„Það langar engan að fæða í flugvél“

Flóttafólk á Íslandi | 5. nóvember 2019

„Það langar engan að fæða í flugvél“

Fæst flugfélög vilja fljúga með konur sem gengnar eru lengra en 34. vikur á leið, helst vegna þess að þá eru auknar líkur á að þunguð kona fæði í vélinni. Eru læknar mjög hikandi að veita konum vottorð um að þær megi fljúga séu þær komnar 36 vikur á leið. Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu hjá Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

„Það langar engan að fæða í flugvél“

Flóttafólk á Íslandi | 5. nóvember 2019

Myndin er tekin á meðgöngudeild þar sem ljósmóðir mat ástand …
Myndin er tekin á meðgöngudeild þar sem ljósmóðir mat ástand konunnar. Þar sátu fulltrúar frá No Borders Iceland, hlustuðu á hraðan hjartslátt barnsins en samtímis blikkuðu blá ljós fyrir utan því lögreglan dvaldi þar til klukkan ellefu um kvöldið, að sögn samtakanna. Ljósmynd/No Borders Iceland

Fæst flugfélög vilja fljúga með konur sem gengnar eru lengra en 34. vikur á leið, helst vegna þess að þá eru auknar líkur á að þunguð kona fæði í vélinni. Eru læknar mjög hikandi að veita konum vottorð um að þær megi fljúga séu þær komnar 36 vikur á leið. Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu hjá Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Fæst flugfélög vilja fljúga með konur sem gengnar eru lengra en 34. vikur á leið, helst vegna þess að þá eru auknar líkur á að þunguð kona fæði í vélinni. Eru læknar mjög hikandi að veita konum vottorð um að þær megi fljúga séu þær komnar 36 vikur á leið. Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu hjá Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Hulda telur einnig að nýjasta vottorð sem þunguð kona hefur fengið til að skera úr um það hvort hún sé flugfær ætti að gilda. 

Tilefni samtalsins er mál fjölskyldu sem átti að vísa úr landi í nótt og hefur líklega verið vísað úr landi þegar þetta er skrifað. Fjölskyldan samanstendur af ungu pari með tveggja ára gamalt barn. Konan er 26 ára gömul, á von á barni og er komin 35 til 36 vikur á leið. 

Samtökin No Borders Iceland greindu frá því í nótt að vísa ætti fjölskyldunni úr landi. Þegar lögregluna bar að garði varð konan fyrir áfalli og byrjaði að blæða mikið úr nefi hennar. parið bað þá um að fara á spítala sem lögreglan leyfði með því skilyrði að lögreglan myndi sækja þau klukkan fimm í morgun fyrir brottvísunarflugið.

Á meðgöngudeild Landspítalans fékk konan vottorð þar sem mælt var gegn því að hún myndi fljúga. No Borders segja að það vottorð hafi ekki verið tekið gilt og konan hafi verið neydd í flug þrátt fyrir að læknar hafi ráðlagt annað. Parinu er vísað úr landi og til Albaníu en líklegt er að þau þurfi að millilenda á leiðinni. 

„Það seinasta sem við sáum af fjölskyldunni var þegar lögreglan tók hana til brottvísunar. Við höfum því ekki fengið það staðfest hvort þeim hafi verið hleypt um borð, en það verður að teljast ansi líklegt“, segja samtökin í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns. 

Vafasamt að skrifa upp á vottorð eftir 36 vikur

Hulda gat ekki svarað spurningum um þetta einstaka mál en ræddi við blaðamann almenns eðlis um flugferðir á meðgöngu.

„Yfirleitt ef um er að ræða nokkurra klukkustunda flug þá hafa flest flugfélög ekki viljað fljúga með konur eftir 34 vikur, þó það sé reyndar mismunandi eftir flugfélögum. Það sem við erum stundum beðin um að gera er að skrifa upp á vottorð um það að konunni sé óhætt að fljúga og þá er yfirleitt verið að spyrja hvort það sé líklegt að konan fæði á næsta sólarhring eða eitthvað slíkt,“ segir Hulda. 

Það getur verið erfitt fyrir lækna og ljósmæður að svara því hvort kona muni fæða á næstunni og vafasamt er að gera það eftir 36 vikna meðgöngu.

„Því hafa læknar almennt verið hikandi yfir því að skrifa upp á svoleiðis vottorð yfir höfuð þegar konur eru komnar 36-37 vikur á leið. 5% kvenna fæða fyrir 37 vikur þó það sé tiltölulega sjaldgæft. Oft erum við beðin um að skrifa vottorð um það að konum sé óhætt að fara í flug og svona almennt séð þá er maður tilbúinn að skrifa upp á það fram að 36 vikum. Það er svolítið vafasamt að skrifa upp á vottorð eftir þann tíma ef maður er með tölfræðina í huga,“ segir Hulda. 

„Það getur auðvitað ýmislegt komið upp á frá því að …
„Það getur auðvitað ýmislegt komið upp á frá því að fyrra vottorð var skrifað,“ segir Hulda Hjartardóttir yfirlæknir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Hikandi ef breyting er á líðan

Það er því helst hættan á því að fæðing fari af stað sem fær lækna til að hugsa sig tvisvar um þegar þeir skrifa upp á svokallað „Fit to fly“ vottorð fyrir þungaðar konur. 

„Ef konur eru með einhver merki um samdrætti eða blæðingu eða einhverja svona breytingu á líðan þá myndi maður vera enn meira hikandi en nú veit ég ekki hvort slíkt er í gangi í þessu tilviki,“ segir Hulda. No Borders Iceland vilja meina að konan hafi upplifað mikið álag vegna fyrirhugaðrar brottvísunar. 

„Flugferðir eru ekki heppilegar vegna þess að það er ekkert gaman fyrir flugfélagið að vera með konu um borð í fæðingu og ég tala nú ekki um fyrir konuna, allra síst. Það langar engan að fæða um borð í flugvél.“

Vottorð frá meðgöngudeild Landspítalans sem mældi gegn því að konan færi í flug var afskrifað af lögreglumönnum, að sögn No Borders Iceland. 

„Þeir sögðu að það skipti ekki neinu máli og að „trúnaðarlæknir“ Útlendingastofnunnar hefði ákveðið þetta. Konan man ekki eftir að hafa hitt lækni frá UTL en fór í blóðtöku hjá göngudeild hælisleitenda fyrir 10 dögum. Engar frekari skoðanir fór fram, fyrir utan skoðun frá ljósmæðrum á meðgöngudeild í kvöld [gærkvöldi]. Þær mæla eindregið gegn því að brottvísunin færi fram.“

Nýjasta vottorðið, það frá LSH, ætti að gilda

Hulda segir að nýjasta vottorðið ætti líklega alltaf að gilda, hvort sem það væri læknir Landspítalans eða læknir Útlendingastofnunar sem gæfi það út. Samkvæmt því ætti því að taka vottorðið sem konan fékk hjá meðgöngudeild Landspítalans fram yfir vottorð læknis Útlendingastofnunar.

„Yfirleitt myndi maður halda að nýrra vottorðið byggi á nýrri skoðun viðkomandi. Ég get ekki alveg lagt algjört mat á lagalegan grunn en auðvitað verður alltaf sá læknir sem skrifar vottorðið að votta það út frá bestu skoðun og nýrri skoðun til þess að vera tilbúinn í að ógilda fyrra vottorð. Það getur auðvitað ýmislegt komið upp á frá því að fyrra vottorð var skrifað.“

Hulda segir að það séu alveg dæmi um að vottorð um að konur séu ekki flugfærar séu gefin út. 

„Það kemur fyrir ef upp koma veikindi á meðgöngu og konur hafa ætlað að ferðast en þurfa að hætta við af einhverjum ástæðum. Þá þurfa þær til dæmis að votta það gagnvart tryggingafélagi eða einhverju slíku og þá gefum við út vottorð þar sem við ráðleggjum þeim að fljúga ekki.“

Spurð hvaða heilsufarsaðstæður geti verið að baki útgáfu slíks vottorðs segir Hulda: „Það getur verið ýmislegt, hár blóðþrýstingur, blæðing frá leggöngum, samdrættir, það er í raun alveg óteljandi.“

mbl.is