Viðtölum fjölgað um þriðjung

Kynferðisbrot | 6. ágúst 2019

Viðtölum hjá Stígamótum fjölgað um þriðjung

Talskona Stígamóta segir samtökin eiga erfitt með að anna þeirri auknu aðsókn sem hefur verið í þjónustuna á síðustu árum. Ákjósanlegt væri að bæta við einu til einu og hálfu stöðugildi en til þess þarf aukið fjármagn. 

Viðtölum hjá Stígamótum fjölgað um þriðjung

Kynferðisbrot | 6. ágúst 2019

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

Talskona Stígamóta segir samtökin eiga erfitt með að anna þeirri auknu aðsókn sem hefur verið í þjónustuna á síðustu árum. Ákjósanlegt væri að bæta við einu til einu og hálfu stöðugildi en til þess þarf aukið fjármagn. 

Talskona Stígamóta segir samtökin eiga erfitt með að anna þeirri auknu aðsókn sem hefur verið í þjónustuna á síðustu árum. Ákjósanlegt væri að bæta við einu til einu og hálfu stöðugildi en til þess þarf aukið fjármagn. 

„Vandamálið er mjög einfalt. Það hefur orðið svo mikil aukning í aðsókn hjá okkur á síðustu fimm, sex árum og það hefur sýnt sig að þessi aukning er komin til að vera. Svo hefur þessi vitundarvakning sem hefur átt sér stað í samfélaginu leitt til þess að við fáum miklu fleiri óskir um fræðslu frá ansi mörgum aðilum,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. 

„Við höfum verið að reyna að bregðast við þessu. Það er ákveðinn þrýstingur á okkur að leggja niður og við höfum verið að minnka viðveru okkar í Bjarkahlíð. Við erum með þjónustu á Austfjörðum og Vestfjörðum sem við viljum endilega halda úti en tekur mikið vinnuþrek. Svo erum við að lengja á milli viðtala. Við gerum það sem við getum,“ segir Guðrún. 

Viðtölum fjölgað mikið

Guðrún segist ekki geta sagt til um það hvort að aukin aðsókn í þjónustu Stígamóta stafi af aukinni tíðni brota, eða því að fleiri þolendur þori að stíga fram og leita sér hjálpar í kjölfar aukinnar umræðu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu. 

„Viðtölum hjá okkur hefur fjölgað úr 2.000 í 3.000 á ári. Heildarfjöldi fólks sem fer hér í gegn á ári er nú 800 til 1.000 manns en voru um 600 fyrir nokkrum árum síðan. Hópurinn sem kemur nýr inn hefur líka stækkað. Við metum að aukning er um 30% í þessum hópi.“

Guðrún segir ákjósanlegast að samtökin fái aukið fjármagn frá ríkinu svo að reka megi þjónustuna með forsvaranlegum hætti. 

Átak Stígamóta „Sjúk ást“.
Átak Stígamóta „Sjúk ást“. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við auðvitað gerum hér eins og við getum til að leysa þetta. En það er ansi ákallandi þörf á að bæta hér við fólki til þess að geta minnkað þennan biðtíma og til þess að geta sinnt fólki eins og það þarf á að halda.“

„Ríkið hefur ekki minnkað fjármagnið en það hefur ekki aukist heldur á þessu tímabili, frá 2013, þrátt fyrir aukna þörf. Fjármagnið sem kemur frá ríkinu er orðið hlutfallslega mun minna en það var því við höfum sjálf aflað okkur styrktaraðila. Það munar ansi miklu um það en samt sem áður ná endar ekki saman til þess að vinna eins vel og við myndum vilja gera,“ segir Guðrún, en samtökin hafa nú farið fram á fimmtán milljóna króna fjárframlag frá stjórnvöldum svo hægt verði að fjölga starfsmönnum.

Guðrún segir það erfitt að geta ekki sinnt þjónustunni jafnvel og skjótt og samtökin vilja. Stígamót leggur mikið upp úr því að hvetja bæði konur og menn sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi að leita sér hjálpar og að því sé erfitt að vera ekki betur í stakk búin. 

mbl.is