Fann ekki taktinn í hverfisskólanum

Skóli fyrir alla? | 17. september 2019

Fann ekki taktinn í hverfisskólanum

Emilía Árnadóttir hóf nám í áttunda bekk í haust í alþjóðadeildinni í Landakotsskóla. Hún er tólf ára gömul og sleppir sjöunda bekk þar sem sjötta og sjöunda bekk var kennt saman síðasta vetur í alþjóðadeildinni og hún lauk við námsefni sjötta og sjöunda bekkjar á einum vetri.

Fann ekki taktinn í hverfisskólanum

Skóli fyrir alla? | 17. september 2019

Mæðgurnar Emilía Árnadóttir og Stefanía Sverrisdóttir.
Mæðgurnar Emilía Árnadóttir og Stefanía Sverrisdóttir. mbl.is/Hari

Emilía Árnadóttir hóf nám í áttunda bekk í haust í alþjóðadeildinni í Landakotsskóla. Hún er tólf ára gömul og sleppir sjöunda bekk þar sem sjötta og sjöunda bekk var kennt saman síðasta vetur í alþjóðadeildinni og hún lauk við námsefni sjötta og sjöunda bekkjar á einum vetri.

Emilía Árnadóttir hóf nám í áttunda bekk í haust í alþjóðadeildinni í Landakotsskóla. Hún er tólf ára gömul og sleppir sjöunda bekk þar sem sjötta og sjöunda bekk var kennt saman síðasta vetur í alþjóðadeildinni og hún lauk við námsefni sjötta og sjöunda bekkjar á einum vetri.

Móðir hennar, Stefanía Sverrisdóttir, segir að hún hafi alltaf verið mótfallin því að Emilía færi á undan í skólanum enda viljað að hún væri með jafnöldrum sínum í bekk en samþykkti í vor að Emilía myndi stytta grunnskólann um eitt ár þar sem hún var hvort sem er komin lengra í stærðfræði en jafnaldrar hennar. Hún á líka góða vini í áttunda bekk þannig að þetta hentar henni vel, segir Stefanía.

Emilía byrjaði í Landakotsskóla í fimm ára bekk og fór síðan í Vesturbæjarskóla, sem er hennar hverfisskóli, í fyrsta bekk. Emilía segir að hún hafi fljótt fundið að takturinn í Vesturbæjarskóla hentaði henni ekki og varð úr að hún kláraði veturinn í alþjóðaskólanum í Garðabæ.

Að sögn Emilíu var hún miklu ánægðari þar en þær mæðgur segja að það hafi verið mjög langt að fara þangað úr Vesturbænum. Stefanía segir að Emilía eigi mjög auðvelt með aðlögun og hún hafi haft gaman af því að kynnast ólíkum áherslum í þessum skólum. „Aðlögunarhæfni er eitt af því sem við þurfum að læra í lífinu og ekkert sjálfgefið að vera alltaf í sama skólanum með sömu krökkunum ár eftir ár,“ segir Stefanía. 

Að sögn Emilíu er ein ástæðan fyrir því að hún …
Að sögn Emilíu er ein ástæðan fyrir því að hún valdi alþjóðlegt nám á Íslandi vera meiri kennsla í stærðfræði. mbl.is/Hari

Emilía er vön því að kynnast nýju fólki því hún hefur lagt stund á fiðlunám frá því hún var á þriðja ári og keppt í tónlistarkeppnum víða um heim. „Hún á vini alls staðar,“ segir mamma hennar og hlær. „Ekki bara vegna tónlistarinnar heldur hefur hún verið dugleg að prófa sig áfram í skólakerfinu.“

Í öðrum bekk fór Emilía í Hjallastefnuna en í þriðja bekk lá leiðin að nýju í Landakotsskóla og nú í alþjóðadeildina en skólinn er einn af tveimur grunnskólum á Íslandi sem bjópa upp á alþjóðlegt nám. Hluta af vetrinum var hún í alþjóðlegum skóla í Danmörku þar sem pabbi hennar býr þar. Í skólunum úti var kennt á ensku líkt og í skólanum hér þannig að breytingin var lítil að því leyti segja þær mæðgur.

Stefanía segir að í skólanum í Kaupmannahöfn hafi verið kennt eftir svokölluðu IB-kerfi sem er sama kerfi og Menntaskólinn við Hamrahlíð styðst við en í Landakotsskóla er námið tengt Cambridge-háskóla.

Í Cambrigde-kerfinu er farið mjög ítarlega ofan í námsefnið segir Emilía. Í alþjóðadeildinni er bekkjastærðin mjög breytileg og í Emilíu bekk eru ekki nema 9 nemendur og segir Emilía að meirihluti þeirra sé íslenskur. Stefanía segir að helsta ástæðan fyrir því að Emilía hafi í upphafi farið í alþjóðlegan skóla á Íslandi sé að það auðveldi henni að stunda nám erlendis en báðir foreldrar hennar hafa búið stóran hluta ævinnar erlendis og vildu þau gera flutninga á milli landa auðveldari fyrir dóttur sína.

Stærðfræðin ástæðan fyrir skólavalinu

Að sögn Emilíu er ein ástæðan fyrir því að hún valdi alþjóðlegt nám á Íslandi meiri kennsla í stærðfræði en hún var mjög ung þegar ljóst var að hún ætti mjög auðvelt með að læra stærðfræði. Stærðfræði er líka eftirlætisfagið hennar og stefnir hún á nám í framtíðinni á því sviði. 

Emilía segir í samtali við blaðamann að hún hafi stundum undrast þau dæmi sem voru lögð fyrir bekkinn hennar þennan stutta tíma sem hún var í hverfisskólanum. Nefnir hún sem dæmi spurningu um fjölda banana og epla. Spurt var hversu mörg eplin og bananarnir væru en um var að ræða tvö epli plús tvo banana. Fyrsta hugsunin er auðvitað fjórir en ef þú hugsar þetta út frá algebru þá eru þetta 2x og 2y. Þannig að svarið er 2 bananar og tvö epli segir Emilía sem fékk rangt fyrir svarið.

Skólaleiði er algengur hjá bráðgerum börnum þar sem þau skortir …
Skólaleiði er algengur hjá bráðgerum börnum þar sem þau skortir verkefni við hæfi. mbl.is/Hari

Stefanía segir að þetta hafi valdið Emilíu miklum vonbrigðum enda fannst henni svarið rökrétt. Á þessum tíma var Emilía alltaf að biðja mömmu sína um að útvega sér fleiri dæmi til að kljást við þannig að Stefanía hafði upp á gamla kennaranum sínum, Stellu Þórðardóttur, og hefur hún aðstoðað Emilíu við stærðfræðina og fleiri námsgreinar upp frá því. Emilía segir þetta miklar gæðastundir sem hún eigi með Stellu á sunnudögum.

Úrræði skortir fyrir afburðanemendur

Með þessu komst Emilía hjá skólaleiða sem er algengur hjá bráðgerum börnum sem ekki fá verkefni við hæfi en líkt og fram kom í viðtali við Meyvant Þórólfsson, dós­ent við menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands, í Sunnudagsmogganum vantar úrræði fyrir afburðanemendur á grunnskólastigi hér á landi sem orðið hefur til þess að hlutfall þeirra er mjög lágt í samanburði við önnur lönd. 

Sam­kvæmt síðustu PISA-könn­un eru aðeins 3,8% ís­lenskra barna í hópi þeirra sem standa sig af­bragðsvel í námi. „Ég myndi halda að al­mennt ættu að vera þarna um átta til tíu pró­sent ef vel væri haldið á spöðunum,“ seg­ir Mey­vant í viðtali í Sunnu­dags­moggann.

Þenn­an hóp barna kall­ar Mey­vant bráðger börn og virðist lítið gert í mál­efn­um þeirra. Dæmi eru um at­hygl­is­verð úrræði og oft er þess­um hópi hraðað í námi. „Al­geng­asta svarið var að þörf­um allra væri mætt, í skóla án aðgrein­ing­ar,“ seg­ir Mey­vant um svar við spurn­ingu sem hann sendi til allra grunn­skóla í fyrra. Skóli án aðgrein­ing­ar snýst um að veita öll­um jöfn tæki­færi í námi, sem sé mik­il­vægt að sögn Mey­vants, en þar með verði til­hneig­ing­in að draga alla að miðjunni og seg­ir hann að sam­kvæmt rann­sókn­um sé þetta ekki góð lausn fyr­ir bráðger börn.

Meyvant vill meira ögrandi viðfangsefni og námsmat fyrir þessa nemendur, hafa samræmd próf þar sem vandað er til verka og fjármagn lagt til. Samræmdu prófin sem lögð eru fyrir nemendur í dag uppfylli ekki þau skilyrði, vegna þess hve vélræn þau séu hvað varði fyrirlögn og yfirferð. „Það á að setja miklu meiri peninga í námsmat,“ segir Meyvant.

Stefanía Sverrisdóttir og dóttir hennar Emilía Árnadóttir við Landakotsskóla en …
Stefanía Sverrisdóttir og dóttir hennar Emilía Árnadóttir við Landakotsskóla en Emilía stundar nám við alþjóðadeildina þar. mbl.is/Hari

Foreldrar bráðgerra barna sem blaðamaður hefur rætt við undanfarið kvarta undan því að börn þeirra fái því miður allt of fá verkefni við sitt hæfi í grunnskólanum sem verður til þess að þeim hundleiðist. Kennslan taki mið af meðalnemendum og þeir nemendur sem eru annaðhvort komnir mun lengra eða skemur sitja á hakanum. 

Fiðla og rafmagnsbassi eftir skóla

Stefanía segir að það hafi alls ekki verið auðvelt að finna skóla á Íslandi sem hentaði fyrir Emilíu og fróðleiksfýsi hennar. Framboðið sé alls ekki nógu mikið og það mætti vera meira framboð af einkaskólum þannig að þeir sem vilji fara aðrar leiðir geti það, segir hún.

„Ég ákvað að leyfa henni að prófa ýmsar leiðir og það væri síðan í höndum Emilíu að velja að lokum. Þetta var aldrei neitt vandamál og skólarnir tóku allir mjög vel á móti henni. Agaleysið í Vesturbæjarskóla átti illa við hana og Emilíu leið aldrei vel í skólanum þar sem hávaðinn og stjórnleysið í skólastofunni reyndi mjög á hana enda vön því úr tónlistarnáminu að sitja kyrr og hlusta á leiðbeiningar kennarans,“ segir Stefanía. 

Stundum er því haldið fram að það sé mikilvægt fyrir börn að vera alltaf í sama skólanum en Emilía er ekki á sama máli því hún á bæði vini í skólanum, í næsta nágrenni við heimili sitt og í gegnum tónlistarnámið.

Emilía hóf eins og áður sagði fiðlunám á þriðja ári og sækir tíma nokkrum sinnum í viku auk þess að spila með kammersveit. En á fimmtudögum er það rafmagnsbassi í stað fiðlunnar því bílskúrsbandið sem hún spilar með æfir þá daga. Um er að ræða hljómsveit nemenda í Landakotsskóla og er hugmyndin komin frá tónlistarkennara skólans, Kjartani Ólafssyni.

Emilía segir að þetta sé mjög skemmtilegt og ekki erfitt að skipta fiðlunni út fyrir rafmagnsbassann. „Þetta er ekkert mál enda sömu strengir á fiðlu og bassa nema röðin er  spegluð,“ sagði þessi unga hæfileikaríka stúlka í samtali við blaðamann nýverið. 

Landakotsskóli er einn elsti starfandi skóli landsins, stofnaður árið 1896. Skólinn er sjálfstætt starfandi grunnskóli fyrir 1. til 10. bekk ásamt deild fimm ára barna. Einn bekkur er í hverjum árgangi. Fram til ársins 2005 var skólinn rekinn af kaþólsku kirkjunni en hann er nú rekinn sem sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri stjórn. 

Landakotsskóli hefur boðið upp á ýmsa nýbreytni í skólastarfi. Meðal annars með því að stórauka tungumálakennslu þannig að strax í 5 ára bekk byrjar ensku- og frönskukennsla. Á miðstigi byrja nemendur svo að læra dönsku. Alþjóðadeildin tók til starfa haustið 2015 og var það meðal annars vegna áhuga foreldra á að alþjóðleg deild yrði stofnuð við skólann. Fjöldi tvítyngdra nemenda var og er tiltölulega mikill í skólanum, að því er segir á vef Landakotsskóla.

Upplýsingar um alþjóðalega deild Landakotsskóla

Emilía hljóp yfir sjöunda bekk og er því í áttunda …
Emilía hljóp yfir sjöunda bekk og er því í áttunda bekk í vetur. mbl.is/Hari
mbl.is