„Ég mun aldrei gleyma“

Sýrland | 20. nóvember 2019

„Ég mun aldrei gleyma“

Yfir helmingur þeirra sem eru á flótta í heiminum eru börn. Mörg þeirra alast upp fjarri heimahögum og stór hópur þeirra er fylgdarlaus á flótta. Mörg þeirra hafa upplifað hluti sem enginn á að ganga í gegnum, ofbeldi, misnotkun, mansal og barnaþrælkun. Bana al-Abed er tíu ára gömul en hún var þriggja ára þegar stríðið í Sýrlandi braust út.

„Ég mun aldrei gleyma“

Sýrland | 20. nóvember 2019

Bana al-Abed ávarpaði gesti á heimsþingi leiðtogakvenna í Hörpu í …
Bana al-Abed ávarpaði gesti á heimsþingi leiðtogakvenna í Hörpu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfir helmingur þeirra sem eru á flótta í heiminum eru börn. Mörg þeirra alast upp fjarri heimahögum og stór hópur þeirra er fylgdarlaus á flótta. Mörg þeirra hafa upplifað hluti sem enginn á að ganga í gegnum, ofbeldi, misnotkun, mansal og barnaþrælkun. Bana al-Abed er tíu ára gömul en hún var þriggja ára þegar stríðið í Sýrlandi braust út.

Yfir helmingur þeirra sem eru á flótta í heiminum eru börn. Mörg þeirra alast upp fjarri heimahögum og stór hópur þeirra er fylgdarlaus á flótta. Mörg þeirra hafa upplifað hluti sem enginn á að ganga í gegnum, ofbeldi, misnotkun, mansal og barnaþrælkun. Bana al-Abed er tíu ára gömul en hún var þriggja ára þegar stríðið í Sýrlandi braust út.

Hún er ein þeirra heppnu því hún komst frá Sýrlandi til Tyrklands ásamt fjölskyldu sinni; foreldrum og tveimur yngri bræðrum. Besta vinkona hennar, Yasmin, var hins vegar ekki svo heppin því hún var drepin í umsátrinu um Aleppo árið 2016. Bana er ein þeirra sem tók þátt í heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu sem lýkur í dag, á alþjóðadegi barna. Í dag eru 30 ár frá því ritað var undir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sáttmála sem tryggja á jafnan rétt barna — allra barna.

Bana al-Abed og mama hennar Falemah en hún var enskukennari …
Bana al-Abed og mama hennar Falemah en hún var enskukennari í Aleppo fyrir stríð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bana al-Abed býr í Ankara í Tyrklandi ásamt fjölskyldu sinni. Þar gengur hún í skóla og eftirlætisfögin hennar eru enska og stærðfræði. Hún brosir þegar blaðamaður spyr hana út í eftirlætisnámsgreinarnar en hún veit, líkt og önnur sýrlensk börn, að skólaganga er ekki sjálfgefin. Líkt og Bana segir þá hafa loftárásir í heimalandi hennar beinst að skólabyggingum þannig að foreldrar þora ekki að senda börn sín í skólann. 

Bana ólst upp í Aleppo og árið 2016, þegar hún var sjö ára gömul, vakti hún heimsathygli fyrir færslur á Twitter sem hún skrifaði með aðstoð móður sinnar, Falamah al-Abed, en hún er með henni á Íslandi. 

Bana al-Abed er fædd í Aleppo sumarið 2009. Stríðið hófst í Sýrlandi í mars 2011 en það var ekki fyrr en ári síðar sem Aleppo dróst inn í stríðið. Hörðustu bardagarnir geisuðu um borgina árið 2016 og á þeim tíma breyttist hverfið sem Abed-fjölskyldan bjó í, al-Bab, úr friðsælu hverfi í austurhluta borgarinnar í vígvöll. Aðgangur hennar á Twitter @AlabedBana var stofnaður í september 2016. Hún er með yfir þrjú hundruð þúsund fylgjendur á Twitter en á þeim tíma sem hún skrifaði frá Aleppo á Twitter fjallaði hún um ástandið í borginni, loftárásir, hungur og dauða. Í dag beinast færslur hennar einkum að baráttunni fyrir friði í heiminum og menntun barna. 

Bana al-Abed ásamt bræðrum sínum í austurhluta Aleppo.
Bana al-Abed ásamt bræðrum sínum í austurhluta Aleppo. AFP

Þegar stjórnarherinn náði yfirráðum yfir austurhluta Aleppo með stuðningi Rússa í desember var komið á vopnahléi. Á þeim tíma yfirgáfu flestir íbúar í austurhlutanum borgina. Margir fóru til Idlib og annarra nærliggjandi héraða en 19. desember 2016 fór Bana al-Abed ásamt fjölskyldu sinni yfir til Tyrklands og hefur fjölskyldan dvalið þar síðan. 

Færslur hennar á Twitter hafa oft verið gagnrýndar og sagt að um falskan aðgang sé að ræða. Nettröll hafa ítrekað ráðist á Twitter-síðu hennar og sakað hana um lygi og óhróður í garð sýrlenskra stjórnvalda og rússneskra yfirvalda. Að hún sé áróðurstæki sem skapað var af bandarískum stjórnvöldum. 

Þessi mynd er tekin í Aleppo í september árið 2016.
Þessi mynd er tekin í Aleppo í september árið 2016. AFP

Þegar sprengjum rigndi yfir Aleppo settu Bana al-Abed og móðir hennar, Fatemah, færslur inn á Twitter daglega og lýstu lífinu í herkví. „Góðan dag frá Aleppo (Good morning from Aleppo),“ segir Bana á ensku í einu myndskeiðanna, „Við erum enn á lífi.“ 

Þær mæðgur skrifuðu bókina Dear World: A Syrian Girl's Story of War and Plea for Peace ári eftir flóttann til Tyrklands en þar lýsa þær lífinu í Aleppo og það sem fjölskyldan gekk í gegnum líkt og aðrir íbúar í austurhluta Aleppo. 

Tuskubangsi grafinn í sand í úthverfi Aleppo.
Tuskubangsi grafinn í sand í úthverfi Aleppo. AFP

Bana segir í viðtali við blaðamann mbl.is að lífið hafi verið skelfilegt í Aleppo þessa síðustu mánuði sem fjölskyldan bjó þar. „Þetta var mjög erfiður tími því við vorum svo hrædd. Á hverjum degi voru gerðar árásir og það voru margir sem dóu. Við gátum ekki sofið, við fengum lítið sem ekkert að borða þar sem það var enginn matur til. Það var ekkert að gera og við gátum ekki farið neitt. Hver dagur var skelfilegur. Við vorum svo hrædd og svo hrædd um hvert annað þannig að við vorum alltaf saman. Ég myndi ekki óska neinum að búa við aðstæður sem þessar og því er ég að reyna að upplýsa um hvað gerðist og láta heiminn vita svo þetta endurtaki sig ekki,“ segir Bana. 

Karm al-Jabal hverfið í Aleppo.
Karm al-Jabal hverfið í Aleppo. AFP

Hún er ekki í sambandi við neina af gömlu vinunum frá Aleppo og eftir að besta vinkona hennar Yasmin dó missti hún öll tengsl. „Ég veit ekkert hvar þeir eru og hvað hefur gerst fyrir þá en ég vona að ég hitti þá að nýju því ég sakna þeirra svo mikið.“

Ein færsla Bana á Twitter snerti mjög marga en það var þegar sprengju var varpað á húsið við hliðina á heimili hennar. Þar sem Yasmin bjó með fjölskyldu sinni. Hún heyrði grát móður Yasmin. „Svart hár hennar var þakið hvítu ryki og það var eins og hún væri orðin gömul. Eini staðurinn sem ekki var þakinn ryki voru kinnar hennar því tárin streymdu niður andlitið,“ skrifaði Bana.

Bana al-Abed í desember 2016.
Bana al-Abed í desember 2016. AFP

Fólk reyndi að grafa í húsarústunum og fljótlega fannst lík Yasmin. „Hún var lin eins og hún væri sofandi og var útötuð í blóði og ryki. Ég gat hvorki hreyft mig eða dregið andann því ég var skelfingu lostin að sjá vinkonu mína svona. Ég gat ekki gert neitt það sem eftir var dagsins — það eina sem ég sá fyrir mér var Yasmin og allt blóðið.“ 

Nokkrum dögum síðar var heimili Abed-fjölskyldunnar sprengt í loft upp. Þau voru heimilislaus á vergangi í borginni líkt svo margir aðrir.

Bana segir að hún muni aldrei gleyma því sem hún og aðrir íbúar Aleppo gengu í gegnum. Á sama tíma og hún hafi verið glöð að yfirgefa stríðið var hún sorgmædd yfir því hvernig væri farið fyrir landinu hennar, Sýrlandi. 

Leiðin rudd í Aleppo. Þessi mynd er tekin í desember …
Leiðin rudd í Aleppo. Þessi mynd er tekin í desember 2016. AFP

Spurð út í aðstæður íbúa Idlib og norðurhluta Sýrlands, á svæðum Kúrda, segist hún vita að ástandið sé skelfilegt á þessum stöðum og stríð í Sýrlandi sé tilgangslaust. En þetta tilgangslausa stríð hafi kostað hálfa milljón íbúa landsins lífið, þar á meðal fjölmörg börn. Fleiri milljónir hafi þurft að yfirgefa heimili sín út af stríði sem virðist ekki ætla að taka enda. 

„Skilaboð mín til heimsins eru þau að við eigum að vera saman í þessu,“ segir Bana og vísar til þess að þjóðir heims eigi að sameinast í baráttunni fyrir friði. Að stöðva stríð sem hefur sundrað heilli þjóð. „Við verðum að tryggja líf barna. Því börnin eru framtíðin. Ef við stöðvum ekki stríðið núna þá stækkar það bara. Við verðum að bjarga jörðinni því við eigum enga aðra jörð en þessa sem við búum á. Við getum ekki látið eyðileggja jörðina fyrir okkur,“ segir Bana. 

Fatimeh, móðir Bana al-Abed.
Fatimeh, móðir Bana al-Abed. AFP

Hún segir að fólk megi ekki gleyma börnunum í Sýrlandi. Börnum sem eigi rétt á menntun en eru svipt þessum réttindum þar sem þau eiga ekki möguleika á skólagöngu. Eitthvað verði að gera því að öðrum kosti mun kynslóð alast upp í Sýrlandi án þess að hafa notið menntunnar. 

„Börn eru enn að deyja í Sýrlandi, í Idlib. Þau eru drepin. Skólar eru eyðilagðir, sjúkrahús eru jöfnuð við jörðu. Fólk er svo hrætt og reynir að forða sér en kemst ekki í burtu. Það er ógerningur að komast þaðan,“ segir Bana og segir að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðarleiðtoga heimsins að sameinast um að stöðva stríð í heiminum. 

Myndin er tekin í Idlib fyrir þremur dögum. Til þess …
Myndin er tekin í Idlib fyrir þremur dögum. Til þess að verja viðkvæma lesendur eru ekki birtar myndir af líkum barna sem fundust í þessum rústum. AFP

Hún segir að Ísland sem og öll önnur lönd í heiminum geti gert meira til þess að styðja fólk á flótta. „Stöðvið stríð og gerið ykkar besta,“ segir hún. „Þið eigið ekki að láta drepa börn. Börn eiga öll rétt á menntun og ef þið stöðvið ekki stríðið þá verður ekkert eftir. Allt verður eyðilagt.“

Þær mæðgur vilja ekki tjá sig um fyrirætlanir Recep Tayyip Erdoğan, forseta Tyrklands, um að flytja um þrjár milljónir Sýrlendinga yfir landamærin að nýju en ekkert land hefur tekið við jafn mörgum flóttamönnum og Tyrkland. Þar eru nú tæplega fjórar milljónir sýrlenskra flóttamanna.

Þessi mynd er tekin í þorpinu al-Sahharah í útjaðri Aleppo …
Þessi mynd er tekin í þorpinu al-Sahharah í útjaðri Aleppo 6. nóvember 2019. AFP

Með aðstoð móður sinnar lýsti Bana fyrir blaðamanni framtíðarsýn sem þær láta sig dreyma um. Að stríðinu ljúki í Sýrlandi og uppbygging hefjist þar sem fyrst. Bana segir að hún vonist til þess að fara aftur heim — til landsins sem hún elskar — Sýrlands. „Ég elska landið mitt og það elska allir landið sitt því þeir eru aldir upp þar. Þess vegna vill ég byggja það upp að nýju.“

Desember 2016 í Aleppo.
Desember 2016 í Aleppo. AFP

Bana al-Abed er löngu orðin táknmynd sýrlenskra barna og annarra stríðshrjáðra bana á sama hátt og Greta Thunberg er táknmynd barna og ungmenna sem berjast gegn loftslagsvánni. Þær eru báðar skotspónn nettrölla og annarra sem þrífast á hatursorðræðu á netinu en það breytir því ekki að orð þeirra hafa náð til eyrna margra og opnað augu fólks fyrir skilaboðunum sem þær hafa fram að færa. Hvað svo sem fólki finnst um þau skilaboð. 

 

mbl.is