Ná bata á nokkrum dögum?

Ná bata á nokkrum dögum?

Er  hægt að lækna fólk af OCD eða þráhyggjuárátturöskun á fjórum dögum? Svo virðist vera því samkvæmt norskri meðferð sem hefur verið beitt á undanförnum fjórum árum hafa 70% þeirra 1.200 sem hafa tekið þátt í meðferðinni náð bata. Sama er uppi á teningnum hér á landi. Meðferðin er niðurgreidd af ríkinu í Noregi en ekki hér á Íslandi þar sem þjónusta sálfræðinga er ekki niðurgreidd af ríkinu, aðeins geðlækna.

Ná bata á nokkrum dögum?

Aðgát skal höfð í nærveru sálar | 2. desember 2018

Sóley Dröfn Davíðsdóttir og Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir eru sálfræðingar á …
Sóley Dröfn Davíðsdóttir og Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir eru sálfræðingar á Kvíðameðferðarstöðinni. mbl.is/Hari

Er  hægt að lækna fólk af OCD eða þráhyggjuárátturöskun á fjórum dögum? Svo virðist vera því samkvæmt norskri meðferð sem hefur verið beitt á undanförnum fjórum árum hafa 70% þeirra 1.200 sem hafa tekið þátt í meðferðinni náð bata. Sama er uppi á teningnum hér á landi. Meðferðin er niðurgreidd af ríkinu í Noregi en ekki hér á Íslandi þar sem þjónusta sálfræðinga er ekki niðurgreidd af ríkinu, aðeins geðlækna.

Er  hægt að lækna fólk af OCD eða þráhyggjuárátturöskun á fjórum dögum? Svo virðist vera því samkvæmt norskri meðferð sem hefur verið beitt á undanförnum fjórum árum hafa 70% þeirra 1.200 sem hafa tekið þátt í meðferðinni náð bata. Sama er uppi á teningnum hér á landi. Meðferðin er niðurgreidd af ríkinu í Noregi en ekki hér á Íslandi þar sem þjónusta sálfræðinga er ekki niðurgreidd af ríkinu, aðeins geðlækna.

OCD er geðröskun sem 2-3% mannkyns glímir við og líkt og Magnús Haraldsson, geðlæknir á Landspítalanum, bendir á í fræðigrein í Læknablaðinu er þráhyggjuárátturöskun á meðal þeirra 20 sjúkdóma sem líklegastir eru til þess að leiða til örorku hjá fólki yngra en 45 ára á Vesturlöndum.

Nokkur þúsund Íslendingar með þráhyggjuárátturöskun

OCD er ekki algeng kvíðaröskun en um leið dulin því margir skammast sín fyrir hana. Hugsanir og hegðun fólks með OCD valda oft miklum óþægindum, kvíða og skömm þar sem fólk þorir oft ekki að greina öðrum frá hugsunum sínum. Nokkur þúsund Íslendingar glíma við þráhyggjuárátturöskun, að sögn sálfræðinga hjá Kvíðameðferðarstöðinni (KMS).

Meðalaldur við upphaf einkenna er um 20 ár en algengt er að röskunin komi fram snemma á ævinni og í einni rannsókn lýsa um 20% einstaklinga því að einkenni hafi verið komin fram á æsku- eða unglingsárum.

Kynhlutföll eru því sem næst jöfn þegar allir aldurshópar eru skoðaðir en rannsóknir hafa sýnt að drengir eru líklegri en stúlkur til að greinast með þráhyggjuáráttu á barnsaldri.

Á bilinu 30-50% þeirra sem veikjast snemma eru jafnframt með tourette-heilkenni eða aðra kækjaröskun. Nokkrar rannsóknir hafa fundið mun á einkennamynd eftir kynjum. Þannig eru vísbendingar um að þráhyggja hjá konum tengist oftar ofbeldi, smithættu eða óhreinindum, en hjá körlum sé innihald þráhyggju oftar kynferðislegt eða trúarlegt. Ekki hafa verið gerðar faraldsfræðilegar rannsóknir á algengi þráhyggjuárátturöskunar á Íslandi.

Um 60-70% fólks sem greint er með þráhyggjuárátturöskun hefur sögu um aðra geðröskun og eru meiri háttar þunglyndi, félagsfælni, almenn kvíðaröskun, áfengisfíkn og átraskanir algengustu fylgiraskanirnar.

Á lista yfir 50 helstu áhrifavalda heims á sviði heilbrigðisvísinda

Tveir norskir sálfræðiprófessorar, Bjarne Hansen og Gerd Kvale, eru frumkvöðlar í að beita meðferð þar sem unnið er með fólki sem er með OCD-geðröskun í fjóra daga. Meðferð sem er bæði einstaklings- og hópmeðferð. Aðferðin hefur vakið heimsathygli og nýverið komust Hansen og Kvale á lista Time Magazine yfir þær manneskjur sem eru áhrifamestar á heilbrigðissviðinu í heiminum. Alls eru fimmtíu einstaklingar á þessum lista, þar á meðal nokkrir Nóbelsverðlaunahafar.

Þrír íslenskir sálfræðingar, Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir, Sóley Dröfn Davíðsdóttir og Ólafía Sigurjónsdóttir sem starfa allar hjá Kvíðameðferðarstöðinni, tóku þátt í að innleiða meðferðina í Noregi fyrir fjórum árum. Svipuðu meðferðarúrræði var síðan komið á hér á landi fyrir ári með stofnun OCD-teymis á vegum KMS.  

Sigurbjörg segir að verkefnið í Ósló miðaði að því klára alla biðlista eftir meðferð sálfræðinga við OCD í borginni. Yfir 100 manns voru á biðlista þar eftir slíkri meðferð á þessum tíma og samkvæmt norskum lögum eru svo langir biðlistar brot á lögum.

„Við vonum að þetta breytist því það er svo mikil …
„Við vonum að þetta breytist því það er svo mikil synd að ekki eigi allir kost á að sækja meðferði við þessum vanda,“ segja þær Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir og Sóley Dröfn Davíðsdóttir. mbl.is/Hari

Tilviljun að þær tóku þátt strax í upphafi

„Fengnir voru sálfræðingar alls staðar að úr Noregi til þess að taka þátt í þessu og okkur var boðið að vera með að veita þessa meðferð,“ segir Sigurbjörg. Sóley bætir við að þetta hafi verið algjör tilviljun. Þær hafi verið á fundi með Þresti Björgvinssyni sálfræðingi sem er sérhæfður í þráhyggjuárátturöskun og starfar hjá Harvard Medical School. „Hann fór að segja okkur frá þessari meðferð og hringdi í Gerd. Hún talaði síðan við okkur og bauð okkur að koma. Við létum ekki segja okkur það tvisvar og fórum utan. Þannig hófst þetta allt saman,“ segir Sóley.

Þau skilyrði voru sett að sálfræðingarnir sem tækju þátt hefðu góða þekkingu á þráhyggjuárátturöskun og töluðu annað hvort norsku eða sænsku. Sem þær gerðu allar.

Á meðan átakið stóð yfir í Ósló önnuðust Bjarne og Gerd, sem stýra OCD-teymi Haukeland háskólasjúkrahússins í Bergen, þjálfun sálfræðinga við að beita þessari meðferð þannig að hægt væri að bjóða upp á hana sem víðast í Noregi. 

Í kjölfarið óskuðu þær, fyrir hönd Kvíðameðferðarstöðvarinnar, eftir því að  fá að innleiða þessa meðferð hér á landi vegna þess hversu góða raun meðferðin hefur gefið í Noregi.

Sóley segir að meðferðin sé nú í boði alls staðar í Noregi og sú meðferð sem hafi gefið besta raun í glímunni við OCD.  

Þráhyggjuárátturöskun samanstendur af þráhyggju (obsession) og áráttu (compulsion). Með þráhyggju er átt við óþægilegar, uppáþrengjandi og óviðeigandi hugsanir eða hugmyndir sem þrengja sér í sífellu inn í hugskot einstaklingsins og valda honum miklum kvíða og vanlíðan. Einstaklingurinn reynir eftir mætti að bægja þessum hugsunum frá en getur það ekki. Þó að viðkomandi efist oft þá veit hann að þetta eru hugmyndir sem spretta upp í hans eigin hugarheimi og gerir sér grein fyrir því að þær eiga í raun ekki við rök að styðjast. Þess vegna eru þessar hugmyndir ekki ranghugmyndir. Þráhyggjuhugsanir geta hins vegar í vissum tilfellum líkst mjög ranghugmyndum og jafnvel ofskynjunum. Einnig er þekkt að þráhyggjuárátturöskun er algengari hjá fólki með geðklofa en í almennu þýði og getur í þeim tilfellum verið erfitt að greina einkenni þráhyggjuáráttu frá geðrofseinkennum, segir í grein Magnúsar í Læknablaðinu.

Oft tengd óhreinindum og sýklasmiti

Algengt er að þráhyggja lýsi sér sem óljós hugsun um að eitthvað ami að eða sé ófullnægjandi fremur en afmörkuð og skýr hugmynd. Rannsóknir hafa sýnt að þráhyggja hefur gjarnan ákveðin meginþemu. Algengast er að þráhyggja snúist um hættu tengda óhreinindum eða sýklasmiti, hugsun eða hugmynd um að valda sjálfum sér eða öðrum skaða og þráhyggja um að hlutir í umhverfi þurfi að vera samhverfir eða í ákveðinni röð.

Áráttur eru endurteknar athafnir eða hugsanaferli sem eru eins konar viðbrögð við þráhyggju og viðkomandi finnst nauðsynlegt að framfylgja af nákvæmni til þess að draga úr kvíða eða ná einhverri stjórn á þráhyggju.

Dæmi um algengar áráttur eru endurtekinn handþvottur vegna þráhyggju um óhreinindi eða smit og endurtekin uppröðun og tilfærsla hluta vegna þráhyggju um að umhverfi þurfi að vera samhverft.

Áður var OCD aðeins meðhöndlað með einstaklingsmeðferð sem hefur líka gefið mjög góða raun. En þá tekur meðferðin mun lengri tíma og brottfallið töluvert. Einstaklingsmeðferðin tekur yfirleitt nokkra mánuði og ef langt líður á milli viðtala er alltaf hætta á bakslagi, segja þær Sigurbjörg og Sóley.

„Niðurstaðan af þessum fjögurra daga meðferðum hér á landi er sú að það er ekkert brottfall. Það er, allir þeir sem hafa tekið þátt hafa lokið meðferðinni,“ segir Sigurbjörg.

Meðferðin fellst í því að sálfræðingarnir sem annast hana, eru með einstaklingnum í að minnsta kosti átta klukkustundir yfir daginn og eru síðan í sambandi við viðkomandi í gegnum síma á kvöldin þessa fjóra sólarhringa. Fræðslan fer fram í hóp en berskjöldun (exposure) fer fram á einstaklingsgrundvelli þar sem sálfræðingur fylgir hverjum og einum eftir. Líkt og segir á vef KMS þá er nauðsynlegt að fólk sé tilbúið að leggja á sig mikið erfiði því öðruvísi náist ekki árangur. 

Eftir þessa fjóra daga er fólk ekki endilega orðið frískt en á að verða orðið fært um að taka sjálft á sínum vanda. Næstu þrjár vikur á eftir eru æfingatímabil sem sálfræðingarnir fylgjast með skjólstæðingum sínum á hliðarlínunni.

OCD-teymi Kvíðameðferðarstöðvarinnar hefur verið starfrækt í eitt ár.
OCD-teymi Kvíðameðferðarstöðvarinnar hefur verið starfrækt í eitt ár. Haraldur Jónasson/Hari

Samvinna í sinni fallegustu mynd

„Þráhyggjuárátturöskun hefur hingað til þótt vera illviðráðanleg röskun þannig að það er svo gaman að sjá svo góðan árangur en það eru aðeins 4% sem ná engum árangri af meðferðinni. 70% ná lækningu og í Noregi hefur þessi árangur haldist sem er magnað. Það eru því mun fleiri en 70% sem ná einhverjum árangri en 70% ná bata,“ segir Sóley.

Þær segja góðan árangur meðal annars stafa af því að fólk veit hvað það eigi að gera ef það fer að síga á ógæfuhliðina og eins séu sálfræðingarnir sem veittu meðferðina alltaf til staðar. Ef eitthvað er þá eru sálfræðingarnir fleiri en skjólstæðingarnir í meðferðinni þannig að saman fer hóp- og einstaklingsmeðferð.

„Þetta er samvinna í sinni fallegustu mynd,“ segir Sigurbjörg og vísar þar til þess að hópurinn kemur saman reglulega á þessum fjórum dögum og ræðir þau vandamál sem upp koma. Fá stuðning frá hver öðrum og meðferðin verður markvissari en stundum er í einstaklingsmeðferð.

Meðferðin hefur einnig haft góð áhrif á þunglyndi sem oft er afleiðing af kvíðaröskun segja þær. Um leið og viðkomandi fær meðferð og verkfæri til að vinna með kvíðann og þráhyggjuna hverfur þunglyndið og lífsgæðin aukast.

Enn á eftir að leggjast í samanburðarrannsóknir á þessari meðferð og öðrum meðferðum en verið er að hefja þá vinnu með samanburðarrannsókn sem unnin verður í Noregi, Íslandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Norska OCD-teymið hefur nýverið fengið mjög stóran styrk til þess að vinna þessa samanburðarrannsókn enda hefur meðferðin vakið mikla athygli meðal heilbrigðisstarfsfólks og mörg lönd sýnt áhuga á að taka hana upp.

Sóley segir að með þessari meðferð sé hægt að auka lífsgæði fólks til muna og draga úr örorku því margir þeirra sem glíma við OCD eru óvinnufærir.

„Sumir ná því að fara aftur til vinnu á fimmta degi sem er magnað. En auðvitað er því ekki þannig farið með alla,“ segir Sóley.

Fólkið sem þarf helst á henni að halda 

Sigurbjörg segir að árangurstölurnar séu svipaðar hér á landi en tæplega 40 manns hafa farið í gegnum þessa meðferð hér á landi þetta ár sem henni hefur verið beitt. Auk þess sem byrjað er að beita aðferðinni við þráhyggjuárátturöskun hjá börnum með góðum árangri.

Meðferðin kostar 360 þúsund krónur og er eins og áður sagði ekki greidd niður af Sjúkratryggingum Íslands. Þær segja það mjög miður og vonast til þess að þessu verði breytt. „Við vonum að þetta breytist því það er svo mikil synd að ekki eigi allir kost á að sækja meðferð við þessum vanda. Mjög vont ef við þurfum að horfa upp á fólk þurfa að sætta sig við meðferð sem hefur ekki gefið jafn góða raun þar sem þessi er ekki niðurgreidd líkt og gert  er í Noregi. Á sama tíma sjáum við að kvíðaraskanir eru helsta ástæða örorku ungs fólks og þráhyggjuárátta er gríðarlega hamlandi á öllum sviðum,“ segir Sóley.

Að meðferðin sé ekki niðurgreidd fyrir þá sem helst þurfa á henni að halda, fólk sem er orðið óvinnufært vegna veikinda og er þar af leiðandi verst sett fjárhagslega.

„Þá ertu verst settur hvað varðar meðferðir því þá átt þú ekki rétt á sálfræðimeðferð né annarri þjónustu sem flestir þeirra sem eru á vinnumarkaði fá niðurgreidda af sínum stéttarfélögum,“ segir Sóley.

Þær segja mikið eftirlit vera með OCD-teymunum af hálfu Gerd Kvale og Bjarne Hansen og ef árangurinn er ekki í samræmi við kröfur þá er lagst í að skoða hvað megi gera betur. Þetta sé ein af undirstöðum þess að meðferðin skili árangri.

Verið er að undirbúa að beita þessari meðferð við félagsfælni auk almennrar kvíðaröskunar og áfallastreituröskunar en sú vinna er þegar hafin í Noregi. Vonandi fáum við að taka þátt í þessu en því fylgir mikill kostnaður og vinna, segja þær Sigurbjörg og Sóley.

Þær benda á að allir virðist vera sammála um nauðsyn sálfræðiþjónustu og að það sé gott aðgengi að henni. Það sjáist meðal annars með því að aukið fjármagn hefur verið lagt í að auka slíka þjónustu á heilsugæslustöðvum. Spurning sé hins vegar hvort hægt verði að veita meðferð við vanda á borð við OCD hjá heilsugæslunni eða ekki.

Við teljum að hér tali tölurnar sínu máli. Til að mynda ef litið er til misnotkunar á lyfjum og sjálfsvíga. Þar er fólk með kvíðaraskanir í sérstökum áhættuhópi. Kvíði hefst oft snemma á lífsleiðinni og mikilvægt að grípa börn strax. Við vitum þetta öll en samt er staðan eins og hún er og það þykir okkur sorgleg staðreynd og eins mikil synd, segja þær Sigurbjörg og Sóley.

mbl.is