Ályktunarhæfnin „fremur á borði hinna skapandi greina“

Varnarmál Íslands | 18. maí 2020

Ályktunarhæfnin „fremur á borði hinna skapandi greina“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, vakti máls á umfjöllun Morgunblaðsins um að Vinstri græn hefðu lagst gegn því að ráðist yrði í stór­felld­ar fram­kvæmd­ir á veg­um Atlants­hafs­banda­lags­ins á Suður­nesj­um.

Ályktunarhæfnin „fremur á borði hinna skapandi greina“

Varnarmál Íslands | 18. maí 2020

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, vakti máls á umfjöllun Morgunblaðsins um að Vinstri græn hefðu lagst gegn því að ráðist yrði í stór­felld­ar fram­kvæmd­ir á veg­um Atlants­hafs­banda­lags­ins á Suður­nesj­um.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, vakti máls á umfjöllun Morgunblaðsins um að Vinstri græn hefðu lagst gegn því að ráðist yrði í stór­felld­ar fram­kvæmd­ir á veg­um Atlants­hafs­banda­lags­ins á Suður­nesj­um.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag benti hann á að Morgunblaðið hefði greint frá því að NATO væri reiðubúið að leggja 12-18 milljarða króna í uppbyggingu innviða á Suðurnesjum.

Sagði Sigmundur að um væri að ræða borgaralega innviði sem nýtast muni samfélögunum þar umtalsvert. VG hefði hins vegar staðið í vegi fyrir því.

„Sem að hljómar ákaflega sérkennilega í ljósi þess að við erum jú aðilar að NATO og greiðum þangað peninga á hverju ári. En hvers vegna vill Vinstri hreyfingin — grænt framboð ekki fá fjármagn til baka?“ spurði Sigmundur og benti á að atvinnuleysi væri um 30% í Reykjanesbæ um þessar mundir.

„Hvernig getur Vinstri hreyfingin — grænt framboð leyft sér að koma í veg fyrir þann viðsnúning sem myndi fylgja þessu verkefni?“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Beri ekki að rugla saman

Sigmundur beindi fyrirspurn sinni að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem kom til svars. Þakkaði hún Sigmundi fyrir fyrirspurnina og sagði mikilvægt að þetta kæmi fram.

Benti hún á að engar formlegar viðræður hefðu átt sér stað. Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefði vakið máls á þessu í umræðu í tengslum við fjáraukalög, sem unnin hefðu verið með miklum hraði.

„Ákvörðunum um utanríkispólitík og varnarhagsmuni ber ekki að rugla saman við efnahagsaðgerðir þegar Íslendingar standa í efnahagsþrengingum, sem ég hefði nú talið að háttvirtur þingmaður væri mér sammála um, að við værum í öllum færum um að geta staðist án utanaðkomandi aðstoðar á borð við þessa,“ sagði Katrín.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Löngu búnir að heyra af áformum NATO

Sigmundur sagði þá að sér þætti sérkennileg, „þessi tilraun forsætisráðherra til að gera lítið úr þessu máli og nánast kalla þetta einhverja hugaróra hæstvirts utanríkisráðherra. Einhverjar hugmyndir hans og vangaveltur í tengslum við viðbrögð við efnahagsástandinu.

Ég og fjölmargir aðrir þingmenn vorum löngu búnir að heyra af þessum áformum Atlantshafsbandalagsins áður en hæstvirtur utanríkisráðherra setti þetta inn í þá vinnu sem hæstvirtur forsætisráðherra nefndi. Þessi áhugi hefur legið fyrir — vilji til að koma hér í stórfellda uppbyggingu sem myndi skila hundruðum starfa á Suðurnesjum. Sem er sannarlega þörf á núna.

Því spyr ég, má skilja hæstvirtan forsætisráðherra sem svo, að ef þetta gerist nógu formlega — með réttum leiðum fyrir ráðherrann, þá muni hæstvirtur forsætisráðherra ekki standa í vegi fyrir verkefninu?“

Áhættumat í undirbúningi

Katrín sagðist hafa svarað Sigmundi skýrt, á þann veg að engin formleg samtöl hefðu átt sér stað um þessi áform.

„Er ég að gera lítið úr spurningu háttvirts þingmanns? Nei. En ég er hins vegar ekki sammála þeirri nálgun að utanríkispólitískar ákvarðanir eigi að taka út frá sjónarmiðum um efnahagsuppbyggingu og atvinnuuppbyggingu.“

Katrín sagði áhættumat í undirbúningi fyrir Ísland, og að henni fyndist mikilvægt að allar ákvarðanir í þessum efnum myndu byggja á því. Matið muni liggja fyrir þinginu í haust og sé unnið af undirbúningshópi þjóðaröryggisráðs. 

„Við þurfum að vanda okkur, þegar um er að ræða jafn mikilvæg mál og þjóðaröryggi Íslendinga.“

Spurði hvort málið hefði farið til ráðsins

Næst steig í pontu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Sagðist hún ætla að taka forsætisráðherra á orðinu, og blanda ekki saman efnahagslegum ávinningi og varnarhagsmunum.

„Ég hef margspurt hæstvirtan ráðherra að því, vitandi það að Vinstri græn eru algjörlega á móti vestrænni samvinnu og á móti veru Íslands í NATO, en ég hef verið fullvissuð um það, meðal annars hér í þessum þingsal, að þrátt fyrir það þá muni forsætisráðherra, sem formaður þjóðaröryggisráðs, beita sér fyrir því að fylgja eftir okkar þjóðaröryggisstefnu.“

Samkvæmt lögum eigi ráðið að hafa eftirlit með framkvæmd varnarstefnunnar og jafnframt meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum. 

„Ég vil spyrja hæstvirtan forsætisráðherra að því, og formann þjóðaröryggisráðs okkar Íslendinga — sem hefur ákveðnum skyldum að gegna, hvort forsætisráðherra hafi ekki alveg örugglega tekið þessa hugmynd inn í þjóðaröryggisráðið og fengið það til þess að meta einmitt horfur og ástand í öryggis- og varnarmálum, og það hvort þessar uppbyggingarframkvæmdir hugsanlegu í Helguvík myndu ekki undirstrika og byggja undir varnarhagsmuni Íslands.“

Metnar í samhengi við stefnuna

Katrín ítrekaði að tillagan, eða hugmyndin, hefði komið upp í tengslum við fjáraukalög sem unnin hefðu verið í miklum flýti. Utanríkisráðherra hefði ekki óskað eftir því að málið yrði tekið upp í þjóðaröryggisráði.

„En, ef áfram verður unnið að slíkum hugmyndum þá munu þær að sjálfsögðu verða teknar þar og metnar í samhengi við okkar þjóðaröryggisstefnu og okkar áhættumat.“

Sagðist hún hafa lagt á það mikla áherslu að unnið væri í samræmi við þjóðaröryggisstefnu landsins.

„Síðan vil ég segja það, að þótt háttvirtur þingmaður haldi því hér fram, að Vinstri hreyfingin — grænt framboð sé á móti vestrænni samvinnu, sem ég átta mig nú ekki alveg á því hvað háttvirtur þingmaður á við — ef hún er að vísa til Atlantshafsbandalagsins þá er það rétt. En við leggjumst svo sannarlega ekki gegn samvinnu við önnur vestræn ríki.

Og ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að viðhald mannvirkja undanfarin þrjú ár, á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, hefur verið meira en frá árinu 2002. Sú ríkisstjórn sem nú situr er svo sannarlega að fylgja þjóðaröryggisstefnunni betur eftir en fyrri ríkisstjórnir hafa gert.“

Ríkisstjórnin ekki að tala skýrt

Þorgerður Katrín sagði að sér væri það ekkert launungarmál lengur að verið væri að vega að vestrænni varnarsamvinnu. 

„Við erum að sjá það núna að innanbúðarmál stjórnarflokkanna eru að koma í veg fyrir það að meðal annars þjóðaröryggisráð fjalli um þessa hagsmuni sem tengjast uppbyggingu hafnarmannvirkja í Helguvík. Og það hlýtur að leiða til þess að við ályktum að stjórnarsáttmálinn sjálfur sé að hindra lögbundna framkvæmd þjóðaröryggisráðs. Það er ekki hægt að álykta neitt annað í þessa veru.“

Sagðist hún orðin vantrúuð á að verið væri að fylgja þjóðaröryggisstefnunni. Ríkisstjórnin, með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs, væri ekki að tala skýrt í þessum efnum.

„Og það er áhyggjuefni, ekki bara fyrir Suðurnesjamenn sem þurfa skýr svör frá ríkisstjórninni, heldur landsmenn alla, sem hafa áhuga og metnað til að láta vera hér virka varnar- og öryggisstefnu.“

Mjög alvarleg orð

Katrín sagðist ætla að líta svo á, „að ályktunarhæfni háttvirts þingmanns sé fremur á borði hinna skapandi greina.

Að segja það hér, að ég sé að koma í veg fyrir að mál skuli tekin til umfjöllunar í þjóðaröryggisráði, vegna einhvers konar innanflokkshagsmuna, eru auðvitað mjög alvarleg orð. Og ekki sönn. Það er einfaldlega þannig.“

Ef málið kæmi formlega á borð stjórnarinnar þá yrði það um leið tekið til umfjöllunar í ráðinu.

mbl.is