„Í raun spurning um lífið allt“

Samfélagsmál | 2. febrúar 2019

„Í raun spurning um lífið allt“

„Geðheilbrigðismál, geðheilsa og geðheilbrigði eru í raun spurning um lífið allt,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þegar hún er spurð út í áherslumál ráðuneytisins á þessu sviði.

„Í raun spurning um lífið allt“

Samfélagsmál | 2. febrúar 2019

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýverið heilbrigðisáætlun til ársins 2030.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýverið heilbrigðisáætlun til ársins 2030. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Geðheilbrigðismál, geðheilsa og geðheilbrigði eru í raun spurning um lífið allt,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þegar hún er spurð út í áherslumál ráðuneytisins á þessu sviði.

„Geðheilbrigðismál, geðheilsa og geðheilbrigði eru í raun spurning um lífið allt,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þegar hún er spurð út í áherslumál ráðuneytisins á þessu sviði.

„Góð lífsskilyrði snúast um heilsu og sýn á tilveruna og margir þættir falla þar undir. Eitt af því er heilbrigðisþjónustan. Fólk á að geta gengið að því vísu að það fái góða þjónustu þegar það þarf á henni að halda,“ segir Svandís en í vikunni kynnti hún tillögu ríkisstjórnarinnar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030.  

Hún segir að ákveðið endurmat sé að eiga sér stað á sviði geðheilbrigðismála. „Við getum ekki talað um heilsu nema við tölum líka um andlega heilsu og ekki sem aðskilið verkefni heldur hluta af heildrænni nálgun á heilsufar einstaklinga og samfélaga frá vöggu til grafar.  En um leið finnum við að það er uppsafnaður vandi í þessum málaflokki. Það hefur verið þannig að geðheilbrigðismál hafa alls staðar í heiminum þurft að berjast meira fyrir sinni stöðu en aðrir málaflokkar heilbrigðisþjónustunnar og ef það er þannig að geðheilbrigðismál séu á jaðrinum þá eru fíknimál á jaðri geðheilbrigðismála,“ segir Svandís. 

Geðheilsuteymi um allt land fjármögnuð á næstunni

Hún segir að geðheilbrigðisáætlunin sem Alþingi samþykkti árið 2016 sé mjög sterkt leiðarljós í þessu starfi og þar er að vinna verkáætlun um þær aðgerðir sem ríkið á að fara í að mati Alþingis. Hvenær eigi að fara í hvað og hvenær á að ljúka ákveðnum þáttum hennar.

„Ég hef lagt áherslu á það sem heilbrigðisráðherra að fullfjármagna geðheilbrigðisáætlunina og núna bíð ég eftir tillögum frá heilbrigðisstofnunum á landinu öllu sem lúta að uppbyggingu geðheilsuteyma líkt og þeirra sem eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að á næstu vikum mun ég ráðstafa fjármunum svo hægt sé að ljúka þeirri uppbyggingu fyrir árslok 2019 í samræmi við núgildandi geðheilbrigðisáætlun.

Samhliða þessu erum við að leggja aukna áherslu á ráðningu sálfræðinga á heilsugæsluna og það gildir um allt land,“ segir Svandís og að hennar sögn gengur það verkefni samkvæmt áætlun. „Við sjáum að það er gríðarlega mikil þörf á slíkri þjónustu og eftirspurnin er meiri en framboðið. Þessu ferli er ekki lokið og við þurfum að fá ráðrúm til þess að meta stöðuna þegar búið er að manna stöður sálfræðinga í samræmi við áætlunina og setja geðheilbrigðisteymin í gang um allt land,“ segir Svandís.

Eitt af því sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og Sambands sveitarfélaga er að styrkja allt umhverfið í kringum börn og segir Svandís að þar sé meðal annars lögð áhersla á að styrkja sálfræðiþjónustu við framhaldsskólana og daglegt umhverfi barna og ungmenna.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, lagði fram frum­varp á Alþingi í vikunni um að sjálfræðiþjón­usta verði færð und­ir greiðsluþátt­töku­kerfi Sjúkra­trygg­inga Íslands, en sál­fræðiþjón­usta er nú und­an­skil­in al­mennri greiðsluþátt­töku Sjúkra­trygg­inga.

Svandís segir að frumvarpið feli í sér að heilbrigðisráðherra verði gert heimilt að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga líkt og er með alla sjálfstætt starfandi lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfara og fleiri heilbrigðisstéttir.

„Mér finnst sjálfsagt að Alþingi taki afstöðu til þessarar tillögu því samhliða erum við með heilbrigðisstefnu en þar er skýrt kveðið á um skilgreiningar heilbrigðisþjónustunnar. Heilsugæslan er þá fyrsta stigs þjónusta, sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss er annars stigs þjónusta og svo þriðja stigs þjónusta, háskólasjúkrahúsið. Annars stigs þjónustan er bæði veitt af heilbrigðisstofnunum út um allt land, sjálfstætt starfandi læknum, félagasamtökum og heilbrigðisfyrirtækjum og fleirum.

Markmiðið með heilbrigðisstefnunni er að ríkið sem kaupandi þjónustunnar ákveði hvaða þjónustu eigi að kaupa, af hverjum, í hvaða magni, hver árangurinn eigi að vera og hverjar gæðakröfurnar eigi að vera. Þannig að við séum með miklu skýrari sýn en við höfum verið með, bæði á hvernig ríkið er að ráðstafa sínum peningum og að tryggja það að þjónustan sé í samræmi við þarfir sjúklings og almennings en ekki þess sem þjónustuna veitir,“ segir Svandís.

Frá einyrkjum yfir í teymisvinnu

„Mikilvægast er að við séum að hugsa um þessa samfellu óháð því að við séum með opinbera þjónustu eða þjónustu einkaaðila. Að hún sé í samræmi við heildarhugsun og stefnu. Annað verkefni er að skoða hlut sjálfstætt starfandi sérfræðinga, svo sem geðlækna. Öll þróun í heilbrigðisþjónustu er í þá átt að auka teymisvinnu meðal heilbrigðisstétta. Hvað varðar geðheilbrigðismál er einnig verið að tala um enn frekari teymisvinnu þar sem horft er til hreyfifærni og virkni samhliða geðhjúkrun og geðlækningum. Öll þróun í nágrannalöndunum er að færast frá einyrkjum í heilbrigðisþjónustu yfir í teymisvinnu í allri heilbrigðisþjónustu,“ segir hún.

Þetta er mismunandi eftir sérgreinum og sumar eru þannig að þær þurfa á sterku baklandi spítala að halda til þess að grípa inn ef það verða breytingar á greiningu, meðferð og eftirfylgni. „Ég, forstjóri Landspítalans og landlæknir höfum öll talað fyrir mikilvægi þess að læknar séu í fullu starfi á spítalanum séu þeir starfandi þar, ekki bæði þar og á einkastofum. Það skapar mikið álag á læknana sjálfa, samstarfsfólk og svo ekki sé talað um sjúklinga þegar fólk er að reyna að skipta sér á milli tveggja eða fleiri staða,“ segir heilbrigðisráðherra.

Svandís segist sem heilbrigðisráðherra leggja mikla áherslu á að það sé vel skilgreint hver þjónustan sem verið er að kaupa er og að hún henti notandanum sem best. Að honum bjóðist gott og auðvelt aðgengi að þjónustunni með því að efla starfsemi heilsugæslunnar og auka skýrleikann og samfelluna í kerfinu öllu.

Á sama tíma þarf kostnaðurinn að endurspegla þjónustuna sem er veitt með aukinni áherslu á göngudeildar- og dagdeildarþjónustu ekki síst fyrir þá sem eru að glíma við langvarandi sjúkdóma. Enn og aftur, þetta snýst um sjúklinginn ekki þann sem veitir þjónustuna, segir Svandís.

Öflugt faglegt frumkvæði geðsviðs

Líkt og hér kom fram að framan er mikil áhersla lögð á teymisvinnu í heilbrigðiskerfinu og Svandís bendir þar á öflugt faglegt frumkvæði á geðsviði Landspítalans sem skilar sér í þjónustu samfélagsgeðteyma sem og meðferðardeilda.

„Hugmyndafræði þar sem viðkomandi einstaklingur er sjálfur við stýrið í sínum bata er mjög vaxandi, sérstaklega í geðheilbrigðismálum, með aukinni þátttöku notenda. Ekki bara notenda þjónustunnar heldur líka þeirra sem hafa jafnvel einhvern tíma á lífsleiðinni tekist á við geðraskanir en náð bata og þekkja kerfið af eigin raun. Það er verið að gera frábæra hluti í geðheilbrigðismálum hér á landi,“ segir Svandís.

Guðmund­ur Sæv­ar Sæv­ars­son, deild­ar­stjóri ör­ygg­is- og rétt­ar­geðþjón­ustu Land­spít­ala, hef­ur harðlega gagn­rýnt úrræðal­eysi í mál­efn­um ein­stak­linga með þroska­skerðingu sem þurfa á geðheil­brigðisþjón­ustu að halda. Eng­in slík deild er rek­in á Íslandi. 

„Þroska­skert­ir verða að fá sér­tæka deild því við erum ekki að sinna þeim rétt. Við þurf­um að hanna deild­ina að þörf­um þeirra og meðal ann­ars fá þroskaþjálf­ara til starfa. Eins og staðan er í dag þá eru fatlaðir ein­stak­ling­ar sem eru með geðgrein­ingu og með hegðun­ar­bresti send­ir á mót­töku­deild­ina á geðdeild­inni á Hring­braut. Deild­ir sem eru alltaf full­ar og yf­ir­leitt gott bet­ur en það. Þú get­ur ekki sent fatlaða ein­stak­linga með geðrösk­un inn í þetta kraðak. En það erum við að gera því það er ekk­ert annað í boði,“ seg­ir Guðmund­ur í viðtali við mbl.is á síðasta ári.

Hann seg­ist sann­færður um að ef þess­ir ein­stak­ling­ar fengju viðeig­andi aðstoð þá væru hegðun­ar­brest­irn­ir yf­ir­leitt fyr­ir bí.

„Þetta fólk á ekki heima á ör­ygg­is­deild. Þeir sem eru þar eru yf­ir­leitt ung­ir karl­ar og yfir 90% þeirra eru í fíkni­efn­um og sturlaðir á köfl­um. Sérðu fyr­ir þér að ung þroska­skert kona sé send hingað inn? Nei, það á ekki að vera þannig en við höf­um þurft að gera það. Það gekk upp í þessu ímyndaða til­felli með því að vernda hana og þess gætt að hún væri með her­bergi þar sem hægt er að fylgj­ast með henni all­an tím­ann. Deild­irn­ar sem við erum með á geðsviði Land­spít­al­ans eru ekki hannaðar með þetta í huga og þess vegna vil ég slíka deild og við finn­um að það er gíf­ur­leg þörf fyr­ir slíka deild,“ seg­ir Guðmund­ur.

„En í dag erum við taka við þeim á mót­töku­deild­un­um og þeir eru síðan send­ir heim þar sem  starfs­fólkið á heim­il­inu tek­ur við þeim og veit ekki hvað á að gera. Það skipt­ir engu hvort viðkom­andi er með þroska­skerðingu eða ekki, hann á betra skilið. Það eiga all­ir rétt til mann­sæm­andi meðferðar og lífs,“ seg­ir Guðmund­ur. 

Svandís tekur undir mikilvægi sérhæfðs úrræðis fyrir þennan hóp og  segir þekkingu skorta í öllu heilbrigðiskerfinu og í raun öllu opinbera kerfinu að sinna fólki með þroskahamlanir. „Oft snýst það um að tryggja að upplýsingar komist til skila. Að þjónustuúrræðin séu nægjanlega gagnsæ fyrir viðkomandi og að þeir geti, miðað við sína upplifun, tekið afstöðu til þeirra úrræða sem eru í boði. Þar er ég í raun að tala um allt kerfið okkar. Ég held að við getum gert miklu betur í þessum málaflokki,“ segir hún.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala fellur undir kvenna- og barnasvið Landspítalans, …
Barna- og unglingageðdeild Landspítala fellur undir kvenna- og barnasvið Landspítalans, ekki geðsviðið. mbl.is/Hari

Biðin of löng víða

Langir biðlistar á stofnunum eins og barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), fíknigeðdeild Landspítalans og fleiri stöðum hafa verið mjög í umræðunni undanfarin misseri. Líkt og fram kom í svörum heilbrigðisráðherra við fyrirspurnum á Alþingi er biðin misjafnlega löng eftir stofnunum en Svandís segir hana of langa víða.

„Þetta er áhyggjuefni en þegar það kemur að innlögn þá byggir hún á viðtali og læknisfræðilegu mati. Ég hef verið fullvissuð um að fólk bíður ekki þegar það er í sárri neyð og það er alltaf verið að endurskoða biðlistana sem skiptir mjög miklu máli,“ segir hún.

Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt er það bil sem vill myndast á milli BUGL og geðsviðs Landspítalans en BUGLið tilheyrir kvenna- og barnasviði Landspítalans. Spurð út í þetta segir heilbrigðisráðherra að skipulag spítalans sé í höndum spítalans sjálfs og eins hvaða tengsl eru á milli einstakra sviða og deilda þjónustunnar. Hún staðfestir að ábendingar um að bæta mætti flæði á milli tiltekinna deilda geðheilbrigðismála innan spítalans hafi borist. Að það vanti brúna þarna á milli en engin fíknimeðferð er á BUGLi og börn og ungmenni sem glíma við fíkn hafa leitað á sjúkrahúsið Vog sem rekið er af SÁÁ.

Að sögn Svandísar hefur verið unnið að því innan heilbrigðisráðuneytisins að færa meðferðarþjónustu barna frá Vogi allt frá því beiðni þar að lútandi barst frá SÁÁ í apríl.

„Eftir því sem við skoðuðum þetta betur sáum við að það er óásættanlegt að ekki sé þjónusta á Landspítalanum fyrir þessa tegund veikinda. Þetta eru sárlasnir krakkar og oft tengist þetta öðrum þáttum heilbrigðis, svo sem geðheilbrigði og áfallasögu, þannig að það fer langbest á því að bjóða upp á samfellu í heilbrigðisþjónustu barna á Landspítalanum.“

Svandís fékk svar í síðustu viku frá Landspítalanum um að spítalinn treysti sér til þess að taka að sér verkefnið að því gefnu að fá tíma, sex mánuði, til undirbúnings, svo sem breytingar á húsnæði og starfsmannamál.

Hún segir að sá tími verði notaður til þess að stilla saman strengi, bæði við SÁÁ sem og við þá sem hafa þjónustað börn og ungmenni að lokinni innlögn. Sum af þeim úrræðum eru félagsleg úrræði sem miða að hjálpa þeim að taka skref í átt að daglegu lífi.

„Ég er mjög ánægð með að sjá hversu útfærslan er hugsuð til enda af hálfu Landspítalans,“ segir Svandís og vísar þar til svars spítalans um að taka að sér að þjónusta börn sem þurfa á fíknimeðferð að halda.

Þessi mál og fleiri eru á sameiginlegri dagskrá heilbrigðis- og félagsmálaráðherra á næstunni. Að tryggja þessa samfellu í þjónustu því einstaklingur í vanda, sama á hvaða aldri hann er, á ekki að þurfa að upplifa að það sé eitt kerfi sem sleppir og annað tekur við. Heldur sé samfella í þjónustunni, segir Svandís.

Allir eiga rétt á heimili og líka þeir sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda. „Mat­ur og húsa­skjól! Ef þess­ar grunnþarf­ir eru upp­fyllt­ar er svo miklu auðveld­ara að hjálpa fólki og ár­ang­ur meðferðar marg­falt betri,“ sagði María Ein­is­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri geðsviðs Land­spít­al­ans, í viðtali við mbl.is síðasta haust. 

Allir eiga rétt á þjónustu

Svandís segir að huga verði betur að þeim hópi sem er í neyslu, búa við geðraskanir eða jafnvel fjölþættan vanda og þurfa á hjúkrunarrýmum að halda.

„Þetta eru ekki stórir hópar en þetta eru einstaklingar sem þurfa á sérhæfðum hjúkrunarrýmum að halda. Því ef fólk kýs að vera í neyslu og býr líka við geðraskanir þá á það eðlilega rétt á heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarrýmum líkt og aðrir. Algjörlega óháð því hvernig lífi fólk lifir þá á fólk rétt á þjónustu. Við höfum ekki sinnt þessum hóp nógu vel og er það eitt af því sem gert verður í tengslum við þau 14 hjúkrunarheimili um allt land sem unnið er að setja á laggirnar. Verkefni sem eru mislangt komin, allt frá því að vera enn á hugmyndastigi í hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi sem opnar í dag. Í þessum verkefnum erum við alltaf með þann hóp í huga sem þarf á sértækum úrræðum að halda. Þetta getur líka verið fólk sem er yngra en 67 ára en býr við mikla og viðvarandi umönnunarþörf en eiga ekki að þurfa að búa á hátæknisjúkrahúsi ,“ segir hún. 

Svefn, mataræði og hreyfing eru atriði sem skipta miklu máli …
Svefn, mataræði og hreyfing eru atriði sem skipta miklu máli fyrir allt samfélagið, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tengsl í tæknivæddum heimi

Hvað getum við sem samfélag gert til þess að bregðast við þessu mikla álagi og öðrum atriðum sem eru að valda kvíða, kulnun í starfi, aukinni lyfjanotkun o.fl?

„Það hvað mörgum líður illa í efnahagslegum uppgangi er verkefni samfélagsins alls. Það er verkefni allra ráðherra,“ segir Svandís.

„Verkefni stjórnvalda, skólanna, heimilanna og þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um að vega og meta, bæði hvert fyrir sig og líka í samfélaginu öllu, hvað skiptir mestu máli. Hvað er það sem gefur lífinu gildi? Muna að halda því til haga með því að rækta góð og jákvæð tengsl. Halda góðum minningum til haga og hugsa um okkar persónulegu heilsu,“ segir Svandís og nefnir þar að fá nægan svefn og tekur undir með mörgum öðrum. „Svefn er lykillinn að góðu geðheilbrigði. Svefn er kannski það mikilvægasta af þessu öllu,“ segir hún og bætir við að þegar góður og nægur svefn sé ekki til staðar þá hafi það áhrif á allt annað. 

Síðasta sum­ar skil­greindi Alþjóðaheil­brigðistofn­un­in, WHO, tölvu­leikjafíkn sem nýja teg­und af geðrösk­un. Þá er talað um ra­f­rænt skjá­heil­kenni, sem er nýyrði sem lýs­ir skaðleg­um ein­kenn­um of­notk­un­ar á snjall­tækj­um og er þá hugs­an­legt forstig af því sem get­ur þró­ast út í fíkn.

Björn Hjálm­ars­son, sér­fræðilækn­ir á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans, BUGL, fjallaði um skjátíma í viðtali í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins nýverið. Hann segir afar mis­jafnt hvernig geng­ur að halda utan um skjá­tíma barna og ung­linga en stór hluti barna er langt um­fram þann há­marks­tíma sem banda­rísku barna­lækna­sam­tök­in ráðleggja í skjá­tækj­um. Þannig virðist vera að í sterku fjöl­skyld­un­um, þar sem er gott ut­an­um­hald og báðir for­eldr­ar til staðar, tak­ist bet­ur að stýra þess­ari notk­un og hafa áhrif á hana. 

„Við erum svo­lítið í lausu lofti hvernig á að tak­ast á við þessa nýju tækni. Hún er frá­bær út af fyr­ir sig, nýt­ist okk­ur vel þegar hún er notuð skyn­sam­lega, hóf­lega og hún verður að vera stýrð því börn hafa ekki þroska til að taka sjálf ábyrgð á því,“ seg­ir Björn sem seg­ist finna fyr­ir vit­und­ar­vakn­ingu í sam­fé­lag­inu og fólk sé til­búið í gott sam­tal um þetta mik­il­væga mál en sömu­leiðis sé þetta mál for­eldr­anna, að þeir leggi skjá­tæki frá sér.

„Eitt af því sem okk­ur er mjög hug­leikið inni á BUGL er tengslamynd­un barna og ung­linga en barn get­ur upp­lifað sára höfn­un ef mamma og pabbi eru alltaf í sím­an­um. For­eld­arn­ir eru þá ekki til staðar og eru þar að auki slæm­ar fyr­ir­mynd­ir. Barn­inu finnst að það hljóti sjálft að þurfa að vera í snjall­tæki til að fá þá örvun í líf­inu sem það þarf.“

Svandís tekur í svipaðan streng og segir að við séum að prófa okkur áfram í tæknivæddum heimi á rauntíma breytinga sem hafa áhrif á allt okkar líf og tilveru.

„Eitt af því eru skólar sem hafa tekið ákvörðun um að sleppa símanum og krakkarnir eru að uppgötva samveru. Sem er frábært. Að vera saman í borðtennis, að spjalla eða gera eitthvað annað saman án símans. Krökkunum finnst þetta spennandi og koma að því sem verkefni sem er áhugavert – að sleppa símanum. Þetta er að koma frá nemendunum sjálfum. Þau gera sér grein fyrir að tengslanetið er þarna og stundum held ég að við sem höfum bætt snjallsímanum inn í líf okkar séum enn ruglaðri í samskiptum við hann en krakkarnir sem eru aldir upp við hann frá fyrsta degi,“ segir Svandís.

Hún segir tengslamyndun grundvallaratriði í geðheilsu og geðheilbrigði. Allt frá fyrsta degi og hún sé grundvöllur fyrir því að geta alist upp sem heilbrigð manneskja en það gerist ekki nema stutt sé við þennan kjarna, fjölskylduna. Þannig er stytting vinnuvikunnar stórmál og jafnframt að leggja símann frá sér.

„Ég tala hér af eigin reynslu og mitt ráð er að slökkva ekki á hringingunni í símanum heldur miklu frekar að setja símann upp í hillu og láta hann vera nema hann hringi. Í stað þess að vera alltaf að líta á símann og kanna hvort maður hafi misst af einhverjum skilaboðum eða hringingum.

Ekki slökkva endilega á hringingunni heldur leggja símann frá sér …
Ekki slökkva endilega á hringingunni heldur leggja símann frá sér í stað þess að vera alltaf með hann við höndina. AFP

Samskiptin eru orðin þannig að þau eru nánast öll í gegnum SMS, Messenger, tölvupóst og önnur slík rafræn samskipti. Þegar fólk hringir þá er það vegna þess að það þarf að ná sambandi við mann,“ segir Svandís Svavarsdóttir. 

Hún segir að víða sé verið að gera mjög góða hluti og bendir þar á verkefni landlæknisembættisins sem miða að bættri líðan fólks. Þar má nefna heilsueflandi samfélag og lýðheilsuvísa. „Frábært verkfæri fyrir sveitarfélög til þess að stýra alls konar ákvörðunum. Embættið birtir lýðheilsuvísa eftir landshlutum sem veita yfirsýn um lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig og það er auðvelt fyrir landshluta að bera sig saman við önnur svæði á landinu. Þeim er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustunni að greina stöðuna í sínu umdæmi og þannig bæta heilsu og líðan íbúanna. Eins hver staðan var áður og er núna. Við getum notað þessa vísa miklu meira en við erum að gera í dag,“ segir Svandís.

Að kunna að bregðast við vanlíðan

Svefn, mataræði og hreyfing eru atriði sem skipta miklu máli fyrir allt samfélagið og ávinningur almennrar heilsueflingar er ómetanlegur fyrir samfélagið í heild. 

Hluti af teymishugsuninni er að finna í nýjung sem heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er að taka upp með ráðningu lyfjafræðinga til starfa. Þeim er ætlað að fara yfir lyfjaúttektir einstaklinga sem þangað leita og upplýsa um áhrif þeirra. 

Hún segir að það skipti líka máli sem samfélag að við kunnum einföldustu atriði hugrænnar atferlismeðferðar og lesa í eigin líðan. „Að við kunnum að bregðast við vinum okkar þegar þeim líður illa og við kennum börnum okkar að orða sína líðan og þau séu óhrædd við að tjá tilfinningar, bæði þegar þeim líður illa og líka þegar þeim líður vel. Að byggja upp samfélag þar sem það er ekki feimnismál að líða illa og um leið að eignast fleiri verkfæri til þess takast á við vanlíðan. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að fjölga sérfræðingum heldur horfa heildstætt á fólk,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

mbl.is