Reyna að gleyma minningum

Samfélagsmál | 18. mars 2020

Reyna að gleyma minningum

Einstaklingar sem upplifðu áföll í æsku eru fimm sinnum líklegri til að þjást af áfallastreituröskun heldur en þeir sem urðu ekki fyrir áfalli og í nýrri rannsókn Margrétar Tórshamar Georgsdóttur koma fram sterk tengsl milli áfalla í æsku og fíkniefnaneyslu síðar á lífsleiðinni.

Reyna að gleyma minningum

Samfélagsmál | 18. mars 2020

Margrét Tórshamar Georgsdóttir vann rannsókn á tengslum áfalla í æsku …
Margrét Tórshamar Georgsdóttir vann rannsókn á tengslum áfalla í æsku og fíkniefnaneyslu. mbl.is/Árni Sæberg

Einstaklingar sem upplifðu áföll í æsku eru fimm sinnum líklegri til að þjást af áfallastreituröskun heldur en þeir sem urðu ekki fyrir áfalli og í nýrri rannsókn Margrétar Tórshamar Georgsdóttur koma fram sterk tengsl milli áfalla í æsku og fíkniefnaneyslu síðar á lífsleiðinni.

Einstaklingar sem upplifðu áföll í æsku eru fimm sinnum líklegri til að þjást af áfallastreituröskun heldur en þeir sem urðu ekki fyrir áfalli og í nýrri rannsókn Margrétar Tórshamar Georgsdóttur koma fram sterk tengsl milli áfalla í æsku og fíkniefnaneyslu síðar á lífsleiðinni.

Rannsókn Margrétar er hluti af meistaraverkefni hennar við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri en hún notaðist við eigindlega rannsóknaraðferð, Vancouver-skólann í fyrirbærafræði, sem er hentug að hennar sögn til að auka þekkingu og dýpka skilning á viðfangsefninu.

Að sögn Margrétar er þetta góð leið til að fá innsýn í viðfangsefnið en tengsl áfalla í æsku við fíkniefnaneyslu hafa ekki verið rannsökuð oft hér á landi. Markmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu og dýpka skilning á áhrifum áfalla í æsku á fíkniefnaneyslu, ásamt því að skoða hvort og þá hvernig hægt væri að bæta úrræði fyrir þá einstaklinga. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða reynslu karlmanna sem höfðu verið í fíkniefnaneyslu af áföllum í æsku.

Eitt af því sem kom Margréti á óvart var hversu mörg áföllin voru sem viðmælendur hennar höfðu upplifað í æsku. Eins hvað þeir höfðu svipaða sögu að segja þrátt fyrir að þeir komi úr ólíkum áttum og þekkist ekki neitt.

Áföllin höfðu mikil áhrif á andlega líðan þeirra og hjá …
Áföllin höfðu mikil áhrif á andlega líðan þeirra og hjá flestum fylgdu afleiðingarnar þeim fram á fullorðinsár. mbl.is/Ómar

Áföllin höfu mikil áhrif 

Þátttakendur í rannsókninni voru sjö karlmenn. Meðalaldur þeirra var 34 ár. Allir höfðu þeir reynslu af bæði áföllum í æsku og fíkniefnaneyslu.

Allir karlarnir lýstu áföllum sem þeir upplifðu í æsku sem höfðu mikil áhrif á líf þeirra. Áföllin sem karlarnir höfðu upplifað voru mismunandi, skilnaður foreldra á ungum aldri, ofbeldi af hálfu foreldra, afskiptaleysi foreldra, dauðsfall í fjölskyldu, dauðsfall náins vinar, einelti, nauðgun, vanræksla í æsku, ofbeldi á vinnustað og ofbeldi af hálfu eldra fólks.

Einnig hafði einn þátttakandi átt föður sem greinst hafði með krabbamein, annar hafði verið neyddur í trúarstarf á ungum aldri og einn hafði verið ranglega sakaður um kynferðislegt ofbeldi. Flestir þeirra höfðu lent í fleiri en einu áfalli.

Áföllin höfðu mikil áhrif á andlega líðan þeirra og hjá flestum fylgdu afleiðingarnar þeim fram á fullorðinsár. Margir reyndu að leita leiða til að líða betur en áttu erfitt með að finna eitthvað sem virkaði.

Karlarnir prófuðu sig margir áfram með fíkniefni og hjá mörgum þeirra slokknaði á þeim slæmu tilfinningum sem þeir fundu fyrir og leið þeim vel það kvöldið. Þetta orsakaði það að þeir byrjuðu að leita í fíkniefni til að líða betur.

Hjá nokkrum þeirra tengdist upphaf neyslu líka þeim félagsskap sem þeir voru í en aðrir voru alltaf einir að neyta efnanna. Allir karlarnir nema tveir fóru í fíkniefnameðferð og höfðu þeir misjafna reynslu af því. Hinir tveir hættu að neyta fíkniefna upp á eigin spýtur en sögðu báðir að ef þeim hefði ekki tekist það hefðu þeir farið í meðferð. Karlarnir voru allir sammála um að áhrif áfalla á líðan þeirra hefðu haft áhrif á neysluna og upplifðu þeir mikla vöntun á skilningi varðandi þetta.  

Karlarnir áttu það sameiginlegt að nota fíkniefni sem nokkurs konar bjargráð frá vanlíðan og talar einn um að það hafi verið bein tenging milli vanlíðunar og fíkniefnaneyslu hans og var vanlíðan afleiðing áfalla.

Körlunum fannst fíkniefnin ná að róa hugann og gátu þeir þá átt gott kvöld án þess að hugsa um þá hluti sem ollu þeim slæmum tilfinningum.

Reyna að deyfa slæmar tilfinningar

„Þetta er einnig í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna að þetta er algengt hjá einstaklingum sem lent hafa í áföllum í æsku. Viðkomandi leitar gjarnan að leiðum til að líða betur og endar á að fara þessa leið, að nota fíkniefni til að deyfa slæmar tilfinningar og reyna að gleyma minningunum,“ segir í rannsókn Margrétar. 

Að sögn Margrétar voru þeir fimm sem höfðu farið í meðferð sammála um að auka þyrfti andlega aðstoð í meðferð. Ekki sé nóg að ætlast til þess að menn opni sig í hóptímum um sín innstu sár og upplifanir heldur þurfi að bjóða upp á einstaklingsviðtöl þar sem kafað er dýpra í leit að rót vandans. 

Þó svo að flestir karlarnir hafi verið ánægðir með vissan hluta af meðferðarúrræðum var ýmislegt sem þeim fannst ábótavant og í sumum tilfellum hreinlega óboðlegt. Þeim þótti óþægilegt að vera settir í sömu meðferð og langt leiddir einstaklingar og einnig fór trúarstarf í taugarnar á þeim.

Í meistaraprófsritgerð Margrétar kemur fram að rannsóknir hafi sýnt að trúarstarf í meðferð er ekki mikilvægt fyrir árangur hennar, enginn marktækur munur sást á edrúmennsku trúaðra þátttakenda og ótrúaðra.

Mennirnir reyndu að deyfa slæmar minningar með því að neyta …
Mennirnir reyndu að deyfa slæmar minningar með því að neyta fíkniefna. AFP

„Hins vegar kom í ljós að þeir sem voru ekki trúaðir voru síður líklegir til að fara í meðferð þar sem trúarstarf var iðkað og enn ólíklegri til að halda áfram að mæta á AA-fundi eftir að meðferð lauk. Því veltir rannsakandi upp þeirri spurningu hvort trúarstarf í meðferð geri meira slæmt en gott.

Einn karlanna tók það fram að ef hann þyrfti að fara í meðferð þyrfti hann að breyta sínum hugsunarhætti þar sem trúartengd meðferð ætti ekki við hann.

„Spurning er hvort betra væri að setja á fót úrræði þar sem trú væri ekki partur af meðferðinni, heldur væri meira einblínt á sálræna þætti og úrvinnslu áfalla. Einnig voru biðlistar nefndir sem hindrun og það að vöntun væri á upplýsingum hvað varðar úrræði eftir meðferð.

Fjöldi einstaklinga sem fellur fljótlega eftir að meðferð lýkur bendir til þess að eftiráúrræði og upplýsingar um þau gætu verið gagnleg. Eftiráúrræði ýtir undir áframhaldandi bata og oft þykir einstaklingum það hjálplegt að kynnast öðru fólki í svipuðum aðstæðum eftir meðferð,“ segir í ritgerð Margrétar.

Vantar að vinna á undirliggjandi vanda

Svo virðist sem skortur sé á meðferðarúrræðum hér á landi sem vinna á undirliggjandi vanda fíkniefnaneyslu, segir Margrét.

Í þeim úrræðum sem eru á Íslandi eru ýmsar afþreyingar í boði. Nefna má hópameðferðir, lista-, íþrótta- og tónlistartíma og hafa einstaklingar aðgang að sálfræðingum eða öðrum stuðningsfulltrúum. Afeitrun er algengasta aðferðin sem notuð er í meðferðarúrræðum hér á landi en þar er reynt að koma í veg fyrir að einstaklingurinn hafi aðgang af efnunum svo hann haldist edrú.

„Oft er hann einangraður frá samfélaginu með útivistartímum og takmörkuðum aðgangi að síma og interneti. Rannsóknir sýna að þessi aðferð er ekki árangursrík. Það eru fleiri sem falla eftir slíka meðferð heldur en þeir sem haldast edrú. Aðeins um 20% einstaklinga haldast edrú eftir meðferð og um 50% hætta áður en meðferð er lokið,“ segir í ritgerð Margrétar.

Hún bendir á að rannsóknir sýni að áfallamiðaðar meðferðir hafi reynst árangursríkar fyrir fólk sem lendir í áföllum og eru að glíma við fíkn og væri því tilvalið að bjóða upp á slíka meðferð í þeim úrræðum sem í boði eru.

„Ég var alltaf á nálum“

„Ábótavant er að unnið sé úr rót vandans. Rannsókn þessi getur bætt þá þekkingu í samfélaginu, einnig varðandi þau úrræði sem í boði eru, að vinna þurfi úr sálrænum erfiðleikum og áföllum til að minnka líkurnar á því að einstaklingar falli eftir meðferð. Ekki er nóg að losa einstaklinginn aðeins við fíkniefnin ef áföllin og slæmar minningar skjóta upp kollinum í edrúmennsku. Tilefni er til að huga betur að einstaklingum í fíkniefnaneyslu og athuga hvað liggi að baki,“ segir Margrét.

Margrét Tórshamar Georgsdóttir segir að það þurfi að leita að …
Margrét Tórshamar Georgsdóttir segir að það þurfi að leita að orsökum þess að fólk leiti í skammtímalausnir. mbl.is/Árni Sæberg

Allir karlarnir höfðu reynslu af áhrifum á andlega líðan í kjölfar áfallanna sem þeir höfðu lent í, kvíðaröskun, þunglyndi, sjálfsvígshugsunum, áfallastreituröskun, hræðslu og vantrausti í garð annars fólks. Það hafði veruleg áhrif á þeirra daglega líf og fannst þeim öllum afleiðingar áfallanna fylgja þeim enn þann dag í dag upp að vissu marki.

Einn þeirra ólst upp á heimili þar sem hann var beittur andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi sem orsakaði mikla spennu hjá honum og hann svaf stundum ekki svo vikum skipti, nema þá í nokkrar mínútur í senn. Þetta sagði hann hafa endað með því að hann hafi þurft að flýja heimili sitt og var tekinn á annað heimili þar sem hann var einnig beittur líkamlegu ofbeldi og sagði: „Ég var alltaf á nálum, ég svaf ofboðslega lítið.“

Í meistararitgerð Margrétar talar einn þeirra um þunglyndið sem hann upplifði eftir að hafa alist upp við ofbeldi af hálfu foreldra sinna. Hann hafði einnig upplifað mikinn kvíða ásamt áráttu og þráhyggju. Hann talaði um að hann hafi beðið eftir höfnun frá fólki og alltaf búist við því versta, hann hafi á tímabili verið hræddur við alla. Hann sagðist eiga erfitt með að halda í vinnu vegna kvíða, hann hafi verið að vinna á um tíu mismunandi stöðum en lengsti tíminn sem hann hefur verið á einum stað væri um mánuður. Nefndi hann erfiðleika með svefn sem afleiðingu af þessari vanlíðan.

Allir þátttakendur töluðu um að áföllin fylgdu þeim að einhverju leyti enn í dag og margir töldu að það myndi halda áfram alla ævi. Þetta var rauður þráður í gegnum öll viðtölin segir Margrét.

Hefur engar væntingar til fólks

Einn segir að sér finnist hann vera eftir á og vegna aðstæðna sinna í uppeldi hafi hann aldrei getað safnað sér peningum vegna þess að hann vildi koma sér út úr heimilisaðstæðum sem fyrst og hafi því farið ungur á leigumarkað. Þessi maður var neyddur í trúarstarf af foreldrum sínum og varð fyrir slæmri framkomu í trúarlegum búðum. 

Hann hafi ekki áttað sig á mikilvægi þess að vera ábyrgur samfélagsþegn fyrr en mjög seint og að þessi áföll hafi mótað hans leið í lífinu. Hann tók þó fram að hann sæi ekki eftir þeim ákvörðunum sem hann tók í kjölfar áfallanna, í hans augum hafi það verið mikilvægt að hafa gengið í gegnum erfiðleika og að hafa þurft að hafa fyrir hlutunum til að þroskast. Þetta hafi verið erfitt á meðan á því stóð en að sama skapi hafi hann þroskast mikið við þessa reynslu, en hún hafi þó áhrif á hann enn í dag.

Annar talar um mikla andlega erfiðleika sem hann glímir enn við í dag og hann telur vera beina afleiðingu áfallanna. Sá varð fyrir ofbeldi á vinnustað, vanrækslu í æsku og einelti. Hann segist þó vera á uppleið og að sér líði betur. Það komi þó fyrir að minningarnar skjóti upp kollinum og tilfinningarnar fylgi þá með. Það fylgi því mikil úrvinnsla að vinna úr slíkum áföllum og það virki ekki þannig að einstaklingur fari í meðferð við fíkn og komi þaðan út læknaður heldur sé svo margt á bakvið sem þarf að vinna úr líka. „Ef þú vinnur ekki úr því, að þá fer það ekki neitt.“

Allir höfðu mennirnir orðið fyrir áföllum í æsku sem höfðu …
Allir höfðu mennirnir orðið fyrir áföllum í æsku sem höfðu haft áhrif á allt þeirra líf. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Áföllin og áhrif þeirra munu fylgja þeim sem varð fyrir andlegu, líkamlegu og kynferðis ofbeldi á heimili, alla tíð og hann er stöðugt á varðbergi. Hann hefur ekki neinar væntingar til fólks og segir að karlmenn á ákveðnum aldri væru í hans augum sérstök ógn. Það voru þeir karlmenn sem voru á aldri við fósturföður hans. Hann er fljótur upp í skapi en í mörg ár var hann ofbeldisfullur í kjölfar áfallanna, réðst á fólk ef honum fannst einhver horfa á sig vitlaust eða gefa sér einhverja ástæðu til að efast um þau: Ég ólst upp við svo mikið af lygum og bulli og miklu ógeði og svona að ég er rosalega fljótur að stoppa um leið og einhver stígur bara aðeins út úr sannleikanum.“

Áföllin sem einn mannanna lenti í hafa enn þá áhrif á hann en hann var beittur ofbeldi af hálfu foreldra sinna. Hann er hræddur við allan ágreining og segist frekar leyfa fólki að vaða yfir sig heldur en að segja eitthvað. Ofbeldi var venjulegur hlutur fyrir honum á tímabili og ef einhver gerði grín að honum eða fór í taugarnar á honum hikaði hann ekki við að berja viðkomandi: „Ég man eftir að mamma ætlaði eitthvað að taka eitthvað í lurginn á mér og ég alveg svoleiðis lamdi hana í hakk með belti. Þá var ég allt í einu fíflið sko... ég man að... þá átti að fara að loka mig inni og senda mig á geðdeild af því ég var orðinn ofbeldisfullur.. þú veist þetta meikaði ekkert sens fyrir mér sko, af hverju má berja mig í stöppu en þegar ég lem til baka þá er ég ruglaður skilurðu?“

Þar sem hann forðaðist að vera heima hjá sér sóttist hann mikið í vinina. Einangrun frá fjölskyldu og eðlilegu félagslífi hafi leitt til þess að hann hafi sótt í þennan félagsskap sem endaði svo á að snúast bara um neysluna: „Félagsskapurinn var hættur að snúast um nokkuð annað en að reykja sko og eftir að það var reykt þá var bara legið uppi í sófa að gera ekki neitt þangað til það rann af öllum og þá var ekkert meir sko. Þannig að það... það var í rauninni svona að leiddi að þessu, það var svona einangrun... frá svona hvað segir maður svona eðlilegu félagslífi. Í rauninni einangrun frá fjölskyldunni.“

Vantar fleiri íslenskar rannsóknir

Skortur er á íslenskum rannsóknum um tengsl áfalla og fíkniefnaneyslu og brýn þörf á úrræðum fyrir þolendur áfalla sem leiðast út í fíkniefnaneyslu segir Margrét. Oft lita fordómar það hvernig horft er á fíkniefnaneyslu í samfélaginu. Vöntun er á að unnið sé með rót fíknivandans, sem geta verið áföll að sögn Margrétar.

Hún segir að það væri áhugavert að gera aðra rannsókn með fleiri þátttakendum svo hægt sé að ná enn betri og dýpri skilningi á stöðu þeirra sem hafa glímt við fíkniefnavanda. Einnig væri hægt að gera megindlega rannsókn á Íslandi til að athuga hvort tengsl séu á milli áfalla í æsku og fíkniefnaneyslu seinna á ævinni. „Rannsókn þar sem sérstaklega væri skoðað hvaða meðferðir hafa virkað hingað til gæti skipt sköpum fyrir heilbrigðiskerfið og fíkninefnaneytendur. Áhugavert væri einnig að sjá hvort biðlistar hafi áhrif á edrúmennsku, hvort að fólk sé ólíklegra til að hætta neyslu fíkniefna ef biðin eftir meðferðarúrræði er löng,“ segir Margrét.

„Það er hellingur af yndislegu fólki í heilbrigðisgeiranum sem gerir sitt besta með þær aðstæður sem við höfum og alls ekki við það að sakast. Við þurfum að huga að undirliggjandi orsökum þess að margir leiti í þessar skammtímalausnir frá vanlíðan, það er ekki í lagi að þessum einstaklingum líði svona illa að þau telji sig knúin til að finna bara einhverja lausn. Ég á aðstandanda sem var í meðferð fyrir stuttu síðan og þegar ég heimsótti hann spurði ég hann hvort hann fengi ekki einhverja sálfræðihjálp eða eitthvað slíkt og hann sagði bara nei.. það þyrfti ekki. Ég þekki hann nógu vel til að vita að hann hefur lent í allskonar og það var enginn að spá í því, bara neyslunni sjálfri,“ segir Margrét Tórshamar Georgsdóttir. 

mbl.is