Og svo kom kórónuveiran

Á flótta | 3. september 2020

Og svo kom kórónuveiran

Parisa var 11 ára gömul þegar hún fékk loks að setjast á skólabekk en þangað til hafði það ekki verið óhætt fyrir hana. Ekkert frekar en fyrir fjölmargar stúlkur í heiminum. En nú er námi hennar ógnað af kórónuveirunni sem hefur haft gríðarleg áhrif á menntakerfi heimsins.

Og svo kom kórónuveiran

Á flótta | 3. september 2020

AFP

Parisa var 11 ára gömul þegar hún fékk loks að setjast á skólabekk en þangað til hafði það ekki verið óhætt fyrir hana. Ekkert frekar en fyrir fjölmargar stúlkur í heiminum. En nú er námi hennar ógnað af kórónuveirunni sem hefur haft gríðarleg áhrif á menntakerfi heimsins.

Parisa var 11 ára gömul þegar hún fékk loks að setjast á skólabekk en þangað til hafði það ekki verið óhætt fyrir hana. Ekkert frekar en fyrir fjölmargar stúlkur í heiminum. En nú er námi hennar ógnað af kórónuveirunni sem hefur haft gríðarleg áhrif á menntakerfi heimsins.

Parisa er frá Afganistan en býr í Íran. Hún er nemandi við Vahdat-grunnskólann og flestir bekkjarfélagar hennar eru 12 ára en hún er 16 ára og elst í bekknum. Hún lætur það ekki á sig fá og er harðákveðin að nýta hverja einustu stund sem henni býðst til að stunda námið í Vahdat-skólanum í borginni Isfanhan. „Ég elska skólann svo mikið,“ segir hún. „Uppáhaldsfagið mitt er stærðfræði. Ég elska margföldun og deilingu. Þær eru svo auðveldar.“

Kórónuveiran hefur gert Parisa erfitt fyrir en fjölskyldan flúði frá Afganistan fyrir áratug. Ástæðan var voðaverk talíbana í héraðinu þar sem þau bjuggu, Herat. „Ef þú ætlaðir á markaðinn þá var engin trygging fyrir því að þú snerir til baka,“  segir Besmellah, faðir Parisu, í nýrri skýrslu Flóttamannamiðstöðvar Sameinuðu þjóðanna um menntun flóttabarna á tímum COVID-19.

Jarðsprengjum komið fyrir á skólalóðunum

AFP

„Öfgamennirnir hótuðu því að ræna stúlkum sem voguðu sér að ganga í skóla. Síðan byrjuðu þeir að koma jarðsprengjum fyrir á skólalóðinni,“ segir Besmellah. „Við höfðum enga aðra valmöguleika aðra en að fara til Íran.“

Yfir 40 ára tímabil innrása, borgarastyrjaldar, valdabaráttu og trúardeilna hefur hrakið um þrjár milljónir Afgana á flótta til Íran. Af þeim er um ein milljón skráð sem flóttamenn en tvær milljónir eru óskráðar. Til viðbótar búa um 450 þúsund afganskir ríkisborgarar í  Íran annaðhvort með dvalarleyfi vegna náms eða vinnu.

Í Íran fundu Parisa og sex systkini hennar öryggi en fyrsta árið var ekki hægt að leyfa henni að ganga í skóla. Fjölskyldan gat vart séð sér farborða og ekki möguleiki að greiða fyrir skólagöngu barnanna.

Bróðir Parsiu hætti í skóla 15 ára og fór að vinna. Þegar tekjur heimilisins jukust vegna vinnu hans gat Parisa, þá 11 ára gömul, farið í skóla.

Í fyrstu sótti hún tíma í óskráðum skóla þar sem reynt var að kenna sem flestum á sama tíma. Hvorki menntaðir kennarar voru við skólann né heldur hafði hann yfir að ráða nauðsynlegum kennslugögnum. Þannig að aðeins var hægt að kenna grunnfærni í skólanum.

Faðir hennar segir að þau hjónin hafi aldrei notið skólagöngu og þau hafi ekki viljað að sama myndi gerast með börn þeirra. En þar sem Parsia var óskráður flóttamaður var ekkert annað í boði en þessi skóli.

Stjórnvöld í Íran gerðu breytingu á reglum varðandi afgönsk börn árið 2015 á þann veg að þau fengu að stunda nám óhindrað.

Vahdat-grunnskólinn var settur á laggirnar með stuðningi frá stjórnvöldum, Flótta­manna­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna (UN­HCR) og Evrópusambandinu. Parisa stundar þar nám ásamt 140 öðrum börnum frá Afganistan. Þar eru einnig 160 íranskir nemendur. Alls eru 480 þúsund afgönsk börn í Íran sem njóta ávaxta þessarar menntastefnu íranskra yfirvalda.

AFP

Kórónuveirufaraldurinn ógnar hins vegar menntun Parisu. Óttast er hvaða áhrif það muni hafa á menntun flóttabarna í landinu ef staðan batnar ekki fljótlega í landinu, bæði hvað varðar heilbrigði og efnahag.

„Ég hef ekki fengið neitt að gera undanfarna þrjá mánuði,“ segir Besmellah, sem er daglaunamaður. „Parisa á að byrja í sjöunda bekk í ár en ég hef ekki ráð á því.“

Því þrátt fyrir að flóttabörn þurfi ekki að greiða skólagjöld í Íran þurfa þau að greiða fyrir námsbækur og aðrar skólavörur. „Leigusalinn hefur hækkað leiguna svo ég varð að fá peninga að láni til að greiða tryggingu fyrir nýja íbúð,“ bætir Besmellah við.

Filippo Grandi.
Filippo Grandi. AFP

Parisa er samt vongóð um að fá að halda áfram námi. „Ég og systir mín fylgjumst með kennslustundunum í sjónvarpi en við urðum að fá lánaðan snjallsíma eldri systur okkar til að geta tekið prófin,“ segir hún.

„Svo lengi sem ég get unnið mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að dætur mínar geti farið í skóla. En það verður alltaf erfiðara og erfiðara,“ segir Besmellah. 

Hætta á fátæktarfaraldri

Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR, óttast hvaða áhrif COVID-19 muni hafa á menntun barna á flótta. Hann segir að kórónuveirufaraldurinn geti eyðilagt drauma og metnað ungmenna á flótta. „Hætta er á að hann valdi fátæktarfaraldri í viðkvæmustu samfélögunum,“ segir Grandi í nýrri skýrslu UNHCR um menntun barna á flótta.

Að sögn Grandi er staða stúlkna enn verri en drengja en þær hafa oft verra aðgengi að menntun en drengir. Til að mynda eru margfalt meiri líkur á að drengir fari í framhaldsnám en stúlkur. Börn á flótta glíma við margþættan vanda og faraldurinn gerir vanda þeirra enn meiri. 

Þetta snýst ekki bara um að skólum hafi verið lokað segir Grandi. Heldur er þetta miklu frekar um möguleika flóttafjölskyldna með sáralitlar ráðstöfunartekjur sem búa við brothættar aðstæður. Fólk sem kannski býr í flóttamannabúðum eða í sárri fátækt og hefur ekki ráð á að borga skólagjöld, skólabúninga, kennslubækur og þann búnað sem þarf til þess að stunda fjarnám. 

Tæplega helmingur ekki í skóla

AFP

„Menntun eykur seiglu, sjálfsöryggi og von en tæplega helmingur allra barna á flótta sem eru á skólaaldri eru ekki í skóla í dag,“ segir Elisabeth Arnsdorf Haslund, upplýsingafulltrúi UNHCR á Íslandi.

Hún segir að alþjóðasamfélagið verði að gera miklu meira ef koma á í veg fyrir að kynslóð barna á flótta detti út úr skólakerfinu. Veita verði þeim tækifæri og tæki til þess að byggja upp framtíð sína. Hún segir að brottfall stúlkna umfram stráka sé sérstakt áhyggjuefni. Eins hlutur flóttamanna þegar kemur að menntun ungmenna. Staðan sé enn verri þegar komi að æðri menntun. 

„Aðeins 3% ungra flóttamanna hafa aðgang að háskólum og allt of margir flóttamenn fá aldrei tækifæri til að átta sig á hæfileikum sínum og möguleikum.“

Gera þarf ráð fyrir börnum á flótta í skólakerfum landa og þau eiga þar að hafa jafnan aðgang að gæðamenntun líkt og kveðið er á um í fjórða heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna: Menntun fyrir alla, segir Haslund.

Hún segir að til þess að þetta verði að veruleika þurfi allir að taka höndum saman: ríkisstjórnir, menntakerfið, mannúðarsamtök og einkageirinn. 

Aðgengi að símum og samskiptatækjum af skornum skammti

AFP

Því miður hefur COVID-19 ekki aðeins komið á félagshagfræðilegri kreppu og heilsufarskreppu heldur einnig menntakreppu segir hún og bendir á að 85% flóttamanna  eru staðsettir í þróunarlöndum þar sem farsímar, tölvur og samskiptatæki eru af skornum skammti sem kemur í veg fyrir að börn geti notið fjarkennslu á meðan þau komast ekki í skólann.

Hver kannast ekki við deilur um hvað eigi að horfa á í sjónvarpinu eða að börn séu að biðla til foreldra um lengri skjátíma, segir í skýrslu UNHCR.

AFP

Í Jórdaníu var skólum lokað vegna COVID-19 og kennslu breytt í fjarkennslu. Þar snýst baráttan um tækin um hvaða barn fær að njóta menntunar á hverjum tíma. Yfirleitt er ekki nema eitt sjónvarp á heimili og einn farsími og það getur reynst erfitt fyrir börn að dragast ekki aftur úr í náminu.

Hjónin Mustafa og Sherin eru sýrlenskir flóttamenn í Jórdaníu og það hefur tekið á hjá þeim að aðstoða börnin fimm á heimilinu við heimanámið. Frá því skólum var lokað í Jórdaníu um miðjan mars hafa þau Nour, 15 ára, Fadia, 14 ára, Nadia, 12 ára, Muhammad, 10 ára og Abed, 5 ára, fylgt stundarskrá sem foreldrar þeirra settu upp til að tryggja að þau fengju öll aðgang að menntun.

„Á hverju kvöldi förum við yfir námsefnið sem menntamálaráðuneytið sendir fyrir kennsluna daginn eftir og reynum að skipuleggja hver fær að horfa á hvað í sjónvarpinu og hver fær að nota símann þannig að öll börnin geti lært heima,“ segir Sherin. „En þetta er mjög erfitt. Eldri stelpurnar njóta forgangs þar sem þær þurfa að taka mikilvæg próf.“

Nour sem stefnir á laganám hefur verið að vinna alls konar aukaverkefni til að auka líkur á að komast í frekara nám. Hún segir að stundum sé það þannig að hún og kennararnir endi með að tala saman í síma þar sem netið er upptekið. Eins er tæknin oft að stríða henni og þrátt fyrir að símafyrirtækin hafi boðið viðskiptavinum upp á frían aðgang vegna COVID-19-náms er verið að vinna með þung skjöl sem hafa áhrif á vinnsluhraðann. 

Þráir að eiga sitt eigið herbergi

AFP

Öll börnin eru saman í herbergi. „Stundum þrái ég mitt eigið herbergi. Ég reyni og loka dyrunum en þau yngri koma alltaf inn og trufla mig,“ segir Nour sem var að taka próf um daginn á netinu. Hún fékk sendan tengil í gegnum WhatsApp og átti að skrá sig inn og svara spurningum en ekkert virkaði.

Fjölskyldan er samt þakklát fyrir að hafa aðgang einhverju neti því 23% sýrlenskra flóttamanna í Jórdaníu hafa ekki aðgang að neti. Flestir eru í sömu sporum og þessi fjölskylda og með takmarkað aðgengi að gagnamagni, segir í skýrslu UNHCR sem kom út í dag.

Mo Salah.
Mo Salah. AFP

Lokaorðin í skýrslunni eru rituð af leikmanni Liverpool, Mo Salah, sem er góðgerðarsendiherra menntamála hjá Sameinuðu þjóðunum. Um er að ræða verkefni sem nefnist Instant Network School og sett var á laggirnar árið 2013 af Vodafone og UNHCR. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að halda utan um rafræna menntun barna á flótta í Afríku.

Hann segir að börn sem hafa hrakist að heiman þurfi á bókum, skólum og hæfum kennurum að halda. En þau þurfi líka aðgengi að tækni sem tengir þau við heiminn.

Þetta þýði að tæknifyrirtækin verði að huga að þróun tæknilausna sem henti þessum hópi og taka þátt í þessu sameiginlega verkefni heimsins alls. Ekki bara tæknifyrirtæki heldur fyrirtæki af öllum toga. Að tryggja að þessi börn fái aðgang að menntun sem getur þýtt að það dregur úr fátækt og þjáningum í heiminum í kjölfarið. 

Þriðjungur skólabarna gat ekki stundað fjarnám þegar skólarnir þeirra lokuðu. …
Þriðjungur skólabarna gat ekki stundað fjarnám þegar skólarnir þeirra lokuðu. Þetta eru um 463 milljónir barna. Ljósmynd/UNICEF

Nýverið kom út skýrsla á vegum UNICEF um menntun barna á tímum COVID-19 sem sýnir hversu gífurleg áhrif heimsfaraldurinn hefur haft og mun hafa á tækifæri barna til náms. Þegar skólar þurftu að loka til að hefta útbreiðslu COVID-19 í vor hafði það áhrif á menntun 1,5 milljarða barna í 190 löndum. 

Í skýrslunni kemur fram að a.m.k þriðjungur skólabarna gat ekki stundað fjarnám (í gegnum sjónvarp, útvarp, síma eða tölvu) þegar skólarnir þeirra lokuðu. Þetta eru um 463 milljónir barna. Verst er staða barna í Afríku sunnan Sahara, en þar hafði helmingur skólabarna engan aðgang að fjarkennslu.

Á meðan ekkert land er undanskilið áhrifum kórónaveirunnar þá varpar skýrslan ljósi á mikla misskiptingu milli heimshluta þegar kemur að tækifærum barna til menntunar. Skýrslan sýnir einnig að lokun skóla hefur bitnað hvað verst á þremur hópum barna: þeim yngstu, sem undir venjulegum kringumstæðum væru að hefja skólagöngu sína, þeim fátækustu og þeim sem búa á afskekktustu svæðunum.

mbl.is