Uppáhaldsstaðir Unnar á Tenerife

Fjallganga | 21. maí 2019

Uppáháldsstaður Unnar á Tenerife

Þau hafa náð að kynnast eyjunni nokkuð vel á þessum mánuðum og deilir Unnur María með lesendum Ferðavefjarins sínum eftirlætisstöðum á eyjunni.

Uppáháldsstaður Unnar á Tenerife

Fjallganga | 21. maí 2019

Lífið á Teneri­fe er draumi lík­ast og aldrei logn­molla í …
Lífið á Teneri­fe er draumi lík­ast og aldrei logn­molla í kring­um Unni Maríu og fjöl­skyldu Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Þau hafa náð að kynnast eyjunni nokkuð vel á þessum mánuðum og deilir Unnur María með lesendum Ferðavefjarins sínum eftirlætisstöðum á eyjunni.

Þau hafa náð að kynnast eyjunni nokkuð vel á þessum mánuðum og deilir Unnur María með lesendum Ferðavefjarins sínum eftirlætisstöðum á eyjunni.

Gönguleiðin frá Santiago del Teide yfir til Masca

Þetta er sú gönguleið sem kom mér hvað mest á óvart, þvílík náttúrufegurð. Masca er af mörgum talinn vera einn fegursti staður Tenerife en það er eitthvað töfrandi við Masca, kannski vegna sögu þess og hversu afskekkt það var þar til fyrir aðeins nokkrum árum. Þorpið sem nú telur 80 íbúa hefur stundum verið kallað týnda þorpið því það var ekki fyrr en árið 1991 sem vegur var lagður að þorpinu. Frá bænum Santiago del Teide liggur þessi fallega 10 km langa gönguleið yfir Teno-fjallgarðinn og yfir til Masca, sem ég get svo sannarlega mælt með!

Horft yfir Masca sem er af mörgum talinn einn fegursti …
Horft yfir Masca sem er af mörgum talinn einn fegursti staður Tenerife. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Duque-ströndin

Það er alltaf notalegt að kíkja aðeins á ströndina, en strandlengjan á suðurhlutanum telur samtals níu strendur frá gamla bænum í Los Cristianos upp að Duque-ströndinni sem er án vafa okkar uppáhaldsströnd hér á Tenerife. Hún er ólík hinum ströndunum að því leyti að umhverfið er allt mun skemmtilegra og afslappaðra. Göngustígurinn meðfram ströndinni og veitingastaðirnir minna svolítið á Ítalíu, eitthvað svo rómantískt. Við endann á ströndinni er svo Duque-kastalinn sem setur skemmtilegan svip á ströndina. Fyrir þá sem eru að leita af rólegra umhverfi burt frá skarkalanum þá er dagur á Duque-ströndinni fullkominn.

Duque-ströndin býður upp á afslappað og skemmtilegt umhverfi.
Duque-ströndin býður upp á afslappað og skemmtilegt umhverfi. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Barranco de infierno eða Helvítisgilið

Gilið sem gengur undir nafninu Helvítisgilið. Algjörlega frábær gönguleið sem hefst efst í bænum Adeje, rétt fyrir ofan ferðmannasvæðið. Á gönguleiðinni má sjá ótrúlega skemmtilegt fuglalíf, suðrænan gróður, gul fiðrildi á sveimi og froska sem synda í litlum tjörnum. Þeir gefa frá furðulega hávær og sérkennileg hljóð sem bergmála í gilinu. Í botninum á gilinu er svo að finna fallegan foss, en það er lengsti foss Tenerife. Hann bliknar nú í samanburði við fallegu fossana okkar á Íslandi en engu að síður fallegur að sjá. Leiðin er vel merkt alla leið og göngustígurinn nokkuð þægilegur. Gott er að hafa í huga að aðeins 300 manns fá að ganga leiðina á dag og því er nauðsynlegt að bóka fyrir fram á heimasíðunni þeirra.  Leiðin er 6,5 km löng og göngutíminn er um 3 klukkustundir fram og til baka. Öllum er skylt að nota hjálma á leiðinni eftir banaslys sem varð þar fyrir nokkrum árum og halda sig á göngustígnum. Mæli klárlega með þessari leið fyrir þá sem vilja komast aðeins út í náttúruna og hreyfa sig.

Einungis 300 manns á dag fá leyfi til að ganga …
Einungis 300 manns á dag fá leyfi til að ganga Barranco de infierno-gönguleiðina og því nauðsynlegt að bóka fyrir fram. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Teide og þjóðgarðurinn

Teide-þjóðgarðurinn sem staðsettur er á miðri eyjunni er gríðarvinsæll meðal ferðmanna og ekki að ástæðulausu. Garðurinn er á minjaskrá Unesco og er kenndur við eldfjallið Teide, hæsta fjall Spánar, en toppur þess er í 3.718 m hæð sem gerir það að þriðja hæsta eldfjalli í heimi. Vinsælt er að taka kláfinn upp á topp og þaðan er svo hægt (með leyfi) að ganga tæpa 170 m ofar upp á topp fjallsins. Það ber þó að varast að loftið í þessari hæð er þynnra og þeim sem eru viðkæmir fyrir er ekki ráðlagt að fara upp. Einnig er boðið upp á sólsetursferð upp á toppinn sem er mjög áhugavert.

Hér sést í eldfjallið Teide sem er þriðja hæsta eldfjall …
Hér sést í eldfjallið Teide sem er þriðja hæsta eldfjall í heimi. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Sigling og sjósund í Los Gigantes

Fyrir þá sem vilja skreppa aðeins frá strandarlífinu er skemmtilegt að fara í bíltúr og skoða bæinn Los Gigantes. Bærinn er gamalt fiskiþorp og eru helstu einkenni bæjarins tignalegir klettar sem teygja sig upp eina 800 metra. Los Gigantes er sagður sólríkasti staður eyjunnar svo ef það er skýjað niðri við amerísku ströndina er líklegt að sólina sé að finna í Los Gigantes. Á leiðinni að bænum er útsýnispallur með skemmtilegum veitingastað sem ég get mælt með. Við höfnina er svo boðið upp á fjölbreyttar siglingar þar sem siglt er út eftir klettunum og alveg að Masca-gilinu, þeir sem vilja mega taka sér sundsprett í sjónum og jafnvel snorkla. Náttúrulaugin Isla Cangrejo, manngerð laug við sjóinn vekur líka áhuga margra, en þar er vinsælt að stinga sér til sunds í góðu veðri, en hafa þó varann á því öldurnar geta verið ansi kröftugar á þessu svæði.

Los Gigantes er sagður sólríkasti staður eyjunnar.
Los Gigantes er sagður sólríkasti staður eyjunnar. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Fyr­ir þá sem hafa áhuga er hægt að fylgj­ast með Unni Maríu og ferðalög­um henn­ar um eyj­una á Face­book-síðunni Íslend­ing­ar á Teneri­fe. 

mbl.is