„Það er bara komið nóg“

Kórónuveiran Covid-19 | 6. júlí 2020

Íslensk erfðagreining hættir að skima

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf þar sem hann tilkynnir henni að þætti Íslenskrar erfðagreiningar í skimun fyrir kórónuveirunni er lokið eftir mánudaginn 13. júlí. 

Íslensk erfðagreining hættir að skima

Kórónuveiran Covid-19 | 6. júlí 2020

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafa …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafa verið að skrifast á í júlí. Kári hefur komist að niðurstöðu um að draga fyrirtækið úr skimuninni á landamæri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf þar sem hann tilkynnir henni að þætti Íslenskrar erfðagreiningar í skimun fyrir kórónuveirunni er lokið eftir mánudaginn 13. júlí. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf þar sem hann tilkynnir henni að þætti Íslenskrar erfðagreiningar í skimun fyrir kórónuveirunni er lokið eftir mánudaginn 13. júlí. 

Það er vika þangað til. Fyrirtækið hefur þessa stundina umsjón með skimuninni sem fer fram á landamærum landsins. Þar hafa fleiri en 20 þúsund verið skimaðir frá 15. júní: „Við höfum séð um hvern einasta einstakling sem hefur komið í landamæraskimun,“ segir Kári.

Frá og með þriðjudegi í næstu viku mun fyrirtækið draga sig úr aðgerðunum á landamærunum endanlega. Í dag mun fyrirtækið sömuleiðis hætta að eiga samskipti við landlækni vegna kórónuveirunnar, segir í bréfinu, sem Kári hefur látið mbl.is fá. Hann hefur þá birt það á Facebook-síðu sinni.

Hvað tekur við á landamærunum? „Ríkið á bara að hlúa að þessari veirufræðideild uppi á Landspítala. Þau geta auðveldlega tekið þetta að sér. Ég held að það sé öllum fyrir bestu að við séum ekki í þessu lengur. Við erum búin að leggja ótrúlega mikla vinnu af mörkum og það er bara komið nóg. Nú verðum við að snúa okkur að dagvinnunni,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Hann telur að með vikufresti hafi stjórnvöld nægt svigrúm til þess að búa sig undir að taka við skimuninni, en hann segir ljóst að þau þurfa að koma upp rannsóknastofu til skimunar sambærilegri þeirri sem Íslensk erfðagreining hefur á sínum snærum. Í tilfelli fyrirtækisins hafi rannsóknarstofunni verið komið upp á fimm dögum, án þess að fyrirtækið hafi nokkru sinni áður fengist við að skima fyrir veirusjúkdómum.

„Þeir þurfa að setja eitthvað í þetta“

„Við höfum gert þetta vegna þess að að okkur fannst að við yrðum að gera þetta. En nú þegar kemur að svona löguðu, þegar kúfurinn af faraldrinum er farinn, er þetta eins og munurinn á áríðandi og valkvæðum skurðlækningum. Það er ákveðið að láta fólk koma inn og skima það. Þá er þetta ekki lengur þetta bráðavandamál, þannig að mér finnst ekki að við séum að svíkja neinn með því að hætta eftir viku og gefa þeim vikutíma til að undirbúa sig. Það á að nægja þeim algerlega. Þeir eiga að geta náð í öll þau tæki og allan þann efnivið sem þeir þurfa, en þeir þurfa að setja eitthvað í þetta,“ segir Kári.

Hann segist hafa gefið stjórnvöldum nægan fyrirvara. Fyrirtækið hafi gert þetta í fjóra mánuði án þess að taka greiðslu fyrir. „Þetta hefur ekkert með peninga að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut,“ segir Kári. Fyrirtækið hafi einfaldlega brugðist við veirunni eins og allir gerðu í upphafi hennar, möglunarlaust, en nú sé tímabært að draga sig frá verkefninu.

Við lifum það ekki af ef við höldum þessu áfram

Kári hefur áður farið fram og til baka með yfirlýsingar af þessum toga og þegar hann er spurður hvort hann standi við stóru orðin í þetta skiptið svarar hann játandi: „Þetta eru stór orð frá mér en málið er að þau geta alveg séð um þetta. Þetta er ekki bara afstaða til þessarar skimunar, þetta er afstaða til þeirra verkefna sem við höfum að vinna hér. Við lifum það ekki af ef við höldum þessu áfram,“ segir hann.

Fyrirtækið verði að snúa sér að öðru: „Okkar hlutverk er að rannsaka alls konar aðra sjúkdóma. Okkar hlutverk er ekki að sinna svona skimun. Við gerðum það af því að þetta var svona „all-hands-on-deck“-augnablik.“

 „Við erum síðan í millitíðinni búin að vara við aftur og aftur að við getum ekki sinnt þessu til eilífðarnóns. Og það sem gerir þetta mjög kyndugt er að á sama tíma og stjórnvöld hafa ekki farið að undirbúa að geta tekið við þessu hafa þau raunverulega tjáð hálfgerða vanþökk á að við séum að abbast í þessu. Ég skil það ekki. Ég átta mig ekki á því hvað að baki býr. Það er ekki mitt að fígúra slíkt út, ég er að vinna við að fígúra út aðra hluti,“ segir Kári. 

Skimanir á vegum ÍE hófust í mars og hafa staðið …
Skimanir á vegum ÍE hófust í mars og hafa staðið í tæpa fjóra mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkefnastjórinn — „Virðingarleysi“

Eins og kemur fram í bréfinu sem Kári sendir Katrínu fór Kári fram á það 1. júlí að ríkisstjórnin gæfi út yfirlýsingu á næstu dögum um að það verði ráðist strax í að setja saman apparat sem gæti haft með höndum skimunina á landamærunum og lagði reyndar um leið til að komið yrði á fót farsóttarstofnun ríkisins. 

Í svari forsætisráðherra 4. júlí var brugðist við hugmyndinni. Katrín skrifar að ákveðið hafi verið að ráða verkefnastjóra undir yfirstjórn sóttvarnalæknis, sem eigi að skila tillögum um framtíðarskipan þessara mála til ríkisstjórnarinnar ekki síður en 15. september.

„Við sjáum ekkert fyrir endann á þessu. Það er ekkert plan neins staðar. Planið sem forsætisráðherra skrifar um er að hún ætlar að fá einhvern mann til að skila áliti 15. september. Hvers konar svar er þetta? Þetta er bara alger skortur á virðingu fyrir verkefninu sem blasir við og alger skortur á skilningi á því hvað er að gerast,“ segir Kári.

Kári skrifar í bréfinu í dag að enginn aðili á landinu kunni betur til þeirra verka sem Íslensk erfðagreining hafi tekið að sér í faraldrinum, þ.e. skimunar og einnig túlkunar á gögnum. „Þú ert hins vegar á þeirri skoðun að þú hafir verkefnastjóra sem gæti búið til á þessu betri skilning og hjálpað til við að koma þjóðinni áfram til framtíðarskipulags. Okkar skoðun er sú að öll framkoma þín og heilbrigðismálaráðherra gagnvart ÍE í þessu máli hafi markast af virðingarleysi fyrir okkur, framlagi okkar og því verkefni sem við höfum tekið að okkur í þessum faraldri,“ skrifar hann.

Bréfið

mbl.is