Skálað í ávaxtasafa í Brussel

Evrópusambandið | 21. júlí 2020

Skálað í ávaxtasafa í Brussel

Eftir tímamótasamkomulag leiðtoga Evrópusambandsríkja um 750 milljarða evra björgunarsjóð vegna kórónuveirukreppunnar og nýja sjö ára fjárhagsáætlun sambandsins halda leiðtogar nú heim á leið. Þar bíður þeirra það verkefni að sannfæra landa sína um ágæti þess.

Skálað í ávaxtasafa í Brussel

Evrópusambandið | 21. júlí 2020

Leiðtogar nokkurra Evrópusambandsríkja á einum af fjölmörgum hliðarfundum helgarinnar.
Leiðtogar nokkurra Evrópusambandsríkja á einum af fjölmörgum hliðarfundum helgarinnar. AFP

Eftir tímamótasamkomulag leiðtoga Evrópusambandsríkja um 750 milljarða evra björgunarsjóð vegna kórónuveirukreppunnar og nýja sjö ára fjárhagsáætlun sambandsins halda leiðtogar nú heim á leið. Þar bíður þeirra það verkefni að sannfæra landa sína um ágæti þess.

Eftir tímamótasamkomulag leiðtoga Evrópusambandsríkja um 750 milljarða evra björgunarsjóð vegna kórónuveirukreppunnar og nýja sjö ára fjárhagsáætlun sambandsins halda leiðtogar nú heim á leið. Þar bíður þeirra það verkefni að sannfæra landa sína um ágæti þess.

Stefan Löfven og Mette Frederiksen, forsætisráðherrar Svíþjóðar og Danmerkur, voru í hópi fjögurra þjóðarleiðtoga sem kallaðir voru „hinir sparsömu“ (e. frugal four) og vildu fara hægar í sakirnar en aðrir þegar kom að björgunarsjóðnum; lækka hlutfall björgunarsjóðsins sem fer í beina styrki, og koma í veg fyrir að útgjöld til sambandsins ykjust til að mæta tekjutapinu af útgöngu Breta.

Framlag um 1% af VÞT

Sjö ára fjárhagsáætlun sambandsins gerir ráð fyrir að útgöld Evrópusambandsins verði 1.075 milljarðar evra árin 2021-2027. Það er töluvert minna en framkvæmdastjórn sambandsins hafði lagt til, en þó meira en það sem Svíar höfðu lagt upp með. Minnst 30 prósentum af fénu verður varið í umhverfis- og loftslagsmál, 100 milljörðum evra meira en síðastliðin sjö ár.

Útgjöldin eru fjármögnuð með beinu framlagi frá aðildarríkjum, sem nemur um 1 prósenti af vergum þjóðartekjum (GNI). Þó hefur þeim ríkjum sem leggja mest til sambandsins tekist að fá afslátt af sínu framlagi, og afsláttur „sparsömu ríkjanna“ fjögurra var einmitt aukinn í samningaviðræðum helgarinnar. 

Stefan Löfven og Mette Frederiksen ræða saman.
Stefan Löfven og Mette Frederiksen ræða saman. AFP

Löfven segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið að hann sé ánægður með útkomuna. Framlag Svía til sambandsins sem hlutfall af vergum þjóðartekjum helst óbreytt, 0,8 prósent, þökk sé afslættinum, en sænska þingið hafði gert það að skilyrði sínu fyrir því að samþykkja samkomulagið. Í krónum talið hækkar framlagið þó um 6 ma. sænskra króna frá því sem var liðin sjö ár, og mun nema um 45 milljörðum sænskra króna (700 ma. ISK) á ári.

Erfitt getur verið að setja svo háar fjárhæðir í samhengi, en til samanburðar eru þjóðartekjur Íslands 3.020 milljarðar króna. Eitt prósent af því er 30,2 milljarðar króna, en 0,8 prósent eru 24,2 milljarðar króna.

„Við höfum tryggt raunverulegan afslátt fyrir Svíþjóð allan tímann. Þetta er stærsti afsláttur sem Svíþjóð hefur nokkurn tímann fengið. Þökk sé honum mun framlag Svíþjóðar, sem hlutfall af vergum þjóðartekjum, haldast á svipuðum slóðum þrátt fyrir að Bretar hafi yfirgefið sambandið,“ sagði Löfven á blaðamannafundi.

Vakað fram á nótt

Mette Frederiksen er sömuleiðis ánægð með samkomulagið. Hún segist í samtali við danska ríkisútvarpið ekki muna eftir því hvenær hún var síðast vakandi þrjár nætur í röð. „En þetta var nauðsynlegt. Þótt ég sé dálítið þreytt þá hef ég ástæðu til að gleðjast yfir samkomulaginu,“ segir Frederikssen sem skálaði í ávaxtasafa með öðrum þjóðarleiðtogum að samkomulaginu frágengnu. „Það var ekki kampavín á þessum tímapunkti,“ segir hún enda klukkan 5:31 að morgni í Brussel þegar fundi lauk.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari bera saman bækur.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari bera saman bækur. AFP

Framlag Dana mun nema um 24,2 milljörðum danskra króna (518 ma. ISK) á ári næstu sjö árin. Hún leggur áherslu á að aldrei hafi verið meiningin að Danir skyldu leggja minna til sambandsins en áður þótt ekki hafi verið vilji til að auka útgjöld um of. „Við munum verja meiru til Evrópusamstarfsins og það tel ég á margan hátt réttmætt. En það verður að vera sanngjarnt og þess vegna var barist fyrir afslætti fyrir Danmörku sem er þrefaldur á við afsláttinn síðast,“ sagði Frederiksen.

mbl.is