Áhersla á að taka á móti fleira flóttafólki

Flóttafólk á Íslandi | 17. september 2020

Áhersla á að taka á móti fleira flóttafólki

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, segir að flokkurinn leggi áherslu á að taka á móti fleira fólki á flótta. Það markmið sé sett fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Áhersla á að taka á móti fleira flóttafólki

Flóttafólk á Íslandi | 17. september 2020

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, segir að flokkurinn leggi áherslu á að taka á móti fleira fólki á flótta. Það markmið sé sett fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, segir að flokkurinn leggi áherslu á að taka á móti fleira fólki á flótta. Það markmið sé sett fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem hún birti skömmu eftir að Rósa Björk Brynjólfsdóttir sendi frá sér tilkynningu um að hún hefði yfirgefið Vinstri græna. Viðbrögð stjórnvalda vegna brottvísunar á barnafjölskyldu var þar kornið sem fyllti mælinn. 

Katrín minnist ekkert á brotthvarf hennar í færslunni. Þar segir hún fjölda fólks á flótta á heimsvísu hafa meira en tvöfaldast á tíu árum og bætir við að Ísland muni leggja sitt af mörkum við að bæta stöðu fólks á flótta með nýju samevrópsku móttökukerfi fyrir flóttafólk í stað Dyflinnarreglugerðarinnar.

368 hlotið vernd á árinu 

Katrín bendir á að af málum sem er lokið á þessu ári hjá þeim sem hafa sótt um vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi hafa rúm 60% umsókna verið samþykkt. Um er að ræða 368 einstaklinga, fjölskyldur og börn sem hafa hlotið vernd á árinu hérlendis. Ef eingöngu er horft til þeirra mála sem hafa fengið efnismeðferð þá hafa 79% umsókna verið samþykkt.

„Umsóknum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum en 2019 fékkst niðurstaða í 1.123 málum. Í fyrra fengu 376 einstaklingar vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi sem var 33% afgreiddra umsókna samanborið við 10% árið 2017,“ segir Katrín.

„Þar með er þó ekki öll sagan sögð en þessi tölfræði á einungis við um mál sem lokið er hjá Útlendingastofnun. Mál sem fara á borð kærunefndar útlendingamála eru því ekki hér meðtalin, en með þeim hækkar fjöldi þeirra sem hlotið hafa vernd töluvert. Til að mynda hlaut 531 einstaklingur alþjóðlega vernd hér á landi í fyrra þegar horft er bæði á mál hjá Útlendingastofnun og kærunefndinni.“

Ríkur vilji til að gera betur

Katrín segir málin snúast um fólk og gæta þurfi þess að láta umræðuna ekki snúast um tölur á blaði. Með þverpólitískum útlendingalögum frá árinu 2016 hafi framkvæmdin batnað en nauðsynlegt sé að hún sæti sífelldri endurskoðun.

„Umræða síðustu daga sýnir að ríkur vilji er í samfélaginu til að gera betur í þessum málum og það er verkefnið fram undan.“

mbl.is