„Svo margar bábiljur í gangi“

Skóli fyrir alla? | 17. október 2020

„Svo margar bábiljur í gangi“

Þriðjungur 19 ára ungmenna af erlendum uppruna á Íslandi er hvorki í skóla né vinnu og hlutfall ung­menna á aldr­in­um 18-24 ára sem hætti of snemma í námi eða þjálf­un er hvergi meira í allri Evr­ópu en á Íslandi. Sprettur er nýtt verkefni hjá Háskóla Íslands þar sem ungmenni af erlendum uppruna eru studd til náms.

„Svo margar bábiljur í gangi“

Skóli fyrir alla? | 17. október 2020

Rakel Ósk Reynisdóttir, Lenya Rún Taha Karim og Derek Terell …
Rakel Ósk Reynisdóttir, Lenya Rún Taha Karim og Derek Terell Allen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriðjungur 19 ára ungmenna af erlendum uppruna á Íslandi er hvorki í skóla né vinnu og hlutfall ung­menna á aldr­in­um 18-24 ára sem hætti of snemma í námi eða þjálf­un er hvergi meira í allri Evr­ópu en á Íslandi. Sprettur er nýtt verkefni hjá Háskóla Íslands þar sem ungmenni af erlendum uppruna eru studd til náms.

Þriðjungur 19 ára ungmenna af erlendum uppruna á Íslandi er hvorki í skóla né vinnu og hlutfall ung­menna á aldr­in­um 18-24 ára sem hætti of snemma í námi eða þjálf­un er hvergi meira í allri Evr­ópu en á Íslandi. Sprettur er nýtt verkefni hjá Háskóla Íslands þar sem ungmenni af erlendum uppruna eru studd til náms.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að 39% stúlkna af erlendum uppruna séu hvorki í vinnu né námi og 31% drengja á sama aldri. Um er að ræða tölur frá árinu 2018. „Þetta eru svakalega háar tölur sem ekki rata inn í atvinnuleysistölur en sýnir okkur að við getum verið að sigla inn í mjög erfiðar aðstæður fyrir fólk sem er ekki í neinni virkni,“ segir hún.

Það þurfi að halda sérstaklega að halda utan um þessa hópa en samkvæmt þeim upplýsingum sem Drífa hefur fengið hjá hjálparsamtökum eru nokkrir hópar sem standi upp úr með að þurfa á aðstoð að halda um þessar mundir, þar á meðal fólk af erlendum uppruna.

Fólk hefur í auknum mæli horfið af vinnumarkaði seinustu misseri og sýna kannanir að ungmennum sem ekki eru við störf á vinnumarkaði og hvorki í atvinnuleit né námi hefur fjölgað síðasta árið. Fjórðungur erlendra ungmenna er í þeim hópi.

Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu ASÍ um vinnumarkaðinn. „Sláandi er að sjá muninn á erlendum ríkisborgurum og íslenskum þegar gögnin eru skoðuð m.t.t. bakgrunns ungmenna. Um fjórðungur ungmenna með erlendan bakgrunn er hvorki starfandi né í námi borið saman við um 5% íslenskra ungmenna,“ segir í úttekt ASÍ.

Þrátt fyrir að innflytjendur hafi  greiðan aðgang að íslenskum vinnumarkaði samkvæmt félagsvísum Hagstofu Íslands þá eru þeir líklegri en innlendir til að vera ofmenntaðir. Eins er skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla er mun minni en innlendra og bilið eykst enn frekar þegar kemur að háskólanámi.

Um síðustu áramót voru 55.354 innflytjendur á Íslandi eða 15,2% mannfjöldans. Það er fjölgun frá því í fyrra þegar þeir voru 14,1% landsmanna (50.271). Fjölgun innflytjenda heldur því áfram en frá árinu 2012 hefur þeim fjölgað úr því að vera 8% mannfjöldans upp í 15,2%.

Innflytjendum af annarri kynslóð fjölgaði einnig á milli ára, þeir voru 5.264 í fyrra en eru nú 5.684. Samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 16,8% af mannfjöldanum og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega á milli ára og eru nú 7% mannfjöldans.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, óttast að við séum að sigla …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, óttast að við séum að sigla inn í mjög erfiða tíma fyrir fólk sem er ekki í neinni virkni. Ljósmynd/ASÍ

Drífa segir ljóst að til þess að breyta þessari stöðu ungs fólks af erlendum uppruna verði að  nálgast fólk á einstaklingsbundinn hátt, að það sé einhver hvati fyrir fólk að vera annað hvort í námi eða starfi. Mikil áhersla hafi verið lögð á íslenskukennslu en það er ekki endilega réttar áherslur.

Sam-hópurinn, samhæfingarhópur um atvinnu og menntaúrræði, hefur til að mynda lagt til aðrar áherslur en á íslenskukennslu. Því það geti verið óyfirstíganleg hindrun að þurfa að kunna íslensku áður en þú gerir annað. Frekar eigi að beina sjónum að öðru sérsniðnu námi fyrir þennan hóp segir Drífa.

Tíu í fyrsta hópnum

Erfið staða innflytjenda í framhaldsnámi hefur ekki farið fram hjá flestum og stjórnendur Háskóla Íslands ákváðu að grípa yrði til aðgerða til að styðja við bakið á þessum hópi. Í haust fór af stað nýtt verkefni sem nefnist Sprettur og byggir á þýskri fyrirmynd.

Sprettur er fyrir efnilega framahaldsskólanemendur með innflytjendabakgrunn. Nemendur sem koma úr fjölskyldum þar sem enginn hefur háskólamenntun. Þátttakendur byrja í Sprett á fyrsta ári í framhaldsskóla og taka þátt í fjögur ár eða allt þar til þeir hafa lokið fyrsta ári í háskóla. 

Rakel Ósk Reynisdóttir verkefnisstjóri Spretts og fjölmenningarfulltrúi Háskóla Íslands, tók við starfinu í sumar og fylgir því fyrsta hópnum úr hlaði.

Að sögn Rakelar eru tíu ungmenni í fyrsta hópnum og hófu þau öll nám í  framhaldsskóla nú í ágúst. „Stuðningurinn margþættur,“ segir Rakel, „þau fá námslegan stuðning frá mentor sem fylgir þeim eftir í fjögur ár en hver mentor tekur að sér einn nemanda. Mentorarnir eru nemendur við Háskóla Íslands og er um sjálfboðaliðastarf að ræða.“

Eitt af því sem hópurinn gerir er að kynnast húsnæði …
Eitt af því sem hópurinn gerir er að kynnast húsnæði HÍ og er markmiðið með því að hann upplifi skólann sem sitt eðlilega heimasvæði. mbl.is/Sigurður Bogi

Framhaldsskólanemarnir taka þátt í  heimavinnuhóp og þá koma þau í Háskóla Íslands á tveggja vikna fresti og fá aðstoð við heimanámið hjá háskólanemendum.

„Það er oft þannig að krakkar með innflytjenda bakgrunn þurfa lengri tíma við heimanámið vegna íslenskunnar og þurfa stundum aðstoð sem þau fá kannski ekki heima. Eins fá þau félagslegan stuðning , bæði frá mentorum sem og öðrum krökkum sem taka þátt í Spretti.  Mentorarnir hitta nemendur sína einu sinni til tvisvar í mánuði auk heimavinnuhópsins. Gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggjandi saman. Stunda hreyfingu saman, njóta menningarviðburða og fara á kaffihús svo einhver dæmi séu tekin,“ segir Rakel en tekur fram að vegna Covid hafi haustið verið öðruvísi að mörgu leyti hjá námsmönnum.

„Hlutverk mentors er að vera jákvæð fyrirmynd – það er gaman að stunda nám við háskóla og þetta getur þú líka. Háskólinn er fyrir venjulegt fólk eins og mig og þig og nám er eitthvað sem við getum öll ef við viljum,“ segir Rakel en mentorarnir tíu voru valdir úr hópi umsækjenda.

Finnst þetta verkefni nauðsynlegt

Meðal þeirra eru Derek Terell Allen sem er í meistaranámi í þýðingarfræði við Háskóla Íslands. Áður hafði hann lokið námi í íslensku sem annað mál við HÍ en hann flutti til Íslands fyrir nokkrum árum frá Bandaríkjunum.

Lenya Rún Taha Karim er á þriðja ári í lögfræði við Háskóla Íslands. Foreldrar hennar eru Kúrdar en Lenya er fædd á Íslandi og hefur stundað nám hér á landi fyrir utan þrjú ár er hún bjó í Kúrdistan ásamt fjölskyldu sinni.

Haft var samband við Lenyu þegar unnið var að undirbúningi verkefnisins og hún beðin um að koma með hugmyndir varðandi verkefnið. Um eitt og hálft ár er síðan þetta var og að sögn Lenyu var hún strax ákveðin í að fá að taka þátt sem sjálfboðaliði þegar Sprettur færi af stað.

„Mér finnst þetta verkefni nauðsynlegt og ég vildi óska þess að ég hefði sjálf fengið stuðning sem þennan þrátt fyrir að ég sé ekki innflytjandi. Því það vantar eitthvað upp á stuðningsnetið í skólakerfinu hér á Íslandi. Það er um margt ólíkt því sem gengur og gerist í mörgum löndum,“ segir Lenya.

Derek segir að eftir að hafa kynnt sér Sprett hafi hann ákveðið að taka þátt þar sem verkefnið væri gott og þarft. Menntakerfi og menning Íslands og Bandaríkjanna er ólík og úrræði eins og Sprettur er mjög mikilvægt fyrir fólk sem þekkir ekki íslenskra kerfið að fullu.

Þrá að tala við aðra krakka

Að sögn Dereks fer verkefnið mjög vel af stað og krakkarnir sem taki þátt séu ánægð. Þau fái félagsskap og einhverja til að tala við sem er ekki sjálfgefið. Þau eru mörg mikið ein og þrá að tala við aðra krakka. Pilturinn sem Derek aðstoðar er alsæll með hafa kynnst svo mikið af flottu fólki í gegnum verkefnið en allur hópurinn hittist reglulega í heimanáminu.

„Þetta er eiginlega nauðsynlegt fyrir krakka eins og hann til að geta þróast og notið þess að vera hluti af stærri heild,“ segir Derek.

Lenya segir félagslega þáttinn mikilvægan og ekki síst núna miðað við hvernig hlutirnir eru að þróast. „Ég fæ það líka á tilfinninguna að foreldrar krakkanna horfi mikið til menntunnar barna sinna og það er svo gott að finna það því það eru svo margar bábiljur í gangi hvað varðar innflytjendur og menntun,“ segir Lenya.

Eitt af því sem hópurinn gerir er að kynnast húsnæði HÍ og er markmiðið með því að hann upplifi skólann sem sitt eðlilega heimasvæði. Lenya segir að þetta sé mikilvægt. „Ég kláraði menntaskóla á Íslandi en fyrstu önnina mína í skólanum þorði ég ekki einu sinni út á háskólatorg því ég þekkti ekkert til.“

Líkt og Derek bendir á þá eru mörg þessara ungmenna að takast á við miklu meira en félagar þeirra sem eru með íslenskan bakgrunn. „Til að mynda að hugsa allt á tveimur og jafnvel þremur tungumálum. Sá sem ég er að aðstoða er frá Póllandi og hann þarf að hugsa allt á íslensku og pólsku og oft ensku líka. Það er ekki bara tungumálið heldur einnig menningarmunur sem hann upplifir. Hann er ánægður með menninguna á Íslandi en hún er öðruvísi en hann átti að venjast í Póllandi,“ segir Derek.

Lenya segir að það sé mikið undir hópnum sem tekur þátt í Spretti hvernig dagskráin er og hvort þau hittist mikið fyrir utan skipulagða dagskrá hópsins. Kórónuveirufaraldurinn hafi heldur ekki hjálpað til.

Kórónuveiran hefur haft gríðarleg áhrif á nám fólks út um …
Kórónuveiran hefur haft gríðarleg áhrif á nám fólks út um allan heim. AFP

Rakel segir að það sé mjög gott að hafa nemendur við háskólann sem eru með innflytjendabakgrunn með í mentora-hópnum því þau þekkja mörg þeirra vandamála og erfiðleika sem þeirra skjólstæðingar standi frammi fyrir. Mentorarnir séu fjölbreyttur hópur nemenda á aldrinum 20-25 ára, hópur ungs fólks sem er reiðubúið til að leggja sitt af mörkum til að aðstoða aðra við að takast á við framhalds- og háskólanám.

Hvað er það sem ykkur finnst að mætti betur fara í íslenska skólakerfinu?

Lenya segir að eitt af því sem mætti gera betur í íslensku menntakerfi er að bæta kennslu í fræðilegum skrifum. „Ég er með mjög góða íslenskukunnáttu en það vantar alltaf eitthvað upp á þar sem þetta er ekki tungumálið sem ég tala heima. Gefið okkur smá séns og kennið okkur hvernig við eigum að standa að fræðilegum skrifum og skrifa góðar ritgerðir á íslensku með góðri heimildaskrá. Það er erfitt að ná tökum á þessu sjálfur og ekki síst þegar þú getur ekki leitað eftir aðstoð heima hjá þér. Þetta má bæta í menntakerfinu og hefur góð áhrif fyrir alla, ekki bara þá sem eru innflytjendur.“

Derek segir að það megi taka meira tillit til þeirra sem eru af erlendum uppruna, þeirra menningu og auka víðsýni meðal fólks. „Að kennarar og skólastjórnendur hafi þetta í huga þó svo að ekki sé hægt að miða við hvern og einn. En að skilja að skilningur á hegðun og framkomu getur verið ólíkur hvaðan þú kemur. Að auðvelda krökkum að verða hluti af hópnum. Eiga erfitt með að komast inn í íslenska hópinn.“

Lenya segir að íslenskt samfélag sé að breytast og það sjáist allsstaðar. „Því er mikilvægt að gera breytingar á menntakerfinu á þann hátt að það endurspegli samfélagið sem við búum í.“

Rakel segir að það sé alltaf hætta á að þessi hópur verði útundan. Þau skilji kannski ekki námsefnið og þori ekki að biðja um hjálp.

„Það kemur inn á allar námsgreinar að skilja íslensku og þú vilt ekki vera sá eini sem ert að spyrja endalausra spurninga,“ segir Derek.  Vilt ekki skera þig úr hópnum heldur viltu vera einn af hópnum. „Þau eru kannski góðir námsmenn en tungumálið og hversu erfitt það er að komast inn í hópinn reynir verulega á þau,“ bætir hann við. 

Eitt af því sem hópurinn gerir er að taka þátt í málstofum í háskólanum þar sem þau læra um háskólann, menningarnæmi, sjálfseflingu og námsráðgjöf segir Rakel sem kennir í þessum málstofum.

„Við hittumst í háskólanum og tökum þátt í viðburðum innan hans. Þau læra að rata um háskólasvæðið og markmiðið er að krakkarnir læri meiri um sjálfa sig og háskólanám. Að þau verði tilbúin fyrir háskólanám og það sé staður fyrir þau. Að þeim líði vel í háskóla og finni að þau eigi heima þar. Eitthvað sem getur verið sjálfsagt fyrir marga aðra en kannski ekki fyrir þennan hóp. Þeirra fullorðnu fyrirmyndir hafa ekki verið í háskóla og eru annað hvort með enga menntun eða iðnmenntun. Flestir foreldrar eru í láglaunastörfum og mörg þeirra vinna mjög langa vinnudaga og hafa því oft litla möguleika á að aðstoða börn sín við námið. Ekki síst þegar þau eru komin í framhaldsskóla,“ segir Rakel. 

Aðeins dropi í hafið en fer vonandi stækkandi

Eins og áður sagði eru tíu nemendur í hópnum sem fór af stað í haust og næsta haust bætast tíu við og koll af kolli. Þannig að þau verða mest 40 sem taka þátt í Spretti á sama tíma.

„Þetta er lítill hópur og miðað við hversu stór hópur innflytjenda er af samfélaginu er þetta bara dropi í hafið. Við erum að vona að verkefnið veki athygli og fólk úti í samfélaginu sjái hverju það skilar. Að það muni ekki bara hafa jákvæð áhrif á þennan hóp, það er þátttakendur, heldur vonandi hvetjur verkefnið fleiri til þess að vilja taka þátt. Að starfsfólk grunn- og framhaldsskóla sjái hvað það geti haft jákvæð áhrif fyrir áhugasama nemendur að eiga kost á stuðningi sem þessum,“ segir Rakel en alls bárust 18 umsóknir um þátttöku í Spretti síðasta vor.

„Ég hugsa að umsóknirnar verði fleiri á næsta ári. Við erum þegar orðin sýnilegri og höfum haft samband við námsráðgjafa í grunnskóla til að benda þeim á Sprett fyrir áhugasama nemendur af erlendum uppruna,“ segir Rakel. 

Rakel Ósk Reynisdóttir, verkefnisstjóri Spretts og fjölmenningarfulltrúi Háskóla Íslands, segir …
Rakel Ósk Reynisdóttir, verkefnisstjóri Spretts og fjölmenningarfulltrúi Háskóla Íslands, segir mikilvægt að ungmennunum líði vel þegar þau komi í háskólann og þau upplifi sig velkomin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún bendir á að það sé stórt skerf að byrja í framhaldsskóla og ungmenni af erlendum uppruna í meiri hættu en aðrir á að hætta áður en námi lýkur. „Ég heyri það á þeim að þau eru mörg einmana og komast ekki inn í íslenska hópinn. Ekki bætir það stöðu þeirra að kennsla er nánast alfarið rafræn vegna Covid. Því mín tilfinning er sú að rafræn kennsla nái ekki að sinna andlegu og félagslegu hlutverki skólans. Þú kannski lærir námsfögin en ert ekki í tengslum félagslega. Á sama tíma eru þau í ákveðnu limbói – eru að fara á milli skólastiga og ættu að fara að eignast nýja vini en gera það ekki vegna Covid. Eru þess í stað bara heima í tölvunni,“ segir Rakel.

Nám á Covid-19 tímum getur verið flókið.
Nám á Covid-19 tímum getur verið flókið. AFP

Þegar námið er allt í rafrænu formi þá bitnar það mest á þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Þau eru fæst með stuðning heima við námið og þar koma heimavinnuhóparnir sér vel því þá hitta þau aðra og spjalla auk þess sem þau fá aðstoð við námið segir Rakel. Spurð út í samstarf við aðra háskóla segir hún að svo sé ekki en það gæti verið langtímamarkmið verkefnisins. 

Sprettur er mikilvægur hluti af því að gera þennan hóp sýnilegri og styðja hann til náms. „Það er samfélagslegt vandamál að hlutfallslega færri ungmenni af erlendum uppruna klára hér framhaldsskóla. Okkur vantar fleiri lækna, hjúkrunarfræðinga, lögfræðinga, leikskólakennara og kennara með innflytjendabakgrunn. Að samsetning samfélagsins endurspeglist í þessum stéttum og mörgum öðrum. Ein helsta ástæðan fyrir því að við byrjum Sprett strax á fyrsta ári í framhaldsskóla er til að koma í veg fyrir að þau gefist upp. Því samfélagið þarf á þeim að halda,“ segir Rakel en hér má lesa frekar um Sprett og hvernig hægt er að sækja um.

mbl.is