Þarfir transfólks til að líða vel í eigin skinni ólíkar

Réttindabarátta hinsegin fólks | 13. september 2019

Þarfir transfólks til að líða vel í eigin skinni ólíkar

„Hvers vegna getur fólk ekki bara fengið að fara til hormónalæknis og fengið þar það sem það vill? Ég mun meðal annars tala um ástæðu þess að við höfum þetta sex mánaða greiningartímabil,“ segir Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur Transteymis Landspítalans.

Þarfir transfólks til að líða vel í eigin skinni ólíkar

Réttindabarátta hinsegin fólks | 13. september 2019

Kristinn Magnússon

„Hvers vegna getur fólk ekki bara fengið að fara til hormónalæknis og fengið þar það sem það vill? Ég mun meðal annars tala um ástæðu þess að við höfum þetta sex mánaða greiningartímabil,“ segir Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur Transteymis Landspítalans.

„Hvers vegna getur fólk ekki bara fengið að fara til hormónalæknis og fengið þar það sem það vill? Ég mun meðal annars tala um ástæðu þess að við höfum þetta sex mánaða greiningartímabil,“ segir Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur Transteymis Landspítalans.

Hún er meðal þeirra sem halda erindi á ráðstefnunni Trans til framtíðar sem haldin verður í Ráðhúsi Reykjavíkur á morgun, laugardag, en þetta er fyrsta ráðstefna sinnar tegundar hér á landi.

„Við höfum haldið málþing af og til, t.d. á Læknadögum og á geðlæknaþingi og við fleiri tækifæri, en þetta er fyrsta ráðstefnan sem haldin er sérstaklega um þessi málefni. Svo er þetta líka í fyrsta sinn sem við erum í samstarfi við Samtökin '78 og viljum búa til vettvang þar sem allir geta komið og fengið fræðslu,“ segir Elsa Bára.

Elsa Bára gekk til liðs við Transteymið árið 2013 og segir margt hafa breyst í ferlinu síðan.

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur í transteymi Landspítalans.
Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur í transteymi Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var þannig að fólk þurfti að vera í ferli í tvö ár og byrja að lifa í öðru kynhlutverki, breyta klæðaburði sínum og framkomu og kynna sig með öðru nafni, svo eitthvað sé nefnt, og það var ákveðin kvöð, og fékk ekki nafnabreytingu í Þjóðskrá fyrr en eftir 18 mánuði hjá teyminu,“ útskýrir Elsa Bára.

„Á síðustu árum höfum við verið að breyta þessu í samræmi við leiðbeiningar frá Hollandi, en Hollendingar eru mjög framarlega í þjónustu við transfólk. Þar er greiningartímabilið sex mánuðir þar sem fylgst er með líðan fólks og því veitt viðeigandi meðferð eftir þörfum. Við höfum verið að vinna eftir þessu hollenska módeli og svo er fólki vísað áfram til innkirtlasérfræðinga ef það vill fá hormóna og svo í framhaldinu geta þau sem þess óska farið í skurðaðgerð.“

Fólk færi „alla leið“ í ferlinu eða ekki

Þá hafi það lengi verið þannig að ákveðið var í upphafi ferlisins hvort fólk „færi alla leið“ eða ekki. „Það var ekkert um það að ræða að fólk færi bara á hormóna en svo ekki í aðgerð, það þótti bara óhugsandi. Það datt engum í hug að fólk vildi það. Það var þannig litið á að allir vildu bara fá fullkomna leiðréttingu og vera eins og allir hinir. Nú vitum við betur, að fólk hefur mismunandi þarfir og óskir til þess að líða vel í eigin skinni.“

Fjöldi fólks kemur fram á ráðstefnunni ásamt Elsu Báru, meðal annars þau Jamison Green, bandarískur fyrrverandi formaður WPATH, heimssamtaka heilbrigðisstarfsmanna í málefnum transfólks, en hann var fyrsti transmaðurinn til að gegna því hlutverki og Annelou DeVries, hollenskur geðlæknir sem hefur rannsakað og meðhöndlað transbörn í Hollandi í mörg ár og birt margar rannsóknargreinar um efnið. 

Elsa Bára segir transteymið hafa fundið fyrir því að heilbrigðisstarfsfólk sem og almenningur vilji meiri fræðslu um málefni transfólks. „Það eru ekki allir sem gefa sér tíma til að setjast niður á kvöldin og gúggla eitthvað, en nýta sér kannski svona tækifæri þar sem er vettvangur til þess að koma, kynna sér þetta og hitta fólk sem er að takast á við þetta ferli og okkur sem vinnum á þessu sviði.“

Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu á ráðstefnuna má finna hér, en aðgangur er ókeypis.

mbl.is