„Augljóst að þessar sögur eru öðruvísi“

MeT­oo - #Ég líka | 12. nóvember 2019

„Augljóst að þessar sögur eru öðruvísi“

Kortlagning á reynslu kvenna af erlendum uppruna af ofbeldi í nánum samböndum og á vinnustöðum er viðfangsefni nýrrar rannsóknar sem dr. Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor í krítískum menntunarfræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands, fer fyrir. Rannsóknarefnið spratt upp úr sögum sem konur af erlendum uppruna á Íslandi birtu í kjölfar #MeToo-byltingarinnar fyrir tæpum tveimur árum. 

„Augljóst að þessar sögur eru öðruvísi“

MeT­oo - #Ég líka | 12. nóvember 2019

Dr. Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor í krítískum menntunarfræðum við menntavísindasvið …
Dr. Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor í krítískum menntunarfræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands, fer fyrir viðamikilli rannsókn þar sem reynsla kvenna af erlendum uppruna af ofbeldi í nánum samböndum og á vinnustöðum verður kortlögð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kortlagning á reynslu kvenna af erlendum uppruna af ofbeldi í nánum samböndum og á vinnustöðum er viðfangsefni nýrrar rannsóknar sem dr. Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor í krítískum menntunarfræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands, fer fyrir. Rannsóknarefnið spratt upp úr sögum sem konur af erlendum uppruna á Íslandi birtu í kjölfar #MeToo-byltingarinnar fyrir tæpum tveimur árum. 

Kortlagning á reynslu kvenna af erlendum uppruna af ofbeldi í nánum samböndum og á vinnustöðum er viðfangsefni nýrrar rannsóknar sem dr. Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor í krítískum menntunarfræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands, fer fyrir. Rannsóknarefnið spratt upp úr sögum sem konur af erlendum uppruna á Íslandi birtu í kjölfar #MeToo-byltingarinnar fyrir tæpum tveimur árum. 

 „Við töldum þetta vera nauðsynlegt því þetta er vaxandi hópur í íslensku samfélagi og við þurfum að hlúa að þeim og tengjast þeim meira því þau eru ekki að fara neitt,“ segir Brynja í samtali við mbl.is. Ofbeldi gegn konum á vinnustöðum og sér í lagi ofbeldi, sem þær verða fyrir í nánum samböndum, er eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum í heiminum í dag samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og segir Brynja að að eftir að #MeToo-sögur kvenna af erlendum uppruna voru birtar liggi enginn vafi á því að vandinn er umfangsmeiri en oft hefur verið talið. 

Nafnlausar sögur hluti af rannsókninni

Rannsóknin er styrkt af Jafnréttissjóði og Rannís til þriggja ára og byrjaði rannsóknarteymið á að skoða fyrirliggjandi rannsóknir á reynslu erlendra kvenna bæði á Íslandi og hjá öðrum á Norðurlandaþjóðum. Í vetur verður spurningakönnun lögð fyrir konur af erlendum uppruna og frá og með vorinu 2020 verða tekin viðtöl við fjörutíu konur af erlendum uppruna víðs vegar um landið. Konunum verður einnig boðið upp á að senda rannsóknarhópnum nafnlausar frásagnir. 

„Það var augljóst að þessar sögur eru öðruvísi og það var voða lítið samsafn af upplýsingum til um reynslu innflytjendakvenna,“ segir Brynja, en hún kynnti niðurstöður á þeim gögnum sem liggja fyrir á opnum fundi ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar, fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar, ASÍ, W.O.M.E.N., Kvenréttindafélagsins og  Kvennaathvarfsins sem haldinn var í dag.

Drífa Jónasdóttir verkefnastjóri Kvennaathvarfsins og Hildur Guðmundsdóttir vaktstýra Kvennaathvarfsins voru …
Drífa Jónasdóttir verkefnastjóri Kvennaathvarfsins og Hildur Guðmundsdóttir vaktstýra Kvennaathvarfsins voru á meðal þeirra sem héldu erindi á opnum fundi um innflytjendakonur og ofbeldi sem fram fór í morgun. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi sá um fundarstjórn en fundurinn var samstarfsverkefni ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar, fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar, ASÍ, W.O.M.E.N., Kvenréttindafélagsins og Kvennaathvarfsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frelsissvipting, nauðgun og andlegt ofbeldi

Brynja lýsti því hvernig sögur kvennanna innihalda fjölbreytta reynslu. Sumar ræddu um frelsissviptingu, aðrar nauðganir í vinnu og fleiri lýstu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu vinnuveitenda, maka eða fjölskyldu þeirra. Frásagnir kvennanna drógu upp mynd af ólíkum hliðum ofbeldis á Íslandi og þeim vanmætti sem þær upplifðu vegna tengslaleysis í íslensku samfélagi. Þó svo að innflytjendur geti leitað til stofnana og þjónustuaðila þá sýna rannsóknir erlendis að þekking og aðgengi þeirra að þjónustu eru oft lítil. 

Konur af erlendum uppruna eru viðkvæmur hópur í íslensku samfélagi sem fram að þessu hefur ekki fengið mikla athygli í rannsóknum á kynbundnu ofbeldi líkt og Brynja bendir á. Þó sýna nýleg íslensk gögn að konur af erlendum uppruna leiti í Kvennaathvarfið oftar og dvelji þar lengur að meðaltali en íslenskar konur. 135 konur og 70 börn sem dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra. 64% kvennanna eru af erlendum uppruna og komu þær frá 26 löndum. 

Sögurnar eru ólíkar þeim sögum sem íslenskar konur hafa birt, sérstaklega í ljósi þess að margar sögurnar fjalla um ofbeldi sem á sér stað bæði á heimilinu og á vinnustað. Brynja segir að sjokkið sem margir upplifðu eftir að hafa lesið frásagnirnar hafi verið vegna þess að Íslendingar geri sér ekki grein fyrir ofbeldinu sem konur af erlendum uppruna verða fyrir. „Ég held að íslenskar konur hafi ekki hugsað að það væri hægt að beita svona miklu ofbeldi, bæði heimilisofbeldi og vinnutengdu ofbeldi. Fólki brá mjög mikið því margar sögurnar eru mjög hrottalegar,“ segir hún. 

#Metoo-sögur kvenna af erlendum uppruna eru ólíkar þeim sögum sem …
#Metoo-sögur kvenna af erlendum uppruna eru ólíkar þeim sögum sem íslenskar konur hafa birt, sérstaklega í ljósi þess að margar sögurnar fjalla um ofbeldi sem á sér stað bæði á heimilinu og á vinnustað. mbl.is

Markmiðið að kortleggja ofbeldi á vinnustöðum og í nánum samböndum

Í upphafi rannsóknarvinnunnar kom fljótlega í ljós að þótt til væru gögn á ýmsum stöðum í kerfinu hefði ítarleg rannsókn og kortlagning ekki verið gerð.  Markmið verkefnisins er því að kortleggja og draga fram birtingarmyndir og tíðni ofbeldis á vinnustöðum og í nánum samböndum meðal kvenna af erlendum uppruna en einnig að kortleggja þjónustu og úrræði sem þegar eru til staðar. Markmiðið er sömuleiðis að að draga fram helstu einkenni kynbundins ofbeldis í garð kvenna af erlendum uppruna, lýsa því og skoða umfang þess.  

„Markmiðið er að búa til menningarbundið og menningarnæmt efni fyrir fólk til að vinna með, þannig að fólk sem er að vinna í Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð [miðstöðvar í Reykjavík og á Akureyri fyrir þolendur ofbeldis] og hjá lögreglunni hafi viðeigandi úrræði fyrir konur af mismunandi menningarheimum,“ segir Brynja.

Markmiðið er sömuleiðis að upplýsa konur af erlendum uppruna um þau úrræði sem eru í boði. „Menningarlega séð þá er hræðsla við þessar stofnanir frá þeim sem koma frá löndum þar sem ekki er mikið treyst á stofnanir og þegar þær eru að tengjast stofnunum eru þær að fá neikvætt viðmót,“ segir Brynja og bendir á að í einni íslenskri rannsókn á ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi lýstu erlendar konur undrun sinni þegar þær komust að því hvað væri í boði og hversu mikinn stuðning þær fengju á Íslandi.  

„Við þurfum að tala meira við konurnar sjálfar og við þessa menningarheima sjálfa. Við þurfum að leita innan samfélaganna til að fá betri þekkingu og nýta hana,“ segir hún. 

Eitt af því sem Brynja og meðrannsakendur hennar munu beina sjónum sínum að er að reyna að draga fram og lýsa duldum valdaaðstæðum sem endurframleiða ákveðin gildi og norm sem stuðlað geta að kynbundnu ofbeldi á vinnustöðum og innan veggja heimilisins. Jafnframt er markmið rannsóknarinnar að gefa konum af erlendum uppruna aukið tækifæri til að deila sögum sínum og reynslu með það að markmiði að sporna við áframhaldandi ofbeldi og mismunun, jafnt innan veggja heimilisins sem á vinnustöðum.

Á fundinum í dag, þar sem fjallað var um innflytjendakonur …
Á fundinum í dag, þar sem fjallað var um innflytjendakonur og ofbeldi frá ýmsum hliðum, voru nánast einungis konur meðal áheyrenda. Brynja segir það skiljanlegt en engu að síður er mikilvægt að umræðan nái til allra kynja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að konur af erlendum uppruna séu hluti af rannsóknarteyminu

Rannsakendur ásamt Brynju eru Jón Ingvar Kjaran, Randi W. Stebbins, Susan E. Gollifer, Flora Tietgen, Linda Rós Eðvarðsdóttir og Telma Velez. Brynja segir það hafa verið markvissa ákvörðun að hafa konur af erlendum uppruna meðal rannsakenda. 

Niðurstöðurnar munu nýtast í starfi ýmissa stofnana, svo sem lögreglunnar, kvennaathvarfa, spítala og heilsugæslustöðva, svo dæmi séu nefnd. „Leikskólar, grunnskólar og stofnanir almennt þurfa að hafa þessa þekkingu og þessa getu til að vera með millimenningarfærni og næmni til þess að geta tekist á við þetta, ég held að það skipti rosalega miklu máli. Því meira af erlendu fólki sem vinnur fyrir stofnanirnar okkar, því aðgengilegri verða þær,“ segir Brynja. 

Á fundinum í dag, þar sem fjallað var um innflytjendakonur og ofbeldi frá ýmsum hliðum, voru nánast einungis konur meðal áheyrenda. Brynja segir það skiljanlegt en engu að síður er mikilvægt að umræðan nái til allra kynja. Svo að það náist þarf að halda umræðunni um ofbeldi gagnvart innflytjendakonum opinni. 

„Að tala um það, tala við karlmenn um það, og halda áfram að vera opin og tala opinskátt um þetta. Þetta er erfitt samtal og þungt samtal þannig að við þurfum að þora.“

mbl.is