Flóttamannabúðir í sóttkví

Á flótta | 2. apríl 2020

Flóttamannabúðir í sóttkví

Grísk stjórnvöld girtu af búðir hælisleitenda skammt frá Aþenu í dag eftir að 21 íbúi þar greindist smitaður af kórónuveirunni. Fyrst íbúanna til að greinast var nýbökuð móðir á sjúkrahúsi í Aþenu.

Flóttamannabúðir í sóttkví

Á flótta | 2. apríl 2020

AFP

Grísk stjórnvöld girtu af búðir hælisleitenda skammt frá Aþenu í dag eftir að 21 íbúi þar greindist smitaður af kórónuveirunni. Fyrst íbúanna til að greinast var nýbökuð móðir á sjúkrahúsi í Aþenu.

Grísk stjórnvöld girtu af búðir hælisleitenda skammt frá Aþenu í dag eftir að 21 íbúi þar greindist smitaður af kórónuveirunni. Fyrst íbúanna til að greinast var nýbökuð móðir á sjúkrahúsi í Aþenu.

„Frá og með deginum í dag er staðurinn settur í sóttkví í tvær vikur,“ segir í yfirlýsingu frá ráðuneyti sem fer með málefni flóttafólks og hælisleitenda.

Nokkrum klukkutímum áður en greint var frá því að íbúar í búðunum væru smitaðir hafði forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, lofsungið það hvernig staðið væri að heilbrigðismálum í flóttamannabúðum í Grikklandi. 

Í viðtali við CNN sagði Mitsotakis að Grikkir hafi staðið sig vel hvað varðar smitrakningar og að stjórnvöld hafi staðið sig afar vel í því að takast á við faraldurinn á mannlegan hátt við þær aðstæður sem þar eru. Vísar hann þar til aðstæðna í yfirfullum flóttamannabúða. 

„Við munum áfram fylgjast mjög grannt með því hvað gerist í búðunum okkar. Við erum að setja upp fleiri læknamiðstöðvar,“ bætti hann við.

Konan sem greindist smituð af kórónuveirunni eftir að hafa fætt barn á sjúkrahúsi í Aþenu fyrr í vikunni. Konan, sem er frá Afríku, er búsett í Ritsona-flóttamannabúðunum. Að sögn yfirvalda hafa verið tekin sýni úr 63 íbúum í Ritsona, en búðirnar eru í 80 km fjarlægð frá Aþenu. Af þeim hafi 20 greinst með veiruna en enginn þeirra væri með sjúkdómseinkenni. Enginn starfsmaður hefur greinst með COVID-19.

Frá Moria-búðunum á Lesbos.
Frá Moria-búðunum á Lesbos. AFP

Nýbakaða móðirin er fyrsti hælisleitandinn sem greinist með veiruna í grískum flóttamannabúðum. Vegna sóttkvíarinnar er allur aðgangur að Ritsona-búðunum bannaður og verður matur sendur til íbúa samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Bætt verður við heilbrigðisstarfsmönnum í búðunum og sýni tekin hjá öllum íbúum búðanna. 

Síðdegis í gær voru staðfest smit í Grikklandi orðin 1.415 talsins og af þeim höfðu 50 látist úr veirunni. Alls búa 11 milljónir í Grikklandi. 

Í flóttamannabúðum á meginlandinu og á eyjunum búa þúsundir hælisleitenda við afar erfiðar aðstæður enda miklu fleiri í búðunum en rúmast þar.

Í dag greindu stjórnvöld frá því að önnur kona hafi greinst með kórónuveiruna eftir að hafa fætt barn á fæðingardeild í borginni Kilkis en hún býr þar í íbúð fyrir flóttafólk. 

mbl.is