Neyðarástand eftir eldsvoða á Lesbos

Á flótta | 9. september 2020

Neyðarástand eftir eldsvoða á Lesbos

Yfir tólf þúsund flóttamenn eru heimilislausir eftir að eldur kviknaði í stærstu flóttamannabúðum Grikklands, Moria-búðunum á eyjunni Lesbos, í nótt. Enginn slasaðist alvarlega í eldsvoðanum en búðirnar eru nánast ónýtar.

Neyðarástand eftir eldsvoða á Lesbos

Á flótta | 9. september 2020

Yfir tólf þúsund flóttamenn eru heimilislausir eftir að eldur kviknaði í stærstu flóttamannabúðum Grikklands, Moria-búðunum á eyjunni Lesbos, í nótt. Enginn slasaðist alvarlega í eldsvoðanum en búðirnar eru nánast ónýtar.

Yfir tólf þúsund flóttamenn eru heimilislausir eftir að eldur kviknaði í stærstu flóttamannabúðum Grikklands, Moria-búðunum á eyjunni Lesbos, í nótt. Enginn slasaðist alvarlega í eldsvoðanum en búðirnar eru nánast ónýtar.

Heimili 12 þúsund flóttamanna urðu eldinum að bráð.
Heimili 12 þúsund flóttamanna urðu eldinum að bráð. AFP

Talsmaður stjórnvalda, Stelios Petsas, segir að neyðarástandi verði lýst yfir á Lesbos og rannsókn standi yfir á eldsvoðanum. 

AFP-fréttastofan hefur eftir grísku fréttaveitunni ANA að talið sé að flóttamenn, sem áttu að fara í einangrun frá fjölskyldum sínum vegna kórónuveirusmits, standi á bak við eldsvoðann. Komið hafi til átaka sem hafi leitt til þess að kviknaði í.

Samkvæmt Guardian og BBC liggur ekki fyrir hvernig kviknaði í búðunum. Skógareldar hafi geisað á Lesbos undanfarna daga og þar er mjög hvasst.

Í frétt BBC segir að ekki sé um staðfestar fréttir að ræða um upptök eldsvoðans og Petsas segir að rannsakað verði hvort fréttir af íkveikju eigi við rök að styðjast.

Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, boðaði til neyðarfundar hjá ríkisstjórninni og hófst hann klukkan 6:30 að íslenskum tíma. Ráðherra málefna flóttafólks og hælisleitenda segir að ástandið sé ólýsanlegt í búðunum og að hann sé á leiðinni til Lesbos að skoða aðstæður. 

BBC ræddi við Thanasis Voulgarakis sem býr á Lesbos og hann segir að í morgunbirtunni megi sjá að nokkur tjöld séu í lagi en annað í búðunum hafi brunnið til kaldra kola.

AFP

Að sögn slökkviliðsmanna kvörtuðu margir íbúar Moria yfir minni háttar öndunarerfiðleikum vegna reyksins. 

Petsas segir að það geti reynst gríðarlega erfitt að finna skjól fyrir alla þá sem misstu heimili sitt í brunanum og ekki síður að finna þá sem eru með staðfest kórónuveirusmit í búðunum og koma þeim í einangrun. Talið er að 35 íbúar Moria séu smitaðir af COVID-19 og koma verði í veg fyrir að smitin breiðist frekar út á eyjunni. 

AFP

Hundruð flóttamanna reyndu að komast fótgangandi til hafnarbæjarins Mytilene sem er í næsta nágrenni við búðirnar en voru stöðvaðir af lögreglu. Stór hópur leitaði skjóls í hæðunum í kringum búðirnar. Að sögn bæjarstjórans í Mytilene er ein af ástæðunum fyrir því að reynt var að koma í veg fyrir að flóttafólkið kæmist til bæjarins vera þá að einhverjir þeirra eru smitaðir af COVID-19.

Hjálparsamtökin Stand by Me Lesvos segja á Twitter að þau hafi fengið upplýsingar um að eyjarskeggjar hafi komið í veg fyrir að flóttafólkið sem flúði eldinn fengi að koma inn í nærliggjandi þorp.

AFP

„Eldur logar í öllum búðunum. Allt brennur og fólk er að flýja. Heimili þess í Moria eru horfin,“ segir á Twitter.

Samkvæmt frétt Lesvospost eru skrifstofur yfirvalda og heilsugæslan í búðunum, sem var til húsa í gámum, gjöreyðilagðar auk þess sem þúsundir tjalda eyðilögðust.

AFP

AFP-fréttastofan vísar í frétt grísku fréttaveitunnar ANA um að slökkviliðsmenn hafi verið hindraðir af íbúum í búðunum að komast inn á svæðið til að sinna slökkvistarfi. Því hafi slökkviliðið neyðst til að fá aðstoð lögreglu við að sinna starfi sínu. 

Frá Moria í ágúst.
Frá Moria í ágúst. AFP

Nýjum COVID-19-smitum hefur fjölgað hratt í Moria frá því fyrsta smitið var staðfest þar fyrri viku. Í gær var búið að staðfesta 35 smit í búðunum. Íbúar í flóttamannabúðum á grísku eyjunum hafa þurft að þola margra mánaða innilokun vegna veirunnar og hefur enginn mátt koma inn í búðirnar í langan tíma. Hvorki hjálparsamtök né aðrir. 

Ástandið hefur verið sérstaklega slæmt í Moria þar sem búðirnar eru svo gjörsamlega yfirfullar að fjölmargir flóttamenn neyðast til þess að halda til fyrir utan veggi Moria.

AFP

Mannréttindasamtök og stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa ítrekað biðlað til grískra yfirvalda um að koma flóttamannabúðum í mannsæmandi horf. Til að mynda voru Moria-búðirnar byggðar fyrir 2.800 manns en nú eru þar á milli 12 og 13 þúsund manns. Mjög skortir á um lámarkshreinlæti, nánast engin salerni eða sturtur eru í boði fyrir íbúana.   

 

 

Fyrir utan Moria.
Fyrir utan Moria. AFP
mbl.is