„Kannabis er eitur“

Gætt að geðheilbrigði | 26. september 2018

„Kannabis er eitur“

Hún var rúm­lega tví­tug greind þegar hún lagðist fyrst inn á geðdeild en upp­hafið má rekja til mik­ill­ar van­líðanar í kjöl­far sam­bands­slita. Fyrst var það mikið þung­lyndi og kvíði en í dag er hún með greind með geðhvörf (bipol­ar) með geðklofa­áhrif. Eitt af því sem eykur líkur á bata er heilsusamlegt líferni og fylgir hún því að mestu fyrir utan að borða hollustu alla daga því það er vart mögulegt á örorkubótum. 

„Kannabis er eitur“

Gætt að geðheilbrigði | 26. september 2018

mbl.is/Hari

Hún var rúm­lega tví­tug greind þegar hún lagðist fyrst inn á geðdeild en upp­hafið má rekja til mik­ill­ar van­líðanar í kjöl­far sam­bands­slita. Fyrst var það mikið þung­lyndi og kvíði en í dag er hún með greind með geðhvörf (bipol­ar) með geðklofa­áhrif. Eitt af því sem eykur líkur á bata er heilsusamlegt líferni og fylgir hún því að mestu fyrir utan að borða hollustu alla daga því það er vart mögulegt á örorkubótum. 

Hún var rúm­lega tví­tug greind þegar hún lagðist fyrst inn á geðdeild en upp­hafið má rekja til mik­ill­ar van­líðanar í kjöl­far sam­bands­slita. Fyrst var það mikið þung­lyndi og kvíði en í dag er hún með greind með geðhvörf (bipol­ar) með geðklofa­áhrif. Eitt af því sem eykur líkur á bata er heilsusamlegt líferni og fylgir hún því að mestu fyrir utan að borða hollustu alla daga því það er vart mögulegt á örorkubótum. 

Hún seg­ir að þegar veik­ind­in komu fyrst upp hafi henni liðið skelfi­lega og bæt­ir við að hún hafi nú held­ur aldrei orðið svona ást­fang­in aft­ur þrátt fyr­ir að hafa upp­lifað ást­ina síðar en aldrei með þess­um hætti og þarna var. Á þess­um tíma voru man­í­urn­ar (of­lætið) mild­ari en þær sem síðar áttu eft­ir að koma og eins stutt­ar. Það átti eft­ir að breyt­ast þegar hún fór að reykja kanna­bis sem hún seg­ir að sé eit­ur sem kostaði hana geðrof sem stóð yfir í tvö ár.

„Þegar ég veikt­ist fyrst var ég ekki í nein­um efn­um, reykti hvorki né drakk. Mín fíkn hófst með mis­notk­un kvíðalyfja og svo tók áfengið við. Ég notaði þessi efni til þess að slá á kvíðann og róa hug­ann. Enda svaf ég meira og minna þegar ég var í neyslu. Ég kynnt­ist manni í meðferð og fór að reykja hass með hon­um eft­ir að við luk­um meðferðinni. Ég reykti hass upp á hvern ein­asta dag í sex til átta mánuði en þá var þetta líka búið. Ég var meira og minna í geðrofi næstu tvö árin,“ seg­ir hún.

Hélt að börn­in væru dáin

Á vefn­um per­sona.is seg­ir svo: Geðrof (psychos­is) er ástand sem ein­kenn­ist af of­skynj­un­um og/​eða rang­hug­mynd­um og staf­ar af skert­um raun­veru­leika­tengsl­um. Önnur ein­kenni fara oft sam­an með geðrofi eða fylgja í kjöl­farið, til dæm­is fé­lags­leg ein­angr­un eða hlé­drægni, hugs­anatrufl­an­ir sem sjást á rugl­ings­legu tali og und­ar­legu lát­bragði.

mb.is/Hari

Geðrof­in eru eins mörg og þau eru ólík, seg­ir viðmæl­andi mbl.is. „Mitt geðrof var guð og djöf­ull­inn en ég hafði alltaf áður trúað á góðan og umb­urðarlynd­an guð. Í geðrof­inu var hann ref­siglaður og ég var mjög hrædd við hann. Ég hafði aldrei trúað á að til væri hel­víti en það var held­ur bet­ur til í mínu geðrofi og ég var skelf­ingu lost­in,“ seg­ir hún en hún var ít­rekað nauðung­ar­vistuð á þess­um tíma.

„Ég man að í mínu sturlun­ar­ástandi þá taldi ég að börn­in mín væru dáin. Í hvert skipti sem bjall­an hringdi á geðdeild­inni var ég sann­færð um að þetta væri prest­ur kom­inn til að segja mér að þau væru dáin. Þrátt fyr­ir öll mín veik­indi var alltaf smá skyn­semi í hausn­um á mér og ég vissi að það var ekki tíma­bært að syrgja fyrr en búið væri að segja mér form­lega frá and­láti þeirra. Veistu, hlut­irn­ir geta verið svo hræðileg­ir að maður get­ur ekki einu sinni grátið?“ seg­ir hún.

Viðtalið birtist einnig á mbl.is um helgina í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði

Hefði ekki getað lifað með þeirri vitn­eskju

Hún seg­ist hafa verið mjög erfiður sjúk­ling­ur og hafi ekki viljað taka lyf­in sín. Hún viti það í dag að án þeirra geti hún ekki verið.

„Ég þakka oft fyr­ir að maður veit ekki ævi sína fyrr en öll er því ef ein­hver hefði sagt mér á sín­um tíma að ég ætti eft­ir að vera innskrifuð á geðdeild í tíu ár þá hefði ég dáið. Ég hefði ekki getað lifað með þeirri vitn­eskju. Lyfið sem ég er á er gam­alt geðlyf en væg­ari úrræði hafa ekki nægt mér. Í fyrstu voru mér gef­in væg­ari lyf en þau dugðu bara ekki til. Ein af auka­verk­un­um með lyf­inu sem ég er á er að maður þyng­ist og ég var mjög feit um tíma. Eins og við þekkj­um sem glím­um við geðrask­an­ir þá eru mikl­ir for­dóm­ar í garð geðsjúk­dóma en ef maður er feit­ur líka þá versna þeir enn frek­ar. Eins og maður hafi ekki nóg með að glíma við veik­indi að maður þurfi ekki að upp­lifa það líka. Til að mynda hvernig horft var á mig. Fólk held­ur að maður taki ekki eft­ir þessu en maður ger­ir það og það er ekki gott.“

Hún seg­ist hafa verið svo veik að þó að hún hafi viljað gera eitt­hvað þá var það henni ómögu­legt. Hún komst ekki einu sinni til lækn­is því hún sat stjörf í stól heima hjá sér all­an dag­inn, stund­um all­an sól­ar­hring­inn.

„Ég gat ekk­ert gert. Sat bara stjörf í sama stóln­um í 12-18 tíma, gat ekki lesið, ekki horft á sjón­varpið, gat ekk­ert gert. Ég vildi ekki hafa for­eldra mína ná­lægt mér eða aðra en þau gáf­ust aldrei upp og komu alltaf í heim­sókn til mín. Þau segja að það erfiðasta hafi verið að fá mig nauðung­ar­vistaða en ástandið var þannig að það var ekk­ert annað í boði,“ seg­ir hún en mörg ár eru liðin frá síðustu nauðung­ar­vist­un.

Sama hvað hún var veik þá reyndi hún að fara í sturtu á hverj­um degi. Hún seg­ir að það sé kannski eitt­hvað sem fólki finn­ist ekk­ert merki­legt en það hafi verið af­rek út af fyr­ir sig fyr­ir hana þegar hún var sem veik­ust. Hún seg­ir að það að vera um­lukin vatni hafi verið góð til­finn­ing sem hún sótti í. Stund­um svo að baðferðirn­ar urðu marg­ar sama dag­inn.

Eitt sem fylg­ir þess­um veik­ind­um er al­gjört hrun fjár­hags­lega. „Ég hef hins veg­ar alltaf staðið við mín­ar skuld­bind­ing­ar og greitt húsa­leigu, raf­magn og annað slíkt. Stund­um hef­ur ekk­ert verið í boði nokkr­um dög­um eft­ir mánaðamót annað en að lifa á núðlum það sem eft­ir lif­ir mánaðar.“

Eft­ir að hún veikt­ist al­var­lega lét hún börn­in frá sér og seg­ir hún það það versta. „Ég er alltaf með sam­visku­bit og mér finnst ég hafa brugðist þeim en senni­lega var þetta það eina rétta, að þau byggju hjá feðrum sín­um. Ég er í góðu sam­bandi við þau öll þó svo rof hafi orðið á því þegar ég var sem veik­ust.“

Hún hef­ur verið inn­rituð í sam­fé­lags­geðteymi í Vest­ur­bæn­um í meira en tíu ár og bati henn­ar sé sam­spil margra hluta. Ekki síst því að hún fór að fara í Hlut­verka­set­ur og losnaði þannig út úr ein­angr­un­inni sem hún var í. „Ég held að þetta hafi verið fyrsta skrefið í mín­um bata – að rjúfa ein­angr­un­ina. Í vor sagði lækn­ir­inn minn mér að hann ætlaði að út­skrifa mig úr geðteym­inu og þetta var stór­kost­leg til­finn­ing, sál­in lyft­ist á annað plan, á sama augna­bliki áttaði ég mig líka á því hvað ég hafði verið von­laus.

Ég hélt að ég yrði aldrei út­skrifuð og yrði innskrifuð í teymið það sem eft­ir væri æv­inn­ar. Síðan þá hef­ur mér liðið svo vel og lífið blas­ir við mér. Er að byrja að vinna og þó svo ég sé ekki að fara í fulla vinnu þá er þetta í fyrsta skipti í ára­tugi sem ég get unnið.“ Hún seg­ist eiga bak­land á göngu­deild­inni á Kleppi og það sé góð til­hugs­un að ekki sé búið að sleppa af henni hend­inni ef eitt­hvað kem­ur upp á.

Gott að kom­ast út á vinnu­markaðinn

„Ég held að ég tali fyr­ir munn okk­ar margra sem erum ör­yrkj­ar að við erum með svo brotna sjálfs­mynd enda ekki allt gáfu­legt sem maður hef­ur gert í veik­ind­un­um. Það er mjög gott að kom­ast aft­ur út á vinnu­markaðinn en það er ekki sama hvernig er staðið að því. Það þarf að hjálpa okk­ur að vera í vinnu því maður er svo lít­ill í sér og þarf svo lít­inn mót­byr til þess að gef­ast upp. Að vera í sam­fé­lagi á að fela í sér að maður sé samþykkt­ur og ef maður er það ekki þá er það svo vont og þú þarft ekki að vera með geðrösk­un  til að upp­lifa það,“ seg­ir hún.

Geðrask­an­ir eru flókið fyr­ir­bæri og seg­ir hún að það geti eng­inn sett sig í þessi spor nema þeir sem eru með geðrask­an­ir. Þetta er ekk­ert sem þú hark­ar af þér líkt og oft er viðhorfið ef fólk op­in­ber­ar líðan sína.

Hún seg­ir að stund­um hafi hún verið við að bug­ast og sjálfs­vígs­hugs­an­ir komið upp. „En hræðsla mín við hvað guð myndi gera við mig kom í veg fyr­ir að ég léti verða af því. Myndi hann senda mig í hel­víti og yrði ég þar til ei­lífðar? Og ei­lífðin er svo rosa­lega lengi að líða. Þegar ég var í geðrofi þá taldi ég mig vera guð um tíma og í ann­an tíma var ég Jesú og ég get sko sagt þér að það var ekk­ert auðveld­ara. Því það var meira en full vinna því þeir feðgar slökuðu nú aldrei á,“ seg­ir hún og hlær við.

„Þrátt fyr­ir að hafa verið mjög veik í mörg ár og gert alls kon­ar heimsku­lega hluti í gegn­um tíðina þá finnst mér veik­ind­in hafa gert mig að betri mann­eskju. Ég er ekki eins dóm­hörð og ég er umb­urðarlynd­ari en ég var áður. Ég sýni öðru fólki miklu meiri skiln­ing en ég gerði áður. Klepp­ur er víða og geðheils­an er hluti af lífi okk­ar. Ég er mjög kvíðin og mér fannst oft erfitt að vera með óskil­greind­an kvíða, það er hann læðist að mér upp úr þurru án þess að ég geri mér grein fyr­ir því, en lækn­arn­ir segja mér að þetta séu viðbrögð mann­eskj­unn­ar um að hún eigi að forða sér út úr aðstæðum sem hún er kom­in inn í. Kvíðinn hef­ur alltaf fylgt mér, al­veg frá því ég var barn, en ég hef lært að lifa með hon­um og hvernig ég eigi að bregðast við banki hann óvænt upp á,“ seg­ir hún.

„Ég þurfti ekki nema einn smók“

Hún notaði vímu­efni af öllu tagi hér áður en kanna­bisið fór verst með hana. „Ég verð svo reið þegar fólk dá­sam­ar hass því ég veit hversu mikið eit­ur það er. Það er ekk­ert frá­bært við það eins og sum­ir halda fram. Mín fyrsta hugs­un er bara: Ég ætla að vona að þú far­ir aldrei í geðrof. Því það er svo hræðilegt að ég myndi ekki einu sinni óska mín­um versta óvini að upp­lifa það.“

Aðeins einu sinni eft­ir að hún hætti neyslu reykti hún kanna­bis og hún held­ur að það muni ekki ger­ast aft­ur. „Ég þurfti ekki nema einn smók til þess að finna geðrofið hell­ast yfir mig.“

Hún seg­ist ekki ótt­ast að fara aft­ur í geðrof því hún fylgi sín­um regl­um og noti þau bjargráð sem hafa reynst henni vel. Vímu­efn­in komi ekki til greina fram­ar enda veiti þau falska vellíðan sem er fljót að snú­ast í and­hverfu sína. Hún hef­ur jafn­vel lagt reyk­ing­ar á hill­una og seg­ir að það hafi nú verið út af leti.

„Ég reykti svaka­lega, allt upp í fjóra pakka á dag og ég veit eig­in­lega ekki enn þann dag í dag hvernig ég hafði ráð á því. Ég reykti yfir mig en ég var svo einmana og síga­rett­an var fé­lags­skap­ur­inn minn. Þegar ég byrjaði í Hlut­verka­setri var mér gert að fara út á tröpp­ur til að reykja og ég nennti því nú ekki. Enda löt að eðlis­fari þannig að það endaði með því að ég hætti að reykja af leti,“ seg­ir hún.

„Ég fylgi mín­um regl­um og þær eru kannski ekki merki­leg­ar í huga allra, svo sem að fara í sturtu á hverj­um degi. Ég fer á hverj­um degi í göngu­túra og hitti fólk. Eins held ég heim­ili mínu hreinu og gæti þess að taka lyf­in mín. Um hver mánaðamót borga ég reikn­ing­ana mína og gæti þess að eiga fyr­ir lyfj­un­um því þau skipta svo miklu máli til þess að ég haldi heils­unni. Til að mynda lyfið sem ég tek við hvat­vís­inni. Lyfið hef­ur breytt svo miklu í mínu lífi því áður var ég búin að fram­kvæma hlut­ina áður en ég hugsaði. Til að mynda að gefa frá mér börn­in sem er það eina sem ég er sorg­mædd yfir. Hins veg­ar er ég orðin amma í dag og það er það ynd­is­leg­asta sem ég hef upp­lifað. Litlu hlut­irn­ir sem maður upp­lif­ir með þeim eru svo dá­sam­leg­ir og skipta svo miklu máli. Þessi ást sem maður upp­lif­ir þegar maður eign­ast börn og barna­börn.

Öryrkj­ar hafa ein­fald­lega ekki ráð á hollri nær­ingu

Ég bý í íbúð frá Fé­lags­bú­stöðum og hef búið í sömu íbúðinni í tæp­an ára­tug. Ég hef aldrei búið jafn­lengi á sama stað frá því ég flutti að heim­an 18 ára göm­ul og það skipt­ir svo miklu máli. Ekki bara fyr­ir fólk með geðrask­an­ir held­ur alla.“

Hún seg­ir að nær­ing­in verði oft út und­an þegar kem­ur að bjargráðum. „Ég hugsa ekki nógu mikið um nær­ing­una en það skýrist af því að ég sem ör­yrki hef ekki efni á að kaupa mér mat á hverj­um degi. Þannig að ann­an hvern eða þriðja hvern dag borða ég núðlur því ég hef ekki ráð á holl­ustu. Sem er sorg­legt því það er vitað að svefn, hreyf­ing og nær­ing eru grund­vall­ar­atriði þegar kem­ur að geðheil­brigði. En við ör­yrkj­ar höf­um ein­fald­lega ekki ráð á hollri nær­ingu. Mér finnst græn­meti mjög gott en ég hef ekki efni á því. Sem er svo sorg­legt þegar maður hugs­ar til baka og velt­ir fyr­ir sér hvað það hafi kostað sam­fé­lagið mikið þegar ég var í geðrofi. Ég hef ekki hug­mynd um það en get ekki ímyndað mér annað en að það sé mikið,“ seg­ir þessi fal­lega og lífs­glaða kona sem hef­ur gengið í gegn­um erfið veik­indi en er í góðum bata. 

mbl.is