Fjölga kennslustundum í íslensku

PISA-2018 | 3. desember 2019

Fjölga kennslustundum í íslensku

Fjölga á kennslustundum í íslensku á grunnskólastiginu, einkum á yngsta og miðstigi, og auka kennslu í náttúruvísindum á unglingastigi. Þetta er meðal aðgerða sem gripið verður til að sögn Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í tengslum við slakan árangur íslenskra ungmenna í PISA-könnuninni árið 2018. Komið verður á fagráði í læsi, náttúruvísindum og stærðfræði og hefur ríkisstjórnin samþykkt að setja 100 milljónir í verkefni tengt átakinu.

Fjölga kennslustundum í íslensku

PISA-2018 | 3. desember 2019

Lilja Alfreðsdótti, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti nýjar áherslur í menntamálum …
Lilja Alfreðsdótti, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti nýjar áherslur í menntamálum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölga á kennslustundum í íslensku á grunnskólastiginu, einkum á yngsta og miðstigi, og auka kennslu í náttúruvísindum á unglingastigi. Þetta er meðal aðgerða sem gripið verður til að sögn Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í tengslum við slakan árangur íslenskra ungmenna í PISA-könnuninni árið 2018. Komið verður á fagráði í læsi, náttúruvísindum og stærðfræði og hefur ríkisstjórnin samþykkt að setja 100 milljónir í verkefni tengt átakinu.

Fjölga á kennslustundum í íslensku á grunnskólastiginu, einkum á yngsta og miðstigi, og auka kennslu í náttúruvísindum á unglingastigi. Þetta er meðal aðgerða sem gripið verður til að sögn Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í tengslum við slakan árangur íslenskra ungmenna í PISA-könnuninni árið 2018. Komið verður á fagráði í læsi, náttúruvísindum og stærðfræði og hefur ríkisstjórnin samþykkt að setja 100 milljónir í verkefni tengt átakinu.

Stóraukin áhersla verður lögð á orðaforða í öllum greinum en að sögn Lilju þýðir aukinn fjöldi kennslustunda í íslensku að það þarf að fækka kennslustundum í öðrum greinum. Ekki liggi fyrir hvar verður skorið niður en það er í höndum fagráða að skoða þessar breytingar. 

Meðal annars verður námsefni endurskoðað og fyrirkomulag námsefnisgerðar. Lilja bendir á þann árangur sem Svíar og Eistar hafi náð og segir að við eigum óhikað að nýta okkur það sem hafi gefið góða raun annars staðar. Til að mynda fjölguðu Svíar kennslustundum í móðurmáli á miðstigi í kjölfar lélegs árangurs í PISA á árunum 2012 og 2015. Það hafi skilað þeim árangri að sænskir unglingar standa miklu betur að vígi nú í PISA en áður. 

Í Eistlandi eru 160% fleiri kennslustundir í náttúruvísindum á unglingastigi en hér á landi. Þeir eru í fyrsta sæti á lista OECD yfir árangur nemenda í náttúruvísindum. Ísland er, líkt og í lesskilningi, fyrir neðan meðaltal OECD en þau ríki sem eru neðar en Ísland eru Tyrkland, Ítalía, Slóvakía, Ísrael, Grikklandi, Chile, Mexíkó og Kólumbía. 

Niðurstöður PISA-könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) voru kynntar í dag en könnunin var vorið 2018 lögð fyrir 15 ára nemendur í 142 skólum. Alls tóku 79 ríki þátt að þessu sinni og var svarhlutfallið hér á landi 87%. Tilgangur PISA-könnunarprófanna er að meta hvort nemendur geti yfirfært það sem þeir læra í skóla á ný verkefni og aðstæður en prófin gefa mikilvægar vísbendingar um stöðu menntakerfa í alþjóðlegum samanburði. Prófin eru hæfnimiðuð og mæla lesskilning, stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi.

Hér er hægt að skoða skýrslu um Ísland 

Þróun á Íslandi í PISA fyrir könnunina 2018 einkenndist almennt af nokkurri afturför í frammistöðu nemenda, sérstaklega eftir PISA 2009. Í PISA 2009 var frammistaða á Íslandi á öllum matssviðum um eða yfir meðaltali OECD-landa og áþekk frammistöðu Norðurlandanna, að Finnlandi undanskildu.

Í næstu könnun árið 2012 stóðu íslenskir nemendur sig marktækt verr á öllum matssviðum. Staðan breyttist lítið í PISA 2015 og bæði í PISA 2012 og 2015 var frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi og læsi á náttúruvísindi lakari en meðal jafnaldra þeirra á Norðurlöndunum og í löndum OECD að meðaltali. Þannig var hlutfall nemenda í PISA 2015 sem náðu ekki grunnhæfni í lesskilningi nokkuð hátt (22%) og sérstaklega hlutfall drengja (29%).

Þriðji hver 15 ára strákur getur ekki lesið sér til gagns

Nemendur á Íslandi hafa hins vegar yfirleitt verið sterkari í læsi á stærðfræði en á öðrum sviðum PISA og frammistaða í PISA 2015 var þannig áþekk meðalframmistöðu í löndum OECD, þrátt fyrir að hún hafi versnað frá því í fyrri könnunum.

Niðurstöður úr PISA 2018 sýna að íslenskir nemendur standa sig enn undir væntingum í lesskilningi og læsi á náttúruvísindi en bæta sig hins vegar í læsi á stærðfræði.

Í heild hlutu nemendur í PISA 2018 7,6 færri stig fyrir lesskilning en í PISA 2015 en sá stigamunur er þó ekki marktækur. Ef frammistaðan er borin saman við könnunina 2009 þegar lesskilningur var síðast aðalsvið PISA er munurinn hins vegar talsverður eða 26 stig.

Þá hefur nemendum sem ná ekki grunnhæfni í lesskilningi fjölgað marktækt síðan í PISA 2015 og eru nú 26% af heildarfjölda nemenda. Hlutfall drengja sem tilheyra þessum hópi er nú 34%, sem þýðir að þriðji hver 15 ára karlkyns nemandi á Íslandi býr ekki yfir þeirri grunnhæfni sem OECD telur nauðsynlega til þess að þeir geti lesið sér til gagns og fróðleiks og tekið fullan þátt í samfélaginu.

Aðeins 3,8% nemenda teljast með afburðahæfni

Frammistaða nemenda í læsi á stærðfræði var hins vegar marktækt betri í PISA 2018 en í PISA 2015 og nemendur sem búa yfir grunnhæfni eru hlutfallslega fleiri. Ef frammistaða eftir kyni er skoðuð kemur í ljós að stúlkur bæta sig marktækt frá því í síðustu könnun og stúlkum sem ná hæfniþrepi 2 (grunnfærni) eða hærra fjölgar hlutfallslega. Frammistaðan á Íslandi í heild er rétt yfir meðaltalinu í löndum OECD og er svipuð og hún var 2012 þegar sviðið var síðast aðalsvið PISA en hafði þá versnað töluvert síðan í könnuninni þar á undan.

Læsi nemenda á Íslandi á náttúruvísindi er nánast óbreytt frá því 2015 þegar sviðið var aðalsvið PISA og enn eru 25% nemenda í heild undir hæfniþrepi 2 og aðeins 3,8% nemenda teljast vera með afburðahæfni. Ísland er enn neðst Norðurlandanna, undir meðaltali OECD og Í PISA 2018 var frammistaða nemenda í læsi á náttúruvísindi marktækt betri en á Íslandi í 27 af 37 löndum OECD.

Menntarannsóknir sýna að árangur í PISA ræðst fyrst og fremst af færni nemenda í að setja sig inn í og taka mið af ólíkum sjónarhornum, færni í flókinni rökhugsun og hæfileikanum til að nýta sér bakgrunnsþekkingu sína til að ígrunda og túlka texta. Góður málskilningur og námsorðaforði er forsenda þess að nemendur geti tileinkað sér þann hæfileika. Rannsóknir benda ótvírætt til þess að orðaforði og orðskilningur íslenskra barna hafi minnkað verulega á undanförnum árum, segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

„Við þurfum að grípa til víðtækra aðgerða til þess að efla læsi og bæta orðaforða og málskilning nemenda en brýnt er að það verkefni sé unnið í góðu samstarfi við skólasamfélagið, sveitarfélögin og heimilin í landinu. Reynsla annarra þjóða sýnir að mestur árangur næst meðal annars með aukinni þjálfun kennara og fjölbreyttari kennsluaðferðum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í fréttatilkynningu. 

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti aðgerðir sem miða að þessu í dag:

       Efla starfsþróun kennara: Sérsniðin námskeið sem auka hæfni og miðla árangursríkum kennsluaðferðum sem taka mið af fjölbreyttum nemendahópum.

       Fjölga kennurum með sérhæfða þekkingu.

       Endurskoða námsefni og fyrirkomulag námsefnisgerðar.

       Stórauka áherslu á orðaforða í öllum námsgreinum.

       Fjölga kennslustundum í íslensku og endurskoða inntak íslenskukennslu.

       Stofna fagráð í læsi, stærðfræði og náttúruvísindum sem heyra beint undir ráðherra.

       Efla menntarannsóknir.

       Auka væntingar til nemenda.

       Auka samstarf allra hagsmunaaðila.


Á undanförnum árum hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir til að efla íslenskt menntakerfi, svo sem þjóðarsáttmála um læsi, og á síðustu misserum hefur ýmsum umbótaverkefnum verið hrint úr vör, til að mynda aðgerðum sem miða að fjölgun kennara, aukinni nýliðun í kennarastétt og auknu flæði þekkingar milli skólastiga með einföldun á leyfisbréfakerfi kennara auk vitundarvakningar um mikilvægi íslenskrar tungu. Önnur verkefni tengd umbótum í menntamálum eru í vinnslu, þar á meðal stefnumótun um fyrirkomulag námsgagnaútgáfu, fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa, starfsþróunar kennara og málefna nemenda með annað móðurmál en íslensku. Þá stendur yfir vinna við mótun menntastefnu til ársins 2030 og verða áherslur hennar kynntar á næstunni.

mbl.is