meðal ann­ars með því að bjóða upp á sál­fræðiþjón­ustu á heilsu­gæslu­stöðvum.

Geðheil­brigðisþjón­usta á landsvísu inn­an heilsu­gæsl­unn­ar verður efld til muna með 650 millj­óna króna fram­lagi til að fjölga geðheilsu­teym­um og fjölga stöðugild­um sál­fræðinga, seg­ir í fjár­lög­um fyr­ir næsta ár.

Stefnt er að aðgengi að gagn­reyndri meðferð sál­fræðinga við al­geng­ustu geðrösk­un­um, svo sem þung­lyndi, kvíðarösk­un­um og áfall­a­streitu, sé á 90% heilsu­gæslu­stöðva í lok árs 2019, sam­kvæmt aðgerðaráætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar í geðheil­brigðismál­um.

„Á næsta ári ætti að nást mark­mið gild­andi geðheil­brigðisáætl­un­ar um aðgengi fyr­ir alla að sál­fræðiþjón­ustu á 90% heilsu­gæslu­stöðva. Töl­ur sýna vax­andi sókn í þjón­ustu heilsu­gæsl­unn­ar. Áfram verður unnið að því að efla hana sem fyrsta viðkomu­stað sjúk­linga, meðal ann­ars með áherslu á aukna teym­is­vinnu, for­varn­ir og fræðslu til sjúk­linga. Fram­lög í þessu skyni verða auk­in um 200 millj­ón­ir króna,“ seg­ir í fjár­lög­um næsta árs.

Agnes Agn­ars­dótt­ir seg­ir að 15 heilsu­gæslu­stöðvar séu rekn­ar á veg­um Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, allt frá Mos­fells­bæ í Hafn­ar­fjörð. Alls eru íbú­arn­ir á þessu svæði um 218 þúsund tals­ins.

Hún seg­ir að á síðustu tveim­ur árum hafi verið stig­in mörg fram­fara­skref í að auka þessa þjón­ustu og er nú boðið upp á gjald­frjálsa sál­fræðiþjón­ustu fyr­ir börn að 18 ára aldri á öll­um heilsu­gæslu­stöðvum um­dæm­is­ins. Sál­fræðing­ar fyr­ir full­orðna hafa nú tekið til starfa á sex stöðvum Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Eldri en 18 ára greiða venju­legt komu­gjald á stöð.

Þjón­ust­an fyr­ir börn og ung­menni að 18 ára aldri er end­ur­gjalds­laus og sjá sál­fræðing­ar á heilsu­gæslu­stöðvun­um um að meta, greina og veita meðferð við til­finn­inga- og hegðun­ar­vanda barna ásamt því að veita for­eldr­um ráðgjöf. Þeir sinni auðvitað oft einnig al­var­legri vanda á meðan beðið er eft­ir þjón­ustu t.d. á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans (BUGL) eða öðrum úrræðum. 

Spurð um bið eft­ir tíma hjá sál­fræðingi á heilsu­gæslu­stöðvun­um seg­ir Agnes að biðin hafi ekki verið löng á heilsu­gæslu­stöðvum. Nú sé biðin yf­ir­leitt frá einni viku í allt að tólf vik­ur en geti hugs­an­lega lengst þegar líður á haustið og verið mis­mun­andi eft­ir heilsu­gæslu­stöðvum.

Agnes seg­ir mis­jafnt hversu hátt starfs­hlut­fall sál­fræðing­anna sé á stöðvun­um og ekki sé alls staðar sál­fræðing­ur í fullu starfi. Á þeim stöðvum geti biðin verið  lengri en þar sem þjón­ust­an er meiri.  

Hún seg­ir að reynt sé að for­gangsraða til­vís­un­um eft­ir al­var­leika hvers til­viks fyr­ir sig. „Við reyn­um að koma börn­um að fyrr sem þurfa mest á aðstoð að halda svo sem ef vand­inn er mjög aðkallandi og al­var­leg­ur. Við erum í góðu sam­starfi við BUGL og bjóðum bæði upp á hóp- og ein­stak­lingsmeðferð fyr­ir börn hér á heilsu­gæslu­stöðvun­um.

Við erum stöðugt að vinna að því að bæta þjón­ust­una og þegar það á við mynd­um við teymi í kring­um viðkom­andi barn með aðkomu fé­lagsþjón­ustu, skóla og annarra stofn­ana sem koma að mál­um barns­ins.

Við erum ekki kom­in þangað sem við vilj­um vera en mik­il vinna í gangi til þess að bæta úr af því að við erum ekki sátt við að fólk þurfi að bíða lengi eft­ir þjón­ustu sál­fræðinga. Við vilj­um efla heilsu­gæsl­una sem fyrsta viðkomu­stað þar sem geðheil­brigði er ekki aðskilið ann­arri þjón­ustu. Sál­fræðiþjón­usta á í sjálfu sér að vera eðli­leg­ur hluti þjón­ustu í grunn­heilsu­gæslu.

Ég er hlynnt því að ef skjól­stæðing­um er ekki sinnt inn­an ákveðins tíma þá sé brugðist við og reynt að finna út hvað hægt sé að gera til þess að koma hlut­un­um í lag líkt og Norðmenn gera en þar eru lög sem taka á slík­um mál­um þar sem bið eft­ir meðferð á geðheil­brigðis­stofn­un má ekki fara fram yfir ákveðinn tíma,“ seg­ir Agnes.

Viðtalið við Agnesi var einnig birt um helgina á mbl.is í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði

Hef­ur bráðvantað þjón­ustu fyr­ir 18-35 ára

Hingað til hef­ur lítið verið hægt að sinna sál­fræðiþjón­ustu fyr­ir full­orðna á heilsu­gæslu­stöðvum á höfuðborg­ar­svæðinu. „Nú í sept­em­ber eru komn­ir sál­fræðing­ar á sex af fimmtán heilsu­gæslu­stöðvum á höfuðborg­ar­svæðinu og sjö­unda stöðin bæt­ist við í des­em­ber. Það er í takt við mark­mið stjórn­valda um að all­ir eigi að hafa aðgengi að slíkri þjón­ustu,“ seg­ir hún.

Hingað til hef­ur aðeins hef­ur verið boðið upp á hópmeðferð fyr­ir þá sem eru 18 ára og eldri og seg­ir Agnes að bráðvantað hafi úrræði fyr­ir ald­urs­hóp­inn 18-35 ára. Boðið er upp á hópmeðferð í hug­rænni at­ferl­is­meðferð (HAM) en í henni felst að kenna aðferðir til að breyta hugs­un­ar­hætti sem stuðlar að og viðheld­ur ein­kenn­um geðræns vanda og hins veg­ar að breyta hegðun. 

Boðið hef­ur verið upp á HAM-meðferð í hópi á öll­um heilsu­gæslu­stöðvum og þeir sem taka þátt hafa jafn­framt komið í ein­stak­lingsviðtöl þar sem meðal ann­ars al­var­leiki og sjálfs­vígs­áhætta er met­in. Um for­viðtal er að ræða og ef sál­fræðing­ur­inn sem tek­ur viðtalið met­ur það sem svo að hópmeðferð nægi ekki þá er brugðist við því. Jafn­framt er fylgst með líðan fólks all­an tím­ann sem það er í slíkri hópmeðferð,“ seg­ir Agnes og bæt­ir við að á meðgöngu er einnig fylgst með verðandi mæðrum á heilsu­gæslu­stöðvun­um og eft­ir fæðingu. Skimað er reglu­bundið fyr­ir þung­lyndi og öðrum geðrösk­un­um sem og kvíða.

Sál­fræðiþjón­ust­an er því mikið að fær­ast yfir á fyrsta stigið í heil­brigðis­kerf­inu, það er heilsu­gæsl­una, enda mik­il­vægt að grípa snemma inn áður en vand­inn verður al­var­legri. Framtíðar­sýn­in er að aðskilja ekki geðheil­brigði frá al­mennu heil­brigði, þ.e.a.s. að í grunnþjón­ustu heilsu­gæslu þurf­um við ekki að vísa annað ef um geðræna erfiðleika er að ræða. Auðvitað er vísað annað, s.s. á geðsvið LSH eða á sjálf­stætt starf­andi sál­fræðinga, ef um al­var­legri eða sér­hæfðari vanda er að ræða, seg­ir hún.

Tryggja þarf góða grunnþjón­ustu

Ýmsir for­eldr­ar og sér­fræðing­ar telja heilla­vænna að bjóða upp á þjón­ustu sem þessa á einka­stof­um þar sem sér­hæf­ing­in er oft meiri.

Sál­fræðiþjón­usta er ein­ung­is niður­greidd af sjúkra­trygg­ing­um fyr­ir börn yngri en 18 ára sem eru í meðferð hjá sál­fræðing­um sem eru aðilar að ramma­samn­ingi sál­fræðinga og Sjúkra­trygg­inga Íslands.

Að sögn Stein­unn­ar Önnu Sig­ur­jóns­dótt­ur, sál­fræðing­s hjá Litlu kvíðameðferðar­stöðinni (Litlu KMS), er eitt af skil­yrðum samn­ings­ins að aðeins þeir sál­fræðing­ar sem hafa starfað hjá hinu op­in­bera í tvö og hálft ár geti óskað eft­ir að gera slík­an ramma­samn­ing við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands.

Það er sett fram í samn­ingn­um til þess að tryggja að sál­fræðing­ar hafi öðlast reynslu af meðferð barna og ung­linga. En það þýðir að sál­fræðing­ar, sem hafa tveggja og hálfs árs starfs­reynslu á op­in­ber­um stofn­un­um sem sinna svo til engri meðferð fyr­ir börn og ung­linga með klín­ísk­ar kvíðarask­an­ir, s.s. Grein­ing­ar- og ráðgjaf­ar­stöð rík­is­ins eða skóla­skrif­stof­ur, geta sóst eft­ir að veita niður­greidda meðferð fyr­ir börn og ung­linga, seg­ir Stein­unn.

Sál­fræðing­ar sem fengið hafa alla sína starfs­reynslu og þjálf­un á stofu eins og Litlu kvíðameðferðar­stöðinni munu ekki geta sóst eft­ir að kom­ast á þenn­an ramma­samn­ing þrátt fyr­ir að starfa ein­vörðungu með börn­um og ung­menn­um og njóta hand­leiðslu og teym­is­vinnu mjög reyndra sál­fræðinga bæði hér­lend­is og er­lend­is, seg­ir hún í viðtali við mbl.is í sum­ar.

Agnes seg­ir eðli­legt að sál­fræðiþjón­usta hjá sjálf­stætt starf­andi sál­fræðing­um sé niður­greidd af Sjúkra­trygg­ing­um Íslands en sam­hliða þurfi að upp­fylla grunnþarf­ir í op­in­berri heil­brigðisþjón­ustu, það er að bæta aðgengi að sál­fræðiþjón­ustu inn­an heilsu­gæsl­unn­ar í stað þess að dreifa fjár­magn­inu.

Hún seg­ist vera hlynnt gæðakröf­um á þessu sviði sem öðrum og að niður­greidd þjón­usta stand­ist ákveðnar gæðakröf­ur. Þjón­usta sé ekki niður­greidd nema hún stand­ist kröf­ur um gæði. Eðli­legt sé að þjón­ust­an sé ár­ang­urs­mæld og enda vilji ráðamenn, rétti­lega, vita í hvað pen­ing­arn­ir fara.

„Við verðum fyrst og fremst að efla grunnþjón­ust­una sem er fyr­ir alla en að sjálf­sögðu er mik­il­vægt að niður­greiða þjón­ustu sál­fræðinga á einka­stof­um þar sem ein­stak­ling­ar geta fengið sér­hæfðari þjón­ustu,“ seg­ir Agnes.

Í dag er það þannig hjá heilsu­gæsl­unni að fólk þarf til­vís­un frá heim­il­is­lækni til þess að fá tíma hjá sál­fræðingi á heilsu­gæslu­stöð eða ef fólk er ekki með skráðan heim­il­is­lækni þá er hægt að panta tíma hjá lækni á stöðinni og hann get­ur þá vísað á sál­fræðing sem starfar á sömu stöð.

„Við vild­um fá lækna að mál­inu þar sem við erum að efla þverfag­lega þjón­ustu, en í framtíðinni sé ég fyr­ir mér að fólk geti gengið inn á næstu heilsu­gæslu­stöð og óskað eft­ir tíma hjá sál­fræðingi eins og fyr­ir­komu­lag er hjá lækn­um. Þetta get­ur létt álag á heim­il­is­lækna sem hafa í raun verið að sinna sín­um skjól­stæðing­um sem eiga við geðræn­an vanda [að etja]. Klín­ísk­ar leiðbein­ing­ar mæla með hug­rænni at­ferl­is­meðferð sem fyrsta inn­gripi við m.a. þung­lyndi og kvíða eða ann­arri gagn­reyndri meðferð. Ekki lyfjameðferð nema um al­var­legri vanda sé að ræða eða talið er að sál­fræðimeðferð ein og sér beri ekki ár­ang­ur. Við byrj­um með væg­ustu inn­grip­in og ef það þarf frek­ari inn­grip þá er þeim beitt.

Þriðjung­ur þeirra sem leit­ar til heilsu­gæsl­unn­ar leit­ar þangað fyrst og fremst vegna geðræns vanda og við vilj­um því í framtíðinni sjá sam­setn­ingu fag­fólks heilsu­gæslu­stöðva end­ur­spegla þetta. Helstu ástæður ör­orku eru af geðræn­um toga og í öðru sæti er stoðkerf­is­vandi. Oft fer þetta tvennt sam­an, því ef þér líður illa and­lega þá hef­ur það áhrif á lík­amann,“ seg­ir Agnes.

„Óskastaðan er að sál­fræðiþjón­usta sé eðli­leg­ur hluti af grunn­heilsu­vernd á heilsu­gæslu­stöðvum. Al­veg eins og ung­barna­vernd og mæðravernd. Við erum búin að taka fyrstu skref­in og fólk farið að gera sér grein fyr­ir því að það á kost á þess­ari þjón­ustu á sinni heilsu­gæslu­stöð.

Ég sé fyr­ir mér víðtæk­ara svið inn­an heilsu­gæsl­unn­ar, með breiðari hópi fag­fólks, t.d. sál­fræðing­um, hreyf­i­stjór­um og að fé­lagsþjón­ust­an og heilsu­gæsl­an vinni náið sam­an. Að sá sem þarf á aðstoð að halda geti treyst því að við setj­um skjól­stæðing­inn í önd­vegi og sjá­um um að veita hon­um aðstoð sem þverfag­legt teymi. Ekki síst þegar ungt fólk á í hlut,“ seg­ir Agnes.

„Fólk á ekki að þurfa að bíða eft­ir þjón­ustu sál­fræðings, ekk­ert frek­ar en þegar fólk slasast,“ seg­ir Agnes Agn­ars­dótt­ir, yf­ir­sál­fræðing­ur Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins.

mbl.is