Tugir tyrkneskra hermanna féllu í Idlib

Sýrland | 27. febrúar 2020

Tugir tyrkneskra hermanna féllu í Idlib

Að minnsta kosti tuttugu og níu tyrkneskir hermenn létust í loftárás sýrlenska stjórnarhersins í Idlib-héraði í Sýrlandi í kvöld.

Tugir tyrkneskra hermanna féllu í Idlib

Sýrland | 27. febrúar 2020

Hörð átök hafa verið í Idlib-héraði undanfarnar vikur. Hér skjóta …
Hörð átök hafa verið í Idlib-héraði undanfarnar vikur. Hér skjóta sýrlenskir uppreisnarmenn, sem Tyrkir styðja, úr loftvarnabyssu. Mynd frá því fyrr í vikunni. AFP

Að minnsta kosti tuttugu og níu tyrkneskir hermenn létust í loftárás sýrlenska stjórnarhersins í Idlib-héraði í Sýrlandi í kvöld.

Að minnsta kosti tuttugu og níu tyrkneskir hermenn létust í loftárás sýrlenska stjórnarhersins í Idlib-héraði í Sýrlandi í kvöld.

Margir hermenn til viðbótar særðust illa, samkvæmt Rahmi Dogan, héraðsstjóra Hatay-héraðs í Tyrklandi, þangað sem særðir og látnir hermenn hafa verið fluttir.

Æðstu ráðamenn Tyrklands funduðu í snatri eftir þessa mannskæðu árás stjórnarhersins, samkvæmt frétt BBC um málið og hafa tyrkneskir ríkisfjölmiðlar greint frá því að Tyrkir hafi svarað þessari árás um hæl með árásum á skotmörk á vegum sýrlenska stjórnarhersins.

Sýrlenski stjórnarherinn reynir nú að ná yfirráðum í Idlib-héraði af uppreisnarhópum sem Tyrkir styðja við og hafa hörð átök staðið þar undanfarnar vikur sem hafa leitt til þess að næstum milljón almennra borgara hefur þurft að leggja á flótta frá heimilum sínum.

Þrettán tyrkneskir hermenn höfðu látið lífið í átökum í Idlib undanfarnar vikur — en í dag létust tugir á einu bretti í loftárás sem Sýrlandsher er sagður bera ábyrgð á.

Í frétt New York Times kemur þó fram að Rússar, bandamenn Sýrlendinga, hafi gert flestar loftárásir í héraðinu undanfarnar vikur og að árás kvöldsins gæti dregið dilk á eftir sér.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur hótað að láta til skarar skríða gegn sýrlenska hernum ef hann láti ekki af áhlaupi sínu á héraðið, en ríkisstjórn Sýrlands og rússnesku bandamenn hennar hafa neitað kröfum Erdogans um að draga sig til baka til vopnahléslínu sem samið var um árið 2018.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. AFP
mbl.is