Hagræðing með ömurlegum afleiðingum

Skóli fyrir alla? | 15. september 2019

Frábær hagræðing með ömurlegum afleiðingum

„Skóli án aðgreiningar snýst um grundvallaratriði, það er að menntun sé mannréttindi. Eitthvað sem hefur verið metnaður Norðurlandaþjóðanna, að seinka uppskiptingu nemenda í mismunandi hópa. Hluti af því að skapa samfélag með skólum þar sem ólíkir félagshópar mætast á jafningjagrunni. Öll umræða um skóla án aðgreiningar verður að ganga út frá þessari sýn okkar um að menntunin eigi að vera fyrir alla en síðan er mismunandi hvernig við skipuleggjum hana,“ segir Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum.

Frábær hagræðing með ömurlegum afleiðingum

Skóli fyrir alla? | 15. september 2019

Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum
Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum mbl.is/Hari

„Skóli án aðgreiningar snýst um grundvallaratriði, það er að menntun sé mannréttindi. Eitthvað sem hefur verið metnaður Norðurlandaþjóðanna, að seinka uppskiptingu nemenda í mismunandi hópa. Hluti af því að skapa samfélag með skólum þar sem ólíkir félagshópar mætast á jafningjagrunni. Öll umræða um skóla án aðgreiningar verður að ganga út frá þessari sýn okkar um að menntunin eigi að vera fyrir alla en síðan er mismunandi hvernig við skipuleggjum hana,“ segir Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum.

„Skóli án aðgreiningar snýst um grundvallaratriði, það er að menntun sé mannréttindi. Eitthvað sem hefur verið metnaður Norðurlandaþjóðanna, að seinka uppskiptingu nemenda í mismunandi hópa. Hluti af því að skapa samfélag með skólum þar sem ólíkir félagshópar mætast á jafningjagrunni. Öll umræða um skóla án aðgreiningar verður að ganga út frá þessari sýn okkar um að menntunin eigi að vera fyrir alla en síðan er mismunandi hvernig við skipuleggjum hana,“ segir Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum.

Hugtakið skóli án aðgreiningar – menntun fyrir alla – er ekki nýtt af nálinni en með Salamanca-yfirlýsingunni sem var samþykkt af Sameinuðu þjóðunum árið 1994 kemur hugtakið fyrst fram í íslenskri tungu. Þegar ákveðið var að óska eftir því að Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir yrði fengin til að gera úttekt á framkvæmd menntastefnu um skóla án aðgreiningar á Íslandi árið 2015 var horft til þess að á sama tíma og nemendum í grunnskólum landsins hafi fækkað hafi nemendum sem nutu sérkennslu eða stuðnings til náms fjölgað. Að vísu hefur nemendum fjölgað á ný en nemendum sem njóta sérkennslu og stuðnings til náms hefur fjölgað og eru nú um 30%. Meirihluti þeirra, eða um 17%, eru með formlega greiningu sem er miklu hærra hlutfall en gengur og gerist annars staðar í Evrópu. Tvöfalt fleiri drengir en stúlkur eru með formlega greiningu á Íslandi. 

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Samhliða fjölgun kennara með kennsluréttindi fjölgaði þeim nemendum sem njóta sérkennslu og stuðnings. Stuðningsfulltrúum fjölgaði ennfremur um rúm 19% milli 2003 og 2012. Gögnin sýndu jafnframt að almennt er litið svo á að hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar er jákvæð og að það er mikilvægt að öll börn eigi kost á að sækja nám í heimaskóla.

Niðurstaða skýrslu sem unnin var um skóla án aðgreiningar á Íslandi er sú að flestir þeirra sem sinna menntamálum, á hvaða skólastigi sem þeir starfa, telja núverandi tilhögun fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðum né hugmyndum um skilvirkni og styðji ekki við skóla án aðgreiningar. Einnig talar margt starfsfólk skóla um ófullnægjandi stuðning með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Auk þess efast margir starfsmenn skóla um að grunnmenntun þeirra og/eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar. 

Ekki sparnaðartæki

Gunnlaugur segir að með skóla án aðgreiningar hafi orðið til ný hugsun hvað varðar sérkennslu því ljóst sé að flokkun nemenda í minni hópa í gegnum sérkennslu virkaði ekki  nægjanlega vel. Bæði hafi verið um dýrt úrræði að ræða og nemendur sem fara í slík sértæk úrræði fengu ekki það út úr úrræðinu sem ætlast var til.

Aftur á móti þegar nemendur eru færðir úr dýrum sértækum úrræðum í almenna skóla án þess að peningur fylgi með er það engum til góðs en hægt er að ná fram frábærri hagræðingu með ömurlegum afleiðingum því ekki er komið til móts við félagslegar eða námslegar aðstæður nemandans með því að nota hugtakið skóla án aðgreiningar sem sparnaðartæki.

„Ef þú ert tekinn alfarið út úr bekk og farið hægar yfir námsefnið nærðu aldrei skólafélögunum og ert allaf í sérkennslunni. Þetta bitnar mjög á félagsfærni nemenda. Þetta eru líka siðferðislega hæpin rök þar sem þetta snertir alls konar nemendahópa og oft aðra en þá sem eru með sérþarfir námslega séð, til að mynda nemendur með fatlanir. Það getur verið erfitt að draga mörkin og það er vandamálið. Við höfum séð nemendur slæðast með sem ekki eru með námserfiðleika eða eitthvað annað svo sem Rómabörn sem eru flokkuð með sérþarfir í Slóveníu og fleiri löndum án þess að nokkuð annað búi að baki flokkuninni en uppruni þeirra. Við verðum að muna og það er gríðarlega mikilvægt í allri umræðu um þessi mál að skóli án aðgreiningar snýst ekki bara um börn með sérþarfir. Þetta snýst um alla nemendur. Snýst aldrei „bara“ um sérkennslu heldur kennslu hvernig við skipuleggjum kennslu og skólastarf,” segir Gunnlaugur.

Skóli án aðgreiningar er verkfæri til þess að lagfæra fyrirbæri sem er til staðar – skólann. Stefnan skóli án aðgreiningar verður til vegna þess að við erum með skólakerfið – annars myndi skóli án aðgreiningar ekki vera til. Skóli án aðgreiningar er hluti af pólitískri umræðu og flókið samsafn pólitískra hugmynda og hvernig eigi að reka skóla og hvernig þeir eigi að vera. Fyrir vikið þýðir skóli án aðgreiningar mismunandi fyrirbrigði eftir því hver er að tala um það og í hvaða samhengi,“ segir Gunnlaugur.

Fjölmargir hlýddu á fyrirlestur Gunnlaugs um skóla án aðgreiningar í …
Fjölmargir hlýddu á fyrirlestur Gunnlaugs um skóla án aðgreiningar í sumar. mbl.is/Hari

Snýst ekki um að skella öllum inn í sama bekk

Hann tekur Svíþjóð sem dæmi en hann hefur búið þar undanfarin 17 ár og lauk þaðan doktorsnámi námskrár og kennslufræðum árið 2015. Menntamál hafa verið ofarlega í umræðu  sænsku stjórnmálanna síðastliðin ár ekki síst vegna versnandi gengis í PISA-könnunum.

„Undanfarið hefur blossað upp pólitísk umræða í Svíþjóð um skóla án aðgreiningar þar sem sagt er að skóli án aðgreiningar hafi gengið of langt. Þar er talað um að það verði að auka hlut sérskóla og sinna sérþörfum betur. Ef við erum að tala um skóla án aðgreiningar sem skóla þar sem börnum með sérþarfir er skellt inn í 30 manna bekk þá erum við flest ef ekki öll sammála um að þar hafi verið gengið of langt,” segir Gunnlaugur.

Í Svíþjóð ríkir mikill kennaraskortur og talið að það vanti 40-60 þúsund kennara til starfa á sama tíma og stórir hópar þeirra eru á leið á eftirlaun og stórir barnahópar að koma í skóla, segir Gunnlaugur. Á sama tíma hefur ekki verið fallið frá skattalækkunum hægri stjórnarinnar þannig að tekjur hins opinbera hafa minnkað samfara færri einstaklingum á vinnumarkaði sem greiða skatta en um leið fjölgar þeim sem þurfa á þjónustu velferðarkerfisins að halda. 

Þegar sveitarfélögin tóku við ábyrgð á skólakerfinu í Svíþjóð árið 1990 tvöfaldaðist fjöldi nemenda sem voru sendir í sérkennslu, segir Gunnlaugur og segir mismuninn á milli sveitarfélaga mjög áberandi vegna ólíkrar fjárhagsstöðu þeirra.

„Mikilvægi umhverfisins liggur ekki bara í kennslunni, félagsskapnum eða bekknum heldur líka í efnahagslegum raunveruleika skólakerfisins. Skóli án aðgreiningar þarf að keppa við markaðsvæðingu menntunnar. Þetta hefur haft aukin áhrif á aðskilnað. Úrræði og starfsfólk skólanna þýðir að einsleitni skóla eykst og um leið safnast nemendur sem þurfa á sérstuðningi á að halda á ákveðna skóla,“ segir hann.

„Einkavæðing ábyrgðar,“ segir Gunnlaugur og vísar til þess að hið opinbera skjóti ábyrgðinni á menntun æ oftar á börnin og fjölskyldurnar. „Skólar minna æ meira á verksmiðjur sem framleiða viðráðanlega einstaklinga fyrir atvinnumarkaðinn og árangurinn er mældur í skilvirkni námshæfni og námsárangri,“ segir Gunnlaugur í samtali við blaðamann mbl.is.

Skóli án aðgreiningar er verkfæri til þess að lagfæra fyrirbæri …
Skóli án aðgreiningar er verkfæri til þess að lagfæra fyrirbæri sem er til staðar – skólann. mbl.is/Hari

Í grein sem Gunnlaugur ritaði í Kjarnann í fyrra segir hann að í menntastefnu Sjálfstæðisflokksins sé margt sem minni á sænska skólakerfið og markaðsvæðingu þess.

„Sví­þjóð er nú mark­aðsvæddasta mennta­kerfi heims og glímir við afleið­ingar sams­konar menntaum­bóta og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn vill inn­leiða. Mið­stýr­ing mennta­kerf­is­ins var minnkuð til muna í Sví­þjóð á níunda og tíunda ára­tugnum og fjár­hags­leg ábyrgð færð yfir á sveit­ar­fé­lög­in. Einnig voru kynnt til sög­unnar lög sem veittu ein­stak­lingnum aukið val­frelsi og ýttu þannig undir sam­keppni milli skóla um fjár­magnið sem nem­endur bera með sér. Þannig var opnað fyrir sjálf­stætt rekna skóla sem fjár­magn­aðir eru með almannafé frá sveit­ar­fé­lög­unum gegnum eins­konar ávísun eða  „voucher“ sem fylgir nem­and­anum til þess skóla sem val­inn er. Rökin sem voru færð fyrir breyt­ing­unum voru að þetta væri skref í rétta átt í frjáls­lyndu lýð­ræð­is­sam­fé­lagi þar sem þeir sem nýttu sér þjón­ust­una fengju meira vald. Að auki myndi það auka fjöl­breytni í skóla­kerf­inu þar sem fleiri væru um hit­una og þyrftu að skapa nýjar hug­myndir og starfs­hætti til að lokka til sín kúnn­ana. Þetta myndi auka gæði skóla­starfs og þekk­ingu nem­end­anna. Sam­keppnin myndi að lokum verða til þess að lélegum skólum yrði lokað og aðeins þeir „góðu“ lifa af. Gagn­rýnendum var bent á að ótti um að mark­aðsvæð­ing myndi leiða til auk­innar mis­skipt­ingar væri raka­laus. Frjálst val um skóla myndi vera verk­færi til að auka jafn­rétti þar sem nem­endur sem væru ann­ars fastir í lélegum skólum í slæmum hverfum myndu geta valið að fara í betri skóla án nokk­urs auka­kostn­aðar (skóla­kerfið sænska er enn nán­ast algjör­lega gjald­frjálst fyrir nem­end­ur).

Staðan í dag er sú að sænska skóla­valið hefur hvorki leitt til neinnar veru­legrar nýsköp­unar í skóla­starfi né kennslu þó að færa megi rök fyrir að nýsköpun í mark­aðs­her­ferðum skól­anna hafi auk­ist til muna. Það eru ýmis merki um að aukin mið­stýr­ing sé að vaxa fram innan þessa ann­ars dreif­stýrða kerf­is, ann­ars vegar því ríkið þarf að þróa umsvifa­ríkt eft­ir­lits­kerfi til að fylgj­ast með gæðum starfs­ins og hins vegar vegna þess að rekstr­ar­að­ilar einka­rek­inna skóla verða færri og stærri og fyrir vikið eru fleiri skólar sem starfa eins, eins­konar McDon­ald­is­er­ing á skóla­kerf­inu gegnum myndun skóla­keðja. Sívax­andi hagn­aður einka­rek­inna skóla, fjár­magn­aður af skattfé ætl­uðu til mennt­unar barna, er einnig þyrnir í augum kjós­enda þótt flestir stjórn­mála­flokkar hér­lendis séu tregir til verka hvað það varð­ar. Fjöldi rann­sókna hefur sýnt fram á að mis­skipt­ing hefur auk­ist mjög á und­an­förnum 20 árum, bæði milli land­svæða, þar sem mis­stór sveit­ar­fé­lög hafi mis­mikið bol­magn til að standa undir skól­un­um, innan borga og bæja, þar sem hverfa­munur er mik­ill hvað varðar félags­legan bak­grunn nem­anda, sem hefur bæði áhrif skóla­starfið og orðstír skól­anna, og náms­ár­ang­ur. Einnig hefur borið á því að einka­reknir skólar neiti nem­endum um skóla­vist ef nem­end­urnir telj­ast geta valdið fjár­hags­legum eða skipu­lags­legum erf­ið­leikum (s.s. nem­endur með sér­þarf­ir) og að einka­reknir skólar skapi sér nýja mark­aði með auk­inni aðlögun að sér­stökum mark­hóp­um, t.d. þjóð­ar­bak­grunn, trú­ar­brögð eða þörf fyrir ein­hvers­konar sér­tæk úrræði. Þannig skap­ast mark­aður fyrir eins­konar sér­skóla, sem veldur minni fjöl­breytni nem­enda í skóla­kerf­inu almennt en sér­stak­lega í ein­stökum skólum og minni úrræðum til að glíma við sér­þarfir þegar úrræðin safn­ast á einka­rekna „sér­skóla“,“segir í grein Gunnlaugs frá því í mars 2018.

Verðbólga í einkunnagjöf í kjölfar samkeppni

Hann segir að munur milli barna með inn­flytj­enda­bak­grunn og inn­lendan bak­grunn hafi hvergi aukist meira en í Sví­þjóð. Skóla­valið hafi ýtt undir félags­lega flokkun á nem­end­um, börn efn­aðra, hvítra Svía sækja í sífellt meira mæli í ákveðna skóla meðan börn verr staddra for­ráða­manna og börn með erlendan bak­grunn safn­ast í aðra.

„Einnig hefur verð­bólga hlaupið í ein­kunnir í kjöl­far sam­keppn­innar og kenn­arar hafa meðal ann­ars vakið athygli á þrýst­ingi frá skóla­stjórum og stjórn­endum sem vilja halda ein­kunnum við ásætt­an­leg mörk svo orðstír skól­ans bíði ekki hnekki. Ein­kunnir skól­anna eru því ekki alltaf í sam­ræmi við þekk­ingu barn­anna sam­kvæmt sam­ræmdum próf­um. Nýlega kom í ljós að börn úr einka­reknum skólum hefja gjarnan háskóla­nám með hærri ein­kunnir en börn úr skólum reknum af sveit­ar­fé­lögum en gengur verr í téðu háskóla­námi sem ýtir undir nið­ur­stöður rann­sókna um að ein­kunna­verðbólgan sé stærra vanda­mál í einka­reknu skól­unum þótt hún sé vissu­lega til staðar í sveit­ar­fé­laga­skól­um,“ segir ennfremur í grein Gunnlaugs.

Einkunnin 5 meira kraftaverk en 10 hjá öðrum

Í samtali við mbl.is segir Gunnlaugur að markaðsvæðing skólastarfsins laumi sér inn á Íslandi sem og í Svíþjóð. Til að mynda þegar farið er horfa á skólakerfið sem þjónustu hvort sem greitt er fyrir hana eða ekki. „Þá ert þú orðin kúnni sem átt rétt á þjónustu og getur krafist hennar af kennaranum  sem fær þá ákveðið ábyrgðarhlutverk sem á að vera hægt að refsa fyrir eða umbuna. Í þeim löndum þar sem laun hafa verið tengd við árangur kennara eða ánægju kúnnanna hefur það ekki haft góð áhrif til lengdar,“ segir hann.

Þetta hefur alls ekki góð áhrif á starf skólans og hefur í mörgum tilvikum leitt til svindls því kennarar verða örvæntingarfullir í að reyna að halda starfinu.

Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum, segir að með …
Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum, segir að með skóla án aðgreiningar hafi orðið til ný hugsun hvað varðar sérkennslu mbl.is/Hari

„Tökum góða kennara sem hafa lyft Grettistaki við að styðja við nemendahóp sem kannski er ekki að fá nægan stuðning heima fyrir. Nemendur sem svo sannarlega sýna góðan árangur í námi. Þetta þýðir að þeir fá hærri einkunnir en þeir hefðu annars fengið. En hvorki þeir né kennarinn fá umbun fyrir því mælingin virkar ekki þannig. Því þessir nemendur eru ekki meðal afreksnemenda.

Ef þú ert með nemendur, sem eru margir hverjir fátækir og eru kannski ekki með tungumálið með sér, en kennari nær þeim yfir fimm í íslensku þá er það miklu meira kraftaverk heldur en að nemendur sem eru allir með háskólamenntaða foreldra sem hjálpa til við heimanámið og fá allir 10 í einkunn.

Hvernig á að mæla er líka vandamál. Markaðsvæðing náms snýst mikið um hugsunarhátt okkar til menntunnar. Hvað er það sem við ætlumst til þess að skólarnir geri. Af hverju að hafa skóla? Er það til þess að mennta fólk fyrir atvinnumarkaðinn? Er það til þess að mennta fólk til þátttöku í lýðræðinu? Er það til þess að skapa einstaklinga sem finna til samkenndar og er umhugað um aðra? Sjá gildi í því að við séum mismunandi eða er það til þess að þú náir að uppfylla þín markmið?” spyr Gunnlaugur.

mbl.is/Hari

Eitt af því sem var áberandi þegar blaðamaður ræddi við foreldra um grunnskólann og skóla án aðgreiningar var að margir sögðu: Skóli án aðgreiningar er falleg hugmynd en hún virkar ekki. Spurður út í þetta segir Gunnlaugur að þegar við erum að tala um skóla án aðgreiningar erum við oft að tala um mismunandi hluti.

„Þegar fólk segir að skóli án aðgreiningar sé falleg hugmynd en hún virki ekki þá er fólk að tala um að setja nemendur inn í bekk án þeirra úrræða sem þeir þurfa á að halda. Ekki að tala um að breyta skólastarfinu. Það eru eiginlega allir sammála um að það er ekki í lagi. Það er ekki í lagi að taka nemanda sem þarf á aðstoð að halda og setja hann inn í bekk án aðstoðar. Allt aðrar forsendur eru í litlum hópum en í stórum bekkjum og það eru alltaf einhverjir nemendur sem ekki ráða við þessar stóru bekkjardeildir. En við eigum ekki að fórna hugmyndinni um skóla án aðgreiningar vegna þess að ein útgáfa af henni virkar ekki. Verðum að leita leiða til að bæta stöðuna í stað þess að henda hugmyndinni.

Ég vil meina að við eigum að gefa skóla án aðgreiningar almennilegan séns. Ræða hvað  skóli án aðgreiningar eigi að vera, hvernig við ætlum  að ná því og grundvallarpunkturinn verður að vera menntun sé mannréttindi og við séum að reyna að búa til samfélag framtíðarinnar. Ekki bara að koma nemendum í gegnum skólann þannig að þeir geti tekið þátt í atvinnumarkaðnum. Heldur forma ríkisborgara fyrir lýðræðissamfélag framtíðarinnar. Þau þurfa að geta talað við hvert annað og búið saman,” segir Gunnlaugur.

Þegar fólk segir að skóli án aðgreiningar er falleg hugmynd …
Þegar fólk segir að skóli án aðgreiningar er falleg hugmynd en hún virkar ekki þá er fólk að tala um að setja nemendur inn í bekk án þeirra úrræða sem þeir þurfa á að halda. Ekki að tala um að breyta skólastarfinu. mbl.is/Hari

Blöndun skilar betri árangri

Hann bendir á að kennarar sem fara í gegnum kennaranám læri og hafi allar forsendur til þess að vera sveigjanlegir í kennslunni. Það er að leyfa hverjum nemanda að njóta sín. En þegar þeir eru komnir út í skólana geta þessar forsendur brostið eða að minnsta kosti breyst og verið ólíkar á milli skóla.

„Á meðan skólar eru flokkaðir eftir einkunnum á samræmdum prófum, sem er hluti af markaðsvæðingunni, þegar það er alltaf sett á oddinn, missum við hæfileikann til þess að vera saman – að hugsa um og hlúa að samskiptum og samvinnu fólks á milli, ekki síst milli kennara og nemenda. En þegar árangur skóla, ekki síst á samræmdum prófum og PISA er það sem einkum er horft til hverfur þetta. Orðspor skóla hefur líka áhrif á getu hans til þess að vera skóli án aðgreiningar. Eins þegar blöndunin hverfur og eftir standa börn sem eru af erlendum uppruna eða börn sem búa við erfiðar aðstæður. Ábyrgðinni er varpað á foreldra – að þeir velji góðan skóla fyrir börn sín. Að það sé á þeirra ábyrgð að hafa ekki valið nægjanlega góðan skóla fyrir börn sín í stað þess að hið opinbera beri ábyrgð á því að allir foreldrar fái góða menntun fyrir börn sín. Ýmislegt sem bendir til þess að blöndun skili betri árangri,” segir Gunnlaugur.

mbl.is/Hari

Í aðalnámskrá er kveðið á um einstaklingsmiðað nám sem merkir að námið er sniðið að hverjum einstaklingi þannig að markmiðin sem hann vinnur að og verkefnin sem hann fæst við eru í samræmi við þroska hans, getu og áhuga.

Gunnlaugur segir að normalkúrfan geti virkað sem myndlíking um hvernig skólinn sinni þeim sem eru á breiða svæðinu, það er meðalnemandanum. Skóli án aðgreiningar snúist um að breikka þetta bil – að þeir sem séu á jaðrinum í báðar áttir fái það sem þeir þurfa. Það er einstaklingsmiðað nám.

„En á sama tíma erum við að tala um einstaklingsmiðað nám í 30 barna bekk með einn kennara og gefur auga leið að það gengur ekki upp. Kerfið segir að við ætlum að bjóða upp á einstaklingsmiðað nám þar sem allir nái markmiðum sínum á gefnum tímapunkti. En við vitum að þetta gengur ekki upp. Ákveðinn lógískur árekstur er þegar við segjum allir eigi að fá að þroskast á sínum hraða og að allir eigi að ná markmiðium námskrárinnar á ákveðnum tímapunkti.

Hér er það ekki endilega nemandinn sem er vandamálið heldur er það skólinn því hann nær ekki að sinna þessu. Samt eru fyrstu viðbrögðin þau að halda því fram að eitthvað sé að kennurunum en það er heldur ekki rétt því þeir hafa ekki forsendur eða þau verkfæri til þess að geta sinnt hlutverki sínu. Er þá eitthvað að skólastjóranum eða stjórnendum? Nei þeir fá sinn ramma frá yfirvöldum,“ segir Gunnlaugur.

Ganga þarf út frá fjölbreytileika. Að nemendur séu mismunandi.
Ganga þarf út frá fjölbreytileika. Að nemendur séu mismunandi. mbl.is/Hari

Á þá að hætta við þessa hugmynd um einstaklingsmiðað nám í skóla án aðgreiningar og samþykkja markaðsvæðingu skólans?

„Nei, segi ég því að þeir sem setja kröfurnar og stefnuna, þið sem skrifuðuð undir Salamanca-yfirlýsinguna og fengið Evrópustofnunina til að taka út kerfið eigið að standa með skólanum og veita honum úrræði og forsendur. Eitthvað sem þarf ekki  endilega að snúast um peninga, heldur úrræði sem gefa þeim færi á að sinna því starfi sem þeim er sett að gera.

Alveg sama hvort það er skóli án aðgreiningar, einstaklingsmiðað nám eða hvað annað. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Stjórnmálamenn, sem eru kosnir til fjögurra ára í senn vilja gjarna nota fögur orð en ekki endilega veita úrræðin sem þarf. Því það kostar meðal annars peninga auk annars og það fer ekki saman að lækka skatta á sama tíma og gefin eru loforð um að bæta stöðu menntakerfisins,” segir Gunnlaugur.

Ef þú ætlar að einhvern tíma að ná markmiðinu um …
Ef þú ætlar að einhvern tíma að ná markmiðinu um skóla án aðgreiningar þá þarftu einfaldlega að rífa niður skólastarfið í heild og byggja það upp á ný. mbl.is/Hari

Verðum að viðurkenna fjölbreytileika

Spurður út í hvað sé til ráða segir Gunnlaugur að segir að eitt af því fyrsta sem þurfi að gera sé að viðurkenna og ganga út frá fjölbreytileika. Að nemendur séu mismunandi og að það þurfi að veita kennurum úrræði og tíma til að ræða kennslu, ræða nemendur sína.

„Ég hugsa að margir kennarar vildu frekar hafa tíma til að ræða starfið sitt og þróa það í stað þess að fá endilega hærri laun. Starfsaðstæður kennara séu faglegar og veiti þeim úrræði og vald til þess að gera hlutina. Mismunandi kennsluaðferðir, gott námsefni fyrir mismunandi forsendur. Eitt af því væntanlega að minnka bekki og skapa úrræði. Ef ekki er hægt að minnka grunneininguna þá að skapa aðstæður þannig að hægt sé að vinna í minni hópum og skipulagt skólastarfið á þann hátt. Ekki er nóg að fjölga kennurum inni í rýminu heldur verður rýmið að vera þannig að það henti til kennslu.

Ef þú ætlar að einhvern tíma að ná markmiðinu um skóla án aðgreiningar þarftu einfaldlega að rífa niður skólastarfið í heild og byggja það upp á ný. Það þýðir að þú véfengir aldursskiptingu. Véfengir hluti eins og einn kennari á 30 nemendur, véfengir rýmið. Þetta er aldrei að fara að gerast og alls ekki víst að þetta væri heldur það rétta. Það sem við þurfum að gera er að véfengja stofnunina og kerfið. Annars náum við ekki lengra. Langtímamarkmið er það sem skiptir miklu máli og að sleppa klisjum eins og að við ætlum að vera með „heimsins besta skólakerfi“ o.fl. sem er merkingarlaust markmið þótt það hljómi voðalega vel í kosningabaráttunni,“ segir Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann við Uppsölum, en hann hefur unnið fjölmargar rannsóknir á skólastarfi og ritað gagnrýndar greinar um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám.

mbl.is