Hvetja stjórnvöld til að taka á móti börnum frá Lesbos

Á flótta | 14. september 2020

Hvetja stjórnvöld til að taka á móti börnum frá Lesbos

UNICEF á Íslandi hvetur íslensk stjórnvöld til þess að taka á móti fylgdarlausum börnum sem dvelja í flóttamannabúðum á Grikklandi.

Hvetja stjórnvöld til að taka á móti börnum frá Lesbos

Á flótta | 14. september 2020

UNICEF á Íslandi hvetur íslensk stjórnvöld til þess að taka á móti fylgdarlausum börnum sem dvelja í flóttamannabúðum á Grikklandi.

UNICEF á Íslandi hvetur íslensk stjórnvöld til þess að taka á móti fylgdarlausum börnum sem dvelja í flóttamannabúðum á Grikklandi.

„Aðstæður í Moria-flóttamannabúðunum á eyjunni Lesbos voru ómannúðlegar og án fordæma í Evrópu, en eftir brunann í síðustu viku gistir nú fjöldi barna á götunni. Fylgdarlaus börn á flótta eru einn viðkvæmasti hópur barna í Evrópu og það er mikilvægt að Ísland, ásamt öðrum ríkjum Evrópu, axli ábyrgð,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Auk þess hvetur UNICEF á Íslandi stjórnvöld til að hætta tafarlaust að senda flóttafólk til Grikklands.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fagnar því að 406 fylgdarlaus börn hafi verið flutt frá eyjunni Lesbos í öruggt skjól á meginlandi Grikklands eftir að Moria-flóttamannabúðirnar brunnu til grunna í síðustu viku. Það er þó langt í frá nóg, segir í fréttatilkynningu frá UNICEF.

Í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér er þess krafist að öll börn og aðrir viðkvæmir hópar á eyjunni verði flutt í öruggt skjól á meginlandi Grikklands á meðan biðlað er til ríkja Evrópu að finna tafarlaust mannúðlegar og varanlegar lausnir í málefnum barna á flótta þar sem réttindi þeirra eru virt.

„Enn eru þúsundir barna og barnafjölskyldna umkomulausar á eyjunni og þurfa tafarlaust öruggt skjól, vernd og aðgang að grunnþjónustu. Það að nokkur Evrópuríki hafi boðist til að taka á móti fylgdarlausum börnum frá Lesbos er jákvætt skref og biðlar UNICEF til fleiri landa að grípa til aðgerða þar sem Grikkland getur ekki haldið áfram að bera þungann eitt.“

UNICEF hefur unnið með fylgdarlausum börnum og barnafjölskyldum á Lesbos í fleiri ár og sinnir meðal annars barnavernd, fjölskyldusameiningu, forvörnum og viðbrögðum við ofbeldi. Eftir eldsvoðann er brýn þörf á að flytja börn og aðra viðkvæma hópa í öruggt og viðeigandi húsaskjól, útvega mat, hreint vatn og hreinlætisvörur og hjálpa íbúum að verja sig gegn kórónuveirusmitum.

UNICEF mun áfram að styðja grísk stjórnvöld og samstarfsaðila í að vernda börn og standa vörð um réttindi barna á meðan unnið er að mannúðlegri lausn í málefnum barna á flótta og á vergangi í Evrópu, segir í tilkynningu.

Þýska ríkisstjórnin greindi frá því í dag að hún væri í viðræðum um að taka við fjölskyldum með börn sem eru heimilislaus eftir brunann í Moria í síðustu viku.

Þjóðverjar hafa þegar heitið því að taka við 150 af þeim rúmlega 400 fylgdarlausu börnum sem flutt hafa verið frá Lesbos.

Talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Steffen Seibert, ræddi við blaðamenn í morgun og sagði að stuðningur við börn væri fyrsta skrefið en meira þyrfti að gera til að hjálpa þeim 12 þúsund einstaklingum sem eiga um sárt að binda eftir eldsvoðann í flóttamannabúðunum.

mbl.is